Vikan


Vikan - 12.04.1999, Side 59

Vikan - 12.04.1999, Side 59
Hverju svarar læknirinn ? Appelsínuhúð Kæri læknir Eg er ákveðin í að taka mér tak og fara að hugsa um sjálfa mig. Eg hef bara sinnt öðrum undanfarin ár og mér líður eins og slöppu hrúg- aldi, er slöpp eftir barneignir og sjálfstraustið er eftir því. En ég er byrjuð að synda nokkrum sinnum í viku og tek bætiefni og lýsi og hef breytt mataræði mínu nokkuð. Nú borða ég mikið af salati og ávöxtum á hverjum degi. En svo er eitt sem ég byrjaði að gera og veit ekki hvort virkar það er að nudda lærin og mjaðmir með náttúrulegum, hörðum svampi allavega einu sinni á dag, þegar ég er í sturtu. Er það rétt að þetta örvi blóðrásina og hjálpi manni að grennast? Það eru margar konur með svona svampa eða skrúbba í sundi og ég veit ekki hvort þetta hefur raunverulega áhrif til að draga úr fitusöfnun og appel- sínuhúð. Hvað segir þú um þetta? Er líklegt að ég styrkist og grennist ef ég syndi 3-400 metra í einu? Ég syndi ekki mjög hratt. Vonandi geturðu gefið mér góð ráð. S. Ásta. Kæra S. Ásta Til hamingju með áfangann, farin að taka á og byggja upp bjarta framtíð og sjálfstraust. Veistu, þú átt það skilið að eiga bjarta og góða framtíð. Öll hreyfing er góð, a.m.k. í hófi. Já, ég er alveg viss um að þú bæði grennist og styrkist við að synda 3-400 metra í einu, jafnvel þótt þú syndir ekki hratt. Appelsínuhúð, cellulite, er afar algeng meðal kvenna og því miður litlar líkur að ná sléttri áferð á húð eftir að appelsínuhúðin er komin þrátt fyrir loforð snyrtivörufram- leiðenda. Utlit húðarinnar er eins og börkur á appelsínu, oftast á lærum og upp á rass. Sumir segja að allt að 90% kvenna fái appelsínuhúð og er það ekki háð kynþáttum. Óreglulegt fitulag næst húð- inni veldur þessu hjá konum, en húð kvenna er þynnri en karla og því blasir óreglulegt fitulagið við. Því meiri fita sem þarna er þeim mun meiri líkur eru á appelsínuhúð. Besta meðferðin við appel- sínuhúð er hreyfing, rétt mataræði og megrun. Styrkja vöðva og draga úr fitu. Ekki hefur verið hægt að staðfesta að öll þessi krem sem er verið að bjóða upp á gagnist. Nudd virðist hjálpa sumum, líka svona nudd sem þú lýsir með harða svampinum. Nudd er oftar en ekki hressandi og örvandi, þér líður vel í húðinni og skrokknum á eftir. Það er hins vegar ákveðin fylgni á milli þess að konur sem nota svona harðan svamp hugsa líka betur um sjálfa sig al- mennt og eru því í betra formi en meðalkonan. Appelsínu- húð er næstum óþekkt meðal íþróttakvenna, þær eru í góðu formi og hreyfa sig reglulega. Orsakir fyrir appelsínuhúð eru kvenhormónar, en fitu- dreifing í húð kvenna er önn- ur er karla. Vissulega sjást karlar með appelsínuhúð en það eru oftar karlar með eitt- hvert hormónaójafnvægi. Stundum er reynt er að laga appelsínuhúð með fitusogi, en samkvæmt þeim heimildum, sem ég hef undir höndum, þá verður að beita sérstakri fitu- sogsaðferð sem nær bæði til djúpa og grunna fitulags húð- arinnar hjá konum, en algeng- asta fitusogið nær oftar en ekki eingöngu til djúpu fitunn- ar og þá versnar appelsínu- húðin. Haltu áfram þínu frábæra framtaki og stattu þig. Þorsteinn Skalli: Mikið feimnismál Þorsteinn læknir Þakka þér fyrir hlýleg skrif þín í Vikuna. Ég les alltaf svörin þín og vil gjarnan fá meira lesefni um heilsuna. Er- indið mitt er viðkvæmt mál. Sonur minn er rétt rúmlega tvítugur og myndarlegur mað- ur en hann er að fá skalla og hefur af því miklar áhyggjur. Þetta er ekki í ættinni minni og pabbi hans er með gott hár. En strákurinn er svo ungur og þetta veldur honum miklum vonbrigðum. Það er alveg sama þótt skrifað sé um það að skalli sé í tísku, merki um vald, þyki sexí, konur vilji ekki síður karla með skalla. Hann er alveg miður sín og á erfitt með að tala um þetta. Hvað get ég sagt við hann og er eitthvað sem svona ungur maður getur gert? Eru til bætiefni/lyf sem hægja á skallamyndun? Ég veit ekki til þess að ungir menn séu með topp eða eitthvað gervihár, svo hvað ætti ég að ráðleggja honum? Með fyrirfram þökk. Móðir Sæl og blessuð, móðir Það er alveg rétt hjá þér að þetta er viðkvæmt mál hjá svona ungum manni, sérstak- lega þegar engin fordæmi eru úr innsta kjarna. Skalli virðist oftar en ekki vera lítt viðráð- anlegur eftir að hann er kom- inn, hann er alveg eins og þú segir hormóna- og erfðabund- inn. Vissulega eru til aðferðir þar sem beitt er hárígræðslum og settir toppar á karla sem er satt best að segja heilmikill iðnaður. Hér held ég hins veg- ar að aðalmálið sé að byggja upp sjálfstraustið og snúa vörn í sókn. Hann á að spyrja sjálf- an sig hvað hann geti gert til að gera hárið og byrjandi skallamerki að aðalsmerki sínu, sínum karakter. Ég myndi ráðleggja honum að leita ráða á hárskerastofu því þar er hægt að meta mismun- andi klippingaraðferðir sem geta átt við hann og ná von- andi því fram sem hann vill. Margir ungir karlmenn með sama vanda og sonur þinn klippa sig mjög snöggt og er það sem meira segja í tísku núna. Skilaboðin sem þeir senda með þannig klippingu og yfirbragði er oftar en ekki að þeir séu öryggir með sig og ákveðnir og það sem meira er fyrir tvítugan karlmann, virki- leg kvennagull, stelpunum finnst þeir vera karlmannlegir og spennandi. Það er alltaf verið að koma með eitthvað sem eigi að laga skalla, meira að segja lyf. Þessi sem ég hef séð á mark- aðnum eru öll með því marki brennd að þegar hætt er á þeim þá hverfa hárin og eru þau heldur ekki án aukaverk- ana. Ég reyndi að spyrja upp- áhaldsnáttúrulækninn minn um þetta en hann hafði lítinn áhuga, líklega vegna þess að hann hefur verið með skalla frá tvítugsaldri, sem hann hef- ur reyndar gert að sínu aðals- merki. Að lokum þetta, ef einhver sem þú þekkir er að stríða honum vegna skallans, fáðu þá viðkomandi til að hætta því ekki seinna en í gær. Ef sjálfs- traustið er ekki sterkt þá er rétt að athuga hvort ekki sé ástæða til að vinna úr því. Láttu mig vita ef þú vilt fá frekari upplýsingar um þann þátt. Þakka kveðjurnar Þorsteinn Spurningar má senda til „Hverju svarar læknirinn?“ Vikan, Seljavegi 2, 101 Reykjavík. Farið er með öll bréf sem trúnaðarmál og þau birt undir dulnefni. Netfang: vikan@frodi.is Vikan 59

x

Vikan

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.