Vikan


Vikan - 10.10.1963, Blaðsíða 27

Vikan - 10.10.1963, Blaðsíða 27
hafa það hlutverk aS halda uppi sporbrautum rafmagnsstrætisvagn- anna. Það eru þessi ósköp af þessum vögnum. En lítið af litlum bíl- um miðað við Kaupmannahöfn t. d., nema leigubílum. Gangstéttirnar eru breiðar og fullar af fólki. Endalaust rennsli af fólki fram og til baka. Nú ætti kellíngin að vera komin, sem kom til Reykjavíkur, stoppaði forviða í Bankastræti.. horfði í kringum sig og sagði svo aldeilis hlessa: „Hvað er allt þetta fólk að gera hérna í sparifötunum á rúmhelgum degi." Á gangstéttunum sitja allskyns sölumenn. Rjómaískerlingar með klút um höfuðin, skóburstarar og bóksalar með vagna sína og kona sem selur maltöl úr 1000 lítra tanki, í stórum krúsum, sem menn drekka á staðnum. Það er biðröð hjá henni því dagurinn er heitur. En ég finn engan sem selur eldspýtur. Er einn á ferð og tekst ekki að spyrja til vegar. En tíminn er nógur og veðrið er gott. Eg hlýt von bráðar að rekast á eldspýtnasala. Gegnum trjákrónur garðsins, hinum megin við torgið, glitrar á gulli lögð turnaþök í sólskininu. Langur múrveggur, úr rauðum múrsteini, með miðalda hleðslulagi, brjóstvörnum, skotraufum og mörgum gulltypptum varðturnum, af- marka þessa glanshúfuðu borg frá garðinum. Það eru stjörnur úr rauðu gleri uppi á varðturnunum og á hvolfþaki einnar byggingar- innar innan múrsins, blaktir rauður silkifáni með hamri og sigð. Á kvöldin logar ljós í stjörnunum. Kreml. Þetta er einmitt nokkuð sem vert er að skoða. Þar eru varðveittar byggingar, myndir og minjagripir frá öllum tímum Moskvuborgar. Dagurinn er bjartur og sólarglaður. Fólkið á götunni í léttu skapi. Loftið biart. Miðbærinn fullur af ferðamönnum úr ýmsum heims- hornum. Þeir masa, taka myndir, glápa, stíga ofan á hvers annars tær, hlæja. Risavaxnar grjóthallir nútímans hreykja sér hátt yfir torgin, sterk og ábúðarmikil, eins og starfshetja í sósíalrealísku málverki. Gömlu húsin í Kreml og þar um kring yppta glettnislega skældum brúnum o? kíma. Það er eitthvað yfirtak fyndið við yfirbragð Moskvu. Ný hús, göm- ul hús. Hrokaleg hús, auðmjúk hús. Hús sem hlæja og önnur sem gráta. Þakskegg, turnar, rennur, niðurföll hoppa ýrriist upp eða niður á ská, í boga og allavega nema reglulega. Manni verður skemmt að horfa á. Hátt uppi yfir hallandi þaki, sem af liggja fimm tommu niðurfalls- rör í ótal beygjum og hornum framhjá dýra- og mannamyndum úr gráum steini, sem skreyta veggina, gnæfir risastórt neonauglýsinga- skilti með beinum hátíðlegum stöfum: „Lifi flokkurinn", „Lifi hin mikla svoéska þjóð". Á húsinu beint á móti annað skilti sem á stendur stórum stöfum: „Fiskur" og annað sem ég sá í kvöldrökkr- inu í gær rétt hjá, sem blikkaði í sífellu „Horfið á bíómyndir". Hérna auglýsa öll bíóin sameiginlega. Auglýsingar sem þessi eru um allan bæ. „Eigið þér að reykja, félagi?" Ég sný mér við. Jú, þessari spurningu er beint til mín. „Já." „Gefið mér þá eina sígarettu," segir spyrjandinn eins og ekkert væri sjálfsagðara. Ég varð hálfringlaður, því ég trúði varla að rónar gengju svona fínt til fara eins og þessi maður, en hafði aldrei orðið fyrir því áður að ókunnugir menn af öðrum stéttum bæðu vegfarendur um sígarettu. Samt fálmaði ég eftir sígarettu og gaf honum. „Eld?" spurði hann. „Nei, það var nú einmitt það sem mig sjálfan vantaði." „Borgari góður, leyfið okkur að millireykja," segir sá ókunni. Há virðuleg persóna með embættismannssvip og grátt í vöngum snýr sér við, tekur sígarettuna úr munnvikinu og réttir að þessum nýja félaga mínum. Hann tottar eld í þá sem ég gaf honum. Sá virðu- legi réttir mér einnig stubbinn eftir bendingu hins, og ég skil að mér er aetlað að millireykja líka. „Takk fyrir." „Gerið svo vel," segir sá grásprengdi, setur síðan stubbinn í munn- vikið á nýjan leik, skjalatöskuna undir höndina og gengur svip- brigðalaust á burt. Hmn nýorðni félagi minn þakkaði hofmannlega og hvarf í mannhafið. Ég var öldungis grallarálaus: Kristur sagði: Sá yðar sem á tvo kyrtla, fari og gefi annan þeim sem engan á. — Hérna virðast þeir hafa bætt við: Sá yðar sem ekki á sígarettu eða eldspýtu fái sér það hjá þeim sem á. í garðinum undir virkisveggnum sitja gamlar konur með börn og gefa dúfunum brauðmola. Þær þurfa mikið að tala saman. Eftir rauðum malarstíg leiðast elskendur. Þeir þurfa ekkert að segja. Eftir endilöngum garðinum hlykkjast óendanleg bið- röð eins og sólbökuð marglit slanga. Hvað er hér á seyði? Er verið að selja miða á bingó? Eða opna uppboð hjá sölunefnd varnarliðseigna? Og þó. Þetta fólk hefur sett upp hátíðasvip. Röðin hverfur fyrir horn á Kremlmúrnum. Kannski þarf að standa í henni til þess að komast inn í Kreml? Nei, þarna gengur fólk út og inn um múrana á öðrum stað, hlæjandi. Ég geng með- fram röðinni, fyrir hornið nokkur hundruð metra í viðbót með- fram virkisveggnum. Þar hverfur endi slöngunnar inn um dyr lítils húss úr gljáfægðum rauðum steini. Menn ganga lotningar- fullir inn og koma þenkjandi út hinum megin. Þar dreifist hóp- urinn um hellulagt torgið. Fólkið fer inn og út um hliðardyr, en við framdyrnar standa margar blómakörfur og tveir bí- sperrtir dátar á verði, hreyfingarlausir eins og dauðir hlutir. Allt í einu spretta tvær gamlar konur upp úr steinunum með skýluklúta á höfði og gólfklúta í hendi. Þær fara að fægja bygginguna utan og strjúka burt ryk af stöllunum. Þær fara með fingurna í hvern kima, þurrka og strjúka. Jafnvel allt í kringum fætur varðmannanna, á milli fótanna og kringum byssuskeftin sem hvíla á steininum við hlið þeirra. Verðirnir depla ekki auga. Konurnar þurrka sér um hendur á svuntunum, athuga hvort blómin eða dátarnir hafi nokkuð færzt úr stað við tilstandið. Önnur sýgur soldið upp í nefið. Svo keifa þær þegjandi burt með sínar tuskur. Einhversstaðar að heyrast taktföst, snögg slög járnaðra stíg- véla við steinstéttina. Framhald á bls. 39 VIKAN 41. tM. 27

x

Vikan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.