Sjómannadagsblaðið - 06.06.1938, Blaðsíða 11
SJÓMANNADAGSBLAÐIÐ
3
jörð þeirra kallar, að fara í nýja för og berj-
ast við Ægi, og þeir finna hina sönnu gleði í
því, er för þeirra gengur að óskum — er þeir
vinna sigur. Sú þekking, er ég hefi á mínum
stéttarbræðrum eftir margra ára samstarf, hef-
ir fært mér heim sanninn um það, að engum
er fjær skapi en þeim að ganga með hendur
í skauti. Þeir eru allir boðnir og búnir til þess
að taka til hendinni, er þess gerist þörf eða
tækifæri gefst, jafnvel utan við eigin verka-
hring.
Þá skal með fáum línum minna á nokkur
þau mál, er sjómenn hafa beitt sér fyrir til
menningar- og öryggisauka fyrir stéttina og
þá um leið fyrir íslenzku þjóðina almennt, og
sem þeir nú óska eftir að hrint verði í fram-
kvæmd. Því óneitanlega væri sú þjóð illa kom-
in, með hnattstöðu íslands, er ekki hefði á að
skipa hæfum mönnum í þeirri stétt.
Ég tel þá fyrst skólabyggingarmál sjómanna.
Það mál er búið að vera lengi á döfinni, sjó-
menn hafa beðið árum saman eftir lausn þess
og ennþá er allt á undirbúningsstigi. Það er
gott að undirbúa málin vel, en biðin getur orðið
of löng. Aðrar stéttir þjóðfélagsins eru þar
langt á undan með uppfylling óska sinna, enda
þótt þörfin hafi ekki á þeim sviðum verið eins
aðkallandi. Nú viljum við fastlega vænta þess
að ríkisstjórnin, er þetta mál hefir með hönd-
um, láti ljúka undirbúningi og hefja verkið hið
allra fyrsta. Við vitum, að þörfin er mikil fyrir
þá skólabyggingu, er hér um ræðir. Við vitum
einnig, að þörfin er viðurkennd af mörgum, en
úrræðin virðist vanta, en þó eru þau fyrir hendi,
ef viljinn til þess að leysa þetta stórmál sjó-
mannastéttarinnar væri nógu einlægur. Að það
miði að aukinni hæfni og menningu sjómanna
almennt, að þetta mál fái skjóta og happasæla
lausn, því neitar enginn, er skilur sambandið
milli menntunar og hæfni.
Svo má og benda á í sambandi við öryggis-
málin, að nýbyggingu ljósvita, radíóvita, mið-
unarstöðva og þokuhorna miðar svo sorglega
seint, að það mega undur heita, ef þjóðir þær,
er mest sigla við land okkar, fara ekki að undr-
ast þann seinagang. Það virðist full ástæða til
að vænta þess, að því fé, sem greitt er í vita-
gjöld, sé eingöngu varið til nýbygginga og við-
halds á vitum. Hraðinn eykst og skipunum
fjölgar, sem sigla með fram ströndum lands-
ins, en enn þá eru mörg útnes og skagar, svo
ekki sé talað um innflóa, ýmist ólýstir eða illa,
og má þó geta sér þess til, hve mjög öryggi
sjófarenda er undir góðu vitakerfi komið.
Þetta og margt fleira er það, sem sjómennirn-
ir nú gera kröfur til þjóðarinnar um að hrundið
verði í framkvæmd hið allra fyrsta. Það er
engin ölmusa fyrir sjómannastéttina, þetta er
jafnt fyrir þjóðina alla, því að á lífi og starfi
sjómannanna byggist líf þjóðarinnar svo mjög.
Nógu mörg eru þau slys, sem orðið hafa við
strendur þessa lands og er nokkuð hægt að
kenna það því, hve ströndin er illa lýst og svo
því, hve mörg öryggistæki vantar um borð í
skipin o. fl. Þegar úr þessu hefir verið bætt,
getur enginn sér um kennt, þótt illa fari.
Það er gott og blessað, þegar eitthvað stór-
slysið hefir orðið — og sjálfsagt gert í hjart-
ans meiningu — að tala þá um hetjur hafsins,
er látið hafa lífið fyrir þjóð sína í baráttunni
við æstar öldur hafsins, eða við hina myrku og
hrjóstrugu strönd, en hitt er betra að allt sé
gert, sem mannlegur máttur og þekking fær
áorkað, til þess að fyrirbyggja slysin.
Nú er sjómannastéttin að þjappa sér saman,
ekki til illinda, heldur til þess að vinna að bætt-
um skilningi á málum sínum og til leiðbein-
ingar þeim og aðstoðar, sem eitthvað vilja fyr-
ir hana gera. Á þessum degi vonum við, að
augu margra opnist fyrir því, hve réttmætar
og nauðsynlegar eru skjótar framkvæmdir á
þeim málum, er hér hefir verið bent á.
Við óskum, að bönd vináttu og skilnings milli
sjómanna og annara stétta þjóðfélagsins treyst-
ist æ betur, sem tímar líða.
Ásg. Sigurðsson.
Kaupið
merki sjómannadagsins!