Morgunblaðið - 21.09.2008, Qupperneq 42
42 SUNNUDAGUR 21. SEPTEMBER 2008 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
Spenningurinn var
mikill þegar maður
fékk að gista á Hellis-
götunni sem krakki hjá ömmu Sollu
og afa Jóa. Mesti spenningurinn
tengdist þó sundferðunum eld-
snemma næsta morgun með afa.
Grútsyfjuð gekk ég við hlið afa á leið
í sund, staðráðin í að vinna hann í
bringusundi eina ferð jafnvel fram
og til baka. Verðlaunin voru svo
sodastream og júttí.
Afi var einstaklega hraustur mað-
ur, hann hóf iðulega daginn á góðum
sundspretti, fór í golf sama hvernig
viðraði, fór gjarnan hjólandi ferða
sinna og endaði oft daginn á kvöld-
göngu með geislaspilarann sinn,
hlustandi á klassíska tónlist og ekki
má gleyma kóræfingunum. Það sem
afi komst yfir á einum degi myndi
vera næg dagskrá út vikuna fyrir
meðalmanneskju.
Afi Jói tók ríkan þátt í uppeldi
barnabarnanna, fylgdist vel með, var
óspar á hrósið og hvatti okkur áfram.
Alltaf var afi mættur til að fylgjast
með mér á sundmótum og var það
mikill stuðningur að hafa afa Jóa á
bakkanum, reynar svo mikilvægt að
ég gat helst ekki hugsað mér stinga
mér í laugina nema hann væri við-
staddur.
Afi var duglegur að segja okkur
sögur frá lífinu í Aðalvík og gaman
var að fara í Aðalvíkina með afa og
Sigga og Bæring bræðrum hans. Þá
lifnaði gamli tíminn í Aðalvíkinni við.
Það voru ólíkir tímar en þeir sem
maður upplifir nú í sumarleyfum.
Eitt sinn gerðist ég forvitin um mó-
tekju. Bræður voru fljótir til að sýna
mér handtökin og var ég auðvitað
látin spreyta mig. Þeir bræður voru
helst sívinnandi, dyttandi að, „búa í
haginn“ eins og afi hafði svo oft á
orði. Ég var svo heppin að fá að búa
hjá ömmu og afa í kjallaranum.
Fyrst þegar ég var 17 ára gömul
meðan fjölskylda mín var erlendis.
Afi tók hlutverk sitt sem uppalandi
og ábyrgðarmaður hátíðlega. Meðal
annars smurði hann nesti fyrir ung-
linginn á hverjum degi, nesti sem
vakti mikla kátínu og öfund meðal
vinkvennanna í skólanum. Alltaf
smurt rúgbrauð með kæfu, slátur-
sneið sem var vandlega pökkuð inn
og svo íþróttasúrmjólk fyrir íþrótta-
konuna. Síðustu tvö árin á Hellisgöt-
unni áður en hún var seld, bjó ég aft-
ur í kjallaranum. En afi var duglegur
að segja mér til og leggja mér lífs-
reglurnar. Gaf mér einkunn fyrir til-
tekt og sitt hvað fleira. Eftir að afi
hafði hitt Ríkarð minn í fyrsta sinn
fyrir framan bílskúrhurðina á Hellis-
götunni kom hann inn til mín og
sagði: „Það er góðs viti að hitta
tengdasynina fyrir framan bílskúrs-
hurðina“. Hann hafði þrefalda
reynslu af því.
Elsku afi minn, sem varst klett-
urinn okkar allra, þín verður sárt
Jóhannes Páll Jónsson
✝ Jóhannes PállJónsson fæddist
á Sæbóli í Aðalvík 9.
desember 1930.
Hann lést á líknar-
deild Landspítalans
í Kópavogi 9. sept-
ember síðastliðinn
og fór útför hans
fram frá Víðistaða-
kirkju í Hafnarfirði
18. september.
saknað. Við gátum
alltaf leitað til þín með
öll vandamál. Þú
horfðir ávallt jákvæð-
um augum á tilveruna
og kunnir að njóta lífs-
ins. Þú gafst þér alltaf
tíma fyrir okkur. Sá
tími er okkur dýrmæt
minning og veganesti í
dag. Mikill er missir
ömmu en við munum
taka við af þér að hlúa
að henni og hjálpa.
Fram á síðasta dag
leitaðist þú við að búa
mig undir lífið sjálft. Ég verð þér
ævarandi þakklát og Guði fyrir að
hafa átt þig að. Þú munt ávallt eiga
stað í hjarta mér, elsku afi minn. Líf-
ið heldur áfram.
Þín,
Sólveig Hlín.
Mig langar til þess að kveðja vin
minn og svila, Jóhannes Pál Jónsson,
með fáeinum orðum. Hann var fædd-
ur að Sæbóli í Aðalvík árið 1930 og
ólst þar upp ásamt átta systkinum
sínum. Það þurfti að vinna mikið til
þess að komast sæmilega af, en ná-
lægð við gjöful fiskimið og egg í
fuglabjörgum hjálpuðu þó mikið. Á
þessum árum var Aðalvík mjög ein-
angruð, aðeins fært þangað sjóleið-
ina, og því þurfti að sækja flesta
þjónustu til Ísafjarðar, t.d. læknis-
þjónustu, verslun og skólagöngu eft-
ir að skyldunámi lauk. Jói fór því til
Ísafjarðar og lauk þar gagnfræða-
prófi. En þó fagurt sé í Aðalvík á
sumardegi var veturinn oft harður
og erfiður, með langvinnum hríðar-
byljum og snjóalögum, og þá gat sjó-
sókn orðið erfið á litlum bátum. Og
það kom að því að vegna einangr-
unar og ýmissa erfiðleika fór byggð-
in í Aðalvík í eyði og flutti Jói þá suð-
ur með foreldrum sínum. Það fór
ekki framhjá okkur hvað hann hafði
sterkar taugar til Aðalvíkur, þangað
fór hann eins oft og hann gat og þar
höfðu þau systkinin reist vandaðan
sumarbústað, sem var kenndur við
föður þeirra og nefndur Jónshús.
Ekki hafði Jói verið lengi í
Reykjavík þegar hann kynntist verð-
andi eiginkonu sinni, Sólveigu
Björgvinsdóttur frá Hafnarfirði.
Hann flutti þá til Hafnarfjarðar og
bjó á efri hæðinni hjá tilvonandi
tengdaforeldrum að Norðurbraut 1,
en byrjaði fljótlega að byggja sér
eigið hús þar skammt frá. Þar bjó
hann allan sinn búskap eða þar til
þau fluttu á Herjólfsgötuna nýlega.
Eftir að Jói flutti til Hafnarfjarðar
hófust kynni okkar því við vorum
kvæntir systrum sem voru og eru
enn mjög samrýndar. Þessi nánu
kynni urðu til þess, að mikil sam-
staða myndaðist með heimilunum
okkar og var t.d. oft farið saman með
börnin í útilegur á sumrin, tjaldað á
fallegum stöðum eða farið í veiði-
túra. Síðar keyptum við Jói okkur
trillu, sem við áttum í nokkur ár. Við
fórum út á flóann og renndum að-
allega fyrir ýsu, en svo höfðum við
bæði rauðmaga- og grásleppunet til
þess að vitja um. Þetta var oft mjög
skemmtilegur tími. En þegar þessari
„útgerð“ okkar lauk fórum við að
spila golf saman á meðan heilsan
leyfði.
Það var fljótlega eftir að Jói flutti
til Hafnarfjarðar að hann réð sig í
lögregluna hér í bæ. Og þegar stofn-
uð var ný deild hjá lögreglunni,
rannsóknardeild, þótti Jói kjörinn í
það starf, því þar var krafist mikillar
vandvirkni og nákvæmni í starfi og
mikillar skyldurækni því það má
segja að hann hafi verið á vaktinni í
24 tíma á sólarhring ef svo bar við.
Vinátta okkar Jóa hefur staðið í
rúm 50 ár en þó minnist ég þess ekki
að nokkurn skugga hafi borið þar á.
Jói sýndi best hvaða mann hann
hafði að geyma þegar hann þurfti að
annast konu sína í alvarlegum veik-
indum hennar og hvað hann gerði
það af mikilli alúð og tryggð.
Ég þakka þér öll árin sem við átt-
um saman og tryggð þína við mig og
fjölskyldu mína og sendi Sólveigu og
ættingjum mínar innilegustu samúð-
arkveðjur.
Hvíl þú í friði, kæri vinur.
Sigurður Emilsson
og fjölskylda.
Í dag er til moldar borinn föður-
bróðir minn Jóhannes Páll Jónsson,
fv. lögreglumaður í Hafnarfirði, ætt-
aður frá Sæbóli í Aðalvík. Jóhannes,
Jói Palli, eins og hann var oft kall-
aður af ættingjum og vinum, átti al-
veg sérstakan sess í huga okkar
barnanna sem erum nú sem óðast að
komast yfir miðjan aldur.
Margar mínar fyrstu bernsku-
minningar tengjast Jóa. Hvað við öll
dáðumst að honum, hann var hávax-
inn, glæslegur á velli, léttur í lund og
hvers manns hugljúfi. Við strákarnir
áttum okkur það markmið að verða
eins stórir og Jói frændi. Við náðum
því nú ekki nema sumir.
Jói bar alltaf með sér hressilegan
andblæ hvar sem hann kom. Tónlist-
arhæfileikar voru honum í blóð born-
ir, í bernskuminningunni sitjum við
frændsystkinin á gólfinu hjá afa og
ömmu. Afi og Jói spiluðu fyrir okkur
á harmoniku. Þá var gaman. Svo
spilaði Jói „Sól að hafi hnígur“ og
fullorðna fólkið söng með og táraðist.
Svona var Jói næmur á stað og
stund.
Starfsævi Jóa var tvíþætt. Fyrstu
árin starfaði hann ásamt föður mín-
um í Skóverksmiðjunni Þór en fyrir
miðjan aldur venti hann sínu kvæði í
kross og gerðist lögreglumaður í
Hafnarfirði. Fyrst sem liðsmaður í
almennu lögreglunni en síðar sem
rannsóknarlögreglumaður. Sinnti
hann því starfi af mikilli trúmennsku
og alúð allt þar til starfsævinni lauk
og hann fór á eftirlaun.
Mitt fyrsta launaða starf sem ung-
lingur var við hlið Jóa í skóverk-
smiðjunni. Þar naut ég leiðsagnar
hans. Vandvirkni, snyrtimennska og
reglusemi var það sem hann innrætti
mér og bý ég að því allar götur síðan.
Ræktarsemi Jóa við æskustöðvarnar
í Aðalvík var einstök. Það var okkur
öllum ljúf skylda að taka þátt í að
byggja og bæta hús fjölskyldunnar á
Sæbóli, Jónshús. Samheldni fjöl-
skyldunnar er mikil sem ekki er síst
að þakka því fordæmi sem Jói og
hans systkini hafa verið okkur sem
yngri erum. Í þessum ferðum fara
mannvirðingar eftir aldri og aldurs-
forsetinn hverju sinni er allsráðandi
og hefur einkarétt á að setja út á,
sem kallað er. Þannig er hefðin.
Margar ómetanlegar minningar eig-
um við úr þessum ferðum í starfi og
leik sem nú ylja okkur eftirlifendum
er þeir eldri falla frá.
Jói var mikill gæfumaður í sínu
einkalífi og átti miklu barnaláni að
fagna. Eiginkona hans Sólveig
Björgvinsdóttir og dæturnar þrjár
Björg, Signý, og Sif ásamt fjölskyld-
um þeirra sjá nú á bak elskulegum
fjölskylduföður, vini og félaga.
Elsku Solla, fyrir hönd fjölskyldu
minnar votta ég þér og þínu fólki
okkar dýpstu samúð og virðingu. Við
syrgjum öll góðan dreng. Hvíl þú í
guðs friði, kæri frændi.
Erling Ásgeirsson.
Elskulegur móðurbróðir okkar,
Jóhannes Páll, hefur kvatt þetta líf.
Okkur finnst það öllum ótímabært
þar sem Jói Palli geislaði alla tíð af
orku og þreki, lifði heilbrigðu lífi og
var heilsuhraustur. En enginn flýr
sín örlög.
Það eru eingöngu ljúfar og falleg-
ar minningar sem leita á hugann
þegar við hugsum um frænda okkar.
Fyrst ber að nefna þá virðingu og
stolt af upprunanum sem einkennt
hefur systkinin níu frá Sæbóli í Að-
alvík og við fengum með móður-
mjólkinni. Fyrir það erum við svo
þakklát.
Jói Palli var afskaplega glæsilegur
maður: hár, grannur og myndarleg-
ur. Ekki síður var hann hlýr: faðm-
lagið þétt og hláturinn sannur og
smitandi. Ófáar minningar eigum við
um mömmu, þar sem hún talaði við
Jóa Palla í símann og hláturinn óm-
aði um húsið. Hvort heldur í Löngu-
mýrinni hjá okkur eða í heimsókn á
Hellisgötunni í Hafnarfirði, þá leið
okkur alltaf vel því kærleikurinn á
milli Jóa Palla og mömmu var svo
einstakur. Það var bara einhvern
veginn svo notalegt að vera nálægt
þeim.
Við þökkum Jóa Palla fyrir sam-
fylgdina og alla þá gleði, fróðleik og
ráð sem hann gaf ómælt.
Sollu, Björgu, Signýju, Sif og öll-
um ástvinum Jóa vottum við okkar
dýpstu samúð og biðjum þeim Guðs
blessunar.
Þorbjörg, Sólveig, Svanfríður,
María Björk, Katrín Elfa,
Eyrún Svava, Jóhann Ólafur
og Ingvi Rafn.
Kveðja frá Þröstum
Látinn er eftir hetjulega baráttu
við illvígan sjúkdóm félagi okkar Jó-
hannes Páll Jónsson, fv. rannsóknar-
lögreglumaður.
Jóhannes eða Jói Palli eins og
hann var gjarnan kallaður af fé-
lögum sínum í Þröstum gekk til liðs
við kórinn haustið 1979 og var alla tíð
öflugur félagi, músikalskur með fal-
lega tenórrödd og glæddi umhverfi
sitt með sínu glaðlyndi og jákvæða
viðhorfi. Þrestir minnast hans af hlý-
hug og þakklæti fyrir ótal skemmti-
legar stundir.
Vottum aðstandendum okkar inni-
legustu samúð.
Eyjólfur Rúnar Sigurðsson,
formaður Þrasta.
Rannsóknarlögreglan í Hafnar-
firði var öflug eining á sínum tíma.
Frá miðjum sjötta áratugnum og
fram undir breytingar á lögreglulög-
um voru mörg flókin og erfið saka-
mál leyst af þeim lögreglumönnum
sem þar störfuðu, á þann hátt að eft-
ir því var tekið. Og samt voru þeir
aðeins þrír sem stóðu þessa vakt
lengst af. Samhentir, duglegir og
áhugasamir tókust þeir Sveinn
Björnsson, Eðvar Ólafsson og Jó-
hannes Páll Jónsson á við alvarleg
sakamál en sinntu um leið víðtækri
þjónustu við Hafnfirðinga og fleiri.
Þeir þrír gengu í öll störf sem vinna
þurfti, töldu ekkert eftir sér og sam-
an náðu þeir góðum árangri.
Fyrir ungan laganema var það
tími lærdóms og reynslu að fá að
starfa með þessum heiðursmönnum í
nokkur sumur. Þar var lögð áhersla
á að upplýsa mál, gæta að því að rétt-
arstaða sökunautar væri virt og
tryggja að öll gögn væru varðveitt
með tilhlýðilegum hætti. Þetta var
óvenjulegur vinnustaður, verkefnin
harðneskjuleg, málafjöldinn óskap-
legur og langur vinnudagur. Samt
var hvergi betra að vera, þar sem yf-
ir sveif léttleiki og vinsemd í garð
samstarfsmanna og þeirra sem kall-
aðir voru „góðkunningjar lögregl-
unnar“. Samtöl um hvernig væri
best að upplýsa mál gátu tekið á og
einstöku sinnum hvessti í umræðum.
Á stundum notuðu menn þann sið
sem notaður er hjá æðsta dómstigi
þjóðarinnar, að heilsast með handa-
bandi. Þarna var gott að starfa enda
tóku við vináttubönd sem varað hafa
í áratugi þegar samstarfinu lauk.
Það voru forréttindi að hafa fengið
að starfa með Jóhannesi Páli Jóns-
syni og félögum hans í rannsóknar-
lögreglunni. Jóhannes Páll var heil-
steyptur maður, vandvirkur í öllu
sem hann tók sér fyrir hendur, um-
hyggjusamur um alla, ekki aðeins
ástvini og ættingja, heldur einnig
vini og kunningja. Hann var glöggur
og fljótur að átta sig á aðalatriðum,
reglumaður í öllu og það var gott að
starfa með honum og umgangast í
leik. Hann lagði metnað sinn í að
sinna starfi sínu óaðfinnanlega. Í öll-
um samskiptum var hann hlýr per-
sónuleiki, skemmtilegur vinur sem
gaman var að ræða við. Við starfslok
hans tóku við hugðarefnin, golf,
söngur og ferðalög. Kynni allra við
Jóhannes Pál voru á sömu lund.
Hann var einfaldlega góður maður
sem öllum þótti vænt um.
Síðasta æviárið var honum erfitt
og honum hrakaði skjótar en nokk-
urn óraði fyrir. Minningar um góðan
dreng, hlýjan fjölskylduföður,
skemmtilegan félaga lifa með þeim
sem þekktu hann. Hafi hann þökk
fyrir allt og allt. Sólveigu, dætrum
þeirra þremur og fjölskyldum sendi
ég hlýjar samúðarkveðjur.
Skúli Eggert Þórðarson.
Við kveðjum nú Jóhannes, vin
okkar og sundfélaga til margra ára,
með þakklæti í huga fyrir alla góðu
samveruna í gegn um tíðina. Við það
að hittast á hverjum morgni í mörg
ár kynnist fólk vel, það deilir gleði og
sorg og myndar hóp sem gefur meira
en fólk áttar sig almennt á, einhver
fastur og notalegur punktur í tilver-
unni. Venjur myndast, menn eiga
sinn stað, sinn tíma, jafnvel „villing-
arnir“ úr Suðurbæjarlauginni, smá-
spjall, góðan daginn, góðan daginn
og svo framvegis, allt á sínum stað,
þarfur undirbúningur fyrir eril dags-
ins. Þetta líkaði Jóa, sem var reglu-
maður í hvívetna, trúfastur og skipu-
lagður, hélt öllu til haga, var með
skoðanir á flestu og flestum, kynti
undir umræðum bæði í gaman- og
hitamálum, stríddi og stakk á, ef
þurfti.
Menn taka sér óbeðnir hlutverk,
Jói tók meðal annars að sér að hlúa
að þeim sem komu óframfærnir með
ætlanir um átak og ástundun í sundi,
hvatti Sundfélagsfólkið og dáðist að
dugnaði þess og elju, brosti uppörv-
andi og gaf sig að skólakrökkunum
sem mæta okkur morgunhönunum.
Takk fyrir allt.
Við sendum Sólveigu, konu hans,
og fjölskyldu innilegar samúðar-
kveðjur.
Fyrir hönd félaga í Sundhöllinni
Hafnarfirði,
Hreiðar.
Nú þegar haustar að, hryssings-
legt rokið feykir rauðleitum haust-
laufum á brott og kaflaskil verða í
náttúrunni kveður þetta tilverustig
afar traustur og góður maður, Jó-
hannes Páll Jónsson.
Mín fyrstu kynni af Jóa löggu, eins
og við kölluðum hann alltaf, voru í af-
mælisboði hjá Sigga og Finnu. Jói
kom mér fyrir sjónir sem ákaflega
glaðlegur og tignarlegur maður og
strax komu í ljós ákveðnir eiginleik-
ar sem voru einkennandi fyrir Jóa.
Hann fylgdist alltaf með og sýndi því
áhuga sem samferðafólk hans var að
gera. Spurði snáðann gjarnan hvern-
ig gengi í skákinni, sundinu, tónlist-
arskólanum eða hverju því sem mað-
ur hafði fyrir stafni. Jákvæð
hvatning, velvilji og gott spjall, hvort
sem viðmælandinn var 7, 14 eða 47
ára, einkenndi Jóa. Hann var ímynd
þess jákvæða, skemmtilega og góða
og var þeim eiginleikum gæddur að
geta umgengist unga sem aldna sem
jafningja. Þessi kynni mín í æsku af
Jóa styrktust síðan enn frekar eftir
að við fórum að spila golf saman. Við
áttum margar góðar stundir úti á
velli og sérstaklega eru minnisstæð-
ar viðureignir okkar Nonna vinar
míns, gegn þeim svilum Jóa og Sigga
Emils. Þar var auðvitað um keppni
að ræða og allt notað til að koma
andstæðingum úr jafnvægi, enda
sérfræðingur í því í hollinu. Við
Nonni riðum nú sjaldan feitum hesti
frá þessum viðureignum en mikið
rosalega var þetta gaman.
Nú þegar komið er að kveðjustund
viljum við hjónin og fjölskyldan öll
senda Sollu, systrunum Björgu, Sig-
nýju, Sif og fjölskyldum þeirra okkar
innilegustu samúðarkveðjur. Við
kveðjum með söknuði og þakklæti
einstakan mann sem hafði mannbæt-
andi áhrif á alla þá sem honum
kynntust.
Blessuð sé minning Jóhannesar
Páls.
Emil, Ellý og börn.
✝
Ástkær eiginmaður minn, faðir okkar, fósturfaðir,
tengdafaðir og afi,
SIGURÐUR GÍSLASON,
Blöndubakka 3,
Reykjavík,
lést á Landspítalanum við Hringbraut föstudaginn
19. september.
Friðleif Valtýsdóttir,
Friðjón Valtýr Sigurðsson,
Gísli Friðrik Sigurðsson,
Svanhildur Jóhannesdóttir, Einar Mathiesen,
Lára E. Mathiesen, Tryggvi E. Mathiesen.