Fréttablaðið - 13.06.2004, Blaðsíða 29

Fréttablaðið - 13.06.2004, Blaðsíða 29
SUNNUDAGUR 13. júní 2004 21 ■ Leitin að Reykjavík HULDAR BREIÐFJÖRÐ gekk á Esjuna. Ég er búinn að stilla tölvuna mína þannig að ég vakna við lagið ‘Burn- ing down the house’. Og sennilega þessvegna sem mér datt í hug einn morguninn fyrir fáum dögum, að fara á stuttbuxum í vinnuna! Þótt það væri skýjað! Þótt trén fyrir utan gluggann hreyfðust! Það var ekkert svo kalt í bílnum og mér leið ágætlega með þetta. Þar til ég kom á auglýsingastofuna þar sem ég vinn stundum og maður hefði haldið að fólk ætti að vera svo- lítið opið. „Bíddu, minn bara í sum- arskapi?“, „Flottir kálfar!“, „Hvað, ertu á leiðinni á fjöll?“, „Noh!“, „Nei, eru skátarnir komnir í starfs- kynningu?“ Háðsglósurnar héldu áfram að falla fram eftir morgni og um há- degi var ég hættur að geta unnið. Sat bara með lappirnar undir borði á meðan ég hlustaði á ‘Burning down the house’ í heyrnartólum og velti fyrir mér hvort ég ætti að senda tölvupóstinn sem ég hafði skrifað. Ég hafði skrifað: „Þið ættuð hugsan- lega að reyna að vera aðeins minna upptekin af að ganga í síðum buxum hér á stofunni. Þá þyrfti kannski ekki að hringja í utanaðkomandi að- ila eins og mig til að bjarga hlutun- um þegar allt er komið í þrot!“ Síðan óskaði ég þess að sólin byrjaði að skína og trén hættu að hreyfast. Síðan hugsaði ég um að maður yrði að vera maður sjálfur. Síðan óskaði ég þess að ég væri á leiðinni á fjöll. Síðast ákvað ég að bjarga ekkert hlutunum! Og fór. Esjan Það tekur fimmtán mínútur að keyra frá auglýsingastofunni að fjalli okkar Reykvíkinga. Á skilti undir rótum þess eru sýndar þrjár mögulegar gönguleiðir upp á topp sem heitir Þverfellshorn og stendur í 780 metra hæð. Á sama skilti er teiknuð mynd af tveimur gangandi manneskjum. Önnur er í stuttbux- um. Þótt trén væru enn á hreyfingu byrjaði brattinn fljótlega að rífa í kálfana svo mér hlýnaði aftur. Ég fylgdi malartroðningi og þrátt fyrir að það sé ekki tekið fram á skiltinu virðist það til siðs á Esjunni að fólk bjóði góðan daginn þegar það mæt- ist. Líklegast finnst okkur við vera einhvernveginn nánari svona upp í fjalli en til dæmis bara úti í búð. Um miðjar hlíðar var gangan orðin drulluspaðaerfið og ég brjál- aður í skapinu. Farinn að rífast í huganum við hina og þessa starfs- menn á auglýsingastofunni um hvort Íslendingar byðu yfirleitt góð- an daginn út í búð. Í sömu mund beygði ég í fússi út af troðningnum. Sennilega til að benda fólkinu í höfð- inu enn frekar á að maður þyrfti ekki alltaf að fara troðnar slóðir! En þegar ég hafði gengið í gljúpri brekkunni í nokkrar mínútur fékk ég snert af áreynsluastma en mundi ekki lengur hvað ég var að gera þarna. Og flýtti mér þá aftur inn á stíginn. „Góðan daginn!“ „Góðan daginn.“ Á leiðinni upp hafði ég mætt nokkrum eldri hjónum og því kom mér sérstaklega óþægilega á óvart að verða hræddur í klifrinu sem tek- ur við efst. Sjálft Þverfellshorn reyndist mjög bratt og það þurfti bæði gríðarlega útsjónarsemi og mikla þolinmæði til að finna réttu leiðina upp. Eins þakkaði ég fyrir að vera ekki í síðum buxum þar sem ég hékk utan í klettunum. Það hefði verið of heftandi. En níutíu mínútum eftir að ég hafði lagt upp frá skiltinu stóð ég á toppi Esjunnar. Nákvæmlega sjö- hundruðogáttatíu metrum ofar en fólkið á stofunni. Með veröldina fyr- ir augunum. Og leið auðvitað eins og sigurvegaranum sem ég var. Jafn- vel eins og engum hefði tekist þetta áður. Alveg þar til ég fann dagbók við útsýnisskífu sem stendur þarna á toppnum og sá að það höfðu alla- vega 30 manns verið á undan mér upp þennan dag. Sá fyrsti hafði skrifað nafnið sitt í bókina klukkan sex um morguninn. Viku síðar Síðan er liðin vika. Og á leiðinni til og frá auglýsingastofunni hef ég séð stöðugt fleira fólk á stuttbuxum. Flestu virðist því líða vel og ég hef ekki enn orðið vitni að neinskonar áreiti. Nefnilega, svona breytir maður fjalli. Maður bara byrjar. Á því að skipta um buxur. Einhver gæti haldið því fram að ég hafi bara verið of snemma í því, ég hafi ekki breytt neinu, heldur fjallið komið til mín á endanum. Og auðvitað leyfum við honum bara að sitja sem fastast á því og sem fast- ast yfirleitt. Í gær spurði smartasti strákur- inn á stofunni mig hvar ég hefði eiginlega fengið þessar stuttbuxur. Hann virkaði óöruggur þar sem hann stóð þarna fyrir framan mig á gallabuxum í samþykktri sídd. Ég svaraði honum því að hann gæti bara fengið að eiga mínar. Fyrir mér væri þetta stuttbuxnalúkk að verða svolítið troðinn stígur. Og fór. Úr buxunum. ■ Að breyta fjalli Listaverk eftir Hepburn á uppboð Rúmlega hundrað myndir oghöggmyndir eftir leikkonuna Katharine Hepburn eru væntan- legar á uppboð hjá Sotheby’s í New York. Flestar myndirnar gerði Hepburn meðan hún átti í 27 ára ástarsambandi sínu við leikar- ann Spencer Tracy. Meðal lista- verkanna er brjóstmynd af Tracy en eftir dauða hans hafði Hepburn myndina með sér hvert sem hún fór og hafði hana í námunda við rúm sitt. Hepburn talaði aldrei um þessa frístundaiðju sína og fjölskylda hennar neitaði því lengi vel að myndir eftir hana væru til. Martin Scorsese gerir sér vonir um að fá eitthvað af lista- verkunum til nota fyrir nýjustu mynd sína The Aviator, sem fjallar um samband Hepburns og auðkýfingsins og sérvitrings- ins Howards Hughes, löngu áður en Hepburn hitti stóru ást- ina í lífi sínu, Spencer Tracy. Cate Blanchett leikur Hepburn og Leonardo Di Caprio fer með hlutverk Hughes. ■ BÁTAR Búist er við að slegist verði um listaverk Katharine Hepburn.

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.