Árbók Háskóla Íslands - 01.01.1961, Síða 75
73
En þótt vísindi og þekking séu mikilvæg, þá eru þau út af
fyrir sig ekki þess megnug að skapa hamingjusamt þjóðfélag.
Ef ekki er fyrir hendi sá siðgæðisþroski og góðvilji, sem vera
þarf, til þess að þekkingunni verði beitt til góðs, þá geta fram-
farir í vísindum haft jafnvel neikvæð áhrif á heill og velferð ein-
staklinga og þjóða.
Þessarra mikilvægu sanninda finnst mér einmitt sérstök
ástæða til að vera minnugur við líkbörur dr. Þorkels Jóhannes-
sonar. Hann var mikilvirkur vísinda- og fræðimaður og hefir á
þeim vettvangi reist sér óbrotgjarnan minnisvarða. Hins ágæta
starfs hans í þágu okkar kennara og nemenda við háskólann
mun einnig minnzt um ókomin ár. En það sem þó öllu fremur
gerir okkur, sem af honum höfðu persónuleg kynni, minningu
hans kæra, var góðvilji hans og skilningur á mannlegum vanda-
málum. Sú ábyrgðarmikla staða, sem við háskólakennarar höfð-
um kjörið hann til undanfarin 6 ár, er enginn hægindastóll. Það
er baráttustarf, því að margt er það, sem stofnun vora vanhagar
um, og þó að háskólinn hafi að jafnaði átt velvild að mæta hjá
stjórnarvöldum landsins, þá leyfir fjárhagsleg geta okkar fátæka
þjóðfélags ekki alltaf þau framlög til háskólans, sem æskileg
væru. Á hinn bóginn hættir okkur, hinum óbreyttu kennurum,
sjálfsagt oft til að gera meiri kröfur til þeirra, er við höfum
falið forystu um málefni okkar, en sanngjarnt er. Ég átti þess
oft kost að ræða við Þorkel heitinn um málefni skólans, er efst
voru á baugi hverju sinni. Vissi ég, að oft hafði hann þungar
áhyggjur af starfi sínu, en aldrei heyrði ég hann hallmæla nein-
um þeirra, er hann átti erindi til að sækja, þótt eigi væri ávallt
auðsótt að fá þeim framgengt.
Að eðlisfari var Þorkell Jóhannesson hlédrægur maður. Hann
ruddi sér ekki braut til mannvirðingar með því að olnboga sig
áfram og ýta keppinautum frá. En framkoma hans og staðgóð
þekking vöktu til hans traust, þannig að eftir honum var gengið
til þess að takast á hendur vandasöm trúnaðarstörf. Það eru
einmitt menn með eiginleikum hans, sem þjóð vor sízt má missa
frá því uppbyggingarstarfi, er nauðsyn ber til að unnið sé. Menn,
sem hafa til að bera trausta þekkingu á þeirri starfsgrein, er
10