Fálkinn


Fálkinn - 07.12.1960, Side 11

Fálkinn - 07.12.1960, Side 11
JÓLAHUGVEKJA FÁLKANS 1960 Stemning eða eitthvað meira? Nýlega spurði ég ungan mann, hvað jólin væru í vitund hinnar ungu kynslóðar. Hann sagði, að þau væru fyrst og fremst sérstök stemning eða hugblær, sem fylgdi því, að minningar bernskujólanna rifjuðust upp. — Svarið er eftirtekarvert. En hefur þú hugsað út í uppruna þessarar stemningar, hvaðan hún stafar? — Stemning jól- anna er ávöxturinn af margra alda jólamessum, húslestrum, söngvum og sálmum. Kynslóð eftir kynslóð hefur fylgzt með vitringunum að jötunni í Betlehem, og þúsundir tekið undir englasönginn úti á völlunum. Og þetta gerist enn í dag. Svo lengi sem eitthvað er eftir af þessu, heldur jólastemningin áfram að ná tökum á oss. Hugblær jólanna er ekkert annað en ástand trúaðrar sálar, sem finnur návist guðs, frið him- insins, og frelsarans náð. Hugblær jólanna verður hlýjastur og stemningin eðlilegust hjá þeim, sem allt árið um kring rækja minninguna um frelsarann, biðja á hverjum degi í hans nafni, og reyna af veikum mætti að feta í fótspor hans. Ungi maðurinn, sem ég talaði við, sagði fleira. Hann taldi, að ungt fólk hugsaði ekki mikið um trúmál. Það leitaði at- hvarfs í trúunni, þegar í harðbakkann slægi, og eitthvað sér- stakt yrði til að valda þjáningum og sálarstríði. En annars væri erillinn svo mikill, og hver dagur hefði svo mörg verk- efni að færa, að ekki gæfist tóm til að hugsa um það, sem trúnni heyrði til. Gerum ráð fyrir, að þetta sé rétt. Þá á það vafalaust ekki síður við um marga hinna eldri. Miðað við mín eigin kynni af ungu fólki, hugsar það oft meira en hin eldri kynslóð um eðli og tilgang lífsins, þótt undarlegt kunni að virðast. En satt er það, flestir hafa nóg að gera við dagvinnu og eftir- vinnu, næturvinnu og helgidagavinnu, og hví skyldu þeir þá vera að gefa sér tóm til að leita eftir stemningu helgi- stundarinnar, hugblæ trúarinnar — nema þá helzt á jólunum? Það er mannlegt að spyrja þannig. En þá langar mig til að bera fram aðra spurningu. Fæddist Jesú aðeins til að vera falleg mynd, sem brugðið er upp einu sinni á ári? Var hann ekki með í athafnalífinu, smiðurinn, iðnaðarmaðurinn, sem lagði það fyrir sig að byggja hús? Stóð ekki um hann nokk- ur stormur í þjóðlífi samtíðar sinnar? Og hefur hann ekki á liðnum öldum haft sitt að segja í erli og starfslífi þjóða, stétta og einstaklinga? Hefur þér aldrei fundizt það koma þér neitt við, hvað hann vildi, hvers hann óskaði, eða hvað hann fyrirskipaði í sambandi við verkefni þín og annarra, sem nú eru að brjótast í því að lifa lífinu? Jesús hefur sann- arlega átt annað og meira erindi í heiminn en að vekja sér- staka stemningu eða vissan hugblæ, hversu mikils virði sem sú stemning og hugblær kann að vera fyrir oss á jólunum? Fæðing Jesús hefur yfir sér stemningu hins barnslega frið- ar, en líf hans var eins og lúðurhljómur stríðsins, dauði hans og blóðug fórn kærleikans, upprisa hans kröftugur sigur, og sending hans heilaga anda er sterkviðri, sem enn geysar um jörðina. — Fagnaðarerindi hans er ekki aðeins huggun þín, þegar eitthvað bjátar á, og þú finnur, að þú ert ósjálfbjarga. Það er köllun til starfs og athafna, til fórnar, til sigurs, —- til sambands við kraft, sem knýr áfram framvindu hins góða í þessum furðulega heimi. Þú getur ekki án hans verið í erli og athafnalífi, vinnu og vafstri daganna. Einmitt af því að þú hefur mikið að gera, og hver dagur fœrir þér óteljandi verkefni, þarftu hans með. Hugblær guðrækninn- ar, stemning jólanna, vísar þér veginn til þeirrar uppsprettu, sem þér er þörf að nærast af á þínum virku dögum, hvort sem hönd þín leikur um bílstýri eða penna, fóturinn gengur um fjárgötur eða steinstræti og hvort sem heilinn fæst við ritsmíðar eða reikningshald. Ungi maðurinn, sem ég vitnaði í, sagði, að flestir leituðu athvarfs í trúnni, þegar lífið yrði erfitt. En hvernig á þjáð mannssál að leita til guðs undir slíkum kringumstæðum, nema hún hafi einhverja hugmynd um hann fyrirfram? Vitr- ingarnir sáu stjörnuna, fjárhirðarnir heyrðu englasönginn — og sameinuðust við jötu frelsarans. Þess er ekki getið, að þeir hafi átt við neina sérstaka örðugleika að stríða, — en hafi þeir einhverntíma komizt í mannraunir síðar á ævinni, má mikið vera, ef þeir hafa ekki hugsað til þess, sem þeir voru vottar að á hinni fyrstu jólanótt. En fyrst þurftu þeir að hafa kynnzt huggun og friði þessarar dásamlegu reynslu. Þannig held ég, að það sé yfirleitt. Sá, sem leitar guðs glaður, heil- brigður, öruggur og sterkur, ratar til hans í sorg, sjúkdóm- um, vonleysi og veikleika. — Og meira að segja, þeir menn eru til, sem eiga hugblæ og stemningu trúarinnar í svo rik- um mæli hið innra með sér, að það verður léttbært og auð- velt, sem ella myndi óbærilegt. Jesús Kristur með þér í guðrækni þinni, lífsbaráttu þinni og þjáningu þinni. Þetta er boðskapur jólanna. Gleðileg jólt Síra Jakob Jónsson. FALKINN 11

x

Fálkinn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fálkinn
https://timarit.is/publication/351

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.