Vikan

Eksemplar

Vikan - 29.05.1986, Side 35

Vikan - 29.05.1986, Side 35
HAFDÍS HELGADÓTTIR Hafdís hefur verið í Félagi maka- lausra nánast frá upphafi. Hún er fyrrverandi bóndakona úr Hróarstungu á Fljótsdalshéraði, fjögurra barna móð- ir og skildi fyrir tuttugu árum. Fortíð Hafdísar er svo lygileg að þó hún væri innihald í fyrsta flokks skáldsögu myndu fæstir trúa slíku bulli. í þessu viðtali er aðeins hægt að stikla á stóru. Eftir skilnaðinn, þá þrítug, kom Haf- dís til Reykjavíkur eignalaus og auralaus með börnin fjögur, það yngsta nýfætt en það elsta átta ára. - Hvernig gekk að sjá fyrir ykkur og komast á réttan kjöl? „Fyrstu árin voru hryllilegur tími. Við vorum á hálfgerðum vergangi fyrsta veturinn, ég svaf í bíl bróður míns og börnin hist og her. Elsti strák- urinn var með beinkröm af næringar- skorti því í sveitinni var ekkert nýmeti að hafa nema þegar ég gat náð eggjun- um undan fuglunum eða veitt silung og lax. Að öðru leyti var varla hirt um fæðuöflun, maðurinn minn stóð ekki í slíku. Ég hafði reynt ýmislegt til að fá íbúð hjá bænum og það var ekki fyrr en ég skrifaði bréf í Póst Vikunnar að það gekk. Fengum við risíbúð á Skóla- vörðuholtinu, kalda og raka. Þar lá ég einu sinni veik og rænulaus í þrjár vik- ur án þess að nokkur kæmi. Börnin voru náttúrlega hálfósjálfbjarga því þau þekktu engan og rötuðu ekkert. Loks, er bráði af mér, bauð ég fulltrúa borgarlæknis í heimsókn og þá var þriggja stiga frost inni og vatnið frosið í krönunum. Um sumarið kom ég elstu börnunum í sveit en því yngsta var komið á vöggustofu. Það var læknir sem ráðlagði þetta. Annaðhvort ferð þú á Klepp eða börnin í burtu um tíma, sagði hann. Ég gat notað tækifærið og unnið af krafti á meðan, meðal annars við skúringar og á Hótel Borg. Næsta sumar réð ég mig sem ráðskonu í sveit með börnin og þá gat ég loks önglað saman dálitlum aurum. Svo komum við aftur í bæinn og ég vann við skúringar og á Borginni og síðar fór ég að keyra á vörubílastöð í stað skúringanna. Nú síðastliðin átta ár hef ég keyrt út vörur hjá fyrirtækinu Mánafossi.“ - Hvernig var með félagslíf, var það ekki óþekkt fyrirbæri hjá þér? „Jú, fyrstu árin var ekki um neitt slíkt að ræða, ég einangraðist mikið og kunni varla að tala annað en barna- mál. Ég þekkti engan nema systkini mín og fór aldrei neitt nema þá sjaldan að manni var boðið í fjölskylduboð. Reyndar voru það svo konur, sem voru áður með mér í Húsmæðraskóla Reykjavíkur, sem björguðu mér alveg því ég var tekin í saumaklúbbinn. Og eftir að elsti strákurinn fór að geta passað gat ég skroppið eitthvað út að skemmta mér.“ - Hefur þig ekki langað í sambúð aftur? „Ég var í sambúð með manni í fjögur ár eftir að ég kom í bæinn og var farin að rétta aðeins úr kútnum. En það var nóg að sjá fyrir fjórum börnum, þó að ég þyrfti ekki líka að sjá fyrir manni því að hann hafði unnið á einum tólf stöðum er yfir lauk. Þó félagsskapurinn sé góður kostur við sambúð eða hjóna- band verður hann að vera á jafnréttis- grundvelli. Kostirnir við að vera einn eru þeir að maður getur gert það sem maður vill, farið það sem mann langar, er fjárhagslega óháður og hefur engar heimiliserjur. Nú á ég fastan félaga og við hittumst þegar við viljum og það eru engar kvaðir.“ - Hefur vera þín í félagi makalausra gefið þér mikið? „Já, mér opnuðust alveg nýir mögu- leikar, ég vildi að þessi félagsskapur hefði verið til þegar ég átti mér ekki viðreisnar von sem fráskilin kona með fjögur börn. Nú er aldrei spurning um að mann vanti félaga til að fá með sér eitthvað út. Maður hringir kannski í einn eða fleiri ef sólin skín og mann langar út í náttúruna og spyr hvort þau vilji koma með. Ég hef eignast marga góða kunningja í félaginu og margar skemmtilegar uppákomur hafa skyndi- lega orðið þegar dottið hefur í einhvem að hringja út og suður.“ - Ertu orðin ánægð með lífið og til- veruna? „Ég get ekki sagt annað, þetta er allt annað líf og ég er sannarlega þakklát fyrir það. Ég get gert nánast allt sem mig langar til, hef gaman af ferðalögum og svo fer ég oft á gömlu dansana og þar er nóg af dansherrum, þó maður sé orðin þetta fullorðin... Meira að segja sagði við mig maður sem ég lenti á í hringdansi: Þú verður víst að gera þér að góðu að dansa við mig. Fannst ég svona merkileg með mig því ég hafði aldrei boðið honum upp. Já, ég er ánægð með mitt „makalausa" líf en er reyndar stundum spurð af hverju ekki ómyndarlegri kona hafi ekki geng- ið út. Það hugsar enginn út í það að nú vilji ég búa ein.“ ■ 22 TBL VIK A N 35

x

Vikan

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.