Náttúrufræðingurinn - 1965, Qupperneq 5
NÁTTÚRUFRÆÐINGURINN
163
greinin, sem þær sitja í. Litur klóþangsins er mógulleitari en á öðru
þangi og er það sæmilegt einkenni. Blöðrurnar mjög seigar og
ekki auðvelt að sprengja þær milli fingra eins og blöðrur bólu-
þangsins. Oft eru hinar gulleitu breiður klóþangsins dimmrauðbrún-
blettóttar af „þangull“, en það er þráðgreinótt þörungategund
(Polysiphonia fastigiata). I Þrándheimsfirði í Noregi hefur aldur
klóþangs verið rannsakaður. Reyndust elztu eintökin 19 ára og um
2 m á lengd, mörg voru 10—13 ára. Fyrstu loftblöðrur klóþangs
myndast í byrjun þriðja æviárs. Síðan mynda sprotarnir 1 blöðru
á ári svo hægt er að finna aldurinn með því að telja blöðrurnar
og leggja tvo við. Norðmenn kalla klóþangið grísaþang og hafa
lengi hagnýtt það til svínafóðurs. Klóþang er tiltölulega auðugt
af kolvetnasamböndum og sérlega málmsaltaríkt. Vegna málmsalt-
anna þykir óhentugt að nota það eitt sér til þangmjölgerðar, en kló-
þangmjöli er blandað í aðrar fóðurblöndur. Fleiri þangtegundir
vaxa við Islandsstrendur en algengastar eru: Bóluþang, skúfaþang
og klóþang.
1 neðri hluta fjörunnar, hér um bil frá hálfföllnum sjó og niður
um fjörumark, vex víða mikið af hinum fornfrægu sölvum (Rhody-
menia palmata). Söl voru talsvert etin á fyrri öldum (sbr. Egilssögu
og Grágás) þurrkuð og pressuð, af strandbúum og eyjaskeggjum í
V.-Evrópu, Færeyjum, íslandi og Grænlandi. Ef söl eru pressuð
eða liggja lengi í dyngju, verða þau ljós á lit og þakin sætu, hvítu
dufti, sem í er sykurtegund (xylose). Sagt er, að í Bandaríkjunum
séu söl yfirdregin með súkkulaðihimnu og seld sem eins konar
brjóstsykur. Fénaður er mjög sólginn í söl. Frægar voru fyrrum
sölvafjörurnar á Eyrarbakka, í Vestmannaeyjum og í Saurbæ við
Breiðafjörð. Gengu þá sölvalestir frá Eyrarbakka upp í sveitir.
Sölvum þarf naumast að lýsa mikið; fersk eru þau rauð á lit, en
blikna við þurrk. Söl eru flöt og þunn, dálítið klofin í endann.
Utar í sjó vaxa þau oft á þaraleggjunr. Stundum blikna þau og
fá jafnvel grænleitan blæ, þegar haustar. Söl eru algeng á Atlants-
hafsströnd Evrópu allt norður í íshaf, en eru líka til í norðan-
verðu Kyrrahafi. Við strendur Norðurlanda hafa þau fundizt allt
niður á 15—24 m dýpi.
Fjörugrös (Chondrus crispus) vaxa utarlega eins og sölin. Al-
gengust við Suðvesturland. Þau eru hörð viðkomu, hálfbrjóskkennd
og þykkri en sölin, margkvíslótt, purpurabrún með ögn bláleitum