Morgunblaðið - 17.03.2006, Blaðsíða 45

Morgunblaðið - 17.03.2006, Blaðsíða 45
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 17. MARS 2006 45 MINNINGAR Hann hafði til að bera viðkvæmni þeirra sem leita athvarfs í andanum fremur en veraldarhyggjunni og skáldlegan barnshug sem gat brugð- ið ævintýralegum ljóma á tilveruna. Hann var lifandi ímynd hins næma og sannmenntaða manns, en slíkir menn voru áður órjúfanlegur hluti íslenskrar menningar og um leið lyftistöng hennar. Þeir sem best þekktu hann og skildu vita hve miss- ir hans er óbætanlegur í þessum harða heimi sjálfshyggjunnar. Veikindi Ögmundar komu í kjölfar þess er hann var látinn víkja úr starfi sínu á safninu, aðeins nokkrum árum áður en hann færi á eftirlaun. Þótt hann sjálfur léti lítt yfir hefur það orkað á hann eins og hrottaleg árás sem hans draumlynda og vandaða eðlisfar gat ekki með nokkru móti svarað. Þetta eðlisfar hans lýsir sér vel í ljóðinu Dagdraumur, í ljóðabókinni Fardagar, sem hann gaf út árið 1970. Það á vel við nú á tímum. Draumur minn er friðarsprengja nógu öflug til að eyða sundrungu í heiminum. Ég stend með hana í höndum tilbúinn að varpa í andstæðar fylkingar þjóðanna og tundrið neistar. En vinir mínir í austri og vestri sanna mér að draumasprengjan getur ekki sprungið. Ég óska honum dýpri friðar og meiri fegurðar í öðrum heimi en þeim sem hann hefur núna kvatt. Öllum þeim sem syrgja hann sendi ég samúðarkveðjur. Berglind Gunnarsdóttir. Góður vinur er genginn, Ögmund- ur Helgason. Frá fyrstu kynnum var hann hlýr í viðmóti og skemmtilegur í viðræðu, enda gat hann ausið af ótrúlegum fróðleikssjóði. Best kynntist ég Ög- mundi þegar þau hjónin dvöldust í Kaupmannahöfn um miðjan níunda áratuginn, Ragna við nám í Kenn- araháskólanum, en Ögmundur við fræðastörf á Det arnamagnæanske Institut, þar sem ég var þá um skeið í rannsóknaleyfi. Meðal þeirra verkefna sem Ög- mundur vann að í Höfn var að bera saman óprentaða skrá Jóns Helga- sonar um íslensk handrit í British Library við myndir og filmur af handritum sem þar var lýst. Jón var sjálfur kominn á níræðisaldur, og ferðum hans á Árnasafn tekið að fækka, en Ögmundur gerðist heim- ilisvinur hans, og marga síðustu ævi- mánuði Jóns sinnti Ögmundur hon- um meira en nokkur annar óvandabundinn með vikulegum heimsóknum á spítala, Jóni til dægrastyttingar og Ögmundi sjálf- um til drjúgs fróðleiks. Kaupmannahöfn var Ögmundi kær, og í sumar sem leið, skömmu eftir að sjúkdómur hans hafði verið greindur, fóru þau hjónin með barnabörnum sínum til þess að kynna þeim borgina og skemmta þeim. Og öðru sinni á árinu, á áliðnu hausti, fóru þau til Hafnar, og þá sat Ögmundur við í viku að kanna bréf og gögn um íslenska þjóðhætti sem séra Jónas Jónasson á Hrafnagili hafði sent Dansk Folkemindesam- ling. Því fór fjarri að hann hefði lagt árar í bát. Háskólamenntun Ögmundar var á sviði íslensku og sagnfræði, og hann hafði kennt ein tíu ár við Mennta- skólann við Tjörnina og Sund fyrir Hafnarvistina, en eftir heimkomuna þaðan fékk hann starf við handrita- deild Landsbókasafns Íslands, og nokkrum árum síðar varð hann for- stöðumaður deildarinnar. Þar naut sín vel þekking hans, sem hann var ósínkur að miðla, og umhyggja hans fyrir þeim fjársjóðum sem hann varðveitti og gestum sem hann þjón- aði. Síðustu árin var hann ritstjóri Ritmenntar, ársrits Landsbókasafns og hafði skrifað greinar í flesta ár- ganga þess frá upphafi. Að fleiri verkefnum á Landsbókasafni kom Ögmundur, ekki síst hinni vönduðu og glæsilegu útgáfu Passíusálma eft- ir eiginhandarriti Hallgríms Péturs- sonar sem kom út í tilefni 150 ára af- mælis handritadeildar safnsins 1996. Fjölmargar tímaritsgreinar skrif- aði Ögmundur, einkum um söguleg efni og þjóðfræði, og þjóðfræðinám- skeið kenndi hann mörg ár í Háskóla Íslands. Greinar Ögmundar ein- kenndust af þeirri vandvirkni og smekkvísi sem voru meðal mann- kosta hans, og allt fram á síðustu ævidaga var hugur hans við fræða- starf sem hann sinnti eftir því sem dvínandi kraftar leyfðu. „Fýsnin til fróðleiks og skrifta“ var óbuguð. Sumar greina Ögmundar birtust í Skagfirðingabók, riti Sögufélags Skagfirðinga, sem hann ritstýrði um skeið, enda var hann mikill Skagfirð- ingur og hugur hans oft bundinn heimaslóðum, bæði athöfnum manna þar, landslagi og örnefnum. Eitt af áhugamálum hans var að afla fróð- leiks um og ganga sjálfur sem flestar kunnar ferðaleiðir fyrri tíða innan héraðs og til annarra sveita. Að sjálf- sögðu hafði Ögmundur gengið Helj- ardalsheiði oftar en einu sinni, en honum var umhugað um að ég fengi einnig notið þeirrar reynslu, svo að það varð úr að þau hjónin settu mér stefnu á Sauðárkróki hjá Sigríði móður Ögmundar. Eftir að hafa ver- ið flutt inn í Kolbeinsdal gengum við Ögmundur og Ragna svo upp með Heljardalsá og yfir heiðina niður í Svarfaðardal. Þetta er mér mjög hugstæður ferðadagur með birtu af sól og samferðafólki. Marga ánægjustund hef ég einnig að þakka á heimili þeirra öndvegis- hjóna, einatt í fögrum veislum, þar sem frásagnargáfa Ögmundar naut sín vel. Sérstök ánægja var þegar Ögmundur tók bók út úr hillu, því að þá var svo ljóst hvernig saman fór hjá bókamanninum áhugi á efninu og bókinni sem grip sem var metinn af næmu fegurðarskyni. Nú er sætið autt við borðsendann, og Rögnu, Helgu og Ólafi og þeirra fólki færi ég innilegar samúðar- kveðjur. Stefán Karlsson. Fornvinur minn, Ögmundur Helgason, er allur eftir erfiða bar- áttu við krabbamein í nokkurn tíma. Kynni okkar hófust á gagnfræða- skólaárum mínum á Sauðárkróki og hafa haldist æ síðan. Hugðarefni okkar voru mörg hver af sama toga og báðir lögðum við síðar stund á nám í íslensku og sögu. Á menntaskólaárum sínum kynnt- ist Ögmundur konuefni sínu, Rögnu Ólafsdóttur frá Neskaupstað, og hafa þau síðan lifað saman súrt og sætt, eignast tvö mannvænleg börn, Helgu og Ólaf, og þrjú barnabörn. Á heimili þeirra hefur verið gott að koma og þar hef ég hlýtt á fleiri góð- ar sögur úr Skagafirði en á flestum stöðum öðrum í veröldinni. Mikinn hluta starfsævi sinnar sat Ögmundur við uppsprettur sögu lið- innar tíðar ef svo má segja. Nokkur sumur vann hann á Héraðsskjala- safni Skagfirðinga og gjörðist gagn- kunnugur frumheimildum um sögu héraðsins og ritstýrði einnig um ára- bil Skagfirðingabók (riti Sögufélags Skagfirðinga). Þau hjón, Ögmundur og Ragna, voru í Kaupmannahöfn á árunum 1983–1985 þar sem Ragna var við nám við Danmarks Lærerhøjskole. Ögmundur fékkst þá meðal annars við handritarannsóknir á Árnastofn- un og vann þar til vors 1986. Eftir heimkomuna hóf Ögmundur störf við Handritadeild Landsbókasafns 1986 undir stjórn Gríms Helgasonar og gerðist smám saman gagnkunn- ugur safninu undir handleiðslu hans. Var það honum dýrmætur skóli en það vita þeir best, sem sinnt hafa handritarannsóknum, hversu miklu varðar að þekking á rithöndum og handritum berist frá manni til manns svo ekki verði þekkingarrof á þeim akri. Við fráfall Gríms varð Ög- mundur forstöðumaður Handrita- deildar Landsbókasafns og við sam- einingu Landsbókasafns og Háskólabókasafns 1994 forstöðu- maður Handritadeildar hins nýja safns. Naut hann í því starfi yfir- burða þekkingar sinnar á handritum safnsins og jafnframt kunnugleika á héraðsskjalasöfnum úti um land, og þá náttúrlega fyrst og fremst Hér- aðsskjalasafni Skagfirðinga. Einstaklega gott var að leita til Ögmundar varðandi myrka staði og torlæsilega í handritum en hann var allra manna glöggskyggnastur að greina rithendur fyrri manna og lesa úr því skrifi sem flestum öðrum virt- ist ógjörlegt að ráða fram úr. Naut ég æði oft einstakrar hjálpsemi míns gamla vinar í slíkum efnum, einkum þó í seinni tíð eftir að ég hóf vinnu á Stofnun Árna Magnússonar við út- gáfu á verkum skálda eftir siðskipti. En handrit sem geyma skáldskap þeirra eru flest varðveitt á Handrita- deild. Hygg ég að fáir ef nokkrir hafi haft jafnmikla heildaryfirsýn og þekkingu á íslenskum handritum skrifuðum eftir siðskipti og Ög- mundur. Að vonum þótti því mér og öðrum starfsmönnum Árnastofnun- ar mikill fengur að slíkum liðsauka er hann bættist í starfslið stofnunar- innar nú fyrir skömmu. En þá hafði hann þegar tekið þann sjúkdóm sem varð honum að aldurtila svo samvist- ir urðu þar ærið skammar. Allt frá því Norræna húsið var opnað hefur nokkur hópur Skagfirð- inga og fleiri Norðlinga og kunningj- ar þeirra komið þar saman á hverj- um laugardegi. Voru þar gjarnan sögð forn tíðindi og ný af heimaslóð- um. Lét Ögmundur sig þar sjaldnast vanta væri hann á annað borð stadd- ur í borginni. Var hann þar og jafnan hrókur alls fagnaðar og kunni manna best að segja sögur af landi og fólki norður þar. Ögmundur var fastbundinn átt- högum sínum í Skagafirði og unni því landi frá ystu nesjum til fremstu grasa. Í ljóðabók sinni, Fardögum, sem út kom árið 1970, lýsir hann bernskubyggð sinni svo: Þar á ég heima sem gott er að ganga með sjónum þegar nesið siglir rótt í bláu djúpinu og rauð kvöldskýin ljóma á norðurlofti unz þys bæjarins hverfur í faðm kyrrðarinnar en eyjar og fjöll rísa við himin í fylkingum suður til jökla. Þar á ég heima. Ég votta Rögnu, Helgu, Ólafi og börnum þeirra einlæga samúð, svo og systkinum Ögmundar og öðrum nákomnum. Kristján Eiríksson. Kveðja frá samstarfsfólki í handritadeild Nær hart vill dauðinn mitt hjartað slá og hæst er nauðin. Gleym mér ekki, Guð minn þá. (ópr. ÍB 70 4to, sr. Ólafur Jónsson.) Við fráfall Ögmundar Helgasonar eigum við margs að minnast og margt að þakka eftir allt að tveggja áratuga samstarf. Ögmundur var prúður maður, jafnlyndur og þægilegur í framkomu og gerði ekki mannamun. Snyrti- maður var hann í hvívetna sem glöggt mátti sjá af umgengni hans við og frágangi á viðkvæmum hand- ritum. Gestum og notendum var hann afar þægilegur og sýndi þeim mikla þjónustulund og nánast enda- lausa þolinmæði. Ögmundur var óþreytandi við að fræða, hjálpa og hvetja notendur og á með þeim hætti mun meira í ýmissi vísindavinnu en margan grunar. Þekking hans á ís- lenskum fræðum var yfirgripsmikil og þegar hún fór saman við drjúg- mikla þekkingu á handritakostinum ásamt næmi og færni til að lesa úr hverskyns skrift varð hann sá af- burðafræðari sem margir munu minnast. Fræðastörf Ögmundar einkennd- ust af nákvæmni og heiðarleika í vinnubrögðum ásamt smekkvísi í málfari. Ögmundur var ötull og óþreytandi að hafa uppi á og viða að safninu handritum og öðrum einka- gögnum og jók með því verulega handritakostinn. Svipað má segja um handbókakostinn. Hann óx stórum í tíð Ögmundar en stundum var kalsað með að þar gætti nokk- urrar skagfirskrar slagsíðu, enda fór hann ekki dult með ást sína á upp- runa sínum og bernskuslóðum. Hann var skagfirskur að uppruna og taug- arnar til Skagafjarðar voru ætíð sterkar. Þar undi hann sér best í frí- stundum, við gönguferðir „í fjöllun- um mínum“ eins og hann orðaði það svo oft sjálfur. Fjölskyldan var Ög- mundi festan í lífinu og best naut hann sín í nærveru barnabarnanna. Margs er að minnast úr dagsins önn en skýrast stendur þó í endur- minningunni ferð fyrir réttu ári þeg- ar við snæddum hádegisverð saman fjögur og þökkuðum um leið hvert öðru langt og gott samstarf í hand- ritadeild. Þar var margt rifjað upp og þar naut sín sem oft áður einkar skemmtileg frásagnargáfa Ögmund- ar. Að leiðarlokum viljum við þakka góðum vini og ljúfmenni áralangt samstarf. Megi minning hans lengi standa. Sjöfn, Eiríkur og Kári. Við kveðjum nú merkan mann og mætan vin, Ögmund Helgason. Ég læt öðrum eftir að rekja starfsferil hans og frábæra fræðimennsku en eins verð ég þó að geta. Engan hef ég þekkt sem bjó yfir jafnmikilli þekk- ingu og næmi á íslenskum lýsingar- orðum og hárfínum blæbrigðum þeirra og betri yfirlesara en hann er ekki hægt að hugsa sér. Við Ragna kona hans störfuðum saman við Melaskóla á árunum 1970–1978. Vinátta okkar hófst á þessum árum og á hana hefur aldrei fallið skuggi. Þegar Gunnlaugur eig- inmaður minn féll frá 1992 reyndust þau Ragna og Ögmundur mér ómet- anleg. Minningarnar um allar þær góðu stundir sem við áttum saman streyma nú fram. Ögmundur kunni að miðla fræðum sínum á skemmti- legan og gefandi hátt. Aldrei skorti umræðuefni þar sem hann var. Ög- mundur var dálítið sérvitur eins og margir fræðingar eru. Við hentum oft gaman að því í matarboðum í vinahópnum þegar Ögmundur horfði óöruggur á framandi rétti og spurði Rögnu: „Ragna mín, borða ég þetta?“ „Finnst mér þetta gott?“ Ögmundur var mikill fjölskyldu- maður og einstakur afi. Það er sárt til þess að hugsa að barnabörnin þrjú, Ragna, Þórhildur og Ingimar, fái ekki lengur að njóta umhyggju hans og leiðsagnar. Ragna fær nú það hlutverk að vera bæði afi og amma og það mun hún gera vel eins og allt annað sem hún gerir. Það var aðdáunarvert að fylgjast með um- hyggju hennar og stuðningi við Ög- mund í erfiðri baráttu og þar stóð fjölskyldan þétt saman. Ég kvaddi Ögmund nokkrum dög- um áður en hann lést. Hann var fár- veikur og ljóst hvert stefndi. Þótt augu hans horfðu inn í óræða vídd var stutt í húmorinn og enn var sleg- ið á létta strengi. Þannig var Ög- mundur og þannig mun hann lifa í minningu okkar sem nutum þeirra forréttinda að eiga hann að vini. Ögmundur er hlaupinn á undan eins og honum var títt í gönguferð- um. Trúum því að einhvers staðar staldri hann við og bíði ferðafélaga sinna sem eru seinni í förum. Ég og fjölskylda mín vottum Rögnu, Helgu, Óla og fjölskyldum þeirra dýpstu samúð. Erla Kristjánsdóttir. Samstarfsmaður minn og vinur, Ögmundur Helgason, er látinn langt fyrir aldur fram. Ég kynntist Ögmundi fyrst þegar við sátum saman í nefnd til undirbúnings sameiningar Landsbókasafns og Háskólabókasafns. Ögmundur var formaður nefndarinnar sem fjallaði um varðveislumál í nýja safninu og valdi ævinlega fundarstaðinn sem var oftar en ekki kaffistofa Nor- ræna hússins. Þessir fundir voru ekki aðeins gagnlegir, heldur einnig skemmtilegir og notalegir, því Ög- mundur bjó yfir miklum fróðleik sem hann miðlaði óspart til okkar hinna með þeirri kímni sem hon- um var eðlislæg. Síðar störfuðum við saman í Þjóðarbókhlöðu í rúm- an áratug. Ögmundur var for- stöðumaður handritadeildar lengst af en var fluttur til í starfi síðla árs 2003 og gerður að útgáfu- stjóra safnsins. Starf hans sem út- gáfustjóra var síðan illu heilli lagt niður en Ögmundur þá ráðinn til starfa við Stofnun Árna Magnús- sonar. Þar missti safnið ómetan- legan fræðimann úr röðum starfsmanna. Við sem vorum for- stöðumenn deilda safnsins fyrstu níu árin áttum saman margar ánægjustundir, bæði í vinnunni og utan. Einu sinni á ári hittumst við til skiptis heima hjá einum úr hópnum og snæddum kvöldverð saman. Það var ekki síst Ögmundi að þakka hve glatt var á hjalla þau kvöld. Ég minnist Ögmundar sem góðs vinnu- félaga og mikilvirks fræðimanns, en fyrst og fremst sem prýðilegs vinar. Ég votta Rögnu og fjölskyldunni mína dýpstu samúð. Áslaug Agnarsdóttir. Það er gott að geta átt sér þá minningu um samstarfsmann að hann hafi verið drengur góður. Þannig reyndist Ögmundur Helga- son okkur alla tíð. Til hans var gott að leita, hann hlustaði vel, íhugaði málin betur en margur gerir og kunni skil á fjölmörgu. Við minn- umst margra ánægjustunda á liðn- um árum við ýmis tækifæri, bæði í Safnahúsinu við Hverfisgötu og Þjóðarbókhlöðunni. Ögmundur var mikið prúðmenni, lét lítið yfir sér, en gjörhugull og mikill fræðimaður. Hann var góðlát- lega glettinn, vinsæll og vinmargur. Ótímabært fráfall hins látna heið- ursmanns er harmsefni og minn- umst við hans með þakklæti og virð- ingu. Rögnu, eiginkonu hans, börnum og barnabörnum og öðrum ástvin- um sendum við innilegustu samúð- arkveðjur. Svanfríður Óskarsdóttir og Borghildur Stephensen. Við andlát Ögmundar Helgasonar verður mér að vonum hugsað til þeirra ára, er við unnum saman í Landsbókasafni. Hann hafði unnið um árabil í Árnastofnun í Kaup- mannahöfn, en var við heimkomuna til Íslands settur 1. janúar 1986 bókavörður í handritadeild Landsbókasafns, tók þar til starfa 1. apríl um vorið. Árið 1985 höfðu birzt eftir hann í Árbók safnsins áður óbirt bréfaskrif Jónasar Hallgrímssonar og bréf, er hann varða, sem Ögmundur hafði búið til prentunar. Grímur M. Helgason varð for- stöðumaður handritadeildar 1. des. 1967, tók við því starfi af Lárusi H. Blöndal, er þá tók við embætti borgarskjalavarðar. Grímur stýrði deildinni rúm 20 ár eða þangað til hann féll frá eft- ir alvarleg veikindi 26. des. 1989. Hann var mjög vinsæll bæði meðal starfsfólksins og gesta safnsins, er minntust hjálpsemi hans, hvort heldur var til að finna það, er þeir leituðu að, eða ráða fram úr torræðum stöðum. Við komu Ögmundar að deild- inni tókst brátt gott samstarf hans og þeirra Gríms, svo að við blasti, að honum yrði falin forsjá deildarinnar við fráfall Gríms. Ögmundur var hneigður til rit- og fræðistarfa, og í Árbók Landsbóka- safns 1989 birtist eftir hann greinin Upphaf að söfnun íslenzkra þjóð- fræða fyrir áhrif frá Grimmsbræðr- um, er lýsir vel áhuga hans á þjóð- sögum og söfnun þeirra. Síðasta verkefni Ögmundar í Landsbókasafni var sú umsjón, er honum var falin með útgáfu Rit- menntar, tímarits safnsins, er fór honum mjög vel úr hendi, bæði að því er sneri að aðdráttum hans, um- fjöllun og vönduðum frágangi. Ég votta að lokum ekkju Ög- mundar og börnum þeirra innilega samúð við fráfall hans, um leið og ég sakna vinar í stað. Finnbogi Guðmundsson.  Fleiri minningargreinar um Ög- mund Helgason bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga. Höfundar eru: Óskar Guðmunds- son; Auðunn Bragi Sveinsson; Sveinn Ólafsson; Ólafur Ásgeirsson; Guðmundur Sæmundsson; Einar Sigurðsson; Terry Gunnell; Sölvi Sveinsson; Jón M. Ívarsson; Vé- steinn Ólason; Francois Xavier Dill- mann; Róbert H. Haraldsson; og Aðalsteinn Davíðsson.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64
Blaðsíða 65
Blaðsíða 66
Blaðsíða 67
Blaðsíða 68

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.