Vikan


Vikan - 16.01.1969, Blaðsíða 10

Vikan - 16.01.1969, Blaðsíða 10
 Þegar Unulió fær máí brot af því bergi sem byggð hans skýlir. Seinna drukkum við saman kaffi í gylltum veitingasal höf- uðborgarinnar. Þar hló hann, en þá lét hláturinn í eyrum sem þórdynur framandi heims. Fjöllin eru há, fjörðurinn mjór og fólkið gott — þessa lýsingu fékk ég í veganesti, þegar ég fyrst sótti heim Súgandafjörð. Og vist reyndi ég, að í engu hafði verið of mælt, því þótt ég væri vanur bröttum fjöllum, þá fannst mér sem helzt þyrfti að beina sjónum hátt mót himni, ætti mér að takast að eygja þar efstu brúnir og það þótti mér augljóst að í fjarðardjúpinu mundi skuggi fjallanna ná því nær landa í milli. Þarna skyldi ég vetursetu hafa og fljótt komst ég að raun um að þar eru sólarlitlir dagar um sólhvörf að vetri. Gott fólk. Þar var hvergi of- mælt. Ég var landgöngumaður í hópi þeirra, sem úr grasi voru að vaxa og átti með þeim að vinna. Vetrarstarfið hlaut því að ráðast í skugga Spillisins. Súg- firðingar eru sjósóknarar miklir, það er ekki einungis sá guli sem bíður þeirra utan fjarðarins heldur bjartir sólardagar — heiðbirta hafsins. Inn í firðin- um hefur lífið því annan svip, þar varð ég þess þó aldrei var að hinn dökki skuggi fjallsins dragi fölva á heiðrikju hugans hjá þvi fólki, sem ég hafði sam- skipti við. Beint á móti eyrinni, þar sem kauptúnið Suðureyri stendur, gengur önnur eyri norð- anmegin fjarðarins, þar stóð þá eitt býli, Norðureyri, undir svim- háu fjalli. Snjóskriður voru þar því nær árvissar og féllu oft á fjörð fram svo flóðalda gekk á land sunnan megin. Bærinn var aldrei óhultur fyrir vá þeirri er af þessu stafaði, en bóndinn þar var hardur og hraustlega gerdur, og norðurgaflinn á bæ sínum hafði hann steypt upp í lögun sem skipsstefni er sneri til fjalls. Var gaflinn sagður nær 3ja m þykkur. Félli skriða og lenti á bæjarhúsi, klofnaði hún á stafn- inum og féll þannig í tveim greinum nokkuð þróttminni fram í fjöru eða í fjörð út. Þann- ig kennir náttúran börnum sín- um viðbrögð til varnar, vilji þau þeim hlýta. Þennan vetur fékk ég ein- hverja innanskömm og komst það á kreik að ég gengi ekki með öllu heill til skógar. Einn dag heimsótti mig rosk- inn bóndi úr nágrenninu, var hann hinn ræðnasti, kunni frá mörgu að segja, enda ýmsa hluti reynt bæði á sjó og landi. Oft hafði hann stýrt bát í kröppum sjó gegnum straumrastir Breiða- fjarðar, og oft sótt fjallafé í mis- jöfnum veðrum til heiða. Þegar við höfðum blandað geði góða dagstund bar hann loks upp er- indið, því ekki kvaðst hann hafa komið eingöngu til að stofna til málskrafs. Sagði hann að sér hefði borizt til eyrna að ég mundi ekki með öllu heill í maga, og vildi hann freista þess að kenna mér nokk- ur ráð sem að gagni mundu koma. Fær mér síðan dálítinn pokaskjatta, er hann segir að í séu fjallagrös og börkur af víði og fjalldrapa. Ráðlagði hann mér að sjóða þetta saman og drekka svo daglega, mundi þá ekki líða á löngu þar til innanmein mín væru að fullu grædd. Ég innti hann eftir hvort hann hefði nokkra reynslu af lækn- ingamætti slíkrfir samsuðu, að vísu vissi ég að fjallagrös væru talin holl fæða. Jú, hann hélt nú það, sagði að næringargildi og gróðurmagnið í trjáberki væri ótrúlega mikið, jafnvel svo að hætta gæti stafað af væri ekki fullrar varúðar gætt. Þess vegna ráðlagði hann samsuðu með fjallagrösum. Og svo sagði hann mér söguna. Það var einu sinni í hörðum vetri, að bóndi sá, er hann til- nefndi varð knappur með hey handa búpeningi sínum. Fé átti hann margt og þar á meðal stór- an hóp sauða. Snjólög voru mik- il svo hvergi hnaut til jarðar og náði fé því ekki í krafsjörð þótt út væri látið. í landi bóndans var skógur nokkur og víðirunnar hávaxnir, voru toppsprotar viðargróðurs þessa sú eina beit er til náðist, og þar voru sauðirnir settir á haga, en ekki ætlað annað fóður. Fór svo fram um hríð, og virtist öllu vel farnast. Skepnurnar voru bragðlegar og vel í hold- um. En svo henti það einn dag, að tveir sauðir fundust dauðir á hjarninu. f fyrstu var haldið að um bráðafár væri að ræða, en svo reyndist ekki. Þegar svo sá þriðji fór sömu leið, þá var farið að athuga málið nánar. Kom þá í ljós að vélindi sauðanna voru samgróin, svo þeir hvorki komu niður fóðrinu, né gátu ælt upp til jórturs, ekki einu sinni að þeir gætu notið drykkjarvatns. Já, þannig fór. Græðimagnið í trjáberkinum var svo mikið. Þessi var saga gamla bóndans. Hvort sem fyrir henni voru ör- uggar heimildir skipti í sjálfu sér ekki meginmáli. Hann trúði á græðináttúru barkarins og frá hans hendi var sagan trúverðug rök fyrir gildi þeirra ráðlegg- inga, sem hann af góðvild sinni lét mér í té. Og til þess að mér mætti að fullu gagni koma vildi hann gera mig þátttakanda í trú sinni, og sýna mér fram á, að ef ég vildi heill verða, þá mætti ég í engu út af bregða þeirri for- sögn, sem hann hafði gefið mér. Og til að undirstrika ennþá betur þessa kenningu sína, þá voru fjallagrösin tekin með til að forða því að barkarseyðið byggi mér sömu örlög og sauð- unum. Það er ekki sök bóndans, þótt ég af eigin reynslu geti ekki full- komlega dæmt um það, hvort hann var hér að miðla mér þekk- ingu, sem stoð átti í veruleikan- um, og liðnar kynslóðir höfðu hagnýtt og fengið af bót meina sinna. Nútíminn hefur dregið margt inn í skugga gleymskunnar og telur fánýtt, sem fleytti feðrum vorum og mæðrum gegnum ölduföll áranna. Frjómagn þeirra lífgrasa, sem rótum skjóta í mold móður jarð- ar, skyldum vér kunna full skil á. Rödd þeirrar náttúru er til vor mælir á máli lands vors. — Hvort sem er léttur tónn frá blá- tærum bunulæk, þung stuna öldu sem brotnar við brimsorfna klöpp, þruma í fjallinu, gnýr beljandi jökulflaums eða sögn um Hvanndalasteininn, verðmæt jarðefni í Hvalnesfjalli og sauða- beit í Selárdal. Á þess rödd skulum vér hlýða og njóta þann veg, að hún láti ekki í eyrum vorum sem þór- dynur framandi veraldar. Þ. M. 10 VIKAN 3-tbl

x

Vikan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.