Morgunblaðið - 03.02.2007, Page 40
|laugardagur|3. 2. 2007| mbl.is
Eftir Ingveldi Geirsdóttur
ingveldur@mbl.is
„ÉG geri ekki kvikmyndir til að öðl-
ast vinsældir en það er alltaf
ánægjulegt þegar aðrir kunna vel
við það sem maður gerir,“ segir am-
eríski leikstjórinn Todd Field um
velgengni nýjustu kvikmyndar sinn-
ar, Little Children, sem nú er sýnd í
bíóhúsum hérlendis. Þrátt fyrir alla
þá góðu dóma og verðlaunatilnefn-
ingar sem myndin hefur hlotið er
Field ekkert nema hógværðin þegar
blaðamaður á símaspjall við hann til
Los Angeles á dögunum.
Little Children hefur verið til-
nefnd til rúmlega tuttugu verðlauna
að undanförnu, þar á meðal til
þrennra Óskarsverðlauna, og unnið
til ellefu verðlauna á hinum ýmsu
verðlaunahátíðum.
Field fékk m.a Óskarsverðlauna-
tilnefningu fyrir besta handrit unn-
ið eftir sögu en árið 2001 var hann
tilnefndur til tvennra verðlauna fyr-
ir mynd sína In the Bedroom sem
fékk einnig mjög góða dóma á sín-
um tíma. Hann segir að það sé ekki
slæm tilfinning að vera tilnefndur
til Óskarsverðlauna aftur en nokkuð
óraunverulegt.
„Þá, sem vinna við kvikmynda-
gerð, dreymir alla um að verða til-
nefndir til Óskarsverðlauna og fólk
sem vinnur ekki við kvikmyndir
dreymir líka um að fá ósk-
arsverðlaunatilnefningu. Þetta er
frábært og ég er yfir mig ánægður,“
segir Field sem ætlar að mæta á
hátíðina ásamt eiginkonu sinni og
börnum. Hann býst samt ekki við
að vinna verðlaunin fyrir besta
handritið.
„Ég vona ekki. Ég kann vel við
það að vera tilnefndur en ég vil ekki
vinna, tilhugsunin um að fara upp á
svið og þurfa að flytja hina full-
komnu ræðu á 60 sekúndum er
hræðileg,“ segir hann og hlær dátt.
Ekki trúir bókinni
Little Children er byggð á sam-
nefndri bók eftir Tom Perrotta, sem
skrifaði handritið að myndinni með
Field.
„Ég og Perrotta unnum handritið
í náinni samvinnu. Við vorum báðir
með sterkar hugmyndir um það
hvernig við vildum hafa myndina
svo hún gæti staðið ein. Það var
sumt í bókinni sem við héldum fast í
en svo var annað sem við breyttum,
við vildum ekki hafa þetta kvik-
myndaútgáfu af bókinni.
Þegar fólk hefur lesið bók verður
það yfirleitt fyrir vonbrigðum með
mynd sem er gerð eftir henni vegna
þess að sem lesandi býr maður
myndina til í eigin huga. Það er
partur af ástæðunni fyrir því að ég
og Perrotta ákváðum að vera ekki
mjög trúir bókinni. Við vildum gefa
fólki eitthvað ferskt og nýtt.“
Í Little Children eru sagðar
nokkrar samhliða sögur úr litlu
hverfi á Nýja-Englandi þar sem líf
nokkurra einstaklinga skarast á
leikvöllum, sundlaugum og götum, á
óvæntan og jafnvel hættulegan hátt.
Sarah, sem er leikin af Kate Wins-
let, er heimavinnandi menntakona.
Á leikvellinum sem hún fer með
dóttur sína á kemst hún í kynni við
lögfræðinemann Brad, sem leikinn
er af Patrick Wilson, en hann kem-
ur þangað með son sinn. Það er
tómarúm í lífi þeirra beggja og þau
leita á endanum lífsfyllingar í faðmi
hvort annars. Einnig kemur við
sögu barnaníðingurinn McGovey,
leikinn af Jackie Earl Haley, sem er
tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir
leik sinn, og mislukkaði fyrrverandi
lögreglumaðurinn Larry, leikinn af
Noah Emmerich, sem hefur tekið
að sér hlutverk dómstóls götunnar.
Að mati blaðamanns virðast per-
sónurnar í myndinni allar vera á
einhverjum stöðnuðum tímapunkti í
lífi sínu, eins og þær fullorðnist
ekki, og Field tekur undir það.
„Við hittum þær yfir þriggja
mánaða tímabil og á ákveðnu stigi í
lífi þeirra. Engin af aðalpersónun-
um veit í raun og veru hver hún er
og spurningin er hvort þær muni
finna sjálfar sig.
En það er skrýtinn aldur að vera
um þrítugt í Ameríku eins og Sarah
og Brad og því eru þau kannski í
þessari leit. Um þrítugt á maður að
vera orðinn fullorðinn en á síðustu
árum í þessu landi hefur æskudýrk-
un aukist svo mikið að það vill eng-
inn eldast lengur og bera ábyrgð á
öðrum en sjálfum sér.“
Dómstóll götunnar
Það er ýmislegt í myndinni sem
speglar samfélagið í Bandaríkj-
unum og jafnvel það sem er að ger-
ast á Íslandi um þessar mundir;
þegar almenningur tekur að sér
hlutverk dómstóls götunnar og ætl-
ar að fullnægja réttlætinu án dóms
og laga.
„Ég las bók Perrotta árið 2003 og
þá var mikið um svipað brjálæði og
kemur fram í bókinni hér í Banda-
ríkjunum, og er ennþá. Fólk gerir
ýmislegt sem byggt er á litlum upp-
lýsingum, það er óhrætt við að
dæma hvert annað og taka sér hlut-
verk lögvaldsins.
Í myndinni eru persónur að berj-
ast við eigin dómgreind og að dæma
aðra. Ég las bók Perrotta sem mjög
pólitíska líkingasögu og ég held að
það hafi verið stór ástæða fyrir að-
dáun minni á henni,“ segir Field
sem tekur ekki undir það að hann
hafi verið að reyna að koma ein-
hverjum skilaboðum á framfæri í
myndinni, heldur segir að hann hafi
aðeins verið að reyna að fá fólk til
að hugsa og líta í eigin barm.
Breska leikkonan Kate Winslet
er vinsæl í dag og er Óskars-
verðlaunatilnefning hennar sem
besta leikkonan fyrir leik hennar í
Little Children sú fimmta á stuttum
ferli hennar. Er hún yngsta leik-
konan sem tilnefnd hefur verið
fimm sinnum.
„Ég valdi Winslet í þetta hlutverk
eftir að hafa séð hana í Eternal
Sunshine of the Spotless Mind. Mér
fannst frammistaða hennar þar
óvenjuleg og sýna augljóslega að
hún gæti leikið unga ameríska konu
án vandræða. Það var í fyrsta sinn
sem ég sá hana í mynd og hún held-
ur manni í ójafnvægi allan tímann
sem persónan Clementine. Winslet
var sú fyrsta sem ég bað um að fara
með þetta hlutverk og hún sagði
strax já, sem mér fannst frábært
því það er yndislegt að vinna með
henni.“
Todd og Todd
Það vakti athygli blaðamanns að
Brad, persóna Wilsons í myndinni,
heitir í raun og veru Todd í bók
Toms Perrotta. Þegar Field er
spurður hvers vegna hann vildi ekki
hafa nafna sinn í myndinni hlær
hann.
„Það var bara af hagnýtum
ástæðum. Þegar verið er að taka
upp kvikmynd er fólk alltaf að kalla
nafn hvert annars og það hefði orðið
martröð að hafa tvo sem hétu Todd.
Persóna Patricks Wilsons er með
stærsta hlutverkið í myndinni og
hann vann mest svo það hefði stöð-
ugt verið öskrað „Todd“ og ég hefði
orðið brjálaður eftir þriggja mánaða
tökutíma.“
Næsta mynd í bígerð
Little Children var frumsýnd í
Bandaríkjunum í byrjun október á
síðasta ári og Field segir að þegar
hann hætti að vinna við kynningar á
henni ætli hann að halda áfram að
vinna að kvikmyndahandriti sem
hann er að skrifa. Hann vill ekkert
segja til um hvort það sé handrit að
hefðbundinni Hollywood-mynd eða
eitthvað í anda þess sem hann hefur
gert hingað til.
„Ég vona að ég eigi aldrei eftir að
gera hefðbundna Hollywood-mynd.
Annars er ég ennþá að vinna hand-
ritið að næstu mynd minni svo ég
veit ekki hvert hún stefnir, hún
gæti jafnvel endað sem einhver
klisja.“
Field segir að kvikmynda-
framleiðendur í Hollywood sláist
ekki um hann þrátt fyrir velgengn-
ina.
„Það er nóg af fólki hérna til að
ráða í vinnu og ég held að enginn
veiti mér neitt sérstaklega mikla at-
hygli. Mér finnst gaman að leika en
ég ætla úr þessu að halda mig á bak
við myndavélina, þar vil ég frekar
vera,“ segir Field, sem fór m.a. með
hlutverk píanóleikarans Nicks Nig-
htingale í Stanley Kubrick-
myndinni Eyes Wide Shut.
Vinsæll en vill enga athygli
Týnd Kate Winslet og Patrick Wilson í hlutverkum sínum sem hin týndu Sarah og Brad í Little Children.
Hógvær Todd Field er hæfileikaríkur leikstjóri sem og leikari en vill úr
þessu halda sig á bak við myndavélina, þar sem hann kann best við sig.
Leikarinn og leikstjórinn Todd Field vonar að hann vinni ekki til Óskarsverðlauna, en nýjasta mynd
hans, Little Children, er tilnefnd til þrennra verðlauna, meðal annars fyrir besta handritið.
staðurstund
Flóki Guðmundsson fjallar um
rithöfundinn dularfulla, Alonso
Fernández frá Avellaneda og
bók hans Falska Kíkóta. » 41
af listum
Bjarni Thor Kristinsson syngur
í Salnum í Kópavogi í dag við
undirleik Jónasar Ingimund-
arsonar píanóleikara. » 41
tónlist
Síðasti riðill í Söngvakeppni
Sjónvarpsins fer fram í kvöld en
átta lög keppast um að komast
á úrslitakvöldið. » 43
sjónvarp
Það jafnast á við dauðadóm, er
Danir okkur vinna. Botnar ósk-
ast við þessum fyrriparti í þætt-
inum Orð skulu standa. » 42
útvarp
Leikarinn Vince Vaughn er sagð-
ur reyna allt til að byrja aftur
með Jennifer Aniston og vill
eignast með henni barn. » 42
fólk