Árbók Háskóla Íslands - 01.01.1961, Page 80
78
IX. LÁTNIR HÁSKÓLAKENNARAR
Brynjólfur Stefánsson.
Minningarorð.
Hann var fæddur að Selalæk á Rangárvöllum 1. september
1896, sonur Stefáns Brynjólfssonar bónda þar og konu hans Guð-
ríðar Guðmundsdóttur, bónda á Stórólfshvoli á Rangárvöllum,
Einarssonar.
Brynjólfur kom ungur í Menntaskólann í Reykjavík og lauk
þaðan stúdentsprófi vorið 1916 með mjög hárri einkunn. Sama
ár fór hann utan og lagði stund á verkfræðinám við Den poly-
tekniske Læreanstalt í Kaupmannahöfn. Vorið 1917 lauk hann
prófi í forspjallsvísindum við háskólann í Kaupmannahöfn og
tveim árum síðar fyrra hluta prófi í byggingarverkfræði við
tækniháskólann, en hvarf frá verkfræðinámi 1920 og hóf ári síðar
nám í tryggingafræði við háskólann í Kaupmannahöfn. Lauk
hann þar meistaraprófi í tryggingastærðfræði árið 1927 og var
fyrsti Islendingur, sem tók próf í þeirri sérgrein.
Að loknu skólanámi varð Brynjólfur skrifstofustjóri hjá Sjó-
vátryggingafélagi Islands og árið 1933 framkvæmdastjóri félags-
ins. Gegndi hann því starfi um 25 ára skeið, en lét af störfum
vegna vanheilsu 1. desember 1957. Auk þessa aðalstarfs gegndi
Brynjólfur ýmsum öðrum trúnaðarstörfum. Árin 1934—35 átti
hann sæti í nefnd til að semja frumvarp til laga um alþýðu-
tryggingar. Hann var forstjóri Tryggingarstofnunar ríkisins
1936—37, formaður Islenzkra endurtrygginga frá stofnun þeirra
1939 til ársins 1957, en í stjórn þess fyrirtækis til dauðadags.
Ennfremur átti hann sæti í Tryggingarráði frá 1938 til 1953 og
var lengst af þeim tíma formaður ráðsins.
Tryggingamál voru skammt á veg komin hér á landi þegar
Brynjólfur kom heim að loknu prófi í tryggingastærðfræði árið
1927. Hann átti drjúgan hlut í skipun þessara mála á næstu ára-
tugum og mun lengi gæta áhrifa af störfum hans í íslenzkum