Menntamál - 01.09.1941, Side 42
88
MENNTAMÁL
Finnsku börnin.
Einn af kunnustu geðveikralæknum Pinnlands, dr. S. E. Danner,
flutti í vetur erindi um áhrif styrjaldarinnar á börnin. Dr. Danner
segir m. a.: Börn yngri en 4 ára virtust ekki hafa vit á hvað var að
gerast og urðu því ekkert hrædd við ógnir stríðsins. En á aldrinum
4—-7 ára bar á mestri hræðslu. Þegar börn á þessum aldri heyrðu í
flugvélum óvinanna, urðu þau oft lostin skelfingu. Afleiðing af þessu
var mjög oft myrkfælni. Venjulega urðu þau brátt róleg fyrir umtölur
fullorðinna. — Elztu börnin létu ekki á sjá. Ég átti dóttur í efri bekk
og heimsótti hana í skólanum, einmitt meðan fyrsta loftárásin var
gerð á Helsingfors. En þar var engin skelfing á ferðum. Sum börnin,
þar á meðal dóttir mín, vildu komast á einhverja háa staði, til þess
að hafa sem bezt útsýni. Seinna lærðu þau þó að halda sér í skefjum.
En ég tel áreiðanlegt, að finnsk börn hafi ekki beðið mikið andlegt
tjón af völdum stríðsins.
Handtökur kennara
og nemenda í Noregi. Við framhaldsskóla einn í Osló voru margir
kennarar og um 50 nemendur handteknir í haust. Þýzkir nazistar,
sem kúga norsku þjóðina til undirgefni, héldu því fram, að unglingar,
sem tilheyrðu „Nasjonal Samling", væru hafðir útundan í skólanum
og ofsóttir fyrir skoðanir sínar. Það var hin svokallaða „hirð“ nazista,
sem kom málinu á loft. Dag nokkurn ruddist „hirðin“ inn í skólann,
ákærði kennara og handtók þá samstundis með aðstoð leynilögreglu.
Skólanefndir
fjölmargar í Noregi hafa verið sviftar ráðum og stjórn skóla, sökum
andstöðu við Þjóðverja í breytingum þeirra á skólahaldi og venjum.
í einni svipan var þannig 8 skólanefndum og skólastjórnum vikið frá,
þar á meðal í Östfold, Sarpsborg og Halden.
Þjóffverjar í Noregi
hafa fyrirskipað, að í barnaskólum landsins skuli bætt inn einni
námsgrein, a. m. k. 1 klst. í viku: Það er kynning Nasjonal Samling.
Vitamin.
Skólabörnum erlendis eru nú víða gefnar vitamin-töflur í skólunum.
Þannig er í ýmsum enskum skólum útbýtt C-vitamin-töflum, sem
börnin fá með miðdegisverði. Yngri börn eru einkum látin taka töflur
þessar. — í Þýzkalandi hefur þessi háttur einnig verið tekinn upp.