Fréttablaðið - 20.05.2009, Page 29

Fréttablaðið - 20.05.2009, Page 29
„Þegar ég fór inn á Vog upplifði ég algjöra uppgjöf,“ segir Hrafnhildur Hafsteinsdóttir, verkefnastjóri MBA námsins í Háskólanum í Reykjavík, og bætir því við að henni hafi fundist hún sigruð. „En að viðurkenna ósigur minn er stærsti sigur lífs míns.“ Hrafnhildur er í fæðingarorlofi en fyrir tæpum þremur mánuðum kom Dögun París í heiminn sem er fyrsta barn þeirra Bubba Morthens en fyrir á Hrafnhildur Isabellu, fjögurra ára, og Bubbi á þrjú börn frá fyrra hjónabandi. Hörð, 19 ára, Grétu, 16 ára og Brynjar sem er 11 ára. Það er því oft mikið fjör í sveitinni við Meðalfellsvatn þar sem þau búa. „Það er yndislegt að vera með börnin í Kjósinni og tengjast náttúrunni,“ útskýrir Hrafnhildur. „Það gerist eitthvað innra með þeim og manni sjálfum. Og nú er að koma sumar og þá er gaman því gestir reka inn nefið en veturinn er langur á köflum.“ Nýtur þess að vera til í núinu Hrafnhildur og Bubbi fluttu í Kjósina í maí í fyrra. Húsið þeirra er í raun á æskuslóðum Bubba þar sem hann eyddi sumrunum þegar hann var strákur. Foreldrar hans byggðu þarna bústað í kringum 1950 og því eru ræktin og trén í kringum nýja húsið gróin og falleg. Þótt Hrafnhildur uni sér vel í kyrrðinni í Kjósinni verður hún alltaf borgarstelpa. „Ég er alin upp í Laugarnes- hverfinu og flutti seinna á Seltjarnarnesið,“ segir hún. „Það er yndislegt að búa í sveitinni en ég elska líka borgina. Ég vinn í Háskólanum í Reykjavík og fjölskyldan og margir vinir búa í bænum. Ég keyri því daglega á milli en lít á það þannig að ég fái það besta af hvoru tveggja og reyni að nýta tímann í bílnum vel þessar 40 mínútur sem tekur að keyra. Það sem mér finnst mikilvægt er að vera jákvæð og einblína á kostina, ekki gallana.“ Eftir að Hrafnhildur varð edrú lifir hún meira í núinu en áður: „Ég var alltaf að bíða eftir einhverju, hlakka til einhvers og gleymdi oft að vera þakklát fyrir andartakið sem er í raun svo dýrmætt því það er það eina sem við höfum. Í dag er ég óendanlega þakklát fyrir alla litlu hlutina sem gera lífið svo stórkostlegt. Að fá stelpurnar mínar upp í rúm á morgnana, drekka nýmalað kaffi, finna lyktina af nýslegnu grasi... allt þetta er svo yndislegt. Litlu andartökin með börnunum og fjölskyldunni eru það sem skiptir öllu máli.“ 12 sporin eru fyrir alla „Á Vogi opnuðust augu mín fyrir að þetta er sjúkdómur,“ útskýrir Hrafnhildur en fram að því hafði hún ekki skilið af hverju hún gat ekki hætt sjálf. „Það er auðvitað til fólk sem hefur ekki skilning á því að alkóhólismi er sjúkdómur en ég hef séð mikla breytingu á viðhorfi fólks á undanförnum árum. Það er ekki síst fræðslustarfi SÁÁ að þakka að fordómar í garð alkóhólista hafa minnkað.“ Hrafnhildur þurfti að einhverju leyti að takast á við eigin fordóma. Og þó mest að átta sig á því að hún stóð ekki ein. Tugþúsundir Íslendinga glíma við þennan sjúkdóm og það hjálpaði Hrafnhildi að sætta sig við sjúkdóminn að sjá að fullt af fólki lifði góðu lífi með honum. „Maður lifir með sjúkdóminum en læknast aldrei. 12 spora kerfið hefur hjálpað mér að takast á við sjúkdóminn og lifa með honum,“ útskýrir Hrafnhildur. „Og það sem mér þykir einna merkilegast er að 12 spora kerfið getur nýst mörgu fólki í neyð. Vinkona mín var að ganga í gegnum skilnað sem tók verulega á og hún fór í gegnum sporin. Þetta er útbreitt kerfi sem virkar mjög vel fyrir fólk sem þarf á hjálp að halda, ekki eingöngu fólk með fíkn, heldur líka einstaklinga sem misst hafa tökin. Við eigum öll okkar vandamál og verðum að muna að við stöndum ekki ein, það er til fólk í sömu stöðu og maður sjálfur þótt maður upplifi það oft ekki á augnablikinu sem allt virðist svart.“ Alkóhólismi er fjölskyldusjúkdómur Hrafnhildur lítur á alkóhólisma sem fjölskyldusjúkdóm. Hann hefur áhrif á allt þitt líf og fólkið í kringum þig. „Ég hef heyrt alkóhólisma líkt við hvirfilbyl og finnst það ágætis samlíking. Alkóhólistinn stendur í miðju hvirfilbylsins þar sem er blankalogn en í kringum hann eru rjúkandi rústir. Að fara í meðferð er aðeins byrjunin. Eftir meðferð tekur við mikil vinna í sjálfum sér. Þetta hefur ekki bara verið vegur upp á við heldur hlykkjóttur, kræklóttur stígur en með því að vinna 12 sporin og vinna í sjálfum sér fær maður ríkulega uppskeru,“ segir Hrafnhildur og brosir framan í litlu Dögun París. Er alkóhólismi í fjölskyldunni þinni? „Já, eins og í mörgum fjölskyldum á Íslandi,“ segir Hrafnhildur en hún trúir því að sjúkdómur hennar sé meðal annars arfgengur. „Foreldrar mínir eru bæði mikið reglufólk og ég fékk frábært uppeldi en ég trúi því að ég hafi fæðst með sjúdóminn. Auðvitað þróaði ég hann með mér en ég hef alltaf haft ákveðna bresti sem margir með þennan sjúkdóm glíma við.“ Spyr hvorki um stétt né stöðu Hrafnhildur er stundum spurð að því af hverju hún – svona myndarleg og vel gefin kona – sé alkóhólisti. Hún menntaði sig í Malasíu og á Nýja-Sjálandi. Og þegar hún fór í meðferð á sínum tíma átti hún bíl og íbúð og var í góðri vinnu. „Þetta kom mínum nánustu auðvitað ekkert á óvart og fólki sem þekkti til en mörgum út á við fannst ég ekki alveg passa inn í þá mynd sem þeir höfðu af alkóhólista. En sjúkdómurinn spyr hvorki um stétt né stöðu.“ Hrafnhildur segist hafa öðlast kjark með tímanum til að ræða opinskátt um alkóhólisma og segir mikilvægt halda umræðunni á lofti, fræða og vekja fólk til umhugsunar og vonandi hjálpar umræðan þeim sem þurfa að leita sér hjálpar. Alkóhólismi er ekki sjúkdómur sem fólk þarf að skammast sín fyrir og fleiri og fleiri öðlast skilning á honum, að mati Hrafnhildar. Það hefur margt breyst í lífi Hrafnhildar. Hún hefur öðlast nýtt líf eftir að hún leitaði sér hjálpar: „Ég er óendanlega þakklát fyrir hvern dag. Auðvitað mæti ég erfiðleikum en í dag er ég fær um að takast á við þau mörgu krefjandi verkefni sem bíða mín. Ég einblíni á það jákvæða sem er svo óendanlega margt og minni mig daglega á hvaðan ég er að koma og hvert ég vil stefna. Með því að gefast upp og leita mér hjálpar fékk ég lífið til baka.“ 1. tölublað maí 2009 Að viðurkenna HRAFNHILDUR HAFSTEINSDÓTTIR er konan hans Bubba. Bara svo það sé afgreitt. Hún varð fegurðardrottning Íslands. Hún er klár ung kona. Verkefnastjóri MBA námsins í Háskólanum í Reykjavík. Hún er í fæðingarorlofi út árið. Ári eftir að hún fæddist var SÁÁ stofnað. Hrafnhildur fór á Vog fyrir nokkrum árum. Á dögunum settist hún niður með Mikael Torfasyni og ræddi batann. Í DAG ER ÉG ÓENDANLEGA ÞAKKLÁT FYRIR ALLA LITLU HLUTINA SEM GERA LÍFIÐ SVO STÓRKOSTLEGT.“ Á VOGI OPNUÐUST AUGU MÍN FYRIR AÐ ÞETTA ER SJÚKDÓMUR.“ HRAFNHILDUR HAFSTEINSDÓTTIR Ég hef öðlast kjark til að ræða um alkóhólisma. Það er nauðsynlegt því halda þarf umræðunni á lofti og vekja fólk til umhugsunar. Alkóhólismi er ekki sjúkdómur sem fólk þarf að skammast sín fyrir, að mati Hrafnhildar. MYND: ATLI MÁR HAFSTEINSSON 05 ósigur minn sigur lífs mínser stærsti

x

Fréttablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.