Eimreiðin - 01.04.1929, Blaðsíða 72
160
HALLGRÍMUR
EIMRIEÐIN
— Hver er þessi veiki maður? spurði Gunnlaug.
Eg sagði, að hann héti Bjarni Þórðarson.
Gunnlaug hafði staðið í því horninu á herberginu, sem fjarst
var rúminu. Nú hrökk hún við, tók undir sig stökk að höfða-
laginu og horfði vandlega á andlifið á koddanum. Eftir ofur-
litla stund sagði hún, líkast því sem hún væri að tala við
sjálfa sig og væri í einhverri leiðslu:
— Svo að svona átti hann þá loksins að koma til mín!
Þá strauk hún um stund um andlitið á Bjarna, settist því
næst á stól við rúmið, tók í aðra hönd sjúklingsins og slepti
her.ni ekki.
— Hvað er það, sem gengur að honum? spurði hún þá.
Já ... hvað gekk að honum? Eg varð að hugsa mig um
ofurlitla stund.
— Eg veit ekki, hvað að honum gengur. Hann varð eitt-
hvað veikur uppi á heiðinni, sagði ég að lokum.
Hún spurði, með hverjum hætti sjúkdómurinn hefði komið
fram.
— Hann varð eitthvað undarlegur, sagði ég.
Mér fanst eins og henni léki með hverju andartakinu meiri
og meiri hugur á að fá að vita um sjúkdóm Bjarna. Og ég
sagði henni, að hann hefði þózt sjá mann á undan okkur og
viljað elta hann út úr leiðinni.
— Þá hefur hann sjálfsagt verið búinn að fá óráð, sagði ég.
— Nei, hann hefur ekkert óráð haft, sagði Gunnlaug ein-
beittlega.
Þá sagði ég henni, hvernig hann hefði alt í einu hnigið
niður og mist meðvitundina.
Gunnlaug sagði lítið, en einhvernveginn fanst mér hún taka
þessu kynlega kunnuglega. Og nú var mér boðið inn í annað
herbergi til máltíðar. En sjálf kvaðst húsfreyja ætla að verða
hjá sjúklingnum.
V.
Einhverjum kann að þykja það hálfótrúlegt, að ég skyldi
furða mig á nokkru þetta kvöld, eftir alt, sem hafði hent mig
um daginn — að hugurinn skyldi ekki vera orðinn svo fullur
af undrun, að meira kæmist ekki fyrir af því tæinu. En það