Eimreiðin - 01.04.1929, Síða 60
148
SKINNKLÆÐI
eimreiðin
eða hleypt niður, og svo hefur það verið, sbr. „girða sig“ OQ
„hleypa brókum“. Ennfremur má nefna hin gömlu handamál,
sem ekki hafa fylgt svo öðrum hlutum alt til þessa tíma, og
loks hversu alt er fornlegt og ramíslenzkt við tilbúning klæð-
anna. Alt þetta þykir mér benda all-sterklega á, að við Is-
lendingar eigum í skinnklæðum einn hinn elzta þjóðbúning á
Norðurlöndum. Væri æskilegt, að fræðimenn rannsökuðu þetta
nánar, því hér er að eins um bending og líkur að ræða.
En svo mikið er víst, að í þessum klæðum hefur mikill
hluti íslenzkra alþýðumanna unnið að öðrum aðalatvinnuveg
íslenzku þjóðarinnar frá fornöld og fram um fyrsta fjórðung
þessarar aldar og að nokkru leyti enn í dag. Er hann því
að vissu leyti einskonar þjóðbúningur, sem í rauninni fer
hverjum réttvöxnum manni vel og karlmannlega, sé stakkur-
inn sniðinn eftir vexti og klæðin vel gerð;1) og einkennilegt
er það, að yfir þessum klæðum hvílir enn í dag einskonar
helgi — mér liggur við að segja fornhelgi. Kvað svo að
þessu, að alþýða manna taldi alskinnklæddan mann friðhelgan
svo lengi sem hann væri klæddur skinnklæðum, og enn bera
menn ósjálfráða virðingu fyrir skinnklæddum manni. Vera má,
að helgitilfinning þessi stafi að nokkru af hinu nauðsynlega,
alvarlega og hættulega starfi, er menn gegna klæddir fötum
þessum, því í þessum klæðum hefur margur hraustur drengur
unnið fyrir sér og sínum og tekið þau handtök, er lengi
munu í minnum höfð og bjargað hafa lífi bæði þeirra sjálfra
og annara, í viðureigninni við ofviðri og stórsjó, oft í blind-
hríðar gaddbyljum og kolsvörtu myrkri heimskautabaugs
skammdegisnæturinnar.
En engir eru til frásagna um þrekvirki hinna mörgu, í hinzta
stríðinu, er þeir háðu við æðisgengnar höfuðskepnurnar áður en þeir
„meö sveitta kinn,
supu hinn kalda bikarinn",
og skinnklæðin urðu þeim líkklæði.
Oddur Oddsson.
1) ÞaÖ væri vel við eigandi, að sýnd væru vel gerð skinnklæði á al-
skinnklæddum, drengilegum íslendingum við Þingvallavatn á Alþingis-
hátiðinni 1930.