Tímarit lögfræðinga - 01.08.1978, Blaðsíða 13
sjómílna landhelgismörk nú helgast af réttarvenju, er næsta óeðlilegt,
að ekki skuli vera skýrlega fyrir um það mælt i lögum, hve langt á haf
út landhelgin almennt nær, þ.e. hvar ytri mörk íslensks ríkisvalds liggja.
Fjarlægðarmark landhelginnar hér við land er aðeins að finna í tveim-
ur sérlögum, og er landhelgin þar ákvörðuð fjórar sjómílur. Eru það
áfengislög nr. 82/1969, 6. gr., og lög um tollheimtu og tolleftirlit nr.
50/1959, 6. gr. I öðrum lögum, þar sem vikið er að landhelgi, er ekki
að finna nein fjarlægðarmörk, sbr. sóttvarnarlög nr. 84/1954, 20. gr.,
1. gr. tilsk. nr. 44/1939 um aðgang herskipa og herloftfara erlendra
ríkja, er ekki eiga í ófriði, að íslensku forráðasviði, og lög um land-
helgisgæslu Islands nr. 25/1967, 1. gr. Hefur verið talið, væntanlega
með lögjöfnun frá ákvæðum áfengis- og tollheimtulaga, að þar sem
rætt er um landhelgi í fyrrgreindum lögum, sé átt við 4 sjómílna land-
helgi.
Hér er því augljós nauðsyn ótvíræðrar réttarheimildar um það, hver
séu hin ytri mörk íslensks ríkisvalds, þ.e. hin almennu lögsögumörk.
Við slíka lagasetningu vakna tvær spurningar: (1) hve margar sjó-
mílur á landhelgin við Island að vera? og (2) við hvaða innri mörk á
að miða, þegar hún er ákvörðuð?
Áður fyrr var landhelgin 32 sjómílur skv. konungsbréfi frá 1631,
16 sjómílur, sbr. tilskipun 31. júlí 1662, og loks 4 sjómílur sbr. konungs-
úrskurð 22. febrúar 1812, og kancellíbréf 16. desember 1845.
Ekki sýnist ástæða til þess að halda lengur í hina gömlu fjögurra
mílna reglu, og er hér gerð tillaga um, að hin almenna lögsöguland-
helgi við Island verði ákvörðuð 12 sjómílur. ör þróun á sviði hins al-
þjóðlega hafréttar hin síðari ár hefur leitt til þess, að nú er ríkjum að
þjóðarétti talið heimilt að taka sér 12 mílna landhelgi. Kemur það m.a.
glöggt fram í síðasta uppkasti að hafréttarsáttmála, sem til umræðu
er á hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Segir í 3. gr. annars hluta
sáttmálauppkastsins, að ríki eigi rétt á að ákvarða landhelgina allt að
12 sjómílum1/ Hafa mörg ríki þegar lögfest 12 sjómílna mörkin án
mótmæla eða athugasemda.1 2)
Spyrja má í þessu sambandi, hvort ástæða sé til þess að hverfa frá
hinum gömlu 4 sjómílna mörkum. Greinarhöfundur telur, að ótvírætt
sé æskilegt, að lögsaga íslenskra stjórnvalda nái til 12 sjómílna marks-
ins undan sti'öndum landsins. Hefur það gildi, m.a. að því er varðar
1) Third U.N. Conference on the Law of the Sea. Official Records, Volume VIII.
New York 1978, bls. 6
2) National Legislation and Treaties Relating to the Law of the Sea. U.N. Legislative
Series, New York 1974, bls. 3—40.
59