Eimreiðin


Eimreiðin - 01.07.1957, Page 48

Eimreiðin - 01.07.1957, Page 48
200 EIMREIÐIN en sonur hans, Ólafur, hefur einnig gert þá jörð fræga með prýðilegum byggingum og jarðabótum. Ólafur í Ási sendi syni sína til útlanda til mennta og frama. Meðal þeirra var Björn augnlæknir, sem var landskunnur á sínum tíma. Eftir að Gunnar dó og ekkja hans fór frá Ási, bjó Guðmundur lengi einn á jörðinni. Hann var annálaður dugnaðar- og heiðurs- maður, trygglyndur og vinfastur. Síðan búa þar sonur hans og dóttir, sitt á hvorum helmingi jarðarinnar. Er útlit fyrir að jörðin haldist enn lengi í ættinni, því að þau eiga mörg börn; en ég held að Ás hafi nú verið í eigu ættar þessarar um 180 ár. — Man ég, að mér þótti glæsilegt að koma að Ási. Átti ég eftir að koma þar oft, er ég var á Ríp, og var þar jafnan gott að koma. — Um viðstöðuna í Ási man ég lítið, en hún var löng. Munum við hafa borðað þar miðdegisverð. Reið Guðmundur Ólafsson með okkur austur að Vatnabrú. Er við riðum út bakkana fram með austari kvíslum Héraðs- vatna, leit ég sjón, sem ég aldrei gleymi. Á bakkanum hinum megin sá ég liggja milli 10 og 20 skepnur, langar og sívalar með hundshausum, en fótalausar, að mér sýndist. Ég hafði að vísu hugmynd um skepnur þessar og hafði séð myndir af þeim, en ég hafði aldrei séð sel áður. Er við nálguðumst stað- inn, byltu þeir sér í fljótið, hver eftir annan, með miklum skvettum og busli. Svo komu hausarnir upp úr vatninu hver eftir annan. Flýttu selirnir sér niður eftir ánni, voru styggir, enda talsvert eltir með skotum. Á þeim tímum og fram yfir aldamót gekk selur mjög upp Héraðsvötn, allt fram í Grund- arnes, eða um 20 kílómetra frá ósum. Kæptu þeir þar á vorin. Þetta var landselur. Helztu selaskyttur voru þá þeir Jón í Nesi og Guðmundur í Ási, einkum þá orðið Jón. — En svo fengu menn sér riffla, þar á meðal Þórður Gunnarsson á Lóni. Hann strádrap selinn, er hann lá á skörinni við austurós Vatn- anna á vetrin, svo að nú sést aldrei selur í Héraðsvötnum. Sennilega hefur silungsveiði vaxið við seladráp Þórðar, en mikið hef ég saknað þess að sjá þar ekki sel, er ég hef komið norður á síðari árum. Náttúran er eitthvað fátæklegri og fá- breyttari. Auk þess er fuglalíf nú miklum mun minna og fátæklegra í Skagafirði en áður var. Veit ég ekki, hvort þvi valda veiðar eða einhver óáran í dýralífi landsins.

x

Eimreiðin

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Eimreiðin
https://timarit.is/publication/229

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.