Morgunblaðið - 05.10.2005, Blaðsíða 32

Morgunblaðið - 05.10.2005, Blaðsíða 32
32 MIÐVIKUDAGUR 5. OKTÓBER 2005 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR ✝ Halldór Kjart-ansson fæddist á Akureyri 26. nóv- ember 1941. Hann lést á Landspítala í Fossvogi 18. sept- ember síðastliðinn. Foreldrar hans eru Kjartan Guðjóns- son, f. 2.12. 1911, d. 31.12. 1995, og Matthildur Páls- dóttir, f. 6.12. 1914. Bróðir Halldórs er Gunnar, kvæntur Kristínu Stefáns- dóttur, og eiga þau þrjú börn. Halldór kvæntist 30.12. 1994 Gyðu Ólafsdóttur, f. 7.7. 1946, d. 20.11. 2002, en þau bjuggu sam- an í rúm 20 ár. Gyða átti tvær dætur fyrir. Þær eru: 1) Guðrún Pétursdóttir, f. 16.5. 1967, í sam- búð með Jóni Sveinlaugssyni, f. 4.11. 1966. Barn þeirra er Gyða, f. 12.11. 1999. 2) Nanna Péturs- dóttir, f. 10.11. 1969. Halldór varð stúdent frá MA 1961. Hann fór í framhaldsnám í jarðfræði í Þýskalandi. Einnig lauk hann leiðsögumannsprófi. Halldór kenndi jarðfræði við Menntaskólann við Sund alla sína starfsævi og var einnig stunda- kennari við HÍ. Hann tók fjölda ljósmynda af náttúru Íslands og safnaði steinum sem notaðir eru við kennslu í MS. Hann gaf skólanum steinasafn sitt og er það kennt við hann. Hann var í mörg sumur leiðsögu- maður fyrir er- lenda ferðamenn hjá Úlfari Jacobsen og þar kynntist hann Gyðu. Hann skrifaði bækur um jarð- fræði fyrir erlenda ferðamenn ásamt Ara Trausta Guðmundssyni og einnig gerðu þeir sjónvarpsþætti um jarð- fræði. Halldór skrifaði líka kennslubækur í jarðfræði. Halldór og Gyða voru miklir náttúruunnendur og ferðuðust mikið um landið. Ekki var óal- gengt að þau svæfu í tjaldi svo vikum skipti á sumrin. Hann var hafsjór af fróðleik um landið okkar og náttúru þess og víðles- inn. Eftir hann liggur mikið safn ljósmynda af Íslandi og náttúru þess sem verður fært Ljósmynda- safni Reykjavíkur að gjöf að hans eigin ósk. Útför Halldórs var gerð í kyrr- þey, að ósk hins látna, hinn 27. september. Kær vinur minn og föðurbróðir Halldór Kjartansson lést hinn 18. september síðastliðinn. Halldór var fæddur á Akureyri og ólst upp í Reykjavík. Hann lærði jarðfræði í Þýskalandi og að námi loknu flutti hann heim og bjó í Reykjavík æ síðan. Halldór var í mörg ár kennari við Menntaskólann við Sund, og á sumrin starfaði hann lengi vel sem leiðsögumaður hjá Úlf- ari Jacobsen. Hann kom að gerð mikils efnis um jarðfræði, s.s. kennslubóka og sjónvarpsþátta. Halldór var mjög víðlesinn, varð enda fluglæs einungis fjögurra ára gamall. Íslensk náttúra og raunar flest sem tengist náttúrufræði Ís- lands var honum sérlega hugleikið. Það kom m.a. fram í samræðum við Halldór um ýmis náttúrufyrirbæri s.s. goshveri, jarðskjálfta og fjölda- margt annað. Það skein ætíð í gegn brennandi áhugi hans á náttúru- fræðum, sem smitaði alla sem á hlýddu. Í fjölskylduboðum duldust engum skýrar skoðanir hans á stórum og smáum dægurmálum sem efst voru á baugi þá stundina. Gamansemin var aldrei langt undan, hann kunni ógrynni skemmtilegra sagna frá hin- um ýmsu hliðum mannlífsins, bæði nær og fjær. Árum saman nutum við systkinin gjafmildi Halldórs frænda. Sérstak- lega man ég eftir einum jólunum þegar hann gaf okkur bræðrunum sína töskuna hvorum sem í var sjón- auki, hæðarmælir, áttaviti og stækk- unargler. Slík undratæki voru ekki lítill fengur fyrir átta og tíu ára peyja, og kveiktu þau mikinn áhuga á náttúru- og eðlisfræði sem ekki sér fyrir endann á enn í dag. Í ferðum sínum um landið kynnt- ist Halldór tilvonandi konu sinni, Gyðu Ólafsdóttur. Hún, ásamt dætr- um Gyðu þeim Guðrúnu og Nönnu, var stóra gæfan í lífi Halldórs. Eftir fráfall hennar fyrir tæpum þremur árum var líf Halldórs ekki það sama og áður. Undanfarin tvö ár hefur Halldór háð erfiða baráttu við heilsubrest. Þrátt fyrir frábær störf heilbrigðis- starfsfólks Landspítalans hallaði mjög á ógæfuhliðina undanfarin misseri. Mér er það mjög minnis- stætt hvað hann sýndi mikið jafn- vægi og skapgæsku þrátt fyrir mót- streymið. Blessuð sé minning hans. Stefán Gunnarsson. Góðvinur minn og samstarfsmað- ur um þrjátíu ára skeið, Halldór Kjartansson, jarðfræðingur, lézt 18. september sl. eftir langvinnan heilsubrest. Með Halldóri er geng- inn einstakur öðlingur, sem lagði aldrei annað en gott eitt til mála, og ávann sér traust og vináttu allra, sem honum kynntust. Ungur að ár- um tók Halldór miklu ástfóstri við landið, sögu þess og náttúru. Íslend- ingasögur voru honum einkar hug- leiknar og fáir voru honum fremri í að rekja atburði í sögunum og lýsa staðháttum; en af meðfæddri hóg- værð flíkaði hann þessu lítt. Þá þurfti engan að undra, að hann nam jarðfræði á sínum tíma í Þýzkalandi. Allar götur síðan mótaði þetta tvennt líf hans og starf. Halldór hafði sérstaka ánægju af því að ferðast um landið. Hann og kona hans, Gyða Ólafsdóttir, fóru jafnan fyrstu ferð á hverju ári um hvítasunnu og lágu þá í tjaldi, hverju sem viðraði. Síðan voru þau á flakki nær allt sumarið. Halldór tók ógrynni mynda á þessum ferðum, kannaði jarðlög og safnaði miklu grjóti. Halldór starfaði lengst af sem kennari í Menntaskólanum við Sund. Mikið orð fór af kennslu hans. Hon- um lá hátt rómur og einhverju sinni var það haft í flimtingum, að hann færi létt með að kenna í fimm bekkj- um samtímis. Hvað sem um það má segja, er hitt víst, að hann vakti slík- an áhuga meðal nemenda sinna, að ótrúlega margir þeirra hafa lagt jarðfræði fyrir sig. Halldór notaði óspart myndir sínar og steinasafn við kennsluna og þannig tókst hon- um að glæða hana einstöku lífi. Fyrir fáum árum gaf Halldór skólanum steinasafnið, og hefur því verið kom- ið fyrir á veglegum stað í svonefndri Halldórsstofu honum til heiðurs. Fyrr á árum kenndi Halldór mest í 1. bekk, þar sem er erfiðast við kennslu að fást. Að auki lá megin- þungi kennslunnar síðdegis og var Halldór því með þeim síðustu sem yfirgaf skólann á degi hverjum. Þeir, sem venjulega réðu þar ríkjum, fóru heim á milli klukkan fjögur og fimm, og var þá iðulega leitað til Halldórs, ef óvenjuleg atvik komu upp undir lok dags. Það kom nokkrum sinnum fyrir, að hann leysti mjög farsællega úr vandasömum málum, sem sýndu bezt, hvern mann Halldór hafði að geyma. Halldór fékkst allnokkuð við rit- störf og gerði nokkra fræðsluþætti í jarðfræði fyrir sjónvarp í samvinnu við Ara Trausta Guðmundsson. Í þessum verkum kemur glögglega fram, að hann hafði mjög skarpa sýn á jarðfræðileg viðfangsefni og gáfa hans var að segja svo frá, að allir skildu. Allt, sem hann fékkst við, var unnið af mikilli vandvirkni og verður tæpast betur gert. Hann hafði mjög góð tök á íslenzku máli og honum var afar umhugað um að skrifa skýrt og skorinort. Það var margt líkt með Halldóri Kjartanssyni og helztu náttúrufræð- ingum þjóðarinnar á fyrri hluta síð- ustu aldar. Hann vann störf sín af áhuga í kyrrþey og velti því aldrei fyrir sér, hvað þau gæfu í aðra hönd. Allir eru sammála um, að hann var hógvær maður og ljúfur í fasi, gat brugðið fyrir sig græskulausu gamni, og var einstaklega góðviljað- ur. Með slíkum manni var gott að starfa og fyrir það eru honum færðar verðugar þakkir. Ágúst H. Bjarnason. Halldór Kjartansson jarðfræðing- ur, sem er nýlátinn, tilheyrði hópi er ég vil nefna þriðju kynslóð jarðfræð- inga. Á eftir frumherjunum, sem virkir voru milli 1940 og 1960, komu fram fáeinir jarðvísindamenn og hófu samstarf við þá eldri. Þetta voru þýskmenntaðir menn eins og Þorleifur Einarsson og Guðmundur Sigvaldason, heimkomnir snemma á 7. áratugi aldarinnar. Þriðja kynslóðin kom úr námi um og upp úr 1970. Þeirra á meðal var Halldór, menntaður í Þýskalandi eins og býsna margir raunvísinda- menn á þessum árum. Halldór hafði þekkingu á jarðefnafræði, málmum, steintegundum, leir og bergtegund- um og flókinni efnabyggingu og eig- inleikum þessara náttúruefna. Þess vegna valdist hann til að vinna með erlendum sérfræðingi að rannsókn- um á hagnýtum jarðefnum víða um land. Slík rannsóknarstörf áttu þó ekki eftir að liggja lengi fyrir Halldóri því hann tók til við að kenna jarðvísindi við Menntaskólann við Tjörnina sem síðar varð Menntaskólinn við Sund. Þar urðum við samstarfsmenn í all- mörg ár og starfaði Halldór við skól- ann meðan heilsa leyfði. Í störfum sínum var Halldór eldhugi og enn fremur mjög góður kennari. Honum tókst að vekja og viðhalda áhuga langflestra nemenda sinna og hann var hugmyndaríkur og metnaðar- fullur; svo metnaðarfullur og dugleg- ur að námskráin í heild speglaði fremur námsefni fyrsta árs í háskóla en menntaskólaefni enda gátu skólar í þá daga mótað sjálfa sig sjálfstæðar og farsællegar en nú er talið réttast. Mér skilst að enginn annar mennta- skóli hafi átt jafnmarga nýútskrifaða stúdenta í jarðvísindum við Háskóla Íslands og MT/MS. Þar átti Halldór stærstan hlut að máli. Auk eldmóðs- ins nýtti Halldór sér mikið af mynd- efni við kennsluna, rissaði skýring- armyndir á töflu meðan hann talaði við nemendur og kom upp yfirlits- myndasafni (litskyggnum) um allt kennsluefnið. Myndasýningar urðu að eiginlegum hluta kennslunnar. Svo samdi hann lesefni handa nem- endum skólans þegar ný námskrá í jarðfræði varð til og hann streittist frekar en hitt á móti þeirri tilhneig- ingu að minnka og einfalda námsefni í jarð- og stjarnvísindum. Halldór kom upp góðu steinasafni til kennslu og hefur skólinn hans búið um það í sérstakri Halldórsstofu sem segir margt um þá virðingu og vinsældir er hann naut meðal nemenda, skóla- stjórnenda og samkennara. Einhvern tíma datt okkur í hug að færa kennslu í jarðfræði út til fólks og nota sjónvarp til að fræða al- menning um jarðfræði Íslands. Úr varð 10 þátta röð á miðjum 9. ára- tugnum sem framleidd var af og sýnd hjá RÚV. Hugmynd Halldórs um að við lékum „vísindamenn á sloppum í rannsóknarstofu“ gekk upp og við stungum inn einum og öðrum broslegum atriðum til að létta á fræðslunni. Halldór var húmoristi, næstum á laun, og tók t.d. snarlega upp á því að þykjast sofa í einu atriði og setja upp svakalegan hjálm í öðru, þegar búa átti til eftirlíkingu af sprengigíg. Fleiri sjónvarpsþættir fylgdu á eftir, um jarðfræði Reykja- víkur, lýsing Þjórsárvera og um Veiðivötn. Þeir hefðu sem best getað orðið mun fleiri því Halldóri lét vel að vera „skeggjaður fræðingur í im- banum“ – eins og hann orðaði það. Halldór starfaði sem leiðsögumað- ur ferðamanna mörg sumur og var eftirsóttur í bransanum, einkum vegna mikillar þekkingar á landi, sögu og jarðfræði. Upp úr því spruttu bækur á ensku og þýsku um íslenska jarðfræði sem við sömdum saman og við vorum að vinna að þriðju útgáfu slíkra bóka þegar Hall- dór lést fyrir aldur fram. Hann náði að ljúka einum kafla af fimm í hans hluta. Í sumarferðunum kynntist Hall- dór konu sinni, Gyðu, og þau undu sér samrýmd og óþreytandi við að ferðast um landið eftir að þau hættu störfum í ferðaþjónustunni. Tveimur dætrum Gyðu reyndist hann vel eins og öðrum sem hann þekktu. Gyða lést fyrir örfáum árum og einnig fyr- ir aldur fram. Halldór tók fráfallinu afar þungt og smám saman ágerðist hættulegur sjúkdómur hjá honum, sem hafði betur en lífið, svo hratt sem raun ber vitni. Ég er viss um að við öll, vinir, sam- starfsmenn og fyrrum nemendur kveðjum fræðarann Halldór Kjart- ansson með söknuði og þakklæti fyr- ir áralanga og frjóa samveru. Ari Trausti Guðmundsson. Einhvern tíma var það sagt að landslag væri lítils virði ef það héti ekki neitt og það fengum við svo sannarlega að reyna á ferðalögum okkar með Halldóri Kjartanssyni og Gyðu konu hans. Hvort sem farið var um Landmannalaugar, Skaftafell, Lakagíga eða Jökulsárgljúfur, fannst manni Dóri þekkja hverja þúfu með nafni og ekki nóg með það, heldur kunni hann ýmsar sögur af mönnum og atburðum sem tengdust þessum stöðum. Síðast en ekki síst voru ferðirnar sérlega skemmtilegar kennslustundir í jarðfræði og nátt- úrufræði, enda jarðfræðin fræði- grein Halldórs og auk þess var hann hafsjór af almennum fróðleik. Öll þessi örnefni og allar þessar sögur urðu einmitt til þess að maður naut ferðanna í mun ríkara mæli. Lands- lagið varð enn stórfenglegra þegar fjöll og dalir, ár og vötn fengu nöfn og í gömlum rústum hruninna húsa sá maður fyrir sér löngu gengið fólk, sem háð hafði sína lífsbaráttu við að- stæður sem nú þættu óbærilegar. Gyða og Dóri voru mikið útivist- arfólk og lunganum úr flestum sumr- um eyddu þau í ferðalög innanlands. Fyrsta ferðin var venjulega farin í kring um hvítasunnuna og síðan bjuggu þau mikið til í tjaldi fram á haust, helst sem lengst frá almenn- um tjaldstæðum þar sem þau gátu notið náttúrunnar ein og út af fyrir sig. En stundum fengum við að fara með og þá var mikið gengið og það var ævintýri að fylgja þeim á þessum gönguferðum. Halldór ótrúlega sporléttur þótt skrokkmikill væri. Ósjaldan beygði hann sig niður, skoðaði blóm eða steina, tók upp myndavélina og festi einhverja dá- semd náttúrunnar á filmu, enda var myndasafnið hans stórkostlegt. Gyða lést langt um aldur fram fyr- ir tæpum þremur árum og síðan hef- ur Halldór ekki borið sitt barr. Hann saknaði hennar mikið og heilsan, sem var farin að bila þegar Gyða lést, hefur verið á hröðu undanhaldi síðan þá. Og nú er hann líka allur. Minn- ingin um góða vini og einstaklega skemmtilega ferðafélaga lifir og í trú á eilífa handleiðslu almættisins, sem okkur er lofað, vonum við að hinum megin fái andar þeirra sameinast að nýju. Ástvinum þeirra vottum við dýpstu samúð. Anna og Jóhannes. Það var sárt að heyra að Halldór Kjartansson jarðfræðikennari við Menntaskólann við Sund hefði látist 18. september síðastliðinn. Ég kynntist Halldóri fyrst þegar ég var nemandi í Menntaskólanum við Tjörnina. Halldór var góður maður og afar snjall kennari sem greinilega unni sinni fræðigrein og landinu sem hann var óþreytandi að fræða okkur um. Hann átti auðvelt með að hrífa nemendur sína með sér enda leiftr- aði hann í kennslunni. Hann hafði þetta sem alla kennara langar að hafa, þetta óútskýranlega sem grein- ir þá bestu frá okkur hinum. Líklega á Halldór stærstan þátt í því að ég tók þá ákvörðun á sínum tíma að verða jarðfræðingur og erum við ófá- ir jarðfræðingarnir sem fengum okkar fyrstu kynni af jarðfræðinni hjá Halldóri. Ég er Halldóri þakk- látur fyrir að hafa vakið áhuga minn á fræðigreininni. Fyrir tæpum fimm árum, þegar ég hóf störf við Menntaskólann við Sund, var ég svo lánsamur að fá að starfa með Halldóri. Ég er afar stolt- ur af að hafa fengið það tækifæri, þó svo að sá tími hefði vissulega mátt verða miklu lengri. Það var gott að vinna með Halldóri enda var hann fagmaður og einstakt ljúfmenni sem gott var að leita til. Framlag Hall- dórs til jarðfræðikennslu á Íslandi er mikið. Fyrir utan það að vera frábær inni í kennslustofunni samdi hann kennsluefni og gerði sjónvarpsþætti um jarðfræði Íslands svo eitthvað sé nefnt. Steinasafn Menntaskólans við Sund er að mestu komið frá Halldóri. Safnið er afar gott kennslusafn og er hluti þess til sýnis í skólanum í Hall- dórsstofu. Þá er verið að koma myndasafni Halldórs í rafrænt form þannig að það nýtist sem best til fræðslu og kennslu. Þeir sem kynntust Halldóri vel eru sammála um að hann hafi verið ákafamaður í kennslu, ljúfmenni í viðkynningu og ráðagóður þeim sem til hans leituðu. Hans er sárt saknað. Ég færi fjölskyldu hans mínar inni- legustu samúðarkveðjur. Már Vilhjálmsson. HALLDÓR KJARTANSSON Vegna andláts og útfarar KRISTJÁNS S. KRISTJÁNSSONAR frv. fjárhagsáætlunarfulltrúa, þökkum við af hjarta öllum þeim sem sýndu minn- ingu hans sóma og okkur samúð og hluttekningu. Ólöf Steingrímsdóttir, Hulda Kristjánsdóttir og fjölskyldur. Hjartans þakkir til allra þeirra, sem sýndu okkur samúð og hlýhug vegna andláts og útfarar ást- kærrar eiginkonu minnar, móður okkar, dóttur, stjúpdóttur, systur og frænku, AMALÍU RUTAR GUNNARSDÓTTUR, Björtusölum 23, Kópavogi. Jónas Yamak, Edda Falak Yamak, Ómar Yamak, Edda Þorvaldsdóttir, Pétur Jónsson, Ingibjörg Þóra Stefánsdóttir, Katrín Þóra Guðmundsdóttir.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.