Heima er bezt - 01.07.1985, Side 48
„Hvað fóru þau að gera, Barði og Fanney?“ spurði
Daníel.
„Ég veit það ekki. Hann er hér í sveitinni, svona öðru
hvoru, en hún er í Reykjavík eða Keflavík. Annars má Guð
einn vita, hvernig þetta er allt saman,“ ansaði Ranka.
„Hvað segið þið mér um hana Sóley? Vitið þið, hvað af
henni varð?“
„Hún var hérna hjá okkur í tvö ár. Svo fór hún suður.
Síðast heyrði ég frá henni fyrir jólin í fyrra, fékk bréf og
kort. Þá var hún úti í Noregi,“ sagði Ranka.
„Vitleysa er í þér, kerling. Hún var ekkert í Noregi.“
„Nú, jæja. Hvar var hún þá?“
„Var það ekki í Ameríku, í Dakota?“ ansaði Bensi.
„Þú ruglar alltaf saman Evrópu og Ameríku. Það er
talsverður spölur þar á milli, hefði ég haldið.“
Ranka fór og náði í kortið og bréfið til að sýna Danna, og
mikið rétt: Hvort tveggja var sent frá Noregi.
„Hún er góð stúlka, hún Sóley, sannarlega leitun á öðr-
um eins mannkostum, og fjölhæfnin mikil,“ þusaði hún, á
meðan hann las. „Sá verður heppinn, sem fær hana fyrir
lífsförunaut.“
„Ég skil varla, að hann verði neitt heppnari en hinir, sem
fá eitthvað annað. Þeir gætu sjálfsagt hrósað happi ekkert
síður,“ sagði Bensi hálffúll.
Danni var þar í mánuð. Það tíndist alltaf eitthvað til að
gera í sveitinni. Svo stóð sauðburðurinn yfir, og þá var
venjulega talsverður annatími.
Ragnheiður hafði tekið tækilega til í litla herberginu og
gert það hreint, og svo málaði Danni það á eftir. Þetta
minnti hann á gamla daga, þegar hann var hérna um
sumarið. Þó fannst honum eitthvað skorta, líklega vegna
þess að fortíðina sá hann í fjarlægð, en nútíðin var hin
líðandi stund, sem við öll veitum litla athygli fyrr en eftir á.
Svo komst hann að hinu sanna: Hann var ekki sá sami
Daníel er gisti þennan stað fyrir rúmum fimm árum. Hann
var ekki unglingur lengur, heldur fulltíða maður með
nokkra reynslu að baki. Lífið var skóli, sem nemendum
sínum dýrkeypta reynslu í einkunna stað, og á því prófi
þurfti enginn að falla, ef vilji var fyrir hendi. Samt sem áður
voru þeir margir, er lentu í glatkistu og áttu þaðan ekki
afturkvæmt. „Hver er sinnar gæfu smiður,“ heyrði hann
Guðríði stundum segja, og reyndar fleiri, er höfðu slegið
þessu orðatiltæki fram. En hver gat hrósað happi með
pálmann í höndunum, alsæll af lífsgleði? Urðu ekki alltaf
þau ljón á veginum, er ollu vonbrigðum, sárri hryggð og
niðurlægingu?
Maðurinn var, þegar á allt var litið, eitt stórt „elsku ég“,
— sama um alla hina, bara ef ég kem mínu fram. Svo var
líka til nokkuð, sem hét samviska. Hún lék þetta fólk ansi
grátt, og það svo, að hún steypti því í glötunina á eftir
fórnardýrinu.
Þriðja manngerðin var líka til, þeir, er samviskan lét í
friði, hversu illt sem þeir gerðu af sér. Það voru úrhrökin.
Þetta fornkveðna máltæki var rangt. Merking þess fannst
hvergi í raunveruleikanum. Það gat enginn orðið sinnar
gæfu smiður. Heimurinn sá fyrir því, -— kerfið, vinirnir og
vandafólkið.
Svartsýni? Var hann svona neikvæður? Dæmdi hann
aðra að ósekju? Nei, þetta var svona, en það þorði enginn
að viðurkenna það af hræðslu við sannleikann.
Sjómennirnir þekktu lífið. Daníel vissi, hvernig þeir
voru, — þeir voru harðjaxlar. Tilveran hafði misþyrmt
þeim, en nú lúffuðu þeir ekki fyrir neinu.
Þeim var sama um allt, sjálfa sig fyrst og fremst. Fyrir
þeim var engu að tapa og til einskis að vinna. Þeir kunnu
ekki að elska, — það var fyrir löngu búið að drepa þá
tilfinningu.
Meðal þessara manna hafði hann verið svo árum skipti. í
rauninni var hann gerólíkur þeim. Hann hafði skarpa og
næma athyglisgáfu, skildi afstöðu þeirra, en vildi ekki trúa
því í raun og veru, að samskipti þeirra við lífið hefðu gert
þá eins og freðið grjót.
Nú beið hans ekkert annað, þegar hann kæmi úr sveit-
inni, en fara aftur á sjóinn.
Heima á Hálsi hafði hann orðið fyrir hrakyrðum hjá
fósturforeldrum sínum og svívirðingum hjá Jónatan, en hér
i Klettakoti átti hann trausta vini. Ranka myndi aldrei
bregðast honum, og það rættist úr Bensa. Þegar allt kom til
alls, freistaði sveitalífið óneitanlega.
En svo var hann kominn til Reykjavíkur eitt kvöldið.
Hann leit inn í eldhúsið og stofuna, en þar var enginn.
Hvar var Stína? Hún gat varla hafa farið langt, því það
voru heitir pottar á eldavélinni. Daníel fór upp og lagði sig.
Hann var hálfþreyttur. Samt var þessi þreyta öðruvísi en
þegar hann var á sjónum. Nú var hann endurnærður.
Á furðuvegum
Langferðabíllinn nam staðar utan við sjoppuna. Ökumað-
urinn gekk með hendur í vösum umhverfis hann, sparkaði
hraustlega í hvern hjólbarðann af öðrum og blístraði gam-
alt lag, sem sagði eitthvað um Bjössa á mjólkurbílnum, sem
beið við brúsapallinn og svo framvegis.
Stúlkan, sem var farþegi, horfði á þessa tilburði og brosti.
Henni fannst hann næstum skemmtilega montinn. Svo
strunsaði hann inn og pantaði kaffi fyrir tvo.
Hún settist á móti honum við borðið og virti fyrir sér
hnitmiðaðar hreyfingarnar. Hann beitti eins konar leikni
við að innbyrða brauðið og kleinurnar.
„Langt eftir?“ spurði hún.
„Já. Það er, sko, skrambi langt eftir,“ ansaði hann og hló.
„Hefur þú unnið á hóteli áður? Þú ert kannski vön slíkum
störfum.“
„Ja, bæði já og nei. Mamma vinnur alltaf á hótelum og
matsölum, og ég hef oft gripið inn í það.“
„Býrðu hjá mömmu þinni?“
„Nei. Ég á mitt eigið hús,“ ansaði hún.
„Ertu kannski fráskilin?" var næsta spurning, og hann
horfði eitthvað svo ísmeygilega á hana.
Hún var leið á þessum persónuspurningum. Hvað komu
ókunnugum bílstjóra þessir hlutir við?
272 Heima er bezl