Árbók Háskóla Íslands - 01.02.1965, Page 113
111
að prófessor Alexander var um skeið formaður íslenzks-dansks
orðabókarsjóðs (Blöndalssjóðs). Sem formaður sjóðstjórnar
hratt hann í framkvæmd ljósmyndaprentun Blöndalsorðabókar,
sem út kom 1951—52. Gekk það fyrirtæki svo vel — þótt ekki
væri góðu um það spáð — að nægilegt fé safnaðist til þess að
gefa út viðbótarbindi við Blöndalsbók (1963).
V.
Margt fleira en enn hefir verið talið hefir prófessor Alex-
ander Jóhannesson látið til sín taka. Hann var t. d. einn af
frumherjum íslenzkra flugmála og var framkvæmdastjóri Flug-
félags Islands (hins eldra) 1928—31 og ritaði bók um flugmál
(/ lofti. Rvík 1933). Hann átti sæti í Útvarpsráði 1930—34,
var formaður Germaníu um tíma og í stjórn Hins íslenzka bók-
menntafélags og Almenna bókafélagsins. Honum var falið hið
vandasama starf að vera formaður þjóðhátíðarnefndar við lýð-
veldisstofnun 1944, og svo mætti lengi telja.
Fyrir mikilsverð störf sín og mannkosti var prófessor Alex-
ander sæmdur mörgum heiðursmerkjum. Hann átti sæti í Vís-
indafélagi Islendinga, var heiðursfélagi í hollenzka vísinda-
félaginu í Utrecht og Fellow of Royal Society of Arts í Bret-
iandi. Og síðast, en ekki sízt, sæmdi Háskóli Islands hann heið-
ursdoktorsnafnbót í lögum (dr. jur. h. c.) á hálfrar aldar af-
mæli sínu fyrir ómetanleg störf í þágu stofnunarinnar.
VI.
Alexander Jóhannesson var kennari minn, er ég stundaði
nám hér við Heimspekideildina, eini kennarinn í aðalgrein
minni. Hann var lifandi kennari og skemmtilegur, vakti áhuga.
Engin deyfð ríkti í kennslustundum hans. Löngu síðar urðum
við nánir samverkamenn við sömu stofnun og störfuðum sam-
an í ýmsum nefndum. Á vináttu okkar bar aldrei skugga, og
betri og hreinskiptnari samstarfsmann hefði ég ekki getað kos-
ið. Eftir að hann lét af embætti, áttum við allmikil samskipti
og ræddum saman ýmis vandamál. Flekklausari mann hefi ég
aldrei þekkt. Reisn hans og þor hófu hann upp úr meðal-