Morgunblaðið - 07.10.2007, Side 40

Morgunblaðið - 07.10.2007, Side 40
bókmenntir 40 SUNNUDAGUR 7. OKTÓBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ Á ströndinni Ferðbúinn er bátur þinn í fjörunni, farkostur kominn til ára sinna. Hann er því miður lekur og þér lízt ekki meira en svo á hann enda hefurðu vanrækt viðhaldið. Hann er augsýnilega ónýtt hafskip og ekkert annað en bréfbátur úr muskulegum Moggapappír með minningargreinum. Þú lest þær og þá sérðu að þær eru allar um fólk á sama aldri, það er allt á aldur við þig og þína vini, og þá skilur þú að ferðin verður farin fyrirvaralaust og áður en langt um líður. Leiðin að myndlist og ljóðum „Sú leið sem ég hef farið að mynd- listinni nær aftur til 1940, það hefur ekki slitnað þráðurinn,“ segir Gísli Sigurðsson myndlistarmaður, blaða- maður og nú ljóðskáld. Út er komin hjá Skruddu bók Gísla Ljóð- myndalindir, málverk og ljóð. Þetta er glæsileg bók og smekkleg, full af myndum af málverkum Gísla og við hvert þeirra hefur hann ort ljóð. „Leiðin sem ég hef komið að ljóðunum er óhefðbundnari þótt þráðurinn þar sé jafnlangur. Ég ólst upp í Úthlíð í Biskupstungum. Um 1945 komu út hjá Menningarsjóði ljóð Bólu-Hjálmars. Ég var svo hrifinn af ljóðum Hjálmars að ég lærði þau bókstaflega utan að. Síðar komu önnur uppáhaldsskáld í staðinn.“ Hafði mikið samskipti við ljóðskáld „Ég hef verið handgenginn ljóðlistinni frá fermingu. Langalengi orti ég ekki sjálfur, svo gerist það að ég ræðst til starfa, fyrst hjá Samvinnunni og síðan hjá Lesbók Morgunblaðsins. Það fylgdi því starfi gríðarlega mikil samskipti við ljóðskáld. Það leið varla sá dagur að það kæmi ekki einhver með ljóðin sín til þess að sýna mér. Ég lenti vegna þessa í því sálusorgarastarfi að líta á ljóð hjá fólki sem hafði aldrei birt eftir sig ljóð en var kannski búið að yrkja lengi. Það var viðkvæmt að ræða þetta efni, sumir kunnu ekki stuðlasetningu og ég fór þá að segja því til. Til voru þeir sem vildu láta mig breyta ljóðunum til réttrar stuðlasetningar en ég sagði: „Nei, þú verður að yrkja þín ljóð sjálfur.“ Mín ljóðlist fór að blómstra með sjálfum mér á miðjum aldri vegna þess að ég var þá að mála málverk með ljóðrænu yfirbragði. Ég hélt sýningu á Kjarvalsstöðum 1982 sem var byggð á ljóðum annarra, allar myndirnar voru málaðar við ljóð einhvers. En þá datt mér ekki í hug að yrkja sjálfur. Fyrir fjórum eða fimm árum fékk ég svo stafræna myndavél og fór að safna myndum af öllu því sem ég hafði málað og gat náð til. Þegar ég var kominn með álitlegan stafla þá vaknaði sú spurning hvort ekki væri hægt að gera eitthvað við þetta. Ég átti þá í ýmsum drögum slitur af ljóðum sem ég hafði ort. Fyrir rúmu ári ákvað ég að gefa þetta út á bók. Vegna þess að ekki er gott að setja myndir í kjöl varð að vera eitthvað á vinstri síðunni. Ég var fyrst að hugsa um að skrifa texta til að auðvelda lesanda aðgengi að myndunum en svo datt mér í hug að hafa textann í ljóðformi. Allt er þetta í bundnu máli, ég nota stuðla- setningu, annaðhvort alstuðlað eða hálfstuðlað en óvíða endarím. Þetta er í samræmi við það sem ýmis ágæt nútímaskáld hafa verið að gera, halda í hefðina að ákveðnu leyti. Ég tel að það geti aukið á ánægju lesandans að geta lesið ljóðin og sjá hvað höfundurinn hefur verið að hugsa og öfugt – það ætti alltént ekki að vera verra,“ segir Gísli og flettir fyrir mig bókinni. Hver myndin annarri fallegri og skemmtilegri blasir við og þegar ég gríp niður í ljóðin sé ég að þar er sannarlega margt áhugavert. Í formála bókarinnar segir að þetta sé fyrsta íslenska bókin sem út kemur með þessu formi. „Ég hugsaði þetta sem einskonar sýningu. Í stað þess að hengja upp myndir og ljóð með valdi ég 50 myndir og ljóð með – þessi bók er sýningin.“ Það versnaði frekar! Gísli var rúm 30 ár ritstjóri Lesbókar Morgunblaðsins – eftir að hann hætti því starfi hefur hann gefið út hverja bókina á eftir annarri. – Sennilega hefur þú aldrei haft meira að gera en eftir að þú hættir hjá Morgunblaðinu? „Það versnaði frekar. Ég byrjaði strax á bókaflokknum Seiður lands og sagna, út eru komnar fjórar slíkar bækur eftir mig – sú síðasta fjallar um Snæfellsnesið. Þetta var miklu meira en fullt starf, ég gerði nánast allt sjálfur, kannaði heimildir og skrifaði texta, tók myndir og setti bókina saman. En það koma ekki fleiri slíkar bækur út frá minni hendi,“ segir hann. Hvað með fleiri „bókasýningar“ – andleg ferðalög? „Það er ekkert slíkt í sigtinu en það er þó ekki útilokað, en þetta er þó ótrúleg vinna,“ segir Gísli. Við sitjum í vinnustofu hans og hann segir mér að hann hafi aldrei málað meira en einmitt í sumar. Málaði tíu stórar myndir í sumar „Ég fór ekki í nein ferðalög og málaði tíu stórar myndir þrátt fyrir góða veðrið, ég mála ekki úti heldur hér í vinnustofunni, þau málverk eru ekki í bókinni,“ segir hann. „Öll málverkin sem birt eru í bókinni Ljóðmyndalindir eru frásagnarlegs eðlis, málverk þurfa ekki að vera það – en þessi 50 eru það,“ segir hann. „Það gerir það auðveldara að yrkja með þeim. Þessar myndir og ljóðin eiga sér rætur í uppvexti mínum í Úthlíð. Síðan sæki ég töluvert í sögulega atburði. Sagnfræði er mér hugleikin, varð það í starfi mínu hjá Lesbók Morgunblaðsins – áhrif hennar á mig er á við háskólanám,“ segir Gísli. Einnig eru í bókinni myndir af ákveðnum mönnum. „Ég þekkti Jón Engilberts og málaði hann en ég sýndi honum aldrei myndina. Svo er þarna mynd af Snorra Sturlusyni. Við Jón vorum mjög góðir vinir og hann studdi mig meira í upphafi míns málaraferils en nokkur annar. Ég var mikið með hópi framúrstefnumanna í myndlist, en ég fann mig ekki alveg eiga samleið með þeim. Þótt víða bregði vafalaust fyrir áhrifum þeirra, ekki síst Baltasars, hann var kennarinn minn.“ segir Gísli. „Ég tel mig undir áhrifum póstmódernisma – blanda saman ýmsu, ljósmyndum, teikningum og fleiru, inn í myndirnar, réttara er að kalla margar þeirra myndverk. En ég tel að ég eigi ennþá eftir að mála mína bestu mynd og yrkja mitt besta ljóð.“ Nú brosir Gísli og glampinn í augum hans gefur bjartsýn fyrirheit. „Þannig hugsa kannski margir,“ bætir hann við. „Ég hefði ekki haft þroska til að gera þetta sem ég geri í þessari bók um fimmtugt. Hún er uppskera langrar reynslu.“ Ég spyr um aðferðir. „Ég orti þrjú eða fleiri ljóð við hverja mynd, valdi það besta og stytti eins og ég gat. Síðan fínpússaði ég ljóðin. Sum ljóðin urðu ekki eins og ég vildi hafa þau fyrr en í tíundu tilraun. Þetta var vinnan mín allan síðastliðinn vetur – mjög skemmtileg vinna.“ Gísli heldur áfram að fletta bók sinni og bendir mér á mynd af heimasætunni í Ögri. „Þarna nota ég þuluformið,“ segir hann. Þulan byrjar svo: „Heimasætan í Ögri er hugsandi mær og hefur af því áhyggjur sem henni stendur nær.“ Flosi ríður vestur yfir sand Jökullinn lá framá lappir sínar á sandinum og gnísti sprungum; áin grá og ströng, líkt og hún spyrði: Hverskonar flan er á þér, Flosi? Þeir riðu. Allir í hóp vestur yfir sanda; Flosi oftast fyrstur, þungbúinn. Líkur jöklinum. Blóðið í æðum hans var æst eins og áin. Hann bað þá ekki allákaft ríða; höldum hópinn, kvað hann, en kvíðinn var áfram með í för. Þeir riðu enn. Hann kvað þá mundu æja á Klaustri; koma í kirkju og biðja. Biðja þess að hann hætti að finna fyrir blóðugri skikkju sem var fleygt í fang hans. Og því var hann hér. Dagur hefndarinnar er runninn upp. Þeir riðu eins og skyldan bauð en fleirum var órótt en Flosa. Hvað mundi Skarphéðinn taka til bragðs þegar ljóst væri um þessa gestakomu? Ekki mundi hann aðeins glotta, en taka fram öxina Rimmugýgi og skipa bræðrum sínum í vörn. Seint mundu þeir loka sig inni í bænum, enda yrði það þeirra bani. En utan dyra mundi hann kljúfa þá í herðar niður, hvern á fætur öðrum. Áhrifavaldar „Þeir menn sem ég hef haft mestar mætur á um dagana sem ljóðskáld eru samtímamenn mínir, ég nefni þar Hannes Pétursson, Þorstein frá Hamri, Stefán Hörð Grímsson, sem nú er nýlega látinn, Kristján Karlsson – og Matthías Johannessen. Ég held samt að það votti ekki fyrir neinum stælingum. Ég tel að mitt æskuumhverfi í Úthlíð hafi mótað mig mjög mikið, það býr í mér. Þarna var maður heilu dagana aleinn, ýmist að leita fjár eða kúa. Ég horfði á fjöllin og fór snemma að teikna myndir af þeim. Ég kunni þau utan að, ég get enn teiknað gilin í þeim.“ – Finnst þér ekkert leiðinleg öll sú sumarhúsabyggð sem komin er þarna? „Nei, í rauninni ekki. Fjöllin eru öll óskemmd.“ „Ég hefði ekki haft þroska til að gera þetta sem ég geri í þessari bók um fimmtugt. Hún er uppskera langrar reynslu.“ Æskuumhverfið býr í mér Ljóðmyndalindir er sérkennileg bók eftir Gísla Sigurðsson, nýút- komin. Guðrún Guð- laugsdóttir ræddi við Gísla um myndir og ljóð bókarinnar – sem hann segir í formála að komi í stað sýningar í sal. Höfundurinn Gísli Sigurðsson, myndlistarmaður, blaðamaður og ljóðskáld. Flosi ríður vestur yfir sand Blönduð tækni, unnin á tréplötu, collage, álímingu og árkvíslarnar eru bæði málaðar og skornar í tré. gudrung@mbl.is Á Morgunblaðsskútu Venjuleg olíumynd unnin á léreft.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.