Morgunblaðið - 11.05.2008, Blaðsíða 47
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 11. MAÍ 2008 47
alltaf órjúfanlegur hluti af þér og
maður sá á öllu sem hann gerði
fyrir þig hve mikla ást og aðdáun
hann bar til þín, þar sannast að ást
getur enst að eilífu.
Elsku amma, við kveðjum en þú
ert svo sannarlega ekki farin úr
okkar lífi, við þurfum bara að loka
augunum til að sjá þig og leggja við
hlustir til að heyra í þér. Elsku afi,
þú og börn þín stóðu vakt ykkar yf-
ir ömmu af stórkostlegri ást og
umhyggju, lögðuð ykkur af öllu afli
fram við að láta henni líða eins vel
og hægt var fram á lokastundu,
hugur okkar og ást er hjá ykkur.
Halldóra Reykdal og
Hafsteinn Reykdal.
Elsku amma, þetta er allt svo
óraunverulegt og sárt en samt er
svo gott að vita að nú þjáist þú ekki
lengur. Við eigum svo margar góð-
ar minningar um þig, þú varst allt í
öllu hjá okkur, þú og afi, amma
Lóa og afi Búnni. Þú varst alltaf til
staðar, svo hlý og yndisleg. Þú
hafðir svo mikinn áhuga á öllu sem
við vorum að gera í lífinu, hvort
sem það var skólinn eða félagslífið,
þú fylgdist svo vel með okkur.
Við eigum eftir að sakna þess að
borða ekki aftur með þér helgar-
steikina, eyða ekki áramótunum
með þér eins og við höfum gert í
svo mörg ár. Það er svo skrítið að
sjá stólinn „þinn“ auðan. Það er
erfitt að hugsa til þess að afi hafi
þig ekki lengur hjá sér, þið voruð
svo samrýnd, kærleikurinn á milli
ykkar var ólýsanlegur. Við lofum
þér að hugsa vel um afa á þessum
erfiðu tímum, hvíl þú í friði. Við
fögnum skafrenningi og klæðum
okkur í bæjarstjórafötin þér til
heiðurs elsku amma.
Elsku amma þú ert hetjan okk-
ar, við elskum þig alltaf.
Elsa Jóna og
Hafsteinn Hrannar.
Elsku amma mín. Hinn 1. maí
síðastliðinn kvaddir þú okkur á
þessum fallega og friðsæla degi.
Eftir alla þá baráttu við veikindi
sem þú hefur gengið í gegnum veit
ég að nú líður þér betur. Söknuður-
inn og sorgin er mikil og það hefur
ekki verið létt að kveðja, en nú
hvílir þú í friði.
Elsku amma, þú vafðir mig um-
hyggju, ást og gleði og ég er þakk-
lát fyrir það og allt sem þú hefur
gefið mér. Allar þær mörgu minn-
ingar sem ég á um þig eru ynd-
islegar. Þegar ég lít til baka er það
sem helst kemur upp í hugann þeg-
ar við horfðum á gamlar upptökur
af Hemma Gunn saman; þegar við
spiluðum Ólsen Ólsen og kepptum
um það hvor ynni fleiri spil. Svona
gæti ég endalaust haldið áfram. En
það eru jólin sem lifa allra helst í
minningunni. Jólin eru ekki eins án
ömmu og afa sagði ég eitt sinn við
mömmu þegar þið fóruð til sólar-
landa ein jólin. Jólin eru og verða
aldrei eins án þín elsku amma en
minningin lifir að eilífu og ég veit
að þú munt ætíð vera með okkur.
Ég á ekkert nema góðar minn-
ingar um þig og þær munu verða
mér eitt það dýrmætasta sem ég á.
Elsku amma, að leiðarlokum þakka
ég þér fyrir allt sem þú hefur gefið
mér og ég bið Guð að blessa þig og
varðveita að eilífu.
Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífsins nótt.
Þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því
þú laus ert úr veikinda viðjum
þín veröld er björt á ný.
Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér
og það er svo margs að minnast
svo margt sem um hug minn fer.
Þó þú sért horfinn úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð.
Þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir)
Elsku amma, ég mun ætíð elska
þig.
Þín
Jenný Þórunn.
Nafni minn og afi
minn Hjalti Þórarins-
son var merkur maður og afrekaði
margt sem flestir láta sig ekki einu
sinni dreyma um. Amma mín hún
Alma og börn þeirra eru þó það sem
stendur hæst upp úr gæfuríkri ævi
hans afa míns. Hann eignaðist stóra
og fallega fjölskyldu og var heilsu-
hraustur lengstan hluta af sinni ævi.
Ég hef lesið og heyrt margt um það
góða starf sem hann afi minn vann
sem læknir, sem félagsmaður í
Lionsklúbbnum Ægir og sem
íþróttamaður. Dugnaður er það orð
sem ég myndi lýsa hans starfi og
verkum. Ég man þegar hann sagði
mér frá vinnu sinni, sem ungur mað-
ur við skurðgröft í kringum seinni
heimsstyrjöldina og frá því þegar
engar bækur fengust sendar til
landsins og hlé þurfti að gera á námi
hans í læknisfræði, ásamt öllum
verðlaunagripum hans úr golfíþrótt-
inni, hvað ég bar mikla virðingu fyrir
honum. Ég man líka hversu stoltur
ég var þegar ég komst að því að stórt
málverk af honum afa mínum hékk
upp á vegg á Landspítalanum. Ég
var ekki fæddur eða mjög ungur á
þeim tíma sem afi minn vann flest sín
afrek og kunna margir mikið betur
að segja frá þeim afrekum og áföng-
um. Ég get aftur á móti sagt frá því
hversu mikill vinur og félagi minn
hann afi minn var. Hann og amma
studdu mig í öllu sem ég tók mér fyr-
ir hendur og kenndu mér margt,
bæði með leiðsögn og fordæmi. Alltaf
fylgdist afi með hvernig mér gengi og
hvað ég væri að fást við. Alveg frá
mínum fyrstu bernskuárum þegar
hann lék við mig og kenndi mér
mannganginn í tafli og spilaði við
mig, til námsára minna í mennta-
Hjalti Þórarinsson
✝ Hjalti Þórarins-son fæddist á
Hjaltabakka, Torfa-
lækjarhreppi, Aust-
ur-Húnavatnssýslu
23. mars 1920. Hann
lést á Hjúkrunar-
heimilinu Sóltúni
23. apríl síðastlið-
inn.
Hjalti var jarð-
sunginn frá Lang-
holtskirkju 5. maí sl.
skóla og háskóla.
Hann meira að segja
samdi fyrir mig kvæði
í tilefni fermingar
minnar. Afi var oft
mjög veikur seinustu
árin, en samt sem áður
vissi hann hvernig mér
og mínu liði gekk í
körfuknattleik og
spurði hann í hvert
skipti sem ég heim-
sótti hann hvernig mér
gengi í mínu námi. Það
er því að leiðarlokum
sem ég finn enn fyrir
þeirri miklu virðingu sem ég fann
sem ungur strákur og mikill er sökn-
uður minn í hjarta. Ég sakna ekki
bara afa míns, heldur einnig vinar
míns og félaga. Ávallt mun ég minn-
ast hans fyrir þann merka mann sem
hann var, en einnig fyrir manngæsku
og heilindi í minn garð.
Söknuður minn líkt og allra í fjöl-
skyldunni er mikill og voru seinustu
ár ævi hans honum afar erfið vegna
veikinda, samt sem áður skrifaði
hann og samdi ferskeytlur og kvæði.
Eitt kvæði sem hann orti kallaði
hann „Ofurlitla hugleiðingu um lífið“,
þar sem hann lýsir lífinu eftir árstíð-
um og hugsar til baka til gamalla
daga og talar til konu sinnar, hennar
Ölmu. Það er því líklegast engin til-
viljun að hann afi minn ákvað að
kveðja þennan heim og okkur á síð-
asta vetrardegi í ljósi þess sem hann
hafði ort. Tel ég það táknrænt og trúi
að hann hvíli í friði.
Við sátum úti í garðinum
marga sólskinsdaga,
sólin skein, fuglarnir sungu.
Unaðsdagarnir taldir að sinni.
Það haustaði, þá vetur.
langur vetur.
Núna vonandi langt vor í vændum.
Þinn vinur,
Hjalti Kristinsson.
Það koma margar ánægjulegar
minningar upp í hugann við fráfall
afa. Að sjálfsögðu eru afreksverk of-
arlega í huga, en að sama skapi eru
það hinir litlu hlutir sem aldrei voru
ræddir – sem á kveðjustund skipta
jafnvel meira máli en nokkur afrek.
Sunnudagsheimsóknir til ömmu og
afa á Laugarásveginum voru ávallt
fastur punktur hjá fjölskyldunni. Það
var alltaf hægt að finna sér eitthvað
að gera hjá ömmu og afa, hvort sem
það sneri að billiard- eða borðtenn-
isleik í kjallaranum, eða hlusta á
gamlar sögur og spjalla um þjóðlífið.
Afi var áhugasamur um nám okk-
ar, enda mikill námshestur sjálfur.
Var mjög gaman að heyra sögur af
læknanáminu hjá þeim ömmu, þá
sérstaklega sögur frá Bandaríkjun-
um. Afi hvatti okkur því til að fara út í
nám og fá reynslu á framandi slóð-
um, en það ákváðum við bæði að
gera. Hvatti afi jafnframt nafna sinn
til að setjast að erlendis, sem hann
hefur gert.
Að vera búsettur erlendis fjarri
fjölskyldu er erfitt, en það er ótrúlegt
hvaða styrk afi hefur veitt mér í
gegnum árin með reglubundum sím-
tölum og hvatningarorðum. Afi gekk
í gegnum mikið tilfinningalegt rót
sjálfur að læra erlendis fjarri fjöl-
skyldu og börnum – í þá daga var
ekki fært að flytja alla út. Sögur hans
og hvatningarorð gerðu baráttuna
auðveldari og fjarlægðina til Íslands
minni. Að heyra sögur hans af báts-
ferðum til Bandaríkjanna og skilnað
frá börnum, gerði hversdagsleikann
auðveldari. Á sama tíma var líka gott
að heyra um mikilvægi þess að koma
aftur til Íslands með reynslu sem
myndi nýtast þjóðfélaginu til upp-
byggingar. Það gerði afi, svo mikið er
víst.
Þar sem afi hafði gaman af því að
yrkja langaði okkur að kveðja hann
með litlu ljóði.
Á síðasta vetrardegi, blundar bláum bárum,
fannhvítur svanur á vatnsbólinu fríða.
Flýgur frjáls í morgunsólu sumars.
Fyrirheitna landið, fegurst blóm þar prýða,
tindrandi fossinn, himnahöll úr tárum.
Hvíl nú í friði, eftir langferð blíða.
(FVÞ.)
Hjalti og Freyja Vilborg.
Með Hjalta Þórarinssyni er geng-
inn einn þeirra skurðlækna sem
einna mestan svip settu á Landspít-
alann og þróun hans á seinni hluta
liðinnar aldar. Hann stundaði sér-
nám í brjóstholsskurðlækningum í
Bandaríkjunum og var fyrsti yfir-
læknir nýrrar brjóstholsaðgerða-
deildar á Landspítalanum. Hann var
frumkvöðull í fagi sínu og veitti því
mikið brautargengi og hefur vöxtur
þess hérlendis verið linnulaus síðan.
Hann varð svo prófessor í handlækn-
ingum og forstöðulæknir handlækn-
ingadeildar spítalans, og gegndi því
starfi í 18 ár, eða allt til þess að hann
hætti störfum vegna aldurs 1990. Þar
nutum við læknanemar kennslu hans
og leiðsagnar. Hjalti var líka æsku-
vinur föður míns, Guðmundar Ingva
Sigurðssonar, og þannig kynntist ég
honum í raun. Þeir voru samstúdent-
ar frá Menntaskólanum á Akureyri
ásamt fleira merku fólki árið 1941,
þ. á m. Ölmu Thorarensen sem ekki
löngu síðar varð eiginkona Hjalta.
Þau hjón voru ásamt fleirum fjöl-
skylduvinir. Hjalti var líka heimilis-
læknir fjölskyldunnar, og ein af mín-
um fyrstu bernskuminningum er sú
að Hjalti ýtti fingrum í mig lítinn, og
velti vöngum með alvörusvip yfir ein-
hverjum barnakvilla.
Þeir félagar, Hjalti og faðir minn,
voru miklir golfleikarar, og slógu
bolta bæði sumar og vetur. Þeir voru
fjórir saman, með þeim tveimur voru
Magnús Torfason heitinn prófessor
og hæstaréttardómari og Guðjón
Eyjólfsson endurskoðandi. Sóttu
þeir golfið fast. Einhvern tíma birtist
mynd af þeim félögum í dagblaði þar
sem þeir stóðu hríðskjálfandi í norð-
angarra og snjómuggu á nýjársdag
með kylfur og rauðar kúlur albúnir
til leiks. Myndin var titluð „Harðjaxl-
arnir“, hvorki skyldi hríð né hragl-
andi trufla þessa göfgu íþrótt. Hjalti
og faðir minn léku líka badminton
tvisvar í viku alla vetur. Var þar með
þeim sem fyrr Magnús en jafnframt
Jóhannes L.L. Helgason hæstarétt-
arlögmaður sem lést löngu fyrir ald-
ur fram. Þarna var stundum hart
barist, og þótti mönnum, ekki síst
Hjalta, tap illur kostur. Hjalti var
mikill og einarður keppnismaður og
sótti fast í leik og starfi, maður mikl-
um hæfileikum gæddur og komst
enda í fremstu röð. Með þakklæti
fyrir læknis- og kennslustörf hans og
ekki síður fyrir langa vináttu við fjöl-
skylduna er Hjalti kvaddur að lok-
inni merkri ævi.
Sigurður Guðmundsson.
Svo leikinn með hnífinn, af langflestum bar
læknaði þjáða marga.
Unglæknum kenndi hve yndislegt var
annarra lífi að bjarga.
Þorvaldur Óskarsson.
Elsku amma mín.
Við burtför þína er
sorgin sár
af söknuði hjörtun blæða.
En horft skal í gegnum tregatár
í tilbeiðslu á Drottin hæða
og fela honum um ævi og ár
undina dýpstu að græða.
(Guðrún Jóhannsdóttir)
Þín
Bára Bergmann.
Hugsjóna- og baráttukonan og eð-
alkratinn Bára Pálsdóttir er látin
södd lífdaga enda orðin níutíu og
tveggja ára. Hugsun hennar var
skýr og hún gerði að gamni sínu
fram undir það síðasta en fannst
greinilega vera komið nóg af þessari
lífsins vegferð. Undirritaður kynnt-
ist Báru fyrst þegar ég var ungling-
ur á fermingaraldri og félagi sonar
hennar Benedikts. Dvaldi ég oftsinn-
is á hennar fallega heimili og kynnt-
ist henni og fjölskyldu nokkuð vel og
dáðist að því hve dugleg þau voru og
ekki hvað síst hún. Það kom berlega í
ljós þegar eiginmaður hennar, Val-
týr Bergmann Benediktsson, fellur
Bára Valdís Pálsdóttir
✝ Bára ValdísPálsdóttir fædd-
ist á Grettisgötu 33,
Reykjavík, 27. mars
1916, hún lést á
Dvalarheimilinu
Höfða, Akranesi,
27. apríl síðastlið-
inn.
Útför Báru var
gerð 6. maí sl.
frá 9. febrúar 1961, þá
aðeins fimmtíu og eins
árs að aldri. Bára var
þá fjörutíu og fimm
ára og fimm barna
móðir og orðin ekkja.
Tvö barna hennar, þau
Benedikt og Kristrún,
voru þá enn á skóla-
aldri. Bára gafst ekki
upp, það var ekki
hennar eðli, hún beit á
jaxlinn og barðist eins
og ljón fyrir sín börn
og heimili. Hún tók
alla þá vinnu sem unnt
var að fá, annað kom ekki til mála í
hennar huga. Þannig var Bára og
þannig þekktum við hana.
Síðar átti ég eftir að kynnast per-
sónuleika Báru betur þegar ég var
orðinn virkur félagi í Alþýðuflokkn-
um. Þar var Bára fyrir dyggur fé-
lagi, hafði fylgt þeim Sveinbirni
Oddssyni, Hálfdáni Sveinssyni og
Guðmundi Sveinbjörnssyni vel eftir
sem ötull félagi meðan þeirra naut
við og allar götur síðan ávallt virk í
Alþýðuflokksfélagi Akraness. Hún
Bára lá ekki á liði sínu og hafði skýra
skoðun á flestum málum og lá ekki á
þeim sem voru undantekningarlítið í
samræmi við hugsjónir jafnaðar-
stefnunnar. Bára gat verið hvöss á
stundum og beit gjarnan saman
tönnunum þegar henni var mikið
niðri fyrir og lét okkur sem yngri
vorum oft ,,heyra það“. ,,Þið verðið
að standa ykkur, strákar!“ heyrðist
ósjaldan.
Ákefð Báru kom ekki síst fram á
knattspyrnuvellinum eða þegar ÍA
bar á góma. Stuðningur hennar við
ÍA var fölskvalaus og það heyrðist
ósjaldan. Hún var mjög áhugsöm um
alla íþróttir, einkum knattspyrnu og
sund. Þrátt fyrir þennan mikla ákafa
og baráttuvilja var stutt í brosið,
hlýjuna og húmorinn. Hún hafði
nefnilega mjög gaman af því að tak-
ast á við aðra í orðum en síðan var
það búið þegar þeirri snerru lauk.
Eitt verð ég að nefna í lokin sem mér
fannst merkilegt við vinkonu mína
hana Báru en það var hvað hún var
létt í dansi, einkum og sér í lagi í
valsi. Þrátt fyrir að hún væri komin
upp undir áttrætt og brak og brestir
heyrðust frá liðamótum hennar leið
hún létt um gólfið eins og hún hafi
aldrei gert annað um ævina. Ég vil
þakka fyrir að hafa fengið að kynn-
ast Báru og njóta leiðsagnar hennar
og einnig sem félaga. Megi minning
hennar lifa.
Ingvar Ingvarsson.
Með örfáum orðum viljum við und-
irrituð kveðja hana Báru Páls, og
þakka þau góðu kynni sem við höfð-
um af sómakonu sem ávallt var söm
og jöfn á hverju sem gekk í lífinu.
Bára kynntist erfiðleikum og amstri
alþýðufólksins í landinu og öllu sem
því fylgdi. Atvinnuleysistímum, ör-
yggisleysi og uppeldi stórrar fjöl-
skyldu.
Fyrstu kynni mín af Báru urðu
þegar við unnum saman í síldarsölt-
un á eyrinni hjá HB&Co undir stjórn
Sigurðar Gíslasonar og fleiri góðra
manna.
Það var líf og fjör í söltuninni og
vart hafðist við að setja síld í kassana
fyrir söltunarkonurnar, þar var kall-
að „Tóma tunnu, taka tunnu og salt.“
Það var haustið 1957, undirritaður
var á bílpalli og hafði það hlutverk að
leggja síldartunnur á hliðina og
skammta í síldarkassana fyrir kon-
urnar, mátti þakka fyrir að lenda
ekki ofan í kössunum vegna þess að
tunnan var nálægt 100 kg og ég
stubburinn léttur. Sumar konurnar
fengu aldrei nóg, slíkur var hama-
gangurinn. Með mér á bílnum og
stjórnandi verksins var Stefán
stundum nefndur „gufukarl“ vegna
þess að hann vann þannig að af hon-
um streymdi svitinn og lagði gufu af í
frostinu. Hann sagði við mig: ,,Láttu
vel í hjá henni Báru, hún þarf að hafa
nóg.“ Þá vissi ég fyrst hver Bára var,
kona sem hafði misst mann sinn í
blóma lífsins og vann af dugnaði og
hörku til að framfleyta sér og börn-
unum 5 með mikilli útsjónarsemi.
Það var ekki fyrr en árið 1984 sem
leiðir okkar lágu aftur saman fyrir
utan það að ég kynntist Báru sem
vann í Bjarnalaug eftir kynni okkar í
síldinni.
Okkar leiðir lágu saman í okkar
góða Alþýðuflokki. Bára var einörð
jafnaðarmanneskja og trú þeirri
hugsjón til hinsta dags, mikið misst-
um við bæði og margir aðrir þegar
starfsemi Alþýðuflokksins var af-
lögð. Við Benedikt Valtýsson, ÍA-
bakvörður í sigursælu knattspyrnu-
liði, sonur Báru, urðum síðan vinnu-
félagar og góðir vinir hjá
Sementsverksmiðju ríkisins og höf-
um haldið tengslum alla tíð síðan.
Með þessum orðum viljum við
hjónin þakka fyrir góð samferðarár
og votta fjölskyldunni samúð okkar.
Kvenskörungur, dæmigerð alþýðu-
kona er lögð upp í sína hinstu ferð,
þær munu taka á móti henni vinkon-
urnar sem farnar eru á undan. Ég
gæti ímyndað mér að það verði bæði
sungið og dansað þegar þær hittast.
Kærar þakkir fyrir allt.
Gísli S. Einarsson og
Edda Guðmundsdóttir.