Heima er bezt - 01.08.1978, Blaðsíða 24

Heima er bezt - 01.08.1978, Blaðsíða 24
STEINDÓR STEINDÓRSSON FRÁ HLÖÐUM: Slysfarimar í Öskju 1907 Bréf frá Ögmundi Sigurðssyni Vorið 1882 hóf Þorvaldur Thoroddsen fyrstu lang- ferð sína til að kanna ísland. Hélt hann síðan rannsóknaferðum sínum áfram nær öll sumur til 1898, hafði hann þá farið víðar og kannað meira um náttúru landsins og staðfræði en nokkur maður á undan honum, og fáir eða engir síðar. Árangur ferða hans varð geysimikill, eins og hin miklu rit hans bera ljósast vitni um. Ferðirnar sjálfar voru hið mesta þrekvirki, frá hvaða sjónarhóli sem þær eru skoðaðar, enda gat hann sér meiri orðstír fýrir rannsóknir sínar en títt er um íslend- inga. Vér getum naumast nú gert oss í hugarlund alla þá erfiðleika, sem þá voru á vegi ferðamanna um landið. Vegir engir, nema troðningar, flestar ár óbrúaðar, enginn uppdráttur að gagni yfir óbyggðir landsins, og menn mjög ókunnugir þeim. Ofan á allt þetta bættist, að því nær allan áratuginn 1880-1890 gengu nær óslitin harðindi yfir landið. Það voraði seint, og gróður því lítill fram eftir sumri, sem torveldaði ferðalög á hestum, og sumurin mörg svo áfellasöm, að jafnvel snjóaði í byggðum um hásumarið, og má þá nærri geta hvernig hefir viðrað inni í hálendinu. Allt um þetta vann Þorvaldur verk sitt ótrauður og hiklaus. Hversu vel tókst til um ferðirnar, og hve árangur þeirra varð mikill má meðal annars þakka því, hve ágætan fylgdarmann hann hafði flest öll sumurin, en hann var Ögmundur Sigurðsson síðar skólastjóri. Þor- valdur gefur Ögmundi eftirfarandi vitnisburð: „Ög- mundur átti eigi lítinn þátt í því, að ferðirnar tókust vel, og mun ég jafnan minnast þess með vinsemd og þakklæti. í tjaldvistum var Ögmundur óviðjafnanlegur, sá um allt innan tjalds og utan eins og besta húsmóðir, svo ég gat sjálfur alveg gefið mig að rannsóknunum. Mér brá við það í ferðinni 1890, er ég hafði aðra fylgdarmenn í tjaldi, sem ekkert kunnu til neins, svo að ég varð að tefja mig á að gera allt sjálfur, tjalda, matreiða og útbúa allt innantjalds, sem þurfti.“ (Ferðabók Þ.Th. I.b. bls. 14) Ögmundur Sigurðsson var frá Bíldsfelli í Grafningi. Hann var meðal fyrstu nemenda Möðruvallaskólans og þar hófust kynni þeirra Þorvalds, en hann var þá kennari á Möðruvöllum. Ögmundur stundaði síðar kennaranám í Kaupmannahöfn og Ameríku, var kennari og skólastjóri á Eskifirði og suður í Garði en miklu lengst í Hafnarfirði. Þar var hann kennari og síðar skólastjóri í Flensborg frá 1896-1930. Var hann á sinni tið einn af fremstu skóla- mönnum landsins. Ögmundur var vaskur maður að allri gerð, og eins og títt var um sveitapilta vanur hestum og kunni til margra verka. Á ferðalögunum með Þorvaldi þjálfaðist hann svo vel í öllu, sem að ferðamennsku laut, að fátítt má kallast, og einsdæmi á þeim tíma. Hann kunni vel með hesta að fara, var nærgætinn við þá og umhyggjusamur svo að af bar. Er gaman að lesa í bréfum hans til Þorvalds, er hann ræðir um hesta þeirra, bæði meðan á ferðalögunum stóð og síðar. Hafa hestar verið þeim báðum hugleikið við- fangsefni. Þá var hann sem fyrr segir natinn við öll ferða- störf og kunni við flestu ráð. Allan fararbúnað þeirra félaga annaðist hann, svo að hann væri ætíð til reiðu, er voraði og ferðir skyldu hefjast. Hann var þrekmaður og þolinn, sem kom sér vel í erfiðum ferðalögum. Og síðast en ekki síst var hann ágætur ferðafélagi, og var það ekki minnst um vert á löngum ferðum í þröngum tjaldvistum. En alls urðu ferðadagar þeirra 870, og tjaldnætur 188. Með þeim Þorvaldi og Ögmundi tókst alúðarvinátta, sem hélst órofin meðan báðir lifðu. Skrifuðust þeir á að staðaldri frá 1883-1921, er síðasta bréf Ögmundar dagsett fáum mánuðum áður en Þorvaldur lést. Bréf Ögmundar í safni Þorvalds eru alls 174 og mörg þeirra löng. Áf þeim er ljóst, hve innileg vinátta og trúnaður hefir verið milli þeirra. Ögmundur ræðir mjög einkamál sín, og eftir að Þorvaldur fluttist til Kaupmannahafnar skrifar hann margt um bræður Þorvalds og fjölskyldur þeirra og vandamál, einkum ræðir hann mjög um Þórð lækni, en þeir Ögmundur voru vinir frá því báðir áttu heima í Keflavík. Er ljóst, að Þorvaldi hefir verið kærkomið að fá fréttir af frændum sínum hjá Ögmundi. En Ögmundur ræðir einnig margt um pólitík, nýjar bækur og daglega viðburði og kryddar bréf sín með ýmsum sögum og vísum, en báðir hafa þeir sýnilega kunnað vel að meta kímilega hluti. Eftir að ferðum Þorvalds Thoroddsens lauk gerðist Ögmundur oft fylgdarmaður útlendinga, bæði náttúru- skoðara og annarra. Var hann allra manna eftirsóttastur til þeirra hluta, bæði sakir einstakrar þekkingar sinnar á landinu og frábærrar ferðamennskulistar. Mjög voru 272 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.