Tímarit lögfræðinga - 01.08.1978, Blaðsíða 51
MÁLÞiNG UM SAMNINGU DÓMA
Laugardaginn 15. apríl 1978 var háð málþing um samningu dóma í Félags-
heimilinu Stapa í Ytri-Njarðvtk á vegum og fyrir forgöngu Dómarafélags ís-
lands. Formaður félagsins dr. Ármann Snævarr, hæstaréttardómari, setti
þingið kl. 10 árdegis og hafði síðan fundarstjórn á hendi.
Framsöguræður fluttu þeir Benedikt Sigurjónsson, hæstaréttardómari, Har-
aldur Henrýsson, sakadómari og Magnús Thoroddsen, borgardómari. Reifuðu
þeir efnið ítarlega vítt og breitt og lýstu sjónarmiðum sínum f helstu atriðum
svo sem lesendur geta séð, en erindin þrjú eru birt í heild annars staðar
hér í heftinu.
Að loknu máli frummælenda var gert matarhlé, en að því búnu fóru fram
almennar umræður. Tóku þessir dómarar til máls: Björn Sveinbjörnsson,
hæstaréttardómari, dr. Ármann Snævarr, Már Pétursson, héraðsdómari, Bjarni
K. Bjarnason, borgardómari, Steingrímur Gautur Kristjánsson, héraðsdómari,
Hrafn Bragason, borgardómari, Halldór Þorbjörnsson, yfirsakadómari, Þor-
steinn Thorarensen, borgarfógeti, Sigurður Gizurarson, sýslumaður, og Valtýr
Guðmundsson, aðalfulltrúi.
Frummælendur tóku að lokum stuttlega til máls og sleit umræðustjóri, dr.
Ármann Snævarr, síðan þinginu um kl. 5 síðdegis með glöggri yfirlitsræðu
um það helsta sem fram hafði komið.
Málþing þetta var sótt af dómurum og dómarafulltrúum víða að af landinu
og voru þátttakendur alls 53. Málefni þingsins voru gerð mjög rækileg skil.
Var fjallað almennt um efni, uppbyggingu og forsendur dóma í einkamálum
og opinberum málum í héraði og í Hæstarétti svo og í úrskurðum fógeta-,
uppboðs- og skiptaréttar og einnig vikið að úrskurðum undir rekstri dóms-
mála. Var það mál manna, að vel hefði tekist til um ráðstefnuna. Um viðfangs-
efnið var fjallað frá öllum mögulegum hliðum og stjónarhornum, það krufið og
brotið til nokkurs mergjar og ýmsar ályktanir dregnar.
Svo sem fram kemur í erindum frummælenda voru þeir á einu máli um
það, að dómar væru almennt of langir. Gilti einu um dóma í einkamálum og
opinberum málum svo og dóma Hæstaréttar. Flestir þeir sem tóku þátt í um-
ræðunum voru sama sinnis um þetta. Skýrði Ármann Snævarr m.a. frá at-
hugunum sínum um lengd dóma, þar sem fjallað var um sambærileg sakarefni,
annars vegar frá árinu 1946 og svo 1976. Voru nýrri dómarnir allt að fjórum
sinnum lengri.
í lok umræðnanna kom fram sú skoðun, aðallega hjá Þorsteini Thorarensen,
og Sigurði Gizurarsyni, að rétt væri að íhuga vel og vandlega, hversu langt
ganga mætti í styttingu dóma og hvort nokkur þörf væri yfirleitt á því. Dómar
væru uppkveðnir til þess að binda endi á þrætur og friða þjóðfélagið. Hætt
væri við gagnrýni væru dómar mjög stuttir og lítt rökstuddir.
Eftir lok málþingsins hélt dómsmálaráðherra þátttakendum síðdegisboð.
Kom Jón Eysteinsson, bæjarfógeti, fram fyrir hönd ráðherra sem gestgjafi.
Var það hinn ágætasti fagnaður.
Ólafur St. Sigurðsson.
97