Vikan


Vikan - 26.09.1963, Blaðsíða 17

Vikan - 26.09.1963, Blaðsíða 17
Lóa Dalberg leit á hann bláum sakleysisaugum sínum og brosti sælubrosi. „Æ, mikið ósköp væri það indælt,“ sagði hún og and- varpaði. „Ég geri ráð fyrir að þú annist fjárhagslegu hliðina, eða er það ekki?“ „Nízkur hef ég aldrei verið talinn," sagði kaupsýslumaður- inn. „Og ekki held ég að ég fari að senda ykkur reikning fyrir svoleiðis smáskiterí. — En þú, Ása mín ■—• hvernig líst þér á þetta?“ Ása Sigurlinnadóttir hikaði eilítið, hún hafði roðnað í kinn- um og allt í einu leit hún ósjálf- rátt á Berg garðyrkjubónda. Sigtryggur Háfells varð þess var og brúnir hans sigu eilítið, en hann mælti: „Já, auðvitað ert þú velkominn með okkur Bergur, það væri skolli gaman að hafa þig með í svona ferð.“ Garðyrkjubóndinn hristi höf- uðið brosandi. „Nei, ég er hrædd- ur um að það verði nú að bíða eitthvað, versti annatíminn í júlí skilurðu. Þakka þér samt fyrir boðið Sigtryggur minn.“ „Það væri alveg indælt," sagði Ása. „En þurfum við ekki að hafa með okkur tjald?“ „Tvö tjöld ef þið viljið!“ sagði kaupsýslumaðurinn og hló held- ur kuldalega. „Eða þrjú —? Hann Árni minn hefur verið kokkur á togara, svo ég býst við að við höfum með okkur ein- hver eldhúsáhöld handa honum og eitthvað af snarli til að borða, ef við skyldum lenda í óbyggðum. Annars munum við náttúrulega búa á hótelum, þar sem þau er að hafa.“ Hann leit á Herjólf B. Hansson, og kringluleitt and- lit hans varð skrambi háðslegt. „Karlmannshár!" sagði hann dol- fallinn. „Þvílík déskotans vit- leysa! Er það þetta sem kallast sálarfræði?" Sálfræðingurinn leit upp og mældi kaupsýslumanninn með djúpri fyrirlitningu, vatnsblá augu hans voru köld á bak við gleraugun. „Nietsche gamli sagði eitt sinn,“ mælti hann og talaði fram í nefið. „Das aber sind feine ferne Dinge, daran sollen nicht Schafsklauen greifen; það er út- lagt: Að sauðarklaufir eigi ekki að káfa á fínum og vandskyldum hlutum. Ég held að þér ættuð að láta sálfræðina í friði, herra braskari.“ Sigtryggur Háfells kreppti ó- sjálfrátt hægri hnefann um hnífsskaftið og brúnir hans sigu, en svo hló hann góðlátlega. „Jæja, ef þessi andskotans sálar- fræði er svo fín að venjulegt fólk megi ekki tala um hana, þá það. Satt að segja þá tek ég hana nú ekki alvarlegar en það, að ég hef hugsað mér að gefa þér, drengur minn, einhvern tíma við gott tækifæri, einkatíma í þeirri sálfræði sem ég kann skil á — en nóg um það núna. Jæja, skál börnin góð!“ VIII. Eftir borðhaldið bauðst garð- yrkjubóndinn til að sýna þeim bú sitt og þáðu þau það með þökkum, öll nema Herjólfur B. Hansson, er kaus heldur að sitja inni og dunda við glasið sitt. Þetta var frekar lítil garð- yrkjustöð en ákaflega snotur. Gróðurhúsin voru aðeins 600 fer- metrar að stærð en þegar full af hinum fegurstu blómum, rósum, nellikkum, gerberum og öðru slíku. Bergur hafði byrjað þarna með tvær hendur tómar fyrir þrem árum síðan, en var nú vel á vegi með að efnast dálítið. Hann hafði keypt allstórt land, sem að mestu leyti var karga- þýfi, en eins og hann skýrði fyr- ir gestum sínum, ákaflega frjó- samt og vel fallið til ræktunar. „Hérna ætla ég að hafa garðinn minn, þegar þar að kemur; þið sjáið að ég hef gróðursett hér nokkur þúsund tré af ýmsum tegundum og talsvert af útirós- um, runnum og fjölærum blóm- um. En þetta er allt í frum- byggjastandi hjá mér, vegna þess að ég er einn og þarf að vinna fyrir brauði mínu. En eftir svona tíu, fimmtán ár verður fal- legt um að litast hérna.“ Hann brosti eins og státinn drengur og leit á stúlkurnar, en er hann mætti augnaráði Lóu Dalberg roðnaði hann út að eyrum. Hún brosti sakleysislega við honum og mælti; „Það er svo sem auð- vitað hvað yður vantar: góða konu -— eða finnst yður það ekki?“ Kaupsýslumaðurinn hló hrossa- lega: „Já, fröken Lóa, hér væri verkefni fyrir yður, betra en að þvælast á kontór og leika sér að því að fleka piltana í Reykja- vík!“ Lóa Dalberg brosti sakleysis- lega. „Já, en það er nú samt ó- sköp gaman,“ sagði hún með blíðri rödd sinni. Garðyrkjubóndinn varð alvar- legur á svipinn og nú leit hann á Ásu. Hún hafði gengið þarna líkt og í draumi, andað að sér angan jarðarinnar og horft hrif- in á blómskrúðið. „Ég held að þetta hljóti að vera unaðslegt starf,“ sagði hún. „Þér eigið gott, Bergur. — En það er satt, sem hún Lóa segir: yður vantar skiln- ingsríka eiginkonu til aðstoðar og stuðnings —.“ ,,— bæði dag og nótt!“ botn- aði kaupsýslumaðurinn setning- una. Einhvernveginn atvikaðist það þannig, að Sigtryggur og Lóa urðu viðskila við hin, og Ása og Bergur gengu í hægðum sínum um landareignina. Þau námu staðar á lágum klettahóli þar sem fagurt útsýni var yfir dalinn og allt vestur til Snæfellsness. Vormorgunninn var bjartur og regnbogalitað skin yfir Faxa- flóa. Gufumekkir stigu upp hér og þar í dalnum, beint til himins, því að logn var á og mjög frið- samt á láði sem legi. Þau settust á ílangan stuðlabergsklett og voru þögul um stund. Ása Sigur- linnadóttir naut hinnar angandi vorblíðu í náttúrunni og andaði að sér með velþóknun ilmi vakn- andi gróðurs. Hún gat ekki á sér setið að gjóta augum til hins unga, vörpulega manns, er sat við hlið hennar, hreinn og hýr og sakleysislegur á svipinn, eins og öll leiðindi veraldarinnar hefðu farið framhjá honum. Loks sagði hún í lágum hljóð- um: „Þetta hlýtur að vera ham- ingjusamt starf, sem þér hafið með höndurn?" Hann brosti og svipur hans ljómaði. „Já!“ sagði hann hátíð- lega. „Ég er ekki trúmaður, en ef ég væri það myndi ég segja að það væri að vinna með Guði að sköpun heimsins." Hún leit á hann alveg forviða. „Hvað — hvað meinið þér?“ „Ég — ég meina — skiljið þér — já, sko, ég held að Guð sé enn að skapa heiminn, ef hann er þá til — sem ég vona. Já, ég er nærri sannfærður um að það er til einhvers konar Guð — Guð sem vill að mennirnir starfi og elski og séu góðir hver við ann- an.“ Hann laut höfði blóðrjóður í framan, en það var bros um var- ir hans og hún starði á hann al- veg dolfallin. Langur tími leið. í fjarska heyrði hún rödd Sigtryggs Há- fells, djúpa og hása, en þægilega eigi að síður: hann var auðsjáan- lega að útskýra eitthvað í mesta ákafa fyrir vinkonu hennar, Lóu. Hún brosti ósjálfrátt: henni rann í hug hversu ólík þau voru Lóa og Sigtryggur, og þó gat hún ekki að sér gert að hugsa að eiginlega pössuðu þau nokkuð vel saman. Bæði voru þau veraldarvön — raunar átti hún alltaf dálítið bágt með að trúa því að Lóa Dal- berg væri jafn „harðsoðin" og hún sjálf lét í skína. Auðvitað efaðist hún ekki um að hún lék sér að karlmönnunum og vissi allt um þá, en samt sem áður — sakleysissvipurinn á andlitinu og í hinum bláu, hreinu augum, rímaði einhvern vegin ekki við hið kaldranalega tal hennar. „Vinkona yðar er falleg stúlka,“ sagði garðyrkjubóndinn allt í einu og andvarpaði um leið. „Já,“ sagði Ása í lágum hljóð- um. „Það vildi ég óska að þið gætuð orðið hjón!“ Þau litu hvort á annað, bæði jafn forviða, bæði rjóð í kinn- um og skömmustuleg. Svo brosti hann drengjabrosi sínu og mælti: „Stundum hef ég hugsað mér stúlku eins og hana.“ Þau risu á fætur og löbbuðu aftur niður móann unz þau komu að gróðurhúsunum en þar mættu þau Lóu og Sigtryggi. „Fjandinn hafi það,“ sagði kaupsýslumaðurinn- „oft hef ég öfundað þig, Bergur minn. Þú hefur kannski ekkert ýkja mikið upp úr þér, en það getur svo sem komið seinna, ég trúi á þetta basl þitt — og ef þig skyldi vanta aura, veiztu hvar þá er að fá. Og ekki get ég neitað því að oft hefur mig langað til að hlaupa frá öllu saman þarna niðri í Reykjavík, helvítis braskinu, svindlinu og kjaftaganginum ■— faðir minn var bóndi og faðir hans, bændur alla leið aftur í forneskju, og í réttunum ek ég alltaf út í sveit með nokkrar flöskur í skottinu, fer i réttir, fylli karlana — og drottinn minn góður hvað ég nýt þess að hevra þá kjafta um rollur og hesta og beljur og heyskap og allt þess háttar. Það er hundalíf að vera kaupsýslumaður — en gefur talsvert í aðra hönd, óneitanlega. Þetta er eins og að spila póker, spennandi, gaman á köflum, gaman oftast nær, og peninga verður maður að hafa, annars er maður bara bölvaður aumingi og enginn ber neina viriðngu fyrir manni. Peningar, það er það eina sem menn bera virðingu fyrir nú á dögum, jafnvel kommún- istarnir hérna á íslandi eru flest- ir orðnir sterkefnaðir menn. Ef maður á ekki peninga þá er mað- ur bara núll og nix og ekki neitt. Og ég kann einhvern veginn ekki við það.“ Garðyrkjubóndinn brosti feimn- islega og reyndi að malda í mó- inn: „Auðvitað þarf maður á peningum að halda, það er svo; en ekki held ég að þeir geri mann hamingjusaman, ekki bein- línis meina ég — það skal meira til og annað — eitthvað annað — sköpun, kannski fórn — ég veit ekki —.“ Sigtryggur Háfells brosti góð- látlega. „Getur vel verið,“ sagði hann óvenjulega bljúgur í máli. „En í heimsins augum að minnsta kosti er maður bara fífl og fáviti ef maður á ekki peninga. Ég upp- götvaði það, góði minn, þegar ég kom blásnauður til Reykjavíkur, fyrirlitinn af öllum, einskis virt- ur. Núna aftur á móti — það get- ur vel verið að ég sé kallaður braskari, en í Reykjavík veit fólkið að ég á nokkrar milljónir og þess vegna er ég alls staðar velkominn, jafnvel þó að eitthvað sé tautað og brosað á bak við mig, og ég gef satt að segja skít í það, ef ég á að segja ykkur al- veg eins og er. En nú eru jafnvel stjórnmálaflokkarnir farnir að biðla talsvert til mín, ekki sízt þegar kosningar fara í hönd —- já, ég get vel sagt ykkur það og skammast mín ekkert fyrir, að ég borga í alla kosningasjóði, já, líka hjá andskotans kommúnist- unum! Kaupsýslumaður verður að koma sér vel við alla, verzla við alla, það er mergurinn máls- ins. Þetta líf er stutt og við þurfum að njóta þess vel, þess Framhald á bls. 48. VIKAN 39. tbl. —

x

Vikan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.