Fréttablaðið - 24.12.2008, Blaðsíða 18
18 24. desember 2008 MIÐVIKUDAGUR
A
uður er byrjuð á nýrri
bók. Það hefur aldrei
gerst áður að hún sé í
miðju jólabókaflóði, í
upplestrum hægri
vinstri, að fylgja eftir nýútkominni
bók og sé farin að hripa niður nýja
hugmynd. Hún heldur jafnvel að
þetta séu áhrif þess sem á hefur
gengið í samfélaginu. „Það er allt
breytt. Ég kom hingað til lands í
sumar og ætlaði mér að fara út
aftur þegar gengið lagaðist. Nú
stefni ég á að flytja til Berlínar en
er í frekar lausu lofti með hvað
verður, eins og allir. Ég hef tekið
eftir því að við erum öll breytt,“
segir Auður og segist til dæmis sjá
það á kaffihúsum sem hún sæki.
„Það var lenska hér að heilsa bara
svolítið kúl þegar maður settist og
þeir sem maður þekkti á staðnum
heilsuðu svo bara líka svolítið kúl á
móti. Nú virðist fólk vera opnara
og hafa meiri þörf fyrir að hlusta
og tjá sig. Það ríkir meiri einlægni
í samskiptum okkar – finnurðu það
ekki?
Að mörgu leyti hefur þessi
atburðarás orðið til góðs. Samfé-
lagið var orðið svo skrítið og rugl-
ingslegt. Mér leið oftast eins og
það væri eitthvað að mér þegar ég
kom heim. Að segjast hvorki eiga
íbúð né vera í fastri stöndugri
vinnu varð til þess að fólk hér
heima vorkenndi mér hreinlega.
Og skildi ómögulega hvernig ég
gat eiginlega haft líf mitt svona. Ég
hef virkað „eðlilegri“ manneskja
þar sem ég hef búið úti í Danmörku
og Barcelona en hér heima þar sem
það þekkist síður að fólk kaupi sér
allt á einum degi með hjálp yfir-
dráttar og skulda.“
Veltir fyrir sér ritskoðun
Auður hefur skrifað megnið af
skáldsögunum sínum erlendis, nú
síðast úti í Barcelona þar sem hún
hefur búið ásamt eiginmanni
sínum, Þórarni Leifssyni, mynd-
listarmanni og rithöfundi, og unnið
sem sjálfstætt starfandi blaðamað-
ur samfara skáldskapnum. Hún
segir að það fari vel á því að blanda
þessum störfum saman ólíkt því
sem margir haldi. Auður hefur
komið við á mörgum fjölmiðlum og
meðal annars skrifað greinar í DV,
Morgunblaðið, Nýtt líf og Frétta-
blaðið og er því, eftir tíðindi síð-
ustu vikna, innt eftir því hvort hún
hafi mátt sæta ritskoðun. „Jú, ég
hef lent í undarlegu atviki en hef
því miður ekki neinar haldbærar
sannanir til að ég geti farið fram
með það. Ég efast hins vegar ekki
um að á öllum miðlum megi finna
einhver dæmi um ritskoðun. Mér
hefur reyndar verið afar hugleikið
um langan tíma hvað sé ritskoðun
og hvað ekki og hvað sé glæpur og
hvað ekki. Ég leik mér með þessar
spurningar í Vetrarsól og skil les-
endur eftir með þær að lestri lokn-
um.“ Auður heldur áfram að ræða
ritskoðun og umræðan beinist að
stórmörkuðunum. „Hvað er það
annað en ritskoðun að stórmarkað-
ir ákveði hvaða bókum er otað að
neytendum og hvaða bókum er
haldið frá þeim? Sérstaklega nú
þegar bókaverslun er að færast æ
meir inn í matvörubúðirnar, og
jafnvel hætt við að bókabúðir muni
ekki hafa það af í því hallæri sem
er fram undan, þá skiptir þessi
spurning máli.“
Gerir grín að glæpasöguforminu
Hinn rauði þráður Vetrarsólar er à
la glæpasagan: Mannshvarf. Auður
segir glæpasöguplott sögunnar þó
aðeins vera leik. „Ég leik mér að
glæpasöguforminu, leyfi lesand-
anum að skera úr um hvort eitt-
hvað sé mögulega rangt; auk þess
leyfi ég mér að grínast dálítið með
það um leið því í bókmenntaum-
fjöllun í dag virðumst við stundum
vera stödd á villigötum. Við erum
haldin sérkennilegum glæpasögu-
doða. Ef það er plott í skáldsög-
unni þá eru allir hamingjusamir og
kátir. En skáldsagan er svo miklu
meira en plott og gagnrýnendum
hættir til að blása bækur af borð-
inu sem státa ekki af því og „réttri“
uppbyggingu. Í versta falli dæma
þeir þær út frá glæpasögum.
Skáldsaga þar sem tilveran er
krufin og tjáð út í ystu tabújaðra, í
stað þess að vera harðsoðin glæpa-
saga, fær því oft mjög óréttláta
meðferð, bæði í orðum gagnrýn-
enda sem og í stórmörkuðum þar
sem þær eiga ekki allar upp á pall-
borðið hjá innkaupastjórunum.
Með fullri virðingu fyrir glæpa-
sögunni – því hana les ég líka með
ánægju – en það er sorglegt þegar
öllu er grautað saman. Ef við
berum rithöfunda saman við tón-
listarmenn þá er þetta eins og að
bera Jórunni Viðar endalaust
saman við Júróbandið.“
Aldrei fengið jafn sterk viðbrögð
við grein
Það er í takt við tíðarandann að les-
andinn er skilinn eftir í lok sögu
með óbeit í munni og „grun um
glæp“ en það er einmitt þannig
sem Auður potar í lesandann og
varpar til hans spurningum – svo
sem hvort það sé til dæmis glæpur
að vanrækja barnið sitt? Sem
blaðamaður á Nýju lífi skrifaði
Auður eitt sinn grein um stjúptengsl
og segist, hvorki fyrr né síðar, hafa
fengið önnur eins viðbrögð við
nokkurri blaðagrein. Enda málefn-
ið nátengt mörgum og viðkvæmt.
Vetrarsól er hluti af trílogíu sem
hófst með Fólkinu í kjallaranum. Í
öllum bókunum standa konur uppi
með börn sem þær eiga ekki. „Í
fyrstu bókinni minni fjallaði ég um
einstæða móður, fannst það vera
eitthvað sem ég vildi gera, verandi
dóttir einstæðrar móður og allt
það. Þetta er kannski svipað upp-
gjör núna. Ég var stjúpdóttir og
vægast sagt hræðileg sem slík,
enda sturluð úr afbrýðisemi, og á
svo stjúpdóttur sjálf sem ég er
mun heppnari með en stjúpmóðir
mín var með mig. Án gríns – ég las
til dæmis á þessum tíma bókina
Ævi og ástir kvendjöfuls eftir Fay
Weldon aftur og aftur og þóttist sjá
stjúpmóður mína þar í hlutverki
Mary Fisher. Horfði svo á kvik-
myndina og þegar Meryl Streep
birtist sá ég ekkert nema hausinn á
Margréti Frímannsdóttur, stjúp-
móður minni [fangelsisstjóra á
Litla-Hrauni]. Við hlæjum að þessu
í dag og eigum gott samband. En
þetta voru mörg ár sem ég var
erfið.“
Vitstola íslenskt fjölskyldumynstur
Við höldum áfram í stjúpu- og
stjúpaumræðunni og tabúið sem
það þó er að ræða flókið íslenskt
fjölskyldulíf. „Ég á auðvitað fullt
af vinum og vinkonum sem hafa
lent í þessari stöðu. Og það skiptir
engu hversu algengt þetta er – við
eigum samt langt í land með að
taka á þessum hlutum eðlilega. Það
er til dæmis algjörlega bannað að
verða pirraður á stjúpbarni, en
samt er ekkert eðlilegra því
auðvitað verðurðu líka pirraður á
„eigin“ barni. Það er líka eitthvað
hrikalega rangt við þessa nafngjöf:
Stjúp-foreldri. Maður kemur aldrei
í stað foreldris og einmitt það leið-
ir af sér mörg vandræðin – að
gleyma því að maður er þarna mun
frekar í hlutverki félaga en for-
eldris. Það getur ekki orðið annað
en vandræðagangur þegar nýi
kærastinn mætir með börn sem
hann á ekki í vinnuna sína, kannski
eftir nokkurra vikna kynni við þau,
eða þegar konur sem börnin hafa
hitt með föður sínum um skamman
tíma baka óumbeðnar kökur fyrir
fermingarveislu barnsins.
Samfélagið fer langt fram úr til-
finningum og getu okkar þar svo
við erum dæmd til að fara fram úr
sjálfum okkur. Þar getur skáld-
skapurinn komið inn, rýnt í grá
svæði á næmari hátt en bæði fræði
og fjölmiðlar.“
Ástandið er öllum að kenna
Persóna Vetrarsólar vaknar upp í
fáránlegum aðstæðum, í fáránlegri
vinnu og öll bókin imprar á fárán-
leikanum hér og þar. Ekki ósvipað
og þegar 1. október rann upp á
þessu ári og íslenska þjóðin var
stödd í afkáralegum veruleika.
Auði er því að lokum snúið í átt að
efnahagsástandinu. Finnur hún
sökudólga? „Ég er ekki sammála
þeim sem segja að þetta hafi ekki
verið okkur að kenna. Við vorum
orðin mjög dofin og þægindaforrit-
uð. Ef okkur vantaði í matinn,
skipti það okkur engu máli ef það
var búið að loka lágvöruverslun-
um, við fórum þá í bara í 10-11 til
að hamstra. Ef við fengum vitlaust
afgreitt til baka í búðum var
hallærislegt að rukka það sem við
áttum inni. Neytendavitundin var á
núlli – og neytendapólitík ekki til.
Það var glatað að spara og nirfils-
legt að segjast ekki ætla að gera
hitt og þetta því maður ætti lítinn
pening. Við nenntum ekki að hugsa.
Og nenntum ekki heldur að hafa
augun opin og spyrja, taka þátt í
lýðræðinu. Erum þannig séð öll
sek. En auðvitað brást öryggisnet-
ið. Þessir auðmenn, jú, jú, þeir
gerðu gloríur. En ef það hefðu ekki
verið þessir menn, þá hefðu það
verið einhverjir aðrir. Það voru
hins vegar Fjármálaeftirlitið og
Seðlabankinn sem áttu að koma í
veg fyrir að þessir hlutir gætu
gerst. Öryggisnetið átti að vera í
lagi og sá faktor er alvarlegastur.
Auk þess er stórfurðulegt að vera
með seðlabankastjóra sem er bæði
ómenntaður í hagfræði og pólitískt
skipaður. Margt virðist þó vera að
breytast til hins betra og fólk að
verða aktívara, eins og að sjá má á
mótmælafundum og borgarafund-
um. Svo má heldur ekki gleyma að
þetta er alþjóðleg krísa. Þó er ekki
hægt að ræða af neinu viti um
glæpinn ef enginn viðurkennir að
hann sé þarna til staðar. Umræðan
er svo skrítin. Á meðan það er
hrópað úr öllum áttum að glæpur
hafi verið framinn segja hásettir
aðilar bara: „Nei, þetta var allt í
lagi.“ Eins og ekkert rangt hafi átt
sér stað. Þessir aðilar segja svart
vera hvítt þótt hitt liggi í augum
uppi. Við erum búin að opna augun
og vitum um svo margt rangt í
kringum okkur – en ekki nákvæm-
lega hvernig við hendum reiður á
því. Þetta er eins og í Vetrarsól:
Grunur um glæp.“
Var erfið
stjúpdóttir
Auður Jónsdóttir er vön því að henda sér í potta
sem malla við viðkvæma suðu og sumum les-
endum finnst hún jafnvel ganga fulllangt í því
að hrófla við þeim. Júlía Margrét Alexandersdóttir
ræddi við Auði um nýjustu bók hennar Vetrarsól
og stóra og smærri glæpi.
VIÐURKENNA EKKI GLÆPINN „Umræðan er svo skrítin. Á meðan það er hrópað úr öllum áttum að glæpur hafi verið framinn
segja hásettir aðilar bara: „Nei, þetta var allt í lagi.“ Eins og ekkert rangt hafi átt sér stað. Þessir aðilar segja svart vera hvítt þótt
hitt liggi í augum uppi,“ segir Auður Jónsdóttir um þjóðfélagsástandið. FRÉTTABLAÐIÐ/VILHELM.
Ég las til dæmis á þessum tíma bókina Ævi og ástir kven-
djöfuls eftir Fay Weldon aftur og aftur og þóttist sjá stjúp-
móður mína þar í hlutverki Mary Fisher. Horfði svo á kvik-
myndina og þegar Meryl Streep birtist sá ég ekkert nema
hausinn á Margréti Frímannsdóttur, stjúpmóður minni.