Morgunblaðið - 17.08.2006, Síða 23
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 17. ÁGÚST 2006 23
J
ónína hefur verið iðin við að
ferðast um landið, halda fundi
og ræða við flokksmenn eftir
að hún tilkynnti framboð sitt
til varaformanns Framsókn-
arflokksins 10. júlí sl. Kvöldið
fyrir viðtal okkar var hún að
koma að vestan þar sem hún
fundaði á Hólmavík, Hvammstanga, Pat-
reksfirði og Ísafirði. Fyrir utan að hitta
flokksmenn, hlusta á þeirra sjónarmið og
lýsa sinni framtíðarsýn fyrir flokkinn hefur
Jónína verið að kynna sér verksvið um-
hverfisráðuneytis en þar tók hún við stjórn-
taumunum um miðjan júnímánuð. Þrátt fyr-
ir mikil ferðalög segist Jónína alltaf hafa
jafn gaman af að hitta flokksmenn og henni
hafi jafnan vel verið tekið.
„Framsóknarmenn eru félagsvant, skyn-
ugt fólk og skynsamt og valið á forystusveit
er í þeirra höndum,“ segir Jónína þegar
blaðamaður spyr um ferðalögin og fund-
armenn. „Þegar ég var búin að gefa út til-
kynninguna um framboð mitt fannst mér
eðlilegt næsta skref að fara og hitta flokks-
menn, og þá einnig vegna þess að ég var
nýtekin við ráðuneytinu.“
Jónína segir fundina hafa verið góða,
skemmtilega og afar gagnlegt hafi verið að
heyra sjónarmið framsóknarmanna um land
allt. „Það er fróðlegt þegar fólk er að huga
að framtíð flokksins, hver hún verður og
hvaða forysta er líklegust til að efla flokk-
inn og skapa honum nýja ásýnd. Menn eru
að velta mörgu fyrir sér, s.s. kynjaskiptingu
og dreifbýlis- eða þéttbýlismálum,“ segir
Jónína. Hún nefnir einnig að hún hafi heyrt
það sjónarmið varðandi kynslóðaskiptin í
forystunni að hægt sé að tala jafnt um líf-
aldur og einnig um lengd þingsetu. „Frá því
sjónarhorni er Jón Sigurðsson af nýrri kyn-
slóð og ég skipa þá einnig þann hóp „nýrrar
kynslóðar.““
Jónína sem er lærður lögfræðingur segist
hafa byrjað í pólitík fyrir mikla hvatningu
en hún hafði áður unnið mikið að skóla-
málum. „Ég var meðal annars formaður
Heimilis og skóla í sjö ár og áður formaður
Landssamtaka foreldrafélaga leikskóla.
Eins hafði ég unnið mikið að jafnrétt-
ismálum og sérstaklega að eflingu atvinnu-
reksturs kvenna, undirbjó ásamt hópi góðra
kvenna Félag kvenna í atvinnurekstri
(FKA) og var jafnframt fyrsti formaður
þeirra samtaka. Það var því vegna brenn-
andi áhuga á þessum málum og öðrum vel-
ferðarmálum sem ég ákvað að taka þetta
skref og tók fyrst þátt í prófkjöri árið
1999.“
Þrátt fyrir að hafa ekki verið lengi í póli-
tík hefur Jónína verið þingmaður Fram-
sóknarflokksins í rúm sex ár og sinnir nú
starfi umhverfisráðherra.
– En varstu alveg ákveðin frá upphafi að
bjóða þig fram til varaformanns þegar ljóst
varð um afsögn Halldórs Ásgrímssonar?
Íhugaðirðu jafnvel formannsembættið?
„Þegar það lá fyrir að Halldór ætlaði að
hætta þá fékk ég mjög mikla hvatningu, og
þá til að bjóða mig fram til formanns. Ég
velti þessu auðvitað fyrir mér enda hef ég
mikinn metnað fyrir hönd flokksins og vil
leggja mitt af mörkum til að efla Fram-
sóknarflokkinn á allan hátt. Hins vegar sá
ég þegar Jón Sigurðsson gaf kost á sér að
þar var kominn maður sem öðrum fremur
gat safnað flokknum saman, þannig að hann
yrði samstiga og liðsheildin sterkari. Þá fór
ég að velta fyrir mér öðrum forystusætum,
og þar sem það lá fyrir að bæði sitjandi
varaformaður og ritari hugsuðu sér til
hreyfings var eðlilegt að aðrir gerðu það
einnig.“
Fékk mikla hvatningu frá
flokksmönnum af öllu landinu
Mótframbjóðandi Jónínu er sitjandi vara-
formaður flokksins, Guðni Ágústsson, en
bæði buðu þau sig einnig fram þegar síðast
var kosið um embættið árið 2001. Þá vann
Guðni sæti sitt með töluverðum yfirburðum,
hlaut rúmlega 60% atkvæða, en Jónína
hafði þá aðeins verið þingmaður í eitt ár.
– Hvað hefur breyst frá því fyrir fimm
árum þegar þið Guðni kepptuð síðast um
embætti varaformanns?
„Þá var ég nýkomin inn í pólitíkina. Ég
fékk vissulega mikinn stuðning þá en ekk-
ert í líkingu við það sem ég hef fengið núna.
Þá voru ekki margir sem töldu mig sig-
urstranglega þegar ég gaf kost á mér en
mér þótti rétt að gefa flokksmönnum val og
er að gera það aftur núna. Núna bý ég að
rúmlega sex ára reynslu sem þingmaður og
svo skulum við ekki gleyma því að við sem
komum seinna inn í pólitíkina, og erum ekki
alin upp í henni, höfum öðlast okkar mennt-
un og reynslu, bæði lífsreynslu og starfs-
reynslu, annars staðar og færum hana inn á
vettvang stjórnmálanna.“
– Guðni þykir sterkur andstæðingur sem
nýtur mikils fylgis, sérstaklega á lands-
byggðinni. En þú ert hvergi bangin?
„Nei, mér heyrist á flokksmönnum að
þeir telji það mjög óljóst hvernig nið-
urstaðan verður. Guðni er sitjandi varafor-
maður en hans kjörtímabil rennur út núna á
flokksþinginu. Hann hefur setið í fimm ár
og nýtur fylgis víða um land og það geri ég
einnig. Ég hef fundið fyrir miklum meðbyr
og hefði ekki farið út í þetta nema fyrir
mikla hvatningu, ekki aðeins frá framsókn-
armönnum í Reykjavík heldur alls staðar af
landinu. Það er til marks um að fólk vill sjá
aðra og nýja ásýnd flokksins og breyttar
áherslur við þessi kaflaskil sem nú verða,“
segir Jónína og bætir við að núverandi for-
ysta Framsóknarflokksins hafi haft tæki-
færi til að stilla saman strengina og styrkja
stöðu flokksins. „Nú standa flokksmenn
frammi fyrir því að leggja mat á frammi-
stöðu forystunnar, velja nýja forystu og er
framtíð flokksins í þeirra höndum.“
Fer fram á eigin forsendum
– Mikið hefur verið rætt um kosninga-
bandalög frambjóðenda í fjölmiðlum að und-
anförnu. Hvernig sérðu þessi mál, eru
bandalög frambjóðenda á milli?
„Ég fer fram fullkomlega á eigin for-
sendum og ekki í bandalagi við neinn. Það
skiptir öllu máli að forystan sé samstiga,
þess vegna hef ég horft til Jóns Sigurðs-
sonar. Ekki síst vegna þess að hann er að
koma nýr inn í þennan hóp og í starf fyrir
flokkinn á þessum vettvangi. Hann hefur
ekki verið aðili að neinum átökum eða
ágreiningi innan flokksins og er þess vegna
vel til þess fallinn að skapa þá liðsheild sem
við þurfum á að halda. Að öðrum ólöstuðum
tel ég hann hafa það fram yfir aðra,“ segir
Jónína. „Ég tel hann hafa það sem þarf og
tel auk þess að flokkurinn geti notið fyrri
reynslu og starfa Jóns.“
– Mikið hefur verið rætt um gengi Fram-
sóknarflokks í liðnum sveitarstjórnarkosn-
ingum. Er hægt að segja að fylgið hafi
hrunið af flokknum á undanförnum árum?
Hvaða hugmyndir hefur þú til þess að
styrkja innviði flokksins og auka fylgi?
„Það er ekki hægt að segja að fylgið hafi
hrunið vegna þess að þetta er svona eins og
í lífinu sjálfu, það skiptast á skin og skúrir.
Það heldur enginn stjórnmálaflokkur fylgi
sínu óbreyttu áratugum saman og við höf-
um bæði átt meira og minna fylgi en mælist
nú. Eins og er, þá er ljóst að markmiðið
hlýtur að vera að auka fylgi flokksins og ég
er reiðubúin til að taka virkan þátt í þeirri
sókn.
Innra starf flokksins og uppbygging er
fyrst og fremst verk- og ábyrgðarsvið rit-
ara, en auðvitað þarf öll forystan að vinna
samhent að því. Eitt af því sem þarf að
gera er að styrkja liðsheildina. Ég vil stuðla
að því að svo sé og tel mig geta gert það.
Það held ég að verði einnig til þess að auka
fylgi flokksins,“ segir Jónína sem telur afar
mikilvægt að efla traust á Framsókn-
arflokknum, auka virðingu hans og styrkja
sjálfsmynd flokksmanna. „Við þurfum að
endurvekja það mikla traust sem kjósendur
hafa lengstum haft á Framsóknarflokkn-
um.“
– Sérðu fram á einhverja breytingu á
stefnumálum hjá Framsóknarflokknum til
að byggja upp þetta traust?
„Ekki á stefnumálunum sem slíkum.
Stefnan er ákveðin á flokksþingi sem er
æðsta vald í málefnum flokksins. Hins veg-
ar eru flokksmenn ekki á eitt sáttir um
hversu vel þeim hefur verið fylgt eftir.
Sumir kenna stjórnarsamstarfinu um en ég
er stolt af verkum þessarar ríkisstjórnar og
öllu því sem hefur áunnist. Mörgum flokks-
mönnum finnst auk þess Framsókn-
arflokknum ekki hafa verið þakkaður góður
árangur til jafns við samstarfsflokkinn.
Markmiðið er að efla flokkinn og við viljum
auk þess sjá að við njótum þessa góða
stjórnarsamstarfs og árangursins sem það
hefur skilað þjóðinni.“
– En ef ekki þarf til breytingu á stefnu-
málum, hvað þarf að gera?
„Við framsóknarmenn sitjum oft undir
því að hugmyndafræði okkar sé óljós. Sam-
fylkingin kennir sig við jafnaðarstefnu og
stéttarbaráttu og Sjálfstæðisflokkurinn við
einstaklingsframtakið. Hins vegar virðist
oft vera óljósara í hugum fólks hver sé
meginhugmyndafræði framsóknarmanna.
Við þurfum að skerpa á hugmyndafræðinni
og áherslum flokksins fyrir kjósendur því
Framsóknarflokkurinn á síst minna erindi
til kjósenda en hann hefur átt frá upphafi.
Við eigum okkar hlut í velmeguninni sem
við búum við í dag og sannarlega hefur vel
tekist til á undanförnum árum við uppbygg-
ingu á öllum sviðum velferðarmála.“
– En nú er fylgi flokksins fremur bágbor-
ið á höfuðborgarsvæðinu. Er til að mynda
ekki þörf á að gera góðan skurk í fylgi-
ssöfnun þar?
„Á Stór-Reykjavíkursvæðinu, og innan
eins til tveggja klukkustunda aksturs-
fjarlægðar þaðan, búa um 70% þjóðarinnar.
Á því svæði hefur mikil fólksfjölgun orðið
en fylgi flokksins hefur að sama skapi ekki
aukist. Þannig að það er alveg ljóst að þar
eru sóknarfærin og það er þar sem við
þurfum að auka fylgi okkar.“
Flokksmenn vilja sjá fólk með
sem ólíkastan bakgrunn
Flokksþing Framsóknarflokksins verður
sett á Hótel Loftleiðum nk. föstudag, en
sjálfar kosningarnar verða hins vegar
haldnar á laugardag. Framkvæmdin er
þannig að fyrst er kosið til embættis for-
manns, þegar niðurstaða formannskjörsins
liggur fyrir er kosið til varaformanns og að
lokum þegar niðurstaða liggur fyrir þar fer
fram kosning til ritara.
– Nú eru konur í framboði í allar þrjár
stöður. Sérðu möguleika á því að forystu-
sveit Framsóknarflokksins muni aðeins
verða skipuð kvenmönnum? Hver er ákjós-
anlegasta kynjaskiptingin?
„Við skulum ekki útiloka neitt, en hins
vegar hefur mér fundist mjög athyglisvert
þegar ég hef fundað með flokksmönnum að
karlmenn hafa viðurkennt að það sé nauð-
synlegt að það sé kona í forystusveitinni.
Þeir tala gjarnan um að það geti verið tveir
karlmenn og ein kona en virðast síður gera
ráð fyrir tveimur konur og einum karli og
þaðan af síður að sjá þrjár konur skipa for-
ystusveit flokksins.
Ég ætla að flokksmenn vilji sjá fólk með
sem ólíkastan bakgrunn, en fyrst og fremst
hæfustu einstaklingana í forystusveit
flokksins.“
„Þetta er hópstarf og hópurinn þarf
samstiga forystu“
– Ef við gefum okkur að þú lútir í lægra
haldi á nýjan leik – hver eru þá næstu skref
hjá Jónínu Bjartmarz?
„Þegar maður býður sig fram hlýtur mað-
ur að gera ráð fyrir hvoru tveggja, að sigra
eða tapa. Auðvitað gaf ég kost á mér með
það að markmiði að ná kjöri en hver svo
sem niðurstaða forystukjörsins verður þá er
ég ekki á leiðinni að hætta í pólitík. Ég er
búin að starfa á þessum vettvangi í til-
tölulega stuttan tíma, miðað við marga, og
hef í hyggju að fara fram í næstu kosn-
ingum,“ segir Jónína sem segir pólitíkina
vera hópstarf og það verði að hugsa um
liðsheildina.
„Það kemur í ljós á laugardaginn hverja
fulltrúar Framsóknarflokksins á þinginu
telja hæfasta til að skipa forystusæti í
flokknum með hagsmuni hans og framgang
að leiðarljósi.“
Efla þarf traust flokksins
Jónína Bjartmarz umhverf-
isráðherra býður sig fram til
varaformanns Framsókn-
arflokksins, gegn Guðna
Ágústssyni, sitjandi varafor-
manni, en kosið verður á
flokksfundi Framsóknar á
Hótel Loftleiðum nk. laug-
ardag. Andri Karl ræddi við
Jónínu í ráðuneyti hennar um
framboðið, Framsóknarflokk-
inn og framtíðina.
Morgunblaðið/Ásdís
„Svo skulum við ekki gleyma því að við sem komum seinna inn í pólitíkina, og erum ekki alin upp í henni, höfum öðlast okkar menntun og
reynslu, bæði lífsreynslu og starfsreynslu, annars staðar og færum hana inn á vettvang stjórnmálanna,“ segir Jónína Bjartmarz.
andri@mbl.is