Vikan - 18.09.1986, Síða 47
London - París - Mílanó?
a
ndrea Brabin
vit örlaganna...
Lesendur Vikunnar muna sjálfsagt eftir stúlkunum tveimur
sem tóku þátt í Fordkeppninni, Andliti níunda áratugarins;
Valgerði Backman, sem varð sigurvegari, og Andreu Brab-
in, sem fékk samning hjá Ford Models. Valgerður prýddi
forsíðu 34. tölublaðs en á forsíðu næstu Viku verður Andrea.
Báðar hafa þær nýlega verið í New York hjá Eileen Ford,
í þeim tilgangi að koma sér á framfæri í fyrirsætuheiminum.
Valgerður ætlar þó að vera hér heima í vetur og ljúka námi en
Andrea er á leið á vit örlaganna eitthvað út í heim. En hvað
segir hún um fyrstu reynslu sína af harðri baráttu innan þessarar
starfsstéttar?
„Ég bjó heima hjá Eileen Ford og dagurinn byrjaði á því að
klukkan níu fórum við á umboðsskrifstofuna og þar hringdi hún
í ýmsa ljósmyndara til að athuga hvort þeir gætu hitt mig þann
daginn. Síðan fór ég til þeirra á tilsettum tíma til að leyfa þeim
að sjá mig. Þetta var bara svona hæ og bless! En ef þeir vildu
gera prufumyndatökur af manni hringdu þeir á skrifstofuna. í
slíkum myndatökum var ég svo á hverjum degi.
Ég var reyndar svo heppin á þessum stutta tíma að fá vinnu í
einn dag, en það var forsíðumynd fyrir suður-amerískt blað. Það
var ferlega gaman. Svo daginn áður en ég fór heim hitti ég konu
frá umboðsskrifstofu í London og hún vildi fá mig þangað. Ég
er mjög spennt fyrir því, pabbi minn býr nefnilega í London og
þar sem ég er breskur ríkisborgari ætti að vera auðveldara fyrir
mig að fá atvinnuleyfi þar. Annars kom upp sú hugmynd að senda
mig til Ástralíu en sem betur fer var hætt við það, þótti of langt
svona í fyrstu lotu.
Eileen ákveður endanlega, með tilliti til myndanna af mér og
starfsmöguleika, hvert ég fer en það verður annaðhvort London,
París eða Mílanó. Svarið fæ ég að vita eftir örfáa daga og fer svo
út nokkrum dögum síðar.“
- Hvað kom þér mest á óvart þama úti? Og hvað með áhug-
ann, er hann enn jafnmikill eftir þann nasaþef sem þú fékkst af
starfinu?
„Það kom mér á óvart hvað ljósmyndararnir voru almennileg-
ir, það var búið að segja mér að þeir væru oft svo ofsalega
leiðinlegir í viðmóti. En það sem kom mér þó mest á óvart var
hvað stelpurnar - fyrirsæturnar - lifa litlu meinlætalífi, þær gera
engar líkamsæfingar og borða allt sem þær langar í. Það var
kökubúð á horninu rétt hjá þar sem við bjuggum og þangað fór-
um við og hámuðum í okkur dísætar kökurnar án þess að spá í
kílóin. Strákarnir, sem afgreiddu í búðinni, voru farnir að þekkja
okkur, vissu hvað við vorum og þeir voru alveg steinhissa á ósköp-
unum. En þetta voru reyndar allt mjög ungar stelpur, svona
lifnaður þýðir víst ekki lengi.
Áhuginn hefur frekar aukist en hitt eftir að hafa aðeins prófað
þetta. Ég er tilbúin að hella mér út í baráttuna og sjá hvemig
mér gengur. Ef vel gengur í Evrópu fæ ég líklega vinnu í Ameríku
á næsta ári. En ég er mjög spennt og vona bara að allt fari vel.“
Vikan tekur undir það. Það verður spennandi að fylgjast með
ferli Andreu og hvort sem hún flýgur til London, Parísar eða
Mílanó... á vit örlaganna, þá óskum við henni góðs gengis.
Texti: Guðrún Aifreðsdóttir
Myndir: Arna Kristjánsdóttir
38. TBL VIKAN 47