Heima er bezt - 01.08.1978, Blaðsíða 27

Heima er bezt - 01.08.1978, Blaðsíða 27
Ekki er gott að vita, hvað grandað hefir þessum mönn- um. ísinn var nýleystur af vatninu, svo skeð gat, að þeir hefði rekist á jaka og rifið bátinn. Varla var hugsanlegt að þeir gætu bjargast á sundi, þeir voru kappklæddir og vatnið afarkalt. Um þær mundir voru snjóflóðin byrjuð úr fjallinu fyrir sunnan vatnið, sem héldust marga daga og fóru langt út í vatn, hefði þeir orðið fyrir þeim var dauð- inn vís. Ég hygg þeir finnist aldrei. Margt hefir breyst þar efra síðan þér voruð þar, vatnið hefir stækkað og dýpkað mjög mikið, er nú komið upp fyrir alla hverina og hátt upp í bergið norðan vatnsins. Þar sem við gengum til að mæla hitann er nú sjálfsagt sjötugt djúp eða meir. Aftur á móti er sjálfur eldgígurinn líkur því, sem hann var, nema ólætin í honum ekki eins mikil og gufan minni. Miklu minna ber á vikrinum en áður, hann hefir sjatnað og rýmað, og stóru stykkin mulist. Gróður, einkum mosi, hefir talsverður komið í Öskjuopi, sem enginn var áður. — Meðan ég var í Öskju las ég íslands- lýsingu yðar, hina þýsku, hafði eigi séð hana áður. Knebel átti hana og hefir ætlað að hagnýta sér. Leiðinlegt þótti mér að geta ekki hitt yður í sumar,1 líkast til sjáumst við aldrei héðan af. Þegar ég kom suður að Fornahvammi, varð Toppur2 haltur og lét ég skjóta hann þar, hann ætti skilið að honum væri reistur minnis- varði, því hann lifði til gagns. Svo tókst þeim að sundra skólanum okkar3 og rífa upp með rótum þann vísi, sem hér hafði dafnað svo vel. Það var verk Stefáns Möðru. Svo sumarið hefur heldur verið mér andstætt. — Við erum hérna öll frísk sem stendur, mislingamir vofa yfir höfðum okkar, hér í bæ liggur ann- arhvor maður. Logn eftir pólitíska vindganginn í sumar, fer bráðum að hvessa aftur, því nóg er valdafíknin, óhreinleikinn og flá- ræðið. Ég átti að færa yður kæra kveðju frá Jóni gamla Þor- kelssyni,4 hann er furðu ern, glaðr ok reifr, gerist nú nokkuð gamall, börn hans komin upp en alltaf fátækur. Hann geymir endurminninguna um yður með þakklæti eins og fleiri. Mikið er gremjulegt, að óþverrinn úr Reykjavíkinni skuli vera kominn í Extrablaðið. Ég bið kærlega að heilsa konunni yðar og Laugu. Verið þér blessaðir yðar gamli vinur Ögmundur. Ég er að verða mjög slæmur af gigt, hún ágerist árlega. Athugasemdir: 1) ögmundur getur þess oft í bréfum sínum, hversu mjög sig langi til að hitta Þorvald, en eftir að hann fór til Hafnar sáust þeir víst ekki nema sumarið 1919, þegar Thoroddsen kom síðast til Islands, og urðu þá fagnafundir. 2) Toppur var einn af ferðahestum þeirra félaga. Hefir þeim báðum sýnilega þótt mjög vænt um hann, því að Ögmundur getur hans í mörg- um bréfum og alltaf með aðdáun og hlýju. 3) Þar sem hann talar um að sundra skólanum okkar, á hann við það, er Kennaraskólinn var stofnaður í Reykjavík, en um leið var afnumin kennarafræðsla sú, sem þá hafði verið alllengi í Flensborgarskólanum, og Ögmundur átt mikinn og góðan þátt að. Var honum og fleiri mikið kappsmál, að kennaraskólinn héldi áfram í Flensborg. Stefán skóla- meistari var einn þeirra þingmanna sem beittu sér fyrir að Kennara- skólinn yrði reistur í Reykjavík. 4) Jón Þorkelsson bóndi í Víðikeri var fylgdarmaður þeirra Þorvalds og Ögmundar um Ódáðahraun 1884. Fer Þorvaldur lofsamlegum orðum um hann í Ferðabók sinni, en Jón var þá og lengi síðan allra manna kunnugastur á þeim slóðum og fylgdi oft ferðamönnum bæði í Öskju og víðar um Ódáðahraunssvæðið. Við hann er kennt Jónsskarð í Dyngju- fjöllum. Sagnir af Arnóri sýslumanni (1808-1859) Arnór Árnason sýslumaður Húnvetninga bjó á Ytri-Ey á Skagaströnd. Arnór var bróðir Hannesar Árnasonar er gaf Hannesarsjóðinn.* Hann var einkennilegur um margt, sérlegur en þó einkum einfeldnislegur eða bamalegur. Einhverju sinni var sýslumaður á ferð milli Hólaness og Höfðakaupstaðar á Skagaströnd. Á leiðinni hitti hann svarfdælskan bónda að nafni Kúastaða-Bjarna, drykkju- mann mikinn og orðhák og hið mesta svakamenni, var líka af sumum kallaður Hljóða-Bjarni sökum hávaða síns. Bjarni réðst á sýslumann með skömmum og ógnunum. Fór svo að sýslumaður leitaði undan en Bjami eftir og hrópaði í sífellu: „Ég skal drepa þig andskotans tóulókurinn þinn.“ Slapp sýslumaður loks nauðuglega undan inn í hús eitt er næst var. Þegar inn kom var þar fyrir Guðmundur Einarsson skrifari, faðir dr. Valtýs. Vék sýslumaður þegar að honum og spurði: „Er það ljótt orð tóulókur, er það ljótt orð tóulókur?" Guðmundur svaraði: „Maðurinn hefur verið ólærður, en hefir ætlað að segja herra teólógi. “** „Það er gott, það er gott,“ mælti sýslumaður og var hinn ánægðasti við Bjama. (Eftir sögn Sigurðar Péturssonar á Hofstöðum. - HSk.) Einhverju sinni gisti Arnór sýslumaður Ámason hjá Olsen á Þingeyrum og fékk meðal annars flautir til matar. Sýslumanni þótti þær ágætar og sagði: „Þetta er góður matur, þetta er góður matur,“ og kvaðst þurfa að láta gjöra sér þennan mat er heim kæmi. Þegar staðið var upp frá borðum fékk sýslumaður ropa og vindgang um sig og spurði: „Gjöra flautirnar þetta, gjöra flautirnar þetta?“ Og er honum var sagt að svo mundi vera mælti hann: „Þetta er vondur matur, þetta er vondur matur, hann bragða ég ekki framar.“ Arnóri sýslumanni var veitt kamiráðsnafnbót 1854, en andaðist 1859, ókvæntur og barnlaus. (Eftir sögn Sigurðar Péturssonar á Hofstöðum. - HSk.) ‘Hannesarsjóður. Hannes Árnason prestaskólakennari (1809-1879) gaf eigur sínar til að mynda sjóð til eflingar heimspekimenntunar í landinu. **Teólógi, þ.e. guðfræðinguri Heima er bezt 275

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.