Heima er bezt - 01.08.1978, Blaðsíða 17

Heima er bezt - 01.08.1978, Blaðsíða 17
Við rakstur var talað um hrífufar, líkt og ljáfar, en hrífufar hét bæði það, sem hausinn tók yfir í einu handtaki og röðin af einstökum hrífuförum yfir þvera spilduna, svaraði þannig bæði til ljáfars og skára. Þegar föngin voru tekin af röstinni, hét það að bera ofan af einkum ef annar gerði það en rakstrarkonan. Ef ijáin var rökuð upp, hét það að raka sláttumanninn upp að rassi eða gelda hann. Heyinu var rakað í flekki, dríli, smáhrúgur, eða föng. Smáflekkir hétu pentur eða peðrur. Þegar búið var að raka að flekkjunum og ganga frá þeim, voru þeir rifjaðir. Þar sem slétt var og landslag leyfði var hyllst til að hafa flekkina sem homréttasta og snyrtilegasta í lögun. Þegar þurrkur kom, var flekkjunum snúið, þ.e. rifgörðunum velt við. Ef fleiri en einn sneru, voru oftast tveir saman í flekk. Tafsamara þótti, ef fleiri voru. Mikils var um vert við fyrsta snúning eftir óþurrka að hann væri vandlega gerð- ur, heyið rifið vel upp úr flekkstæðinu og einkum úr lautum, ef þýft var. Þá skyldi og varast að troða heyið niður í flekkstæðið, einkum þar sem deiglent var. Talið var heyið fullþurrt, ef flekkurinn, sem vel var orðinn þurr að ofan, skipti ekki litum við snúninginn. Talað var um að grauta í flekk ef snúið var lauslega. Þurrkurinn hafði ýmis nöfn eða einkunnir, góður, brakandi, linur, daufur. Flœsa var lélegur þurrkur. Sagt var að hœsti eða hysjaði úr heyi, einnig að mœddi úr því, ef þurrkur var linur. Hey var molþurrt, brauðþurrt eða linþurrt. Ef óttast var um rigningu, en hey ekki nógu þurrt til samantektar var það gar<3a<5,þ.e. 2-4 rifgörðum var rakað saman í einn, en hreinrakað á milli, eða fangað, þá var heyið saxað í stór föng og þau síðan dregin upp, þ.e. dregin saman og reist upp um leið, svo að þau urðu eins og mænir. Föng vörðust furðuvel rigningu, og hey hraktist minna í görðum en flatt, og var fljótara í þurrkinn. Þegar heyið var fullþurrt var það sett í sæti. Minnstar voru sáturnar, einsett fangaröð, og naumast meira en baggi í hverri. Aldrei var annað hey sett í sátur en úr flekkpent- um. Lanir voru einnig einsettar, en langar og fremur lág- ar. Stundum var sett í krosslanir, voru þá settar einsettar fangastæður, þvert á meginlönina. Þær stóðu betur í vindi. í lanir var sett helst, þegar gert var ráð fyrir að skjótt yrði bundið, og hey var linþurrt, en það þótti blása í lönunum. Bólstrar voru ætíð tvísettir, voru efstu fangalögin látin víxlleggjast og hallast svo, að ris myndaðist á bólstrinum. Þeir vörðust vel regni, ef rétt voru bornir upp. Talað heyrði ég um heysníkju í bólstrum, ef undirstaðan hafði verið tekin svo stór, að ekki varð nægilegt hey til að mœna bólsturinn, sem skyldi. Að mæna var að leggja efstu fangalögin, svo að myndaðist einskonar mænir, samsvar- andi því var að kolla hey, þ.e. setja ris á heyfúlgurnar. Við binding voru æfinlega tveir, karl og kona. Karl- maðurinn batt, en konan hélt við reipin, eða lá á eins og það verk hét einnig. Stundum var önnur stúlka til að setja á, hlaða á reipin og hirða dreifar, sem einnig voru kallaðar rök. Fyrst voru reipin lögð niður, þ.e. lögð á jörðina og teygt úr þeim, og höfð tiltekin breidd milli þeirra, fór það mjög eftir því hversu grófgert heyið var. Síðan var sett á, föngunum raðað á reipið. Fyrsta fangið var sett næst högldum og kallað hagldafang. Gæta þurfti lags, svo að sátan yrði ekki skökk, einkum í botninn, því að þá var nær ómögulegt að binda hana. Sá hluti sátunnar, sem næstur var högldum hét haus en hinn endinn rass. Eftir að þrætt hafði verið í hagldir fór bindingsmaðurinn upp á sátuna og tróð, — þjappaði henni saman með fótunum. Síðan reyrði hann að henni, og loks er hún var fullreyrð, veltu bæði bindingshjúin henni við og krossbundu hana. Hét það að gerayfir, þegar gengið var frá reipunum að lokum. Síðan var tekið utan úr bagganum, tíndar úr honum lausar tuggur, og svo var hann fullbúinn til heimflutnings. Eins og fyrr hefir verið sagt var heyvinnan eina sumar- starfið að heita mátti.l kaupstað var ekki farið nema brýna nauðsyn bæri til og varla var annað farið út af heimili, nema helst á sunnudögum, og gestir komu varla á virkum dagi. Allir höfðu nóg að gera að afla heyjanna. Einu útúrdúrarnir, sem heita máttu reglubundnir, voru að draga fyrir silung í Hörgá, en helst var það gert að loknum vinnutíma á laugardagskveldum, eða á sunnudögum. I Hörgá gekk þá oft allmikill silungur. Á Hlöðum hagar svo til, að eini ádráttarhylurinn var Sandhólahylur. Ligg- ur hann undir háum sandbakka, Sandhólunum, og er á merkjum Hlaða og Lóns, en eyrin, sem dregið var upp á, er í Lónslandi. Samkomulag var um það milli bændanna, Stefáns á Hlöðum og Þorsteins á Lóni, að við mættum draga fyrir í Sandhólahyl án þess að gjalda landshlut. En stundum lét Þorsteinn í ljós, ef hann var kenndur, að mjög væri hann þar ofríki beittur, og réttast væri að hann harðbannaði að draga upp á eyrina. Aldrei varð þó af því, enda var þetta mest stríðni, en Þorsteinn var allra manna friðsamastur, og gott vinfengi milli þeirra nágrannanna. Þegar dregið var fyrir, var riðið með netið yfir um ána og fóru þangað tveir menn, og hélt annar strengnum, sem netið var dregið á austur yfir. Tveir voru á austurbakk- anum. Gekk annar undir bakkanum og hélt netinu niðri, en hinn var uppi á brúninni. Óðu svo austurbakkamenn yfir kvísl að eyrinni, sem netið var dregið upp á. Aldrei var dregið oftar fyrir en einu sinni til tvisvar í viku og nær eingöngu á tímanum frá því seint í ágúst og fram að göngum, eða í rúman mánuð. Oftast var dregið fyrir á laugardagskvöldum, og þá hætt vinnu svo sem hálftíma fyrr en vant var, en aldrei var komið heim frá drættinum fyrr en eftir háttatíma, a.m.k. ef eitthvað veiddist, því að þá voru venjulega teknir 2-3 drættir. Sjaldan var um stórveiði að ræða. Þó munu mörg sumurin hafa veiðst eitthvað yfir 100 silungar alls. Einu sinni fékkst þó stór- veiði. Var það um miðgöngur, þá fengust um 400 silungar en slíkt var svo fullkomið einsdæmi, að aldrei fyrr höfðu náðst 100 silungar í drætti, 20 þótti ágæt veiði. Aldrei var silungurinn verulega vænn, mest 2-3 punda og oft smærri. 5 punda silungar voru sjaldséðir, en einstöku sinnum fengust 8-10 punda fiskar. Það sem veiddist var mest sjóreyður (bleikja). Urriðar komu þó stundum, og grun hefi ég um, að einu sinni hafi veiðst lax. Sá fiskur var forkunnarstór eftir því, sem gerðist þar, 10-12 pund, en enginn á heimilinu þekkti lax frá urriða með fullri vissu. Þegar vel aflaðist, var silungurinn seldur til Akureyrar, því Heima er bezt 265

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.