Heima er bezt - 01.04.1960, Blaðsíða 35

Heima er bezt - 01.04.1960, Blaðsíða 35
HEIMA_____________ BEZT BÓKAHILLAN Bók Peters Freuchens um heimshöfin sjö. Hersteinn Pálsson íslenzkaði. Reykjavík 1959. Isafoldarprentsmiðja h.f. Þetta er mikil bók, 520 blaðsíður og prýdd fjölda mynda. Höf- undurinn Peter Freuchen var þekktur rithöfundur víða um heim, frækinn ferðamaður og sagnamaður með ágætum. Hins vegar þótti löndum hans löngum sagnamaðurinn bera fræðimanninn ofurliði í frásögnum hans um ferðir og fjarlæg lönd. Bók þessi ber alls þessa minjar. Þar er víða við komið um öll höf veraldar. Sagt er frá lífinu í sjónum, skipabúnaði, hafrannsóknum, sjóhernaði, sjóránum, landakönnun, kynjasögum, afskekktum eyjum o. s. frv. 1 stuttu máli sagt er drepið á flest það, sem snertir höfin og sigl- ingar og allt, er viðkemur hinu síbreytilega hafi og skiptum mannsins við það. Að vísu er víða farið fljótt yfir sögu, en þó gegnir furðu, hversu miklu efni er saman þjappað í litríkri, lif- andi frásögn, sem gerir lestur bókarinnar líkan spennandi skáld- sögu. En nokkur missmíði eru þó á, og er slíkt leitt um svo góða bók og vænlega til fróðleiks. Ekki verður um það sagt, hvort þar er um að kenna höfundi eða þýðanda á sumum stöðum, og sumt munu vera prentvillur, eins og þegar sagt er á bls. 55 að 94% tegunda alls dýralífs sé í sjónum en 44% á landi. Erlend heiti eru víða þýdd, og er slíkt sízt að lasta, þótt orkað geti tvímælis um sumar þýðingarnar. En hvers á þá Færeyjahryggurinn að gjalda, að vera ekki nefndur því nafni, sem kunnugt er fyrir löngu í ís- lenzkum ritum, heldur Wyville-Thompson-hryggur. „Þríkónga- dagur" heitir þrettándi á íslenzku, og „karibúelgur" mundi réttar vera nefndur hreindýr. Allmjög er ruglað á merkingu orðanna afbrigði, tegund og ætt. Þannig segir á bls. 460, að um 400 plöntu- afbrigði finnist á Grænlandi. Þar mun átt við tegundir. Einkenni- leg dýrafræði er það, að segja að sæfíflar verði að kóröllum (bls. 56), að klettakarfinn sé eins konar sjóbirtingur (bls. 70) eða að tala um sæorm af tunicatategund (bls. 87). Tunicata er flokkur dýra, sem talinn er til hryggdýranna, og þvi getur tæplega verið rétt að tala um sæorm af þeirri ætt. Einkennileg er sú staðhæfing (bls. 55), að steingervingar af öllum helztu tegundum dýra ann- arra en hryggdýra hafi fundizt í i/2 milljarðs ára gömlum jarð- lögum. í lýsingunni á portúgölsku hersnekkjunni (bls. 68) er vill- andi að nefna hana samyrkjubú ýmissa dýrategunda, heldur er hún sambú margra einstaklinga sömu tegundar, en ólíkra að gerð og störfum. Ekki er heldur venjulegt að kalla natrium sóda og kalium pottösku. Gætir þar áhrifa frá enskunni. Þessi dæmi eru tekin af handahófi við hraðan lestur. En því hef ég rakið þau hér, að allt of oft er losaralega farið með fræðiorð og merkingar þeirra í fslenzkri tungu. Og hér er um góða bók að gera, sem vafalaust verður mikið lesin, því að það á hún skilið. Ágúst Jósefsson: Minningar og svipmyndir úr Reykja- vík. Reykjavík 1959. Leiftur h.f. Sumum mönnum er veitt sú gáfa að vera síungir. Einn þeirra er Ágúst Jósefsson. Á níræðisaldri sendir hann frá sér minningabók sína, fulla af fróðleik og ferskum svipmyndum úr Reykjavík hins liðna tíma. Er skemmst af því að segja, að bók Ágústs er hreinasta gullnáma fyrir menningarsögu og staðfræði Reykjavíkur, og margt mun þá hafa verið líkt með höfuðstaðnum og öðrum sjóþorpum á landinu. En atik þessa kynnist lesandinn þarna ötulum, sívak- andi og hugkvæmum athafnamanni, sem varði tómstundum sín- um til félagslegrar vakningar og menningarstarfsemi. Ágúst var einn af frumherjum íslenzkrar verkalýðshreyfingar, og um langt skeið í fylkingarbrjósti Alþýðuflokksins í baráttunni fyrir bættum kjörum íslenzkrar alþýðu. Sakna ég þess, hversu lítið hann segir frá þeirri baráttu, en margt má þó lesa milli línanna, ef vel er að gætt í þeim köflum bókarinnar, sem um það mál fjalla. I stuttu máli sagt góð bók og læsileg. Sigurður Einarsson: För um fomar helgislóðir. Reykja- vík 1959. ísafoldarprentsmiðja h.f. Ferðasaga þessi er á ýmsa lund nýstárleg og frábrugðin öðrum slíkum. Höfundurinn tekur lesandann við hönd sér og leiðir hann um Egyptaland og Gyðingaland hið forna, en lætur hann ekki einungis sjá það, sem fyrir augun ber í dag, heldur einnig skyggn- ast um horfnar aldir. Einkum er sú leiðsögn merkileg um helgi- staði Gyðingalands. Má þar segja, að höfundur standi öðrum fæti í landinu helga á dögum Krists en hinum í ísrael nútímans, en hvoru tveggja er lýst með ágætum. Ekki getur hjá þvi farið, að ýmis atriði i ritningunni, sem vér minnumst frá biblíusögunum, verði lesandanum ljósari en áður. Flaug mér í hug við lesturinn, að margt væri þarna sagt, sem handhægt hefði verið að hafa við nám í kristnum fræðum undir fermingu. En fjarri fer því, að höfundurinn gleymi sér í hinum liðna tíma, þótt heimsóknin á helgistaðina hafi orkað sterkt á hug hans. Með sívökulu auga hins vana fréttamanns skyggnist hann um nútímann og vandamál hans og segir hispurslaust kost og löst á hlutunum. Naumast þarf að taka það fram, að frásögnin öll er skýr og skemmtandi, eins og sr. Sigurðar er vandi. Allmargar myndir eru i bókinni, en mjög hefði verið æskilegt að uppdráttur hefði fylgt af landinu. Eiríkur Albertsson: Merkir Borgfirðingar. Reykjavík 1959. Leiftur h.f. í bók þessari eru þættir tíu látinna Borgfirðinga. Segir höfund- ur í formála, að hann hafi viðað efni víða að í þættina, úr minn- ingargreinum um þessa menn. Sums staðar fellir hann í þættina ræður, sem hann hefur flutt yfir moldum þeirra. Af þessum sök- um verða þeir dálítið ósamfelldir. En allir bregða þættimir upp myndum af merkum mönnum, sem sett hafa svip á hið fagra hérað á liðnum árum. Um marga þeirra hefði lesandinn að vísu kosið að heyra meira, en nokkurs verður hann þó vísari um þá alla. En mest er þó vert um þá ræktarsemi og hlýju, sem er grunn- tónn allrar bókarinnar. Bækur, sem gerðar eru af þeim tilfinn- ingum í svo ríkum mæli, verða ætíð mjög geðfelldar. Tvær skáldsögur. Meðal bóka þeirra, sem Leiftur h.f. sendi á markaðinn fyrir jólin voru skáldsögurnar Vendetta eftir Honoré de Balsac og Hún kom sem gestur eftir Edna Lee. Fyrrnefnda sagan gerist í Frakk- landi á dögum Napóleons og fjallar um ástir og blóðhefndir hinna skapheitu Korsíkumanna, en hin síðarnefnda er amerísk og gerist í Suðurríkjum Bandaríkjanna rétt eftir Þrælastríðið. Virðist hún bregða upp býsna sannri lýsingu á þjóðfélagsástandinu þar á þeim árum. Báðar eru sögurnar læsilegar til dægrastyttingar. St. Std. Heima er bezt 143

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.