Heima er bezt - 01.08.1983, Blaðsíða 32
Ætti ég hörpu hljóma þýða
Vísur eftir Friðrik Hansen
Friðrik Hansen f. 1891 d. 1952 var kennari á Sauðárkróki
og vegavinnuverkstjóri á sumrum. Hann varð snemma
kunnur fyrir tækifærisvísur sínar og ljóðræn kvæði, sem
tónskáld heimahaganna og afburðasöngmenn hafa gert
víðfræg og vinsæl. Eftir lát Friðriks gáfu börn hans út eftir
hann ljóðakver og síðar valdi Hannes Pétursson skáld úr
því, sem þar var, og öðru sem síðar fannst, og gaf út í bók.
Eitt vinsælasta ljóð hans er kvæðið Ætti ég hörpu, fjórar
vísur svohljóðandi:
Ætti ég hörpu hljóma þýða,
hreina, m/úka gígjustrengi,
tilþín mundu lög mín líða,
leita þín, er einn ég gengi.
Viltu, þegar vorið blíða
vefur rósir kvölddögginni,
koma til mín, kvœði hlýða,
kveðja mig í hinsta sinni.
Lífið allt má léttar falla,
Ijósið vaka í hugsun minni,
ef ég má þig aðeins kalla
yndið mitt í fjarlœgðinni.
Innsta þrá í óskahöllum
á svo margt í skauti sínu.
Ég vildi geta vafið öllum
vorylnum að hjarta þínu.
Varla er hægt að hugsa sér betra heimildarkvæði um
ástarorð, hvísluð að ungum stúlkum, á æskuárum þeirra
sem ungir voru á fyrstu áratugum aldarinnar, eða til að
senda til óbundinnar elsku sinnar í bréfi. Þá var stundum
engu hægt að lofa og einskis að vænta á hvorugan veginn.
Hvert orð varð að vera hnitmiðað, en segja þó allt sem segja
þurfti. Enda hefur þetta ástaljóð, með hjálp hins hugljúfa
lags, lengi dugað. Dugar jafnvel enn, og kannski um
ókomna tíma, því viðkvæmni æskuástanna fer aldrei úr
tísku.
í mörgum öðrum ljóðum og stökum Friðriks Hansens
kemur fram þessi sami innileiki, og náttúrudýrkun, sem
einmitt einkennir ofanritaðar visur. Allt, sem eftir hann
liggur, er fallegt og ljóðrænt, kannski þó á mörkum þess að
manni finnist ekki að boginn sé spenntur heldur um of.
Ég leyfi mér að taka hér og sem sýnishorn aðrar fjórar
vísur. Þær eru vinarkveðja til Páls Sigurðssonar, gæti verið
hinn kunni skagfirski hestamaður og bílstjóri. Hann er nú
nýlega látinn, háaldraður. En vísurnar eru ortar 1946 og
munu því teljast til síðustu ljóða Friðriks. Áratugir eru á
milli þessarra kvæða:
Hlœr þér skeið og blómabreið,
blessar heiðið fjallasalinn.
Styttir heiðin langa leið,
létt er reiðin ’on í dalinn.
Fer sem tundur fjall og sund
fertug stund að nýjum dögum.
Dreymir undur dalsins grund,
dunar undir hófaslögum.
Þyngist leið og þreyta skeið,
þar sem breiðist elliflötur.
Þó mun greið þín langa leið
og létt að skeiða timans götur.
Brekku stekkur blakkur frár,
brotna hlekkir, œsast glóðir.
Þekkir rekkur þolinn klár,
þyrlast mekkir langar slóðir.
Þess ber að geta að kvæðið er ort til Páls á fertugs-
afmælinu.
Hér eru loks nokkur sýnishorn af stökum Friðriks.
1
I hlaðbrekkunni hýr og smár,
himinglaðan daginn,
fífillinn með heiðgult hár
hristir lokk í blœinn.
2
Sendið hingað sólskin inn,
sumardagar Ijósir,
vetur gróf í gluggann minn
gráar hélurósir.
3
Inni í landi og út við sjó
allar raddir þegja.
Þó er eins og þessi ró
þurfi margt að segja.
4
A rin koma og kallast á,
hverfa að tímans landi,
eins og falli alda blá
upp að fjörusandi.
5
A Idrei kveldar, ekkert húm,
eilíf sýn til stranda,
enginn tími, ekkert rúm,
allar klukkur standa.
Jón lir Vör.
264 Heima er bezt