Heima er bezt - 01.08.1983, Blaðsíða 12

Heima er bezt - 01.08.1983, Blaðsíða 12
Magnús Bjarnason Yfir Vaðlaheiði í fyrsta sinn á bifreið Þar sem nú eru rúm 50ár síðan fyrsta bílferðin var farin yfir Vaðlaheiði, langar mig til að rifja hana upp. Það var í júlí 1927 að við Georg Jónsson fórum að ræða um það, hvort ekki væri möguleiki á því að komast á bíl yfir Vaðlaheiði, í Vaglaskóg og austur í Ljósavatnsskarð. Við vorum eitthvað að dytta að bílum okkar þennan dag, en hvorugur bíllinn var í því lagi sem æskilegt var til lengri ferðar. Tilefni þessara þanka okkar var lagning Vaðla- heiðarvegarins og var hann kominn út hjá Veigastöðum, en gamli vegurinn lá þar skammt ofar í heiðinni. Frá gönguferðum okkar í Vaglaskóg mundum við eftir götutroðningum frá Veigastöðum upp á gamla veginn. Ef hægt væri að komast þarna á milli veganna á bíl, væru líkur á að komast mætti yfir heiðina á gamla veginum. Hugmyndin var að fara næsta dag á mínum bíl, sem var fólksbíll, en Georg átti léttan vörubíl. Ákváðum við að fara strax á hans bíl yfir að Veigastöðum og skoða troðninginn á milli veganna. Blíðviðri var þennan dag og ekki orðið áliðið dags er við höfðum athugað vegarspottann, svo við töldum réttast að gera tilraun til að komast upp á gamla veginn á bílnum. Ókum við því af stað, en ekki vorum við komnir langt, þegar beygja þurfti fyrir melbarð, en þá kom í ljós að hægra afturhjólið hlaut að fara út af troðningnum, ef haldið væri áfram. Til baka var heldur ekki hægt að fara, því þá hefði hægra framhjólið farið út af, en djúpt gil var þar niður að læk. Ekki leist okkur á að setjast þarna að ráðalausir, enda ýmsu vanir á þeim árum í bílferðum á vegleysum. Bíllinn var með breiðum hliðarborðum á pallinum. Losuðum við þau og lögðum á jörðina framan við aftur- hjólin. Ók Georg svo bílnum upp á borðin það langt að aftara borðið losnaði undan hjólunum. Stóð ég niðri í brekkunni og færði borðin hvert fram fyrir annað eftir því sem bíllinn mjakaðist áfram, það var um 3ja metra kafli, þar til hjólið náði fastri jörð aftur. Þetta var varasamur akstur, því ekki mátti færa bílinn nema ca. 30 sm. í einu, annars hefði hann hrapað niður í gilið og vorum við því báðir í talsverðri hættu. Eftir þetta gekk sæmilega að komast upp á gamla veginn og kom okkur saman um að reyna að halda áfram. Gekk það sæmilega þangað til gangsetningarsveif vélarinnar rakst í klöpp, og brotnaði handfangið af. Vorum við þá komnir ofarlega í heiðina. Var þetta mjög bagalegt fyrir okkur, þar eð rafgeymir bílsins var heima í hleðslu og því aðeins hægt að koma vélinni í gang með sveifinni á magnetunni, en í þá daga var sveifin föst í grind bílsins. Vegurinn upp heiðina var talsvert brattur og afar grýttur, margir jarðfastir steinar sem erfitt var að koma bílnum yfir þá. Þegar komið var upp á háheiðina, var vegurinn sæmi- legur niður að brekkunum fyrir ofan bæinn Skóga, þar voru snarbrattar brekkur og vegurinn í ótal sneiðingum. Við stönsuðum nú og var ákveðið að ég gengi á undan niður brekkurnar og athugaði brattann á veginum og beygjur í sneiðingunum og benti Georg á hvort ég teldi óhætt að halda áfram, með tilliti til bakaleiðarinnar. En bíllinn kom alltaf á hæla mér svo mín athugun kom ekki að neinu gagni. Ég settist því aftur upp í bílinn og nú ókum við sem leið liggur yfir Fnjóskárbrú og inn í Vaglaskóg. Við höfðum skamma viðdvöl í skóginum, en ókum svo austur að Hálsi og snérum þar við og héldum áleiðis heim. Allt gekk vel að brekkunum fyrir ofan Skóga. Vél bílsins var orðin mjög heit, bæði kælivatn og smurning og bremsurnar orðnar æði slappar. í brekkubeygjunum stöðvaðist vélin nokkrum sinnum, bremsunum lítt treystandi og mjög erfitt að snúa bílnum í gang, þar sem aðeins var um legg sveif- arinnar að ræða. Var því ákveðið að skilja bílinn eftir og ganga heim, en útbúa okkur betur næsta dag til að sækja hann. Daginn eftir ókum við aftur að Veigastöðum, þar feng- um við 4 af vegavinnumönnunum til að bera rafgeyminn austur og hjálpa til við bílinn ef með þyrfti. Þegar að bíln- um kom settum við rafgeyminn á sinn stað, bílnum var startað og gekk honum vel upp brekkurnar, en við gengum á eftir og vorum til tals ef eitthvað bæri út af. Fórum við síðan upp í bílinn og gekk allt sæmilega yfir heiðina og niður að Veigastöðum. Vegaverkstjórinn hafði látið lag- færa veginn lítilsháttar í melbarðinu, sem áður var minnst á. Við þökkuðum honum og mönnum hans alla hjálpina, og héldum heimleiðis. Mun þetta vera fyrsta og síðasta ferðin, sem farin var á bíl eftir gamla veginum, vestan í Vaðlaheiðinni, en árið eftir komst nýi vegurinn út á Svalbarðseyrarveginn og opnaðist þá bílfær vegur í Vaglaskóg og austur að Skjálf- andafljóti. 244 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.