Tíminn - 05.12.1982, Blaðsíða 12

Tíminn - 05.12.1982, Blaðsíða 12
SUNNUDAGUR 5. DESEMBER 1982. ■ Götulíf í París. ■ Dauðinn: Kirkjugarður í París. Fjöldi og fjölgmt í Frakklandi ■ Fyrir nokkru voru gefnar út á prenti fyrstu tölur um manntal sem tekið var í landinu í marsmánuði fyrr á þessu ári: „Recensement général de la population - 1982. Premieres estimations". Ekki eru þar birtar tölur um nema fjölda íbúa í 22 héruðum (régions) og 96 fylkjum (départements) þess sem nefnt er „France métropolitaine" og er fastlandið ásamt Korsíku, og von er á meiru innan skamms, en tilefnið er of gott til að láta hjá líða með að gera í stuttu máli yfirborðsgrein fyrir ástandi og horfum fólksfjöldans: þær systur statistík og demógrafía eru hér liðlega vaxnar, aðgengilegar og sanngjarnar í við- skiptum. Sérstök stofnun, „Institut nat- ional d’etudes démographiques“ fylgist með og kannar fólksfjöldann og hreyfingar hans, í tímarit hennar „Popu- lation“ frá í vor sæki ég talsverðar upplýsingar úr „Elleftu skýrslu um stöðu fólksfjöldans í Frakklandi“. Hagstofan franska, „Innstitut national de la Statiti- que et des Étude Économiqus", fjár- magnar og sér um svipaðar rannsóknir og gefur út handhæga handbók um „félagslegar upplýsingar" „Données sociales" sem ég nota af útgáfurnar 1978 og 1981. Mest eru þetta töflur og talnarunur, ógnarlegar við fyrstu sýn en misvitrar eftir nánari skoðun. Franskir tölfræðingar og reiknimenn eru því marki brenndir að kunna ekki annað en að hlaða upp tölum sem þeir svo samkvæmt lögmáli minnstrar mótstöðu ráða ekki við eða nenna ekki að vinna úr og tala um nema í línuritum eða á lituðum kortum og með því að þylja þær upp eftir efnisflokkum og landssvæðum í réttri tímaröð, hugsanlega með saman- burði við aðrar raðir, sem þá heitir að setja í samhengi en er lítið annað en látaglaumsslagorð kjaftaska og hugleys- ingja. Svoleiðis nokkuð og of mikil nákvæmni eru óviðeigandi og óæskilegt í sunnudagsblaði. Hinsvegar verður ekki hjá því komist að kveðja til allmargar tölur, þær eru einu sinni megin efniviður lýðfræðinnar og fólks- fjöldi er magn; núorðið í vaxandi mæli eru og tölur ein helsta uppistaða þekk- ingar og skilnings á þessum heimi sem er okkar. Ég reyni hvað ég get að gera greinina verðuga viðfangsefnisins og jafnframt þannig læsilega að lesandi fái um það þokkalega ljósa og skýra hugmynd. Múgur og margmenni: fjöldinn ■ Viðkvæðið er að íslendingar séu fáir, að miðað við fólksfjölda séu þeir eitt og annað, að tiltölulega sé eitthvað svo. Oftast er látið þar við sitja og hrist höfuðið og öxlum yppt, en einhver á vonandi eftir að fylgja eftir og rýna ofaní kjölinn á þessu atriði sem framar öðrum markar tilvist okkar sem þjóðar: við íslendingar erum fáir og megum okkar lítils í umheiminum; höfum aldrei verið fleiri en náum samt ekki fjórðung milljónar, ámóta og fámennustu fylki Frakklands. Undarlegt segja til að mynda Júgóslavar og Hollendingar sem halda áfram að segjast vera smáþjóðir, hlálegt segja Frakkar og aðrir sem teljast til stórþjóða: að svona nokkuð skuli þrífast, því löngum hefur verið ljóst og það langtum áður en farið var að hugsa í tölum og útreikningum, að fjöldi íbúa í einu ríki eða landi væru helstu auðæfi þess. Sagan er starf og starfað er með höndum og höfði; margt þarf að gera, flest er ógert, allsstaðar eru látlaust verið að.Þúsundir og þúsundir, milljónir og milljónir, milljarðar; allur þessi fjöldi, allt þetta fólk; Hvaða áhrif hefur það ekki á líf og hugmyndir, tækifæri og vonir einstaklinga að heyra til slíks margmennis, hvaða afleiðingar hefur ekki múgurinn í samskiptum og fram- vindu þjóða og þjóðfélaga? Óskiljanlegt fyrir fólk sem fætt er í og alið upp við fámenni á slíkum hjara veraldar að fæstir vita af, en viðleitninnar virði því ekki fer á milli mála að skilningur á því sem er hér og nú þarfnast þekkingar á því sem er öðruvísi, þess að líta útfyrir eigið nef. Fólksfjöldi í Frakklandi er 54.3 mill- jónir, og eru þá taldir með íbúar af útlendu þjóðerni (og þar á meðal ég sem fyllti út eyðublað í vor), um 3.5 milljónir. Frökkum þykir landið strjálbýlt, aðeins eru hundrað íbúar um hvern ferkílómetra, en líktogvíðarhafa land og saga séð til þess að byggðin sækir í suma staði en forðast aðra. Fjölbýlustu og þéttbýlustu svæðin eru héraðið Ile de France þar sem París er fyrir miðju og aftur héruðin niður með ítölsku landa- mærunum og vestur eftir Miðjarðarhaf- inu þar sem eru næststærstu borgirnar Lyon og Marseille. Á þessum lendum hefur fjölgað meira en annarstaðar síðustu tvo og þrjá áratugi og ógrynni hafa flutt úr meintu harðbýli, til að mynda margir frá héruðum fyrir miðju landi sem eiga vök að verjast og einnig að norðan frá landamærunum. Við Atlantshafið er byggð í jafnvægi, með og innaf ströndum þess fjölgar fólki eða fækkar ekki, og er sama að segja um Ermasundið. Sem sagt stöðugar breyt- ingar á milli landshluta, þyngdin flyst: til eru héruð þar sem fleiri deyja en fæðast og hvergi er laust við flutninga; þangað sem vinnan og velferðin eru, þaðan sem ekkert þykir vera að fá. Og tvímælalaust eru það borgirnar sem tæla og sveitirnar sem fæla. Eitt er „la ville“, annað „la campagne". Lítill tíundi partur þjóðarinnar hefur framfæri sitt af lanbúnaði og fjórðungur á heimili sitt í dreifbýli, í þúsundum þorpa og sveita sem ekki ná 2000 íbúum: samt eru það þó um 15 milljón manns. í borgum og þéttbýli búa hinir, allmargir á fleiri hundruð stöðum með innan við 100 þúsund íbúa, en næstum helmingur þjóðarinnar í um fimmtíu borgum þar sem íbúar eru enn fleiri. Milljónaborgir eru þær þrjár sem þegar eru nefndar og kannski má tala um sex eða átta stórborgir aðrar. Fyrir tuttugu til þrjátíu árum stóð straumurinn til borganna sjálfra, líkt og hafði verið frá miðri síðustu öld. Ennþá var pláss aflögu, en úthverfin voru þá þegar í þenslu; á sjöunda áratugnum færðust þau í aukana og síðustu tíu - tólf árin hefur fækkað í miðborgunum en fjölgað áfram í kring- um þær. í París sjálfri búa til dæmis 2.2 milljónir þessa dagana, en voru 2.3 árið 1975 og 2.6 árið 1968. Borgina ásamt úthverfum byggðu 8.3 milljónir árið 1968, 8.6 árið 1975 og eitthvað innan við 9 milljónir núna. Úthverfi flestra annarra borga hafa stækkað tiltölulega enn meira, og miðborgirnar víðast staðist betur, sumstaðar jafnvel í stað. En þetta er ekki allt: fyrir nokkrum árum var farið að tala um „áhrifasvæði" borga þar sem fólk býr en sækir mikið vinnu og þjónustu til borgarinnar. Þar fjölgar óðum og mun gera áfram auk þess sem svæðin munu stækka. París hefur til að mynda slíkan krans utan um sig, um 100 kílómetra í allar áttir. Svonefndri borg- væðingu er því engan veginn lokið, þó svo sveitir og fámenni virðist ætla að rétta sig af og streitist á móti með margvíslegum fyrirtektum við yfirlýstan stuðning ríkis og stjórnar. Tilfærslur fólks taka seint enda, þetta er spurning um mat og möguleika, hvað þú getur, hvað þú vilt, hvað þú gerir; víðast má víst vera lífvænlegt. Vöxtur og viðgangur: fjölgun Frökkum fjölgar. Sex ár eru síðan tekið var fyrir löglegan aðflutning út- lendinga til vinnu, en áður var hann talsverður og hjálpaði til. Eðlileg eða náttúruleg fjölgun sem nefnd er, að fleiri fæðast en deyja, hefur verið í landinu alla öldina, nema nokkur ár fjórða áratugarins. Um aldamótin síðustu bjuggu í landinu 40 milljónir, um miðja öldina 42 milljónir, árið 1962 46.4 milljónir, árið 1968 49.7 milljónir, árið 1975 52.6 milljónir og nú í vor þessar 54.3 milljónir. Að jafnaði nemur fjölgunin síðustu árin þetta 4-6 prómill- um, sem er svipað og í öðrum löndum Evrópu (en lægra en á íslandi sem er seinna á ferðinni eða ætlar að skera sig úr). Þessi fjölgunartala segir þó ekki alla söguna, til þess er hún of grófur mælikvarði: útreikningur á því hversu mörg börn hver kona gift og ógift muni eignast á æfi sinni gefur ástæðu til að óttast um að ekki fjölgi heldur fækki þjóðinni þegar til langs tíma er litið, hálfrar aldar eða lengra. Tvö börn eru lágmark til viðhalds fjöldanum; sjöunda áratuginn smálækkaði þessi tala úr 2.7 í 2.5, árið 1975 fór hún fyrst undir 2.0 og hefur verið þar síðan, en þó hækkað lítillega. Fæðingum hefur fjölgað allra síðustu árin, í fyrra fæddust 806 þúsund börn og höfðu ekki verið fleiri frá því 1974, fæst urðu þau 720 þúsund árið 1976, en voru 860 þúsund árið 1970. Útlitið þarf því ekki að vera slæmt, en getur verið það: sérfræðingar eru á báðum áttum og gera ráð fyrir fleiri möguleikum jafngildum í spám sínum. Gamall draugur er vakinn upp: Frakkar voru fyrstir Evrópuþjóða til að draga úr barneignum og það strax uppúr alda- mótum 1800 þegar öðrum þjóðum fór fyrst að fjölga er í auknum mæli tókst að þrengja athafnasvið dauðans. Skýringar eru vandfundnar og umdeild- ar, en fyrir vikið hættu þeir að vera langfjölmennasta ríki álfunnar og setti þar með niður í virðingu og völdum. Þeir eru enn að jafna sig á því og gera það líklegast aldrei að fullu. Þetta er því stórt mál, og margt er á seyði. Dauðinn er enn á undanhaldi - hálf milljón rúmlega deyr á ári hverju, og lengi verður hægt að vinna betur á sjúkdóm- um. Færri ungbörn deyja við og skömmu eftir fæðingu; lífslíkur lengjast jafnt og þétt, og lífið. Dauðinn (eða dauðsföll eða dánartíðni) er þó lítið atriði og næsta stöðugt síðustu tuttugu árin að árlega hefur einn af hverjum hundrað Frökkum látist og aldursskipt- ingin lítið raskast. Það eru fæðingarnar sem ráða ferðinni, þar er að finna orsakir þessa möguleika á fækkun, þessarar hættu ef svo má að orði komast. Níu af hverjum tíu börnum fæðast innan hjónabands. Hjábörnum hefur að vísu fjölgað talsvert síðustu árin, en þó ekki þannig að vegi upp á móti hinu, að færri gifta sig en áður og eignast færri börn. Giftingum hefur snarfækkað síð- ustu tíu árin, úr 400 þúsund árin 1970-1974 í 315 þúsund í fyrra, og ungt fólk - á aldrinum 18-20-25 ára giftir sig síður og seinna. Að sama skapi halda fleiri sér alveg frá barneignum, og í hjónaböndum er minna um börn. Víðtæk notkun getnað- arvarna á þar stóran hlut, hjón ráða því mikið til hvort og hvenær þau vilja eignast börn: það sem hefði getað orðið verður ekki. Sama er um fóstureyðingar, sem eru leyfðar innan tólf vikna eftir síðustu tíðir. Samkvæmt opinberum tölum var í hitteðfyrra eytt um 170 þúsund fóstrum og litlu færri árin tvö þaráundan; grunur leikur á að þar sé mjög vantalið, að hugsanlega megi hækka töluna uppí 200-250 þúsund; sem þá verður annaðhvort nálægt því þriðj- ungur eða fjórðungur miðað við fæðing- ar lifandi barna: það sem hefði orðið verður ekki. Loks er að það sem verður og er kannski ekki nóg; það þykir ekki henta að eiga mörg börn ef konan á að geta unnið úti, það er óviðráðanlegt fjárhagslega eða eitthvað. í öllum aldursflokkum kvenna hefur bameign- um fækkað og þær hætta yngri: eignast síðasta barnið frekar á aldrinum 25-29 ára en var 30-34 ára fyrir fimmtán- tuttugu áram síðan. Meðaltal í fjöl- skyldu þar sem öll börn eru þegar komin til er um 2.5 börn, og þeim konum fer fækkandi sem eiga fleiri en þrjú börn. Flestar láta sér eitt eða tvö nægja, þó einstaka viðundur eignist fimm, sex og þaðanaf fleiri. Allt leggst á eitt: Frakkar eru uppteknari af öðru en að búa til börn eða láta sér lynda of fá. Undanfarin ár og áratugi hafa Frakkar staðið betur af sér almenna þróun á fólksfjölda í Vestur-Evrópu. Sami kipp- urinn var fyrstu árin að lokinni heims- styrjöld, en aldrei var þar jafnlítil frjósemi eftir árið 1964 og hefur verið í nágrannalöndum. Að því er virðist er viðreisnin síðustu ár styrkari og von er meiri til bóta þau allra næstu. Segja má að almenningur ráði því hvað gerist, það eru íbúar landsins sem eignast börnin og móta framtíðina, en ríkið eða ríkis- stjórnin hefur engu að síður yfirlýsta stefnu, enda hagsmunir í húfi, sem er að þjóðin nái sér á strik, að henni fjölgi: offjölgunarvandinn er í öðrum heims- hlutum auk þess sem áframhaldandi fækkun fæðinga hefði alvarleg og var- andi áhrif á atvinnulíf og efnahag og raunar flest það sem einhverju máli skiptir. Endurnýjun vinnuafls (og að ekki sé talað um herafla) yrði til dæmis ekki fullnægjandi og öldrun þjóðarinnar - að fleiri og fleiri verða eldri og eldri - sem nú þegar er orðin úrlausnarefni yrði þungbær. Tæpast verður hreyft við löggjöfinni um fóstureyðingar þó uppi sé talsverð og endram og sinnum hávær hreyfing því hlynnt, né dregið úr fræðslu um getnaðarvarnir og þvíumlíkt sem væri lélegur brandari. Ráðstafanir eru helst og verða hvetjandi fjárgreiðslur til foreldra, til fjölskyldna. Eins og stendur hækka tilaðmynda slíkar upphæðir við þriðja barn, allverulega. Öllu því kerfi verður breytt frá granni á næstunni, forsetinn lýsti því yfir i ræðu nýverið: eðlilega er fjölskyldupólitík sósíalista önnur en sú fyrri stjórnar. Ég veit ekki hvað á að gera, hvað verður gert og fer ekki nánar í þær sakir, nema Frökkum á að fjölga. Már Jónsson O skrifar frá París

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.