Tímarit lögfræðinga - 01.03.1973, Blaðsíða 24
hér á landi, sem mundu halda því fram í alvöru, að stjórnskipunarlög
veittu einhverja vernd gegn þess konar afturvirkni.
Mál af því tagi hefur þó verið borið undir dómstóla í Noregi og var
slík álagning ekki talin fara í bága við 97. gr. norsku stjórnarskrárinn-
ar. Dómur hæstaréttar í þessu máli er í Norsk Retstidende frá 1940,
bls. 487.
Þá getur skattfrelsi verið veitt tilteknum aðilum með lögum, sem
ýmist er ætlað að gilda um ákveðinn tíma eða gildistími laganna er
ótilgreindur. Flestir fræðimenn munu vera sammála um, að skatt-
frelsi, sem þannig er veitt, megi afnema án bóta, eins og prófessor
Ólafur Lárusson orðar það, eða án þess að sá, sem því er sviptur,
geti byggt nokkurn rétt á ákvæðum 67. gr. stjórnarskrárinnar eða
öðrum grundvallarreglum laga. Spurning kann þó að vera um, hvort
hægt er að viðhafa nokkrar alhæfingar í þessu sambandi.
Með 1. nr. 96/1936 var ákveðið, að Mjólkursamsalan í Reykjavík og
Sölusamband islenzkra fiskframleiðenda skyldu vera undanþegin út-
svari og tekju- og eignarskatti. Þarna má í rauninni segja, að löggjaf-
inn hafi rétt tveim ákveðnum fyrirtækjum skattfrelsi á silfurfati og
hann getur vafalaust tekið það aftur hvenær sem er, án fyrirvara, ef
honum sýnist svo.
öðru máli kann að gegna um það skattfrelsi, sem veitt er vinnings-
höfum í happdrætti Háskóla íslands með 1. nr. 86/1963. Ef það væri
afnumið með lögum nú um áramótin, er mér spurn, hvort þeir, sem
hlotið hafa vinning í ár, þyrftu að una því, að þessar tekjur yrðu
skattlagðar á næsta ári. Trúlega mundu vinningshafar segja sem svo,
að þeir hefðu keypt miða í þeirri góðu trú, að vinningar væru skatt-
frjálsir og með þeim kaupum hefði stofnazt samningur, sem ríkis-
valdið væri aðili að, að vísu með óbeinum hætti. Það hlyti að vera
bundið við þennan samning, og þar með væri ekki hægt að afnema
skattfrelsið með afturvirkum áhrifum. Ég kann ekki að svara því,
hvort þessi niðurstaða er rétt, en sé hún það, er að vísu aftur komið
að því, að skattfrelsið nýtur aðeins verndar, af því að hægt er að
tengja það eins konar samningi.
Enn má nefna skattfríðindi, eða e. t. v. ætti fremur að segja skatta-
hagræði, sem er almenns eðlis, og getur verið fólgið í ótvíræðum laga-
fyrirmælum, sem gefa til kynna, að skattskylda nái ekki til ákveðinna
tilvika eða sé ekki fyrir hendi við vissar aðstæður. Og hér er einmitt
komið að þeirri spurningu, sem margir velta nú fyrir sér, hvort lög-
gjafanum séu ekki einhver takmörk sett um skattalagabreytingar, sem
eru íþyngjandi og afturvirkar.
18