Morgunblaðið - 01.03.2008, Qupperneq 21
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 1. MARS 2008 21
ÁRBORGARSVÆÐIÐ
Selfoss | Fimleikadeild Ungmenna-
félags Selfoss fagnaði 20 ára afmæli
sínu sl. haust. Starfsemi deild-
arinnar hefur vaxið jafnt frá stofnun
og hefur aldrei verið eins öflugt og
núna. Í dag æfa um 320 börn og ung-
lingar fimleika hjá deildinni, auk 70
barna í íþróttaskóla.
Í meistaraflokki deildarinnar æfa
rúmlega tuttugu stúlkur á aldrinum
15 til 23 ára. Þær hafa æft fimleika
frá 5 til 6 ára aldri og lengst af með
fimleikadeild Umf. Selfoss.
„Fimleikar eru krefjandi og
skemmtileg íþrótt og í hópfimleikum
er hver og einn iðkandi mikilvægur
hlekkur í keðjunni. Þátttaka í íþrótt-
um, ekki síst hópíþróttum, er þrosk-
andi afþreying, eflir samskiptahæfni
barna og styrkir sjálfsmynd þeirra
sem hjálpar þeim að taka ákvarðanir
af ábyrgð þegar kemur að neyslu
tóbaks, áfengis og annarra vímu-
efna,“ sagði Brynja Hjálmtýsdóttir,
formaður deildarinnar.
„Yngri iðkendur deildarinnar líta
mjög upp til stúlknanna enda eru
þær góðar fyrirmyndir. Þeir fylgjast
af áhuga með framförum þeirra og
árangri, bæði á æfingum og mótum.
Brottfall unglinga, einkum stúlkna,
úr íþróttum upp úr fermingu er
staðreynd. Deildin hefur náð góðum
árangri í baráttunni gegn brottfalli
og á nú að skipa fjölmennu og öflugu
liði stúlkna í efstu bekkjum grunn-
skólans og í FSu. Rannsóknir hafa
ítrekað sýnt fram á að íþróttaiðkun á
unglingsaldri er ein mikilvægasta
forvörnin gegn neyslu áfengis og
vímuefna á unglingsárum. Af þeim
sökum er starfsemi meistaraflokks
fimleikadeildar Umf. Selfoss sér-
staklega mikilvæg,“ sagði Brynja en
hún hefur gegnt því starfi í fjögur
ár.
Norðurlandamót í apríl
Landsliðshópur fimleikadeild-
arinnar mun taka þátt í Norð-
urlandamóti yngri iðkenda í hópfim-
leikum, sem verður haldið í
Haukelandshallen rétt fyrir utan
miðbæ Bergen í Noregi laugardag-
inn 19. apríl nk. Á mótinu keppa
ungmenni frá Norðurlöndunum á
aldrinum 13 til 18 ára í flokki kvenna
(10 lið), karla (7 lið) og blönduðum
flokki (7 lið).
Auk liðsins frá Selfossi mun hópur
fimleikafólks frá Gerplu taka þátt í
mótinu. Liðin tvö frá Íslandi munu
keppa við kvennalið frá Danmörku,
Finnlandi, Noregi og Svíþjóð.
Iðkendur koma víða að
Fimleikadeild Ungmennafélags
Selfoss er ein af átta deildum Ung-
mennafélags Selfoss. Deildin er með
fjölmennustu deildum félagsins. Auk
Árborgarbúa eru iðkendur víðs veg-
ar af Suðurlandi, t.d. frá Hveragerði,
Ölfusi, Flóahreppi, uppsveitum Ár-
nessýslu og Rangárvallasýslu.
Deildin er leiðandi í greininni á Suð-
urlandi og hefur tryggt Umf. Selfoss
fyrsta sæti í liðakeppni Héraðssam-
bandsins Skarphéðins (HSK) í fim-
leikum undanfarin ár. Deildin hefur
undanfarin tíu ár átt keppendur á
verðlaunapalli á mótum á vegum
Fimleikasambands Íslands (FSÍ).
Deildin er aðili að FSÍ og tveir þjálf-
arar deildarinnar eiga sæti í tækni-
og mótanefnd sambandsins.
„Það er mjög skemmtilegt að vera
formaður þessarar öflugu deildar.
Við erum með frábæra þjálfara þar
sem Olga Bjarnadóttir yfirþjálfari
er í fararbroddi. Þá erum við með
mjög öflugt foreldraráð í eldri flokk-
unum og þá er gaman að segja frá
því að deildin var fyrsta félag á Suð-
urlandi til að hljóta útnefningu sem
fyrirmyndarfélag ÍSÍ en það var á
síðasta ári,“ sagði Brynja að lokum.
Hver iðkandi er mikilvægur hlekkur
Meistarahópur Hluti af meistarahópi fimleikadeildarinnar á Selfossi mun
taka þátt í Norðurlandsmótinu í Bergen 19. apríl. Fimleikadeildin hefur
nýlega flutt starfsemi sína í nýtt og glæsilegt æfingahúsnæði í íþróttahús-
inu við Sunnulækjarskóla. Þá má segja frá því að nú er í undirbúningi að
setja á fót fimleikaakademíu á Selfossi.
Forysta Brynja Hjálmtýsdóttir, formaður fimleikadeildarinnar, stendur á
milli Sigríðar Harðardóttur þjálfara og Olgu Bjarnadóttur yfirþjálfara.
Öflugt starf með 320
iðkendum er hjá fim-
leikadeild Umf. Selfoss.
Félagið ávann sér rétt
til að keppa á Norður-
landamóti yngri iðk-
enda í hópfimleikum
fyrir hönd Íslands.
FULLTRÚAR í samstarfsnefnd þriggja
slökkviliða á Suðurnesjum hafa skrifað
undir viljayfirlýsingu um sameiningu.
Fram kemur það álit að sameining yrði
hagkvæm og myndi auka mjög útkallsstyrk
og þjónustu við íbúa og þá sem um Kefla-
víkurflugvöll fara.
Slökkvilið Keflavíkurflugvallar er
stærsta slökkviliðið á Suðurnesjum. Hlut-
verk þess hefur breyst eftir að varnarliðið
fór og stór hluti varnarliðssvæðisins hefur
verið tekinn til borgaralegra nota og þannig
fallið undir slökkviliðin í Reykjanesbæ og
Sandgerði. Það hefur áfram mikilvægu
hlutverki að gegna við flugvöllinn. Bruna-
varnir Suðurnesja eru í eigu Reykjanes-
bæjar, Sveitarfélagsins Garðs og Sveitarfé-
lagsins Voga og þjóna þessum þremur
sveitarfélögum. Þriðja liðið er Slökkvilið
Sandgerðis. Sigurður Valur Ásbjarnarson,
bæjarstjóri í Sandgerði, segir um aðkomu
Sandgerðis að bærinn hafi ákveðnum
skyldum að gegna á flugvellinum vegna
þess að flugstöðin og fleiri mannvirki og
meginhluti flugbrautanna sé innan bæjar-
marka Sandgerðis. Slökkvilið Grindavíkur
stendur utan við sameiningarvinnuna.
Hugmyndin er að skipta flugvallar-
slökkviliðinu upp og sameina húsbruna-
deildina hinum slökkviliðunum. Tekið er
fram í viljayfirlýsingunni að ekki sé ætlunin
að segja upp starfsmönnum. Stefán Thord-
ersen flugvallarstjóri tekur fram að enn sé
verið að afla gagna og kanna kosti og galla
sameiningar og engar ákvarðanir hafi verið
teknar. Sigmundur Eyþórsson, slökkviliðs-
stjóri Brunavarna Suðurnesja, segir að með
sameiningu sé hægt að auka mjög útkalls-
styrk slökkviliðanna og reka þau á hag-
kvæmari hátt til lengri tíma litið.
Viljayfirlýs-
ing um sam-
einingu
slökkviliða
Eftir Helga Bjarnason
helgi@mbl.is
Vogar | Stórheimili var formlega
tekið í notkun og blessað við athöfn
í fyrradag. Heimilið fékk nafnið
Álfabyggð.
Svokölluð stórheimili eru nýjung
hjá Búmönnum. Álfabyggð í Vog-
um er fyrsta heimilið sem byggt er
eftir þessari hugmynd en verið er
að undirbúa uppbyggingu í nokkr-
um öðrum sveitarfélögum.
Í stórheimili eru íbúðir fyrir aldr-
aða og þjónustumiðstöð. Innan-
gengt er úr íbúðunum í þjónustu-
miðstöðina sem einnig mun þjóna
öllum eldri borgurum í sveitarfé-
laginu.
Íbúar þróa þjónustuna
Í þjónustumiðstöðinni er, auk
smástjórnunarkjarna, borðsalur og
æfingasalur, eldhús, setustofa, tóm-
stundaherbergi, lítið þvottahús og
smá snyrtistofa, auk yfirbyggðrar
götu sem hægt er að nota á marg-
víslegan hátt.
Ekki hefur verið ákveðið endan-
lega hvaða þjónusta verði veitt í
þjónustumiðstöðinni sem sveitarfé-
lagið tekur á leigu hjá Búmönnum.
Fram kom hjá Birgi Erni Ólafssyni,
forseta bæjarstjórnar, við athöfn-
ina að íbúar og aðrir væntanlegir
notendur kæmu að þróun starfsem-
innar. Guðrún Jónsdóttir, arkitekt
hússins og formaður Búmanna,
lýsti ánægju með það, sagði það
eðlilegt þar sem allt húsið væri á
einn eða annan hátt heimili þeirra
sem byggju í íbúðunum og því eðli-
legt að þeir tækju þátt í starfsem-
inni eftir getu hvers og eins.
Húsið er tæplega 1.400 fermetr-
ar að stærð. Guðrún sagði að mikil
áhersla hefði verið lögð á garðinn í
kringum húsið og væri vonast til að
skjólsælir pallar og góðir göngu-
stígar gætu örvað íbúana til úti-
veru.
Samkeppni um nafn
Í stórheimilinu eru þrettán íbúð-
ir, eins til tveggja herbergja. Á
sömu lóð eru sex Búmannaíbúðir í
parhúsum og fyrir átti félagið tíu
íbúðir í Vogum. Búmenn eiga því 29
íbúðir í sveitarfélaginu. Þær eru
leigðar út með búseturétti til fólks
sem er 50 ára og eldra.
Vegna vígslu hússins var efnt til
samkeppni um nafn á stórheimilið.
Tillaga Bergs Sigurðssonar, Álfa-
byggð, varð fyrir valinu og var við
athöfnina afhjúpaður skjöldur með
heitinu. Nafnið vísar til fyrri íbúa
lóðarinnar og götuheita í nágrenn-
inu.
Trésmiðja Snorra Hjaltasonar
byggði Álfabyggð fyrir Búmenn.
Heimilið fékk margar góðar kveðj-
ur og gjafir við vígsluathöfnina.
Þannig gaf kvenfélagið heimilinu
borðbúnað fyrir fimmtíu manns.
Álfabyggð tekin í notkun
Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Vígsluhátíð Einn íbúi Álfabyggðar, Sigurður Marinó Sigurðsson, lék á harmónikku við vígsluathöfnina
ásamt hjónunum Þorvaldi Erni Árnasyni og Ragnheiði Jónsdóttur. Fjöldi gesta var viðstaddur.
Stórheimilið í
Vogum er nýjung
hjá Búmönnum
Í HNOTSKURN
»Búmenn hafa tekið í notk-un í heildina á fimmta
hundrað íbúðir í þrettán sveit-
arfélögum og hafa um tvö
hundruð íbúðir til viðbótar í
byggingu eða á undirbúnings-
stigi.
»Þar af eru liðlega 150 áSuðurnesjum, 41 í Reykja-
nesbæ, 36 í Garði, 30 í Grinda-
vík, 29 í Vogum, og 17 í Sand-
gerði. Frekari uppbygging á
Suðurnesjum er í undirbún-
ingi.
SUÐURNES