Náttúrufræðingurinn - 1988, Blaðsíða 27
Olafur Arnalds
Uppgræðsla: hugtök,
markmið og árangur
INNGANGUR
í fáum ríkjum heims hefur oröið til-
tölulega jafn mikil jarðvegseyðing og
á Islandi. Talið er að um fjórar millj-
ónir hektara gróðurlendis hafi eyðst
frá því að landið var numið (Ingvi
Þorsteinsson 1978). Stórfellt verkefni
er því framundan við að klæða landið
gróðri á ný. Við rannsóknir tengdar
uppgræðslu hefur fram til þessa eink-
um verið lögð áhersla á uppgræðslu
með áburði og grasfræi (Sturla Frið-
riksson og Jóhann Pálsson 1970,
Sturla Friðriksson 1960) og heppilega
grasstofna (Andrés Arnalds o.fl. 1978,
Áslaug Helgadóttir og Þorsteinn
Tómasson 1984). Hér á landi hafa
vangróin svæði fyrst og fremst verið
grædd upp með því að takmarka beit
og með friðun.
Á undanförnum árum hafa viðhorf
til landgræðslu breyst víða erlendis,
ekki síst vegna tilrauna og rannsókna
við geysistórar yfirborðsnámur í vest-
urfylkjum Bandaríkjanna og á Bret-
landi, svo og í tengslum við lagningu
olíuleiðslna, m.a. þvert yfir Alaska. í
Bandaríkjunum gilda nú mjög strang-
ar reglur um að skila skuli landi, sem
raskast við námugröft, í sambærilegu
ástandi og það var áður en námugröft-
ur hófst og er þá miðað við fram-
leiðslugetu landsins, fagurfræðileg
sjónarmið og skilyrði fyrir endurnýjað
dýralíf (Schaller og Sutton 1978). Far-
ið er að greina betur en áður hefur
verið gert á milli mismunandi mark-
miða sem stefnt er að með land-
græðsluaðgerðum, jafnframt því sem
aðferðunum hefur fjölgað. Þá hafa
hugtök í þessari umfjöllun verið betur
skilgreind. Hér á landi eru áherslur
einnig að breytast og í rannsóknum er
innlendum tegundum meiri gaumur
gefinn en áður.
I þessari grein er fjallað um ýmis
hugtök er lúta að landgræðslu og rædd
eru mismunandi markmið með upp-
græðslu og endurheimt vistkerfa á Is-
landi. Vonast er til að greinin verði til
þess að auka umræðu um þessi mál,
ýta undir nauðsynlega orðmyndun og
stuðla að betri skilningi á hugtökum
þeim sem notuð eru.
HUGTÖK
Orðin uppgræðsla, landgræðsla og
endurgræðsla hafa öll verið notuð um
sáningu og áburðargjöf. Líklega fer
best á því að uppgrœðsla tákni það að
þekja ógróið land gróðri og er það þá
sömu merkingar og enska orðið
„revegetation". Orðin uppgræðsla og
endurgræðsla hafa hingað til verið
notuð samhliða og verður því haldið
hér. Líta má á orðið landgrœðslu sem
víðara samheiti sem felur í sér hvers
Náttúrufræðingurinn 58 (2). bls. 81-85, 1988.
81