Fréttablaðið - 05.04.2007, Síða 38
BLS. 8 | sirkus | 5. APRÍL 2007
Þ að er ágætt að vera búin að brenna sig og geta þá breytt um stefnu,“ segir Eva María Jónsdóttir fjölmiðlakona og
þriggja barna móðir sem er á leið í foreldra-
orlof í sumar. Samkvæmt lögum eiga allir
foreldrar rétt á 13. vikna ólaunuðu fríi áður
en börnin ná 8 ára aldri og þar sem elsta
dóttir Evu verður 8 ára á árinu er ekki seinna
vænna fyrir hana en að nýta orlofið. Yngsta
dóttirin er 18 mánaða og Eva segist vilja eyða
eins miklum tíma með dætrunum og hún
geti. Þegar hún hafi verið með eldri
stelpurnar litlar hafi hún tekið vinnuna fram
yfir fjölskylduna á löngum tímabilum. Nú
verði hins vegar breyting á.
„Ég vissi ekki um þetta foreldraorlof fyrr
en ég fór í fæðingarorlof með yngstu
stelpuna og fór að
skoða lögin. Mér
finnst þetta frábært
og ætla að njóta
sumarsins með
dætrunum. Á sumrin
eru flestir foreldrar
að basla við að púsla
öllu saman og koma
börnunum í gæslu og á námskeið. Nú verða
þær heima með mér nema þær óski þess
sérstaklega að fara á námskeið,“ segir Eva og
bætir við að börnum leiðist ekki nóg.
„Dagurinn er byggður upp af prógrömmum
svo þau hafa alltaf eitthvað fyrir stafni. Þau
kunna ekki að gera ekki neitt og því held ég
að þær hafi gott af svona tímabili þar sem
þær verða að finna sér eitthvað úr engu og
láta hugmyndaflugið ráða.“
Tvö ár urðu að 14
Eva María hefur starfað við fjölmiðla frá
árinu 1993. Þá hóf hún starf sem skrifta hjá
Ríkissjónvarpinu og hélt hún hefði landað
draumastarfinu. „Ég ætlaði mér að vera
þarna í tvö ár og halda svo áfram í háskólan-
um en einhvern veginn fór þetta svona. Núna
er ég að súpa seyðið af því,“ segir hún
hlæjandi.
„Mér finnst gott að hafa ákveðinn sveigjan-
leika og leyfa hlutunum að gerast án þess að
þvinga þá til þess. Á þessum fjórtán árum hef
ég tekið þrjú eins árs fæðingarorlof sem
hefur verið afar endurmenntandi auk þess
sem ég hef prófað að vinna í útvarpi og á
Stöð 2, svo þetta hefur verið viðburðaríkur
tími.“
Í dag stendur Eva vaktina í Kastljósi á
sunnudögum og mun gera það út maímán-
uð. Í þættinum hefur hún sett sér það
markmið að bæði karlar og konur hafi þar
rödd og hún segir hlutfallið milli kvenkyns
og karlkyns gesta nákvæmlega 50/50 og að
það sé alveg jafn auðvelt að fá konurnar í
viðtöl eins og karlana. „Í kjölfarið erum við
að tala um hluti sem ekki er mikil hefð að
tala um í sjónvarpi. Mér finnst gamaldags
að hugsa um málefni fjölskyldunnar sem
eitthvað einkamál eða feimnismál hvers og
eins. Fjölskylda er eitthvað sem við eigum
öll sameiginlegt og mér finnst við eiga að
ræða hana og stöðu hennar eins og
atvinnulífið og aðra merkilega hluti,“ segir
Eva María og bætir við að hún ræði þau mál
jafnt við karla sem konur.
Forgangsröðunin er skýr
Eva segist hafa gaman af þessari gerð
dagskrárgerðar en hún njóti þess einnig að
búa til framleitt efni og heildstæðari verk.
„Reynslan hefur hins vegar sýnt mér að það
er meiri skuldbinding og þótt það sé
skemmtilegra á köflum, hentar svoleiðis
vinna mér engan veginn núna. Ég kalla það
ekki aftur yfir fjölskylduna. Þetta gengur upp
svona. Við erum með þrjá litla þurfalinga á
heimilinu og erum bæði útivinnandi hjónin,
en með því að stilla atvinnunni í hóf er
maður að mestu laus við þessa hræðilegu
togstreitu og stöðuga samviskubitið.
Forgangsröðunin er skýr, börnin koma fyrst
og svo vinnan,“ segir Eva María brosandi.
„Ég held að ef við ræðum þessi mál þá
myndu flestir segjast setja fjölskylduna í
forgang en samkvæmt rannsóknum þá sýnir
klukkustundafjöldinn allt aðra niðurstöðu.
Það er erfitt að breyta þessari þróun því við
lifum í menningarsamfélagi sem upphefur
fólk sem er duglegt að vinna og öflugt
atvinnulíf er okkur öllum mikið kappsmál.
En orð eru til alls fyrst og með því að velta
þessu fyrir sér tekur maður næsta skref. Eru
hlutirnir eins og ég vil hafa þá? Ef ekki, hvað
get ég gert? Þannig breytist samfélagið
smám saman.“
Tíminn er lífsgæði eins og peningar
Eva segir lífsgæðin ekkert endilega minnka
með minni vinnu. „Að einhverju leyti
verður maður að draga saman seglin en
það kostar líka peninga að vinna mikið.
Tilbúinn matur sem skemmist í ísskápn-
um, heimilishjálpin og öll þau þjónusta
sem við kaupum því við höfum ekki tíma
til að sinna málunum kostar sitt. Ef við
vinnum minna getum
við nýtt tímann og
fjármunina öðruvísi.
Tíminn er lífsgæði eins
og peningar,“ segir Eva
María og bætir við að
sjálfri sé henni sama
þótt hún eigi ekki
æðisgenginn bíl eða flatt
og flott sjónvarp. „Kannski er ég eitthvað
fötluð í þessum lífsgæðamálum. Sjónvarp-
ið okkar datt í gólfið og nú sjást bleikir og
bláir blettir á skjánum. Við sjáum samt
myndina þótt gæðin séu ekki þau bestu,“
segir hún en viðurkennir að þekkja
lífsgæðakapphlaupið af eigin reynslu.
„Ég stóð mig að því að fylgjast með
nágrannanum bera nýtt flott grill heim til
sín og fann innra með mér gríðarlega þörf
fyrir að fá alveg eins grill. Ég hrökk upp af
þessum hugsunum og áttaði mig á hvað er
auðvelt að dansa með í munalostanum.
Síðan hef ég bara átt einnota grill.“
Lúxusbíll eða lúxus fjölskyldulíf
Aðspurð segir hún ekki skynsamlegt að
segja fólki hvernig það eigi að lifa sínu lífi en
það sé um að gera að hvetja fólk til að velta
því fyrir sér hvernig það vilji hafa hlutina.
„Það eina sem þarf er að vera heiðarlegur
við sjálfan sig, setja fremst það sem maður
metur mest. Í manninum er ákveðið
hjarðeðli, við spáum ekki mikið ótilneydd í
hlutina heldur rúllum áfram af gömlum
vana, það þekki ég. Það er um að gera að
týna sér ekki í efnishyggjunni og athuga
hvort hugmyndir okkar um lífsgæði fari
saman við líf okkar og hvað við getum gert
til að öðlast þau lífsgæði sem við viljum.
„Hvort viljum við lúxusbíl eða lúxus
fjölskyldulíf ?“ spurði ein kona um daginn,
og mér finnst það mjög góð spurning. Það
eru áreiðanleg einhverjir sem velja bílinn og
við verðum þá að umbera það. Ég hef hins
vegar heyrt í svo mörgum sem eru í
svipuðum pælingum og ég held að það sé
ákveðin vitundarvakning á meðal minnar
kynslóðar. Hingað til hefur aflaklónum og
útrásarpostulum verið mest hampað, en
það er hægt að gera það gott á svo margan
annan hátt. Fyrirtækin sem við störfum hjá
eru innt eftir fjölskyldustefnu og er þá ekki
ágætt að fjölskyldurnar sjálfar hafi sína
stefnu svo við vitum eftir hverju við erum
að slægjast.“
Nýr spennandi kafli framundan
Eva María hlakkar til foreldraorlofsins en
auk þess að hugsa um dæturnar ætlar hún
að skrifa lokaritgerðina sína í Háskóla
Íslands svo það verður nóg að gera.
„Ég hef engar áhyggur af því að hafa ekkert
að gera. Þegar við hjónin tókum fæðingaror-
lof fannst okkur foreldrahlutverkið og
heimilisverkin full vinna fyrir okkur bæði,“
segir hún hlæjandi og bætir við að hún sé nú
komin með konu sem hjálpi þeim með
heimilisverkin. „Ég er með „aðkeypta
ömmu“ sem er nýhætt að starfa sem
tannlæknir og er þýsk að uppruna og án
hennar gætum við þetta ekki. Ég er spennt
að byrja á þessum nýja kafla. Það verður
sumar í lofti, ég verð með þrjú börn á fæti,
ritgerð í kollinum og þýskan tannlækni í
seilingarfjarlægð. Maðurinn minn verður í
tökum svo ég verð kvikmyndaekkja eins og
það kallast svo þetta á eftir að verða
eftirminnilegt sumar.“ indiana@frettabladid.is
Setur börnin ofar
starfsframanum
EVA MARÍA JÓNSDÓTTIR Eva tók vinnuna fram yfir fjölskylduna á löngu tímabili. Nú hefur hún lagar forgangsröðun-
ina. SIRKUSMYND/VALLI
SJÓNVARPSDROTTNINGIN EVA MARÍA
JÓNSDÓTTIR ER ÞRIGGJA BARNA MÓÐIR.
EVA MARÍA ER Á LEIÐINNI Í 13 VIKNA ÓLAUN-
AÐ FRÍ OG HLAKKAR TIL AÐ EYÐA SUMRINU
MEÐ DÆTRUNUM.
EF VIÐ VINNUM MINNA GETUM VIÐ NÝTT TÍMANN
OG FJÁRMUNINA ÖÐRUVÍSI. TÍMINN ER LÍFSGÆÐI.