Fálkinn


Fálkinn - 05.04.1961, Blaðsíða 30

Fálkinn - 05.04.1961, Blaðsíða 30
UNDRAVERZLUNIN- Framh. af bls. 13. „Hann er í vasa þínum.“ Og þarna, sepi hann hallaði sér fram á afgreiðsluborðið, — hann hafði reynd- ar óvenju langan búk — særði þessi furðulega mannvera hlutina fram á venjulegan galdramannahátt. „Pappír,“ sagði hann og tók örk úr tóma hattin- um með gormunum, „band,“ og sjá, munnur hans varð þráðaraskja, úr hverri hann dró endlausan þráð, sem hann svo beit í sundur þegar hann hafði gengið frá bögglinum, og gleypti hnotuna — að því er ég bezt gat séð. Síðan kveikti hann á kerti með nefinu á einni búk- talarabrúðunni, stakk einum fingri sem var orðinn að rauðu innsiglisvaxi, í logann og innsiglaði þannig böggulinn. „Svo var það Eggið sem hverfur", sagði hann og dró eitt úr jakkabarmi mínum og vafði því inn, og sömuleiðis Grátandi barn ákaflega eðlilegt. Ég rétti Gip hvern böggulinn um leið og hann var tilbúinn, og hann hélt þeim í fanginu. Hann sagði fátt, en augnaráðið og hvernig hann þrýsti bögglunum að sér sagði meira en nokkur orð fá lýst. Hann var leiksoppur ósegjanlegra tilfinninga. Þetta voru sannkallaðir galdrar. Allt í einu hrökk ég við, ég fann eitt- hvað kvika í hattinum mínum — eitt- hvað mjúkt og hoppandi. Ég þreif hann af mér, og úfin dúfa — samherji vafa- laust — datt úr honum og hljóp eftir af- greiðsluborðinu, og inn í pappakassa á bak við tígrisdýrið, held ég. „Uss, uss,“ sagði kaupmaðurinn og tók hattinn fimlega af mér, „óreiðufugl, og sem ég er lifandi maður — búinn að verpa.“ Hann hristi hattinn minn, og hristi niður í lófa sinn tvö eða þrjú egg, stórt marmarastykki, vasaúr, svona hálfa tylft af þessum óhjákvæmilegu glerkúl- um, og svo krukklaða bréfsnepla, fleiri og fleiri, á meðan hann rausaði um það hvernig fólk trassaði að bursta hattana sína að innan. Hann sagði þetta kurteis- lega en þó svo að ég gat tekið sneiðina til mín. „Alls konar drasl safnast fyrir herra minn ... Auðvitað ekkert frekar hjá yður, en hjá öðrum ... Hér um bil hver einasti viðskiptavinur .. . furðu- legt hvað fólk getur borið með sér ...“ Krukkluðu bréfsneplarnir hrúguðust upp á borðinu, fleiri og fleiri, þangað til hann var næstum því kominn í hvarf, þangað til hann var alveg kominn 1 hvarf, og enn lét hann móðan mása. „Enginn okkar veit hvað maðurinn hef- ur að geyma, herra minn. Erum við þá engu betri en gljáfægðir hlutir, kalkað- ar grafir .. Röddin þagnaði. Það var alveg eins og þegar manni hefur tekizt að hæfa glym- skratta náungans með vel miðuðum steini, sama skyndilega þögnin. Það hætti að skrjáfa í pappírnum, og allt varð hljótt. „Hvað hafið þér gert við hattinn minn?“ sagði ég eftir drykklanga stund. Ekkert svar. Ég horfði á Gip, og Gip horfði á mig, og þarna voru afskræmi okkar í spé- speglinum, ákaflega skringileg og alvar- leg og hljóð ásýndum. „Ætli við förum ekki að fara,“ sagði ég. „Viljið þér segja mér hvað allt kost- ar?“ „Ég er að segja,“ sagði ég ögn hærra, „að ég vil fá reikninginn og hattinn minn, ef þér vilduð gjöra svo vel.“ Mér heyrðist eins og blásið úr nös á bak við bréfahrúguna. „Við skulum gá á bak við afgreiðslu- borðið Gip,“ sagði ég. „Hann er að draga dár að okkur.“ Ég leiddi Gip framhjá tígrisdýrinu sem velti vöngum, og hvað haldið þið að hafi verið á bakvið afgreiðsluborðið? Alls enginn. Aðeins hatturinn minn á gólfinu, og venjuleg hvít galdramanna- kanína með lafandi eyru, niðursokkin í hugsanir sínar, og svo heimskuleg og úfin ásýndum sem einungis galdra- mannakanínur geta orðið. Ég tók hatt- inn minn, og kanínan hoppaði frá mér eitt hopp eða svo. „Pabbi,“ hvíslaði Gip sektarlega. „Hvað er að Gip?“ sagði ég. „Mér finnst þetta skemmtileg búð, pabbi.“ „Það fyndist mér líka,“ sagði ég við sjálfan mig, „ef afgreiðsluborðið færi ekki allt í einu að teyg(ja úr sér, til að króa mig frá dyrunum." En ég lét ekki á því bera við Gip. „Kansa,“ sagði hann og teygði höndina eftir kanínunni, þeg- ar hún hoppaði framhjá okkur. “Kansa mín, gerðu galdur fyrir Gip.“ og hann elti hana með augunum þegar hún smaug inn um dyragátt, sem ég hafði svo sannarlega ekki veitt eftirtekt fyrr. Síðan opnuðust dyrnar betur og maður- inn með annað eyrað stærra en hitt kom aftux í ljós. Hann var enn brosandi, en hann leit á mig ögrandi og glettnislega í senn. „Þér hefðuð gaman af að sjá sýning- arsalinn okkar, herra minn,“ sagði hann ósköp blítt og sakleysislega. Gip togaði í fingur minn. Ég leit á afgreiðsluborð- ið og horfðist svo aftur í augu við kaup- manninn; mér voru farnir að þykja galdrarnir helzti raunsannir. „Við er- um dálítið tímabundnir,“ sagði ég, en einhvern veginn vorum við komnir inn í sýningarsalinn áður en ég lauk við setninguna. „Allar okkar vörur eru af sama gæða- flokki,“ sagði kaupmaðurinn og neri saman sveigjanlegum höndunum, „og það af þeim bezta. Hér inni er ekkert nema raunverulegir galdrar, og allt hvað öðru kynlegra. Afsakið herra minn.“ „Ég fann að hann togaði í eitthvað, sem hékk við ermina mína, og svo sá ég að hann hélt litlum rauðum sprikkl- andi púka uppi á skottinu, ófreskjukríl- ið brauzt um og beitti kjafti og klóm, og reyndi að ná í hönd hans — en eftir stutta stund þeytti hann honum kæru- leysislega aftur fyrir afgreiðsluborðið. Auðvitað var þetta ekki annað en tog- leðurbrúða, en þá stundina! Og látbragð kaupmannsins var alveg eins og hann ætti við illskeytta ókind. Ég leit á Gip, en hann var að skoða galdrarugguhest. Ég varð feginn að hann hafði ekki séð ósómann. „Segið þér mér,“ sagði ég lág- um róm og hvarflaði augunum að Gip og rauða púkanum, „Þér hafið vænti ég ekki mikið af svonalöguðu nálægt yður, eða hvað?“ „Ekkert, sem viðkemur okkur. Það hefur sennilega borizt með yður,“ sagði kaupmaðurinn — einnig lágum rómi, og með sínu ágæta brosi. „Furðulegt hvað fólk getur borið með sér án þess að vita af því!“ Síðan sneri hann sér að Gip. „Sérðu eitthvað hérna, sem þér líst á?“ Það var ýmislegt, sem Gip leist á. Hann sneri sér að þessum furðulega sölumanni með samblandi af trúnaði og virðingu. „Er þetta galdrasverð?" sagði hann. „Leikfangagaldrasverð. Það bognar Vögguljóð á pákur. 30 FÁLKINN

x

Fálkinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fálkinn
https://timarit.is/publication/351

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.