Morgunblaðið - 20.08.2005, Qupperneq 21
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 20. ÁGÚST 2005 21
ERLENT
ÞAÐ er óhætt að segja að Mo Mowlam hafi
hrist upp í hlutunum á Norður-Írlandi er hún
varð ráðherra málefna héraðsins eftir sigur
Verkamannaflokksins í bresku þingkosning-
unum á vordögum 1997. Henni fylgdi ferskur
andblær inn í friðarviðræður, sem menn voru þá
að reyna að koma á koppinn, og leiða má getum
að því að sá andblær hafi skipt miklu máli að því
er varðar þann árangur sem náðist á páskum
1998, en þá var skrifað undir friðarsamkomulag
á Norður-Írlandi.
Mowlam lést í gærmorgun, 55 ára að aldri.
Hún hafði átt við heilsuleysi að stríða, var
greind með æxli í heila fyrir um áratug síðan og
þó að læknismeðferð hefði í kjölfarið skilað góð-
um árangri þá mun hún alla tíð síðan hafa átt
erfitt með jafnvægi; heimildir herma að hún hafi
dottið illa í síðasta mánuði og rekið höfuðið í.
Missti hún við það meðvitund og vaknaði aldrei
til lífs á ný.
Fyrir um viku var hún flutt á umönn-
unarheimili í Kent til að hún gæti dáið nálægt
heimili sínu; en Mowlam mun hafa gefið fyr-
irmæli um það á sínum tíma að henni skyldi ekki
haldið á lífi með tækjum.
Hörkutól en ekki „dömuleg“
Forverar Mowlam í embætti Norður-
Írlandsmálaráðherra höfðu allir verið miðaldra
karlar, sá síðasti á undan henni, Patrick May-
hew, þótti hafa á sér yfirbragð yfirstétt-
armannsins; bæði hvað talanda varðaði og hegð-
un. Mowlam var sannarlega af allt öðrum toga,
hörkutól sem fæðst hafði inn í breska lægristétt.
Mowlam átti til að bölva mönnum í sand og
ösku og orðbragð hennar gat verið skrautlegt.
Orð var haft á því að hún væri allt annað en
„dömuleg“ í háttum, raunar var hún oft sögð
klúr og óhefluð í framkomu, jafnvel móðir henn-
ar lét svo um mælt.
En það var kannski einmitt þetta sem stuðl-
aði að því að almenningur á Norður-Írlandi,
raunar í Bretlandi öllu, kunni svo vel við hana;
hún þótti heiðarleg, hrein og bein, talaði tæpi-
tungulaust og af hreinskilni. Mowlam lét við-
semjendur sína á Norður-Írlandi ekki komast
upp með neitt múður; og hafa þó friðarumleit-
anir þar í gegnum tíðina einkennst af töfum og
samningstregðu, viðleitni manna til að teygja
orð og toga sér og sínum í hag.
Þegar Mowlam varð ráðherra í maí 1997
hafði hún nýlokið lyfjameðferð vegna heila-
æxlis, þegar hún fór á fund íbúa Norður-Írlands
í fyrsta sinn strax sama dag var hún því með
hárkollu og faldi það ekkert, fékk sér einfald-
lega göngutúr í miðborg Belfast, talaði við
venjulega borgara, vann hug þeirra og hjörtu.
Altalað er að seinna átti hún það til að rífa af
sér kolluna þegar inn í fundarherbergin var
komið og kasta á borðið. Þetta féll misvel í
kramið hjá viðsemjendunum en framganga
hennar stuðlaði að því að hreyfing komst á hlut-
ina.
Og menn dáðust að hugrekki hennar og
æðruleysi, hún varð strax vinsælasti ráð-
herrann í ríkisstjórn Tonys Blairs. Einhverju
sinni var hún jafnvel kölluð bresk „þjóð-
argersemi“.
Ummæli manna um Mowlam í gær eftir að
andlát hennar fregnaðist endurspegla þetta.
„Ég var kannski ekki alltaf sammála henni en
mér finnst raunverulega eins og ég hafi misst
persónulegan vin,“ sagði David Ervine, leiðtogi
lítils flokks sambandssinna, PUP, sem tengsl
hefur við öfgahópa mótmælenda; en margir
stjórnmálamenn úr röðum sambandssinna
töldu alla tíð að Mowlam væri hallari undir mál-
stað kaþólskra lýðveldissinna. „Hún hafði stór-
an kost sem stjórnmálamaður, nefnilega að hún
lagði hjarta sitt í viðfangsefnið, hlutirnir skiptu
hana raunverulega máli,“ sagði Ervine um
þetta.
Bertie Ahern, forsætisráðherra Írlands,
minntist Mowlam einnig hlýlega í gær, sagði að
hún hefði verið „tilbúin til að taka áhættu í þágu
friðar, áhættu til að ná fram samkomulagi og
áhættu til að fá því hrint í framkvæmd“.
Upp á kant við Blair
Vinsældir Mowlam voru ekki síst miklar í
vinstri armi breska Verkamannaflokksins. Um
það var hvíslað á sínum tíma að Tony Blair for-
sætisráðherra hefði mislíkað það er Mowlam
var mun betur fagnað en honum á flokksþingi
eftir gerð friðarsamkomulagsins 1998.
Um vorið 1999 stokkaði Blair upp í stjórn
sinni, Mowlam var þá færð til en það kom m.a.
til af því að sambandssinnar á Norður-Írlandi
töldu alvarlegan trúnaðarbrest hafa átt sér stað
milli þeirra og Mowlam.
Hún gerði sér vonir um stöðuhækkun, emb-
ætti utanríkisráðherra eða varnarmálaráð-
herra, í staðinn var hún lækkuð í tign, gerð að
ráðherra án ráðuneytis. Mowlam ákvað að
hætta í stjórnmálum í kjölfarið, hvarf út af þingi
í kosningunum 2001 eftir að hafa setið þar í fjór-
tán ár.
Mowlam hafði áður verið kennari við ríkishá-
skólann í Florida og í Newcastle í Bretlandi,
hafði hún fyrst lokið gráðu í félagslegri mann-
fræði frá Durham-háskóla. Eftir að hún hætti á
þingi sinnti hún ritstörfum m.a. og árið 2002
sendi hún frá sér æviminningar, Momentum,
sem vöktu mikla athygli. Þar hélt hún því fram
að hún hefði hætt í stjórnmálum af því að und-
irmenn Blairs hefðu tekið að rægja hana á bak
við tjöldin, sagði hún að þeir hefðu m.a. sagt
fólki að baráttan við heilaæxlið hefði gert hana
vitsmunalega óhæfa.
Fullyrti hún að andblærinn sem hún fann frá
forsætisráðherranum hefði magnast til muna
eftir að hún neitaði að verða við þeirri bón hans,
að hún yrði frambjóðandi Verkamannaflokksins
í borgarstjórnarkjöri í London vorið 2000 og
tæki þannig að sér að koma í veg fyrir sigur
Kens Livingstone, sem ekki naut vinsælda með-
al forystumanna í flokknum.
Mowlam var jafnframt í hópi andstæðinga
innrásar í Írak og fór ekki leynt með þá skoðun,
ekki frekar en Robin Cook, annar fyrrverandi
ráðherra í stjórn Blairs sem lést nýverið.
En þrátt fyrir að Mowlam hefði verið orðin
svo ósátt við Blair og stjórn Verkamannaflokks-
ins undir það síðasta var forsætisráðherrann í
hópi þeirra sem minntust hennar hlýlega í gær,
sagði hann hana hafa verið einn af helstu arki-
tektum þess nýja Verkamannaflokks, sem
komst til valda 1997 og stýrt hefur Bretlandi
síðan. Mowlam hefði verið „undraverður per-
sónuleiki“ sem minnst yrði lengi.
„Þjóðargersemin“ öll
Mo Mowlam var Norður-Írlandsmálaráðherra þegar sögulegt friðar-
samkomulag stríðandi fylkinga í héraðinu var gert á páskum 1998
Eftir Davíð Loga Sigurðsson
david@mbl.is
AP
Á meðan allt lék í lyndi milli Marjorie „Mo“ Mowlam og Tonys Blair. Mowlam lést í gær.