Morgunblaðið - 05.01.2008, Síða 30
30 LAUGARDAGUR 5. JANÚAR 2008 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
Sigurlaug Sveins-
dóttir var jólabarn,
heilsaði lífinu á Akur-
eyri þriðja dag jóla
1929 og kvaddi það afmælisdaginn
sinn síðasta. Um morguninn gekk
hún til útidyra að gá til veðurs, taka
læsinguna af og sækja blöðin eins og
hún var vön, en hneig þá niður og var
örend um náttmálaleytið.
Henni og Snorra kynntist ég fyrst
að gagni að loknum fyrsta dvalarvetri
mínum í Reykjavík, vorið sem við
Steinunn systir hennar, sem var
henni náin frá bernsku, giftum okkur.
Þá áttu þau heima þar, en byggðu sér
nokkrum árum seinna hús í Kópavogi
og áttu þar heimili upp frá því, síðast
hjá dóttur sinni og tengdasyni.
Silla ólst upp í foreldrahúsum í
æskuglöðum hópi þeirra Bjarmans-
systkina á Akureyri og lauk gagn-
fræðaprófi þar sautján ára gömul.
Þótt þræðir ættar og uppruna lægju
víðar um land bundu hana ævilangt
sterkar taugar við Skagafjörð, æsku-
land foreldra hennar og eiginmanns
sem hún kynntist fyrst þar og á
skólaárum hans á Akureyri.
Þau hjón áttu það sameiginlegt að
bæði misstu annað foreldra sinna
ung, hann móður sína á menntaskóla-
árum, hún föður sinn tuttugu og
tveggja ára, þá úti í Noregi. Meðan
Snorri stundaði þar strangt nám í
skógfræði, oft „ute på marken“, var
hún þar með honum fjögur ár náms-
tímans, vann þá einatt úti og sinnti
jafnframt börnum og heimili á
Kóngsbergi og í Ási. Heim til Íslands
kom hún aldrei á þeim tíma, en lærði
norsku með ágætum og leit sinn elsk-
aða Noreg síðast augum á liðnu
sumri.
Heim komin hafði Silla fullar hend-
ur, enda urðu börnin sex, en mikið
var á fjölskylduna lagt þegar tvær
dætur þeirra létust fyrir aldur fram,
Sigurlaug Sveinsdóttir
✝ SigurlaugSveinsdóttir
fæddist á Akureyri
27. desember 1929.
Hún lést á Landspít-
alanum í Fossvogi
27. desember síðast-
liðinn og var útför
hennar gerð frá
Kópavogskirkju 4.
janúar.
sú eldri aðeins fjórtán
ára. Af dótturvörum á
dánarbeði heyrði Silla
talað um ljós. Sjálf átti
hún góða heimvon, en
átti við heilsubrest að
etja þegar á leið. Sú
reynsla mótaði mjög
áhugamál hennar og
vinnu utan heimilis
sem tengdist heilbrigð-
isþjónustu, líknar- og
félagsstarfi. Hún var í
eðli sínu mannblendin
og áhugasöm um jafn-
rétti og félagsmál og
vildi láta gott af sér leiða. Hún stóð
fast á sínu, en róttækni hennar í víð-
um skilningi var frá hjartanu runnin,
og líklega hefur hún enga sælli þrá
eða hugsjón átt sér um ævina en
drauminn um að vera góð móðir og
húsmóðir í anda móður sinnar. Tón-
list var henni unaðsgjafi og um skeið
söng hún með Pólýfónkórnum ásamt
eldri syni sínum.
Á kveðjustund þökkum við Nunna
samfylgd systur og mágkonu. Stund-
um hafði skammdegisþunglyndi sem
ásækir margan á norðurslóðum gerst
nærgöngult við mágkonu mína. Nú
höfðu þau hjón þrátt fyrir dvínandi
heilsu notið jólanna með börnum og
barnabörnum. Síðasta afmælisdag
hennar á jörðu vafðist mjúk og heið-
gullin skammdegisbirta um höfuð-
borgarsvæðið í frostkyrrðinni. Þá dó
hún inn í ljósið handan harms og
trega, sem áður var nefnt, á fæðing-
arhátíð hans sem var „hið sanna ljós,
sem upplýsir hvern mann“ og sagði:
„Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir
mér mun ekki ganga í myrkri heldur
hafa ljós lífsins.“ Megi þau orð nú
verða lampi fóta þeirra og ljós á veg-
um þeirra sem hana trega.
Hjörtur Pálsson.
Það er skammt stórra högga hjá
Bjarmanssystkinum á þessu ári.
Önnur systirin er látin og rúmur
mánuður á milli. Á afmælisdegi sín-
um, hinn tuttugasta og sjöunda des-
ember, dó hún Silla. Ætlunin var að
halda svokallað Bjarmansjólaball
þennan dag en því var frestað vegna
veikinda Sillu.
Silla var móðursystir mín og man
ég fyrst eftir henni er hún kom ásamt
manni sínum honum Snorra og börn-
um á Skódanum til Akureyrar og
fylgdu þeim gleði og fjör. Stefanía
dóttir þeirra var jafnaldra mín og
fannst mér afskaplega spennandi að
vera með henni. Silla var einnig þann-
ig að gleði og gæska fylgdi henni.
Silla og Snorri voru óvenjulega
samhent hjón og kærleikur og vinátta
sterk. Stóri barnahópurinn í Hraun-
tungu var uppátækjasamur og man
ég er ég kom þangað fyrst hvað þar
voru mörg herbergi og þá margar
hurðir.
Ég fluttist í Kópavoginn 1980 og
bjó þá rétt hjá Sillu og þangað fór ég
oft með elsta son minn og var hann á
aldri við yngstu dóttur Sillu. Mikið
var spjallað og farið um víðan völl og
virtist sama um hvað við töluðum,
alltaf var Silla með á nótunum. Snorri
sat oft með okkur og gaman var að
fylgjast með umræðum þeirra því
þótt þau væru ekki alltaf sammála var
samkomulag um að það væri hægt að
vera ósammála um menn og málefni.
Það er svo skrítið að þegar ég eltist
urðu systur mömmu góðar vinkonur
mínar og Silla þar engin undantekn-
ing. Við hjónin bjuggum í nokkur ár á
Selfossi og þangað kom Silla oft og í
hvert sinn sem hún var í Hveragerði á
Heilsustofnun NLFÍ kom hún og var
þá boðið upp á kjöt og kaffi hjá mér.
Drengirnir mínir, sem voru þriggja
og fimm ára er þeir kynntust frænku
sinni, höfðu mikið dálæti á Sillu og
virtist hún vera sérfræðingur í að fara
niður á þeirra plan. Hún spilaði,
spjallaði og lék við þá og var alveg
einstakt að fylgjast með því.
Silla og Snorri voru þeirrar gæfu
aðnjótandi að búa í sambýli við Stein-
unni dóttur sína og hennar fjölskyldu
og var ég einhverju sinni að tala um
þetta við Sillu. Silla vildi nú meina að
þetta væri gott fyrir báðar fjölskyldur
og seinna heyrði ég Steinunni segja
það sama. Öll börnin hennar Sillu
voru henni kær og gaman er hún tal-
aði um þau og oft grínaðist hún meira
en að vera með einhverja væmni í
þeirra garð. Systkinum sínum var
hún einnig nákomin og voru hún og
móðir mín miklar vinkonur.
Elsku Snorri, Siggi, Arnór, Stef-
anía og Gunna Magga og ykkar fjöl-
skyldur, innilegustu samúðarkveðjur
til ykkar allra.
Guðrún Vignisdóttir.
Mig setti hljóða þegar mér barst sú
harmafregn að æskuvinkona mín,
hún Silla, væri dáin. Síðan hafa minn-
ingar liðinna ára sótt að mér úr öllum
áttum. Það var fyrir margt löngu að
leiðir okkar lágu saman í Gagnfræða-
skólanum á Akureyri. Eins ólíkar og
við vorum myndaðist fljótt sú vinátta
sem varaði alla okkar daga. Þar sem
ég átti ekki heimili á Akureyri var svo
dýrmætt að eignast athvarf á hemili
hennar við Hamarstíg. Má segja að
þar hafi alltaf verið pláss fyrir einn í
viðbót. Guðbjörg móðir Sillu var ein-
stök. Hún breiddi sig yfir sína stóru
fjölskyldu og vini hennar alla. Samt
fannst mér hún aldrei þreytt, alltaf
glöð og tilbúin til að láta okkur öllum
líða sem bezt, láta okkur finna að við
værum svo velkomin. Oft var þröng á
þingi við stóra matarborðið. Þar
heima var líka búandi frænka hennar,
Ragnheiður, alltaf kölluð Radda Sól,
hún var með okkur í bekk. Við vorum
feikilega góðar saman við þrjár. Á
sumrin kom Silla oft heim til mín að
Möðruvöllum og dvaldi til lengri eða
skemmri tíma. Stundum datt okkur í
hug að skreppa í Skagafjörð og heim-
sækja Röddu í Sólheimum. Við köll-
uðum það að fara í ævintýraleit.
Áfram liðu árin. Til Reykjavíkur lá
leiðin þar sem við áttum börn og bú.
Söm var vinátta okkar. Minninga-
brotin hrannast upp. Mér er ógleym-
anlegur 4. sept. 1957. Svo hagaði
háttum hjá mér að ég átti von á næst-
yngsta syni mínum í heiminn. Eitt-
hvað hef ég verið ein, því ég hringdi í
Sillu og hún vissi strax um hvað málið
snerist. Stuttu seinna var ég í örugg-
um höndum hjá henni á Birkimel.
Frá henni fór ég svo á fæðingardeild-
ina, þar gekk allt að óskum. Svona
var þessi góða vinkona mín, hún
leysti vanda á svo einfaldan hátt.
„Nostalgían“ heldur áfram. Þegar
fjölskyldan flutti í Kópavog, líklega
’71, fékk ég símtal frá henni. Hvort ég
gæti komið – með saumavélina og
hjálpað henni að setja upp gardínur!
Ekki stóð á því, við brösuðum í þessu
heila nótt, það voru jú að koma jól og
engan tíma mátti missa. Ég var glöð
að geta gert henni greiða og hún
hamingjusöm með gardínurnar. Dag-
inn eftir stóð fallegt jólatré á tröpp-
unum hjá mér. Ég fékk tár í augun.
Hvað er dýrmætara en æskuvinátta
sem endist ævina út? Ég fékk hring-
ingu frá henni í desember, sem oft áð-
ur, til að segja mér að þau væru flutt í
næsta nágrenni við mig. Ákváðum að
hittast sem fyrst – sem ekki varð úr.
Líklega er óralangt síðan við vorum
táningsstelpur í gaggó sem reyndum
að komast sem léttast frá lærdómn-
um! Guð blessi öll árin okkar og
þakklát er ég fyrir vináttu sem aldrei
bar skugga á. Við munum hittast á
þeim stað sem okkur öllum er ætl-
aður. Snorri minn, mínar innilegustu
samúðarkveðjur til ykkar allra.
Sigrún frá Möðruvöllum.
Við vorum báðar frá Akureyri – ég
af Syðri-brekkunni – hún af Ytri-
brekkunni. Leiðir okkar lágu þó ekk-
ert saman fyrr en seint á mennta-
skólaárum mínum, þegar hún og
Snorri Sigurðsson bekkjarbróðir
minn fundu hvort annað. Eftir það
gengu þau saman í sorg og gleði veg-
inn allt þar til að dauðinn þau að-
skildi.
Við hittumst í gegnum árin þegar
bekkjarsystkini og makar komu sam-
an – en það var við störf með Rauða-
krossdeildinni í Kópavogi sem ég
kynntist Sillu. Hún hafði starfað fyrir
deildina meðal annars með heim-
sóknum í Dvöl – athvarf fyrir geðfatl-
aða og ýmsa einstæðinga sem þangað
komu – en einnig stytt öldruðum
stundir í Gullsmára. Svo var það einn
daginn að það vantaði einhvern með
henni og þá kom ég til liðs við hana.
Augljóst var að konunum sem sóttu
samverustundirnar þótti vænt um
hana og fögnuðu henni þegar hún
kom – og hve Silla náði vel til þeirra
með gleði, háttvísi og hlýju.
Ég er þakklát fyrir kynni mín af
Sillu – hún var kærleiksrík,
umhyggjusöm og viðkvæm kona.
Blessuð sé minning hennar.
Vilhelmína Þorvaldsdóttir.
Í dag kveðja ættingjar og vinir Sig-
urlaugu Sveinsdóttur. Í mínum huga
er hún alltaf Silla Bjarman, en við
vorum um tvítugt þegar við kynnt-
umst gegnum systur hennar Stein-
unni sem var skólasystir mín. Ég
hafði verið boðin velkomin inn á stóra
Bjarmansheimilið á Hamarstígnum á
Akureyri, þar sem Guðbjörg og
Sveinn Bjarman réðu húsum með
börnin sín átta. Þau voru bæði Skag-
firðingar.
Kvöld eitt haustið 1949, þegar ég
var nýbyrjuð í 5. bekk í MA, var barið
á dyrnar mínar. Þar var komin Silla
Bjarman og sagðist eiga erindi við
mig. Hún hafði lokið gagnfræðaprófi
vorinu áður og var ráðin til að hjálpa
móður sinni við heimilishaldið þenn-
an vetur. „Heyrðu Blaka,“ sagði hún,
Amma kær, ert horfin
okkur hér,
en hlýjar bjartar
minningar streyma
um hjörtu þau er heitast unnu þér,
og hafa mest að þakka, muna og geyma.
Þú varst amma yndisleg og góð,
og allt hið besta gafst þú hverju sinni,
þinn trausti faðmur okkur opinn stóð,
og ungar sálir vafðir elsku þinni.
Þú gættir okkar, glöð við undum hjá,
þær góðu stundir blessun, amma kæra.
Nú hinstu kveðju hjörtu okkar tjá
í hljóðri sorg og ástarþakkir færa.
(Ingibjörg Sigurðardóttir.)
Elsku amma, Guð og englar vaki
yfir þér.
Andrea og Hrannar.
„Öllu er afmörkuð stund og sérhver
hlutur undir himninum hefur sinn
tíma“ stendur í hinni helgu bók. „Að
fæðast og deyja hefur sinn tíma“, en
Jónína Friðbjörg
Tómasdóttir
✝ Jónína FriðbjörgTómasdóttir
fæddist í Auðsholti í
Biskupstungum 4.
febrúar 1923. Hún
lést á heimili sínu í
Reykjavík að
morgni aðfanga-
dags, 24. desember
s.l. og var jarðsung-
in frá Víðistaða-
kirkju 4. janúar.
þá verður maðurinn að
nota tímann vel, sér og
öðrum til framdráttar,
þroska og kunnáttu.
Það má sanni segja að
mágkona mín og vin-
kona Jónína Tómas-
dóttir kunni á því lagið,
hún kunni vel til verka
en þurfti að heyja
marga óblíða glímuna.
Hún var af dugmikilli
bændaætt komin, yngst
af níu systkinum frá
Auðsholti. Þar er sagt,
að þetta hafi verið kátur
hópur sem kunni að taka til hendinni
og hjálpa til við búskapinn, enda veitti
ekki af. Þarna var ferjustaður yfir
Hvítá og áttu margir Hreppamenn er-
indi í Laugarás til læknis þar og allar
aðrar samgöngur voru yfir óbrúaða
Hvítá. Við nútímafólk eigum erfitt
með að skilja hvernig þetta gat gengið.
Jónína gekk í barnaskólann í Reyk-
holti og síðar í héraðskólann á Laug-
arvatni. Leiðin lá svo til Reykjavíkur í
þá vinnu sem til féllst. Hún söng með
Templarakórnum og kynntist þar
ungum manni norðan úr Þingeyjar-
sýslum, Stefáni Steinþórssyni, sem
hún svo giftist. Hefur það hjónaband
enst vel.
Þetta voru erfiðir tímar þegar hörg-
ull var á öllum hlutum og skömmtun-
artími, erfitt var að fá leigt og ná end-
um saman, eins og sagt er þó að bæði
hjónin ynnu úti. Ekki bætti úr skák að
nokkrum árum liðnum, að Stefán
veiktist og var vart hugað líf og hefur
hann aldrei náð sér til fulls. Jónína
hjúkraði honum af bestu getu og
fluttu þau á Vitastíg 20 til Sigríðar
systur Jónu og manns hennar Ísleifs
Ólafssonar og voru þar í mörg ár. Það
var þá sem ég kynntist þessu ágæta
fólki þegar ég giftist Tómasi, einum
úr systkinahópnum. Þarna áttum við
athvarf þegar komið var í bæinn og
var þá tekið á móti okkur með veislu á
báðum hæðum, uppi hjá Sigríði og
niðri hjá Jónínu. Þær voru báðar frá-
bærar húsmæður. Jónína var dugleg,
snyrtileg og bjó til góðan mat og
skapaði fallegt heimili. Seinna fluttu
þau hjónin í sín eigin húsakynni við
Njálsgötuna, þar sem Jónína naut sín
vel og skreytti heimilið með útsaumi
og fallegum húsgögnum. Jónína var
oftast kát og hress en gat verið hryss-
ingsleg í svörum og kom sumum til að
fyrtast, en allt var það vel meint. Hún
var ein af þeim alþýðukonum sem litl-
ar sögur fara af en mynda þær samt
hornsteininn að því þjóðfélagi sem við
njótum í dag. Hún átti náðuga daga á
Dalbrautinni í lok ævi sinnar þótt
heilsan væri oft ekki nógu góð. Hún
naut þess að sjá sonum sína farnast
vel á fallegum heimilum sínum með
góðum og duglegum konum og efni-
legum barnabörnum.
Sinna verka
nýtur seggja hver,
sæll er sá sem gott gerir.
(Úr Sólarljóðum.)
Ég sendi Stefáni, Steinþóri, Frið-
berg og þeirra fjölskyldum innilegar
samúðarkveðjur.
Helga Þórðardóttir.
Ég vil kveðja móðursystur mína,
Jónínu Friðbjörgu Tómasdóttur, með
fáeinum orðum. Hún var bóndadóttir
frá Auðsholti í Biskupstungum, yngst
af níu systkinum.
Ég man fyrst eftir Jónu í Auðsholti
í glaðværum og framkvæmdasömum
systkinahópi, sem sat í kringum stóra
matborðið í kjallara nýja hússins í
Vesturbænum. Þá var bjartsýni í
byggðum landsins, búið að borga
kreppulánin upp í topp – til þess að
öngla saman upp í afborganir fóru
bræðurnir á vertíð, en systurnar réð-
ust í vist í Reykjavík. Traktorinn var
nýkeyptur og við frænkurnar keyrð-
um hann þvers og kruss um túnin í
heyönnunum. Jóna var svo elskuleg
að leyfa 4 ára telpukorni að sitja með
sér við stjórnvölinn á þessu dýrindis
landbúnaðartæki – og telpan fann til
sín. Heiðríkja þessara tíma, gleði og
samheldni þessa frændfólks míns hef-
ur verið mér og fleirum veisla í far-
angri allt fram á þennan dag.
Frænka mín var söngelsk og það
var einmitt í Templarakórnum, sem
hún kynntist Stefáni, tilvonandi eig-
inmanni sínum. Hann átti bíl og er
mér minnisstætt, þegar ég fékk að
fljóta með þeim suður; í þá daga var
atburður að sitja í drossíu. Þau hjóna-
leysin leyfðu mér að skottast með sér,
t.d. að fara með að taka upp kartöflur
í Kringlumýrinni á góðum degi.
Frænka kunni til sauma og þegar lítil
stúlka þurfti að fá saumaðan á sig
fyrsta skólakjólinn úr köflóttu skosku
ullarefni, þá var gott að eiga hana að.
Við áttum saman marga notalega eft-
irmiðdaga við saumaskap í eldhúsinu
á Grettisgötunni meðan frumburður-
inn Steinþór svaf í glæsilegu barna-
rúmi með innlagðri mynd af tveimur
dádýrum. Móðursystir mín hafði dýr-
an smekk.
Sjötti áratugurinn var ungu fólki á
mölinni erfiður; það ríkti kreppa og
húsnæðisleysi og hvunndagsleiki dag-
anna lagðist yfir sálirnar eins og grátt
vaðmál. Við bjuggum 13 ár í sama húsi
á Vitastígnum og þá fæddist Friðberg,
augasteinninn hennar. „Er hann ekki
fallegur?“ sagði Jóna og lyfti honum
upp til að sýna mér. Hann brosti til
mín tannlausu brosi; hafði erft munn-
svip móður sinnar. „Jú, hann er ósköp
fallegur.“ Svo passaði ég Friðberg fyr-
ir Jónu.
Í kvæðinu „Þjóðvísu“ eftir frænda
okkar Tómas Guðmundsson segir:
„Því meðan hjörtun sofa býst sorgin
heiman að,
og sorgin gleymir engum“
– og síst af öllu henni móðursystur
minni. Um það verður ekki fjölyrt hér.
Móðursystir mín átti stórt og gott
hjarta. Hún var höfðingi í lund, sem
bjó yfir skaplyndi skáldsins og söngv-
arans. Þröngur efnahagur og and-
streymi komu í veg fyrir að þessir eðl-
isþættir fengju að blómstra. Engu að
síður færði lífið henni ríkulegan ávöxt.
Það er afmæli frúarinnar. Í kringum
kringlótta skrautborðið sitja synir
hennar og tengdadætur, unglingarnir
Þórdís, Atli og Hrannar og litla stelpu-
skottið hún Andrea, sem kom með
seinni skipunum. Það eru uppi hlátur
og gamanmál og mannleg hlýja. Já,
það var ekki til einskis barist.
Ég kveð frænku mína með þakklæti
fyrir samfylgdina í rösk 60 ár. Orð
norsku skáldkonunnar Sigrid Undset
er gott að hugleiða á rugluðum tímum,
sem gengisfella orð og athafnir
manna, ef þeim verður ekki í
skyndingu breytt í silfur, gull og verð-
bréf. „Því siðir og venjur breytast
mjög, eftir því sem tímar líða og trúin
breytist og menn hugsa um marga
hluti á annan veg. En hjörtu mann-
anna breytast aldrei.“
Vilborg Auður Ísleifsdóttir.