Heima er bezt - 01.08.1978, Síða 35
þar einn og yfirgefinn. Það varð úr að hann og Dísa fengju
sér gönguferð út í hagann. Folöldin tvö voru orðin spræk
og mestu hlaupagikkir. Allt var iðandi af lífi og fjöri í
gróandanum. Hannes benti yfir ána.
— Þarna sérðu heim til mín. Eigum við ekki að skreppa
í heimsókn?
— Við vöðum nú varla ána og svo má ég ekki fara á
aðra bæi svona klædd, sagði Dísa, sem var um og ó.
— Ég hef leyfi Kristjáns til að grípa hest ef á þarf að
halda. Hafðu engar áhyggjur út af klæðnaðinum. Þau
heima segja ekki neinum frá því.
Þau tvímenntu á Stóra-Rauð yfir ána, sem var vatns-
mikil ennþá. Rauður synti ósköp rólegur í tíðinni með þau
og allt gekk vel. Nú líkaði Dísu lífið, þessu var hún vön.
Fólkið var allt heima og þeim var tekið tveim höndum.
Þorgeir og Jón, bræður Hannesar og Lára systir þeirra,
horfðu með aðdáun á þessa sérkennilegu kvenpersónu,
klædda eins og strák, en með sítt kolsvart hár og fallegustu
augu og brár, sem þau höfðu nokkurntíma séð. Hjónin
drukku með þeim kaffi og röbbuðu við unglingana og nú
var Hannes í essinu sínu, vantaði bara nöldrið sitt, sagði
Dísa og hló. Nú var hún ekki vitund feimin, var frjálsleg
eins og heima hjá sér. Þorgeir hafði varla af henni augun.
Hún tók ekkert eftir því, en sá að hann var mjög álitlegur
piltur miklu laglegri en Hannes. En hjónin litu hvort á
annað í laumi og brostu. Æskan er alltaf sjálfri sér lík, datt
þeim í hug.
Dísu þótti fólkið þarna bráðskemmtilegt og sagði
Rönku hitt og þetta frá þessari heimsókn við tækifæri.
— Hannes er eins og besti bróðir, sagði hún, — en
Þorgeir er miklu myndarlegri, enda fullorðinn. Hana
grunaði ekki þá að Hannes yrði engu síðri er framliðu
stundir.
Heima í Hvammi hafði fólkið það rólegt. Sólin var farin
að skína og það bærðist ekki hár á höfði.
Kristján og Þóra, ásamt Dýu, fóru út í kirkjugarð. Þóra
gekk að litlu leiði og signdi yfir það, kraup niður og fór að
laga það sem veturinn hafði skemmt og hlúði vel að
blómunum sem voru að gægjast upp úr moldinni. Það var
ró í svip hennar. Dýa sat og horfði á hana og hugsaði
margt. Hún átti ekki neitt sérstakt leiði til að hlynna að,
ekki einu sinni það. Lífshamingjuna fann hún langa ævi í
því að hjálpa þeim er bágt áttu. Hjartasárið var löngu
gróið, þannig að hún leið ekki framar þessvegna. En hún
gleymdi engu. Hannes hét hann ungi maðurinn er hún var
heitbundin forðum. Hann drukknaði á besta aldri, ásamt
föður sínum í fiskiróðri. Brak úr bátnum rak á fjörur, en
lík feðganna fundust aldrei. Hannes á Hrauni hlaut nafn
unnusta hennar löngu síðar. Hann varð henni hjartfólg-
inn frá fyrstu stund og á Hrauni var heimili hennar að
mestu. Hún var móðursystir Sigrúnar. Guðnýju var flest-
um betur kunnugt um lífsreynslu Kristjáns og Þóru, og
þótti henni sem þeirra raunir væru mun sárari en hennar
eigin. Sigurbjörn lét nú verða af því að skoða garðinn.
Hann gekk um með Kristjáni sem útskýrði nöfn og ártöl
er voru á mörgum af leiðunum og var heima í öllu langt
aftur í tímann. Þeir fengu sér sæti og þögðu um stund.
Sigurbjörn rauf þögnina.
— Ég hef tekið eftir því að þið hjónin farið oft hér í
garðinn og giska á að þið eigið hér einhvern hjartfólginn
geymdan.
— Það er rétt, ansaði Kristján, rólega. — Ef þú villt
hlusta á þann rauna og sorgarkafla úr lífi okkar Þóru, þá
get ég sagt þér hann núna. Við Þóra tölum lítið um þetta
við aðra. Hún, að ég held, aðeins við mig.
Framh í næsta blaði.
Dægurljóð ...
Framhafa af bls. 277._____________________________
En mér í brjósti berst þá hjartað unga,
bilar mér rómur, gefur frá sér tunga.
Innan að mér um hörund leikur hiti,
hrollur og sviti.
Daprast mér sjónir, syngur fyrir eyra,
sækir mig allan skjálfti meir’ og meira,
bleikur ég er sem bast og banvænlegur,
brátt af mér dregur.
2
TIL AFRODÍTU
Heyr, Afrodíta, hvers ég vildi biðja,
háleita, fagra, ráðasnjalla gyðja!
hugraunir sárar láttu mig ei líða
lengur og kvíða.
Bað ég þig fyrri, brástu þá við óðar,
brunaði kerran þín um mána slóðar,
hágöngur létt af hvítum spörvum dregin
heiðbjarta veginn.
Lögur og himinn hvert skein öðru glaðar,
hjá mér von bráðar gullin reið nam staðar,
brostirðu til mín, blessuð, og mig fréttir
blíðlega ettir,
hvað að mér gengi, hví ég hefði kvartað;
„hvað er sem þjáir, Sappho, litla hjartað?
hver er sem elsku þína vill ei þýðast? —
það skal ei líðast.
„Flýi' hann þig núna, fljótt skal hann þín leita,
fyrr hvað ei þáði’ hann, skal hann sjálfur veita,
elski’ hann þig eigi, afhug skal ég breyta’ í
ástina heita.“
Konfdu þá aftur, ástar blíða gyðja.
eyddu svo raunum, virstu mig að styðja,
til þess ég mínum framgengt vilja fái,
fögnuði nái.
Fleiri ljóð birtast þá ekki að sinni. Kær kveðja.
E.E.
Heimaerbezt 283