Tímarit lögfræðinga


Tímarit lögfræðinga - 01.06.1999, Page 47

Tímarit lögfræðinga - 01.06.1999, Page 47
2. EFTA-DÓMSMÁLIÐ E-9/97: ERLA MARÍA SVEINBJÖRNSDÓTTIR GEGN ÍSLENSKA RÍKINU 2.1 Málsatvik Atvik málsins voru með þeim hætti að stefnandi, Erla María Sveinbjöms- dóttir, hafði um árabil starfað á vélaverkstæði þegar henni var sagt upp störfum með sex mánaða uppsagnarfresti frá 1. janúar 1995. Þann 22. mars 1995 var vélaverkstæðið tekið til gjaldþrotaskipta. Stefnandi lýsti kröfu í þrotabúið, einkum vegna ógreiddra launa í uppsagnarfresti, og krafðist jafnframt greiðslu úr ábyrgðasjóði launa. Kröfunni í þrotabúið var lýst sem forgangskröfu. Skipta- stjóri hafnaði kröfu stefnanda með vísan til þess að stefnandi væri systir eig- anda 40% hlutafjár í vélaverkstæðinu. Ekki væru skilyrði fyrir því að viður- kenna kröfuna sem forgangskröfu í búið enda væri stefnandi „nákominn" eig- anda hins gjaldþrota fyrirtækis í skilningi 3. mgr. 112. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Samkvæmt síðamefnda ákvæðinu tekur hug- takið „nákomnir“ meðal annars til manns og félags, sem maður honum nákom- inn á verulegan hlut í, en „nákomnir" eru þeir sem eru „skyldir í beinan legg eða fyrsta lið til hliðar“. Kröfu stefnanda á hendur ábyrgðasjóði launa var hafnað á þeirri forsendu að krafan hefði ekki verið viðurkennd sem forgangskrafa í þrotabúið en það er eitt af meginskilyrðum fyrir greiðsluskyldu sjóðsins, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 53/1993 um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota. Einnig var vísað til 6. gr. sömu laga við synjun á kröfu stefnanda en sú grein mælir fyrir um það að tilteknir launþegar geti ekki krafið sjóðinn um greiðslu krafna, meðal annars þeir sem átt hafa 5% hlutafjár eða meira í gjaldþrota hlutafélagi og maki þess sem svo er ástatt um svo og skyldmenni hans í beinan legg og maki skyldmennis í beinan legg. Stefnandi taldi greiðslusynjun ábyrgðasjóðs launa stangast á við ákvæði til- skipunar ráðsins 80/987/EBE frá 20. október 1980 um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vemd til handa launþegum verði vinnuveitandi gjaldþrota, með síðari breytingum (hér eftir tilskipun nr. 80/987). Af því tilefni höfðaði hann mál á hendur íslenska ríkinu og krafðist skaðabóta vegna þess tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir. Bótakrafan byggðist bæði á almennu skaðabóta- reglunni svo og „á þeirri meginreglu, sem sé að finna í dómaframkvæmd Evr- ópudómstólsins, að ríki sem ekki hafi réttilega lagað löggjöf sína að hinni af- leiddu löggjöf beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem einstaklingar verði fyrir af þeim sökum“.2 Máli sínu til stuðnings vísaði stefnandi til dóms Evrópudóm- stólsins í Francovich-máYmu3 og síðari dómaframkvæmdar. 2.2 Álitaefnin Fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur reyndi einkum á tvö álitaefni. Annars vegar á réttmæti þeirrar ákvörðunar að hafna kröfu stefnanda um bætur úr ábyrgðasjóði 2 Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. mars 1999 í málinu nr. E-1300/1997. 3 Sameinuð mál C-6/90 og 9/90 Francovicli o.fl. gegn ítalska ríkinu [1991] 1-5357. 113

x

Tímarit lögfræðinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit lögfræðinga
https://timarit.is/publication/586

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.