Árbók Háskóla Íslands - 01.03.1966, Blaðsíða 37
35
Það er fornt lögmál á landi hér, að dómendur skulu dóm
hvarvetna til betra efnis færa, ef þeir vita jafnvíst hvort-
tveggja. Þetta boðorð á erindi til allra akademískt menntaðra
manna, þeir eiga öðrum mönnum fremur að hafa það, er sann-
ara reynist í hverju máli. Sá einn getur fylgt eftir þessum
fornu viðhorfum, sem hefir trausta skapgerð, sálarstyrk og
siðferðisfestu. Það er von mín, að nám yðar hér hafi gert yður
að víðsýnum mönnum og velviljuðum, sem hafi öðlazt innsýn
í og skilning á ýmsum hinum miklu mennsku vandamálum,
sem hver menntaður maður verður að glíma við og taka af-
stöðu til. Þekking er lítils virði, ef hún eykur oss ekki skyggni
á vandamál og skilning á þeim, og víst eru orð skáldsins rétt:
„Það, sem við skiljum ekki, getum við aldrei eignazt." Æðsta
takmark háskólakennslu er að kenna mönum rétt fræðileg
vinnubrögð til þess að skapa undirstöðu að hlutlægu mati, er
auðkennir öll sönn vísindi, og þroska og þjálfa hugarstarfið
í þessu skyni — hugsunina. sem ein er þess umkomin að skapa
mönnum virðingarsess í dýraheiminum að tali Pascals. Pascal
bætir raunar við, að viðleitnin til að hugsa rétt sé æðsta sið-
ferðismark mannkyns.
Það er von mín, að þér, kandídatar, hafið átt ánægjulega
námsvist hér í Háskólanum, er hafi orðið yður til sannrar
menntunar og mannbóta. Ég vona, að þér eigið héðan bjartar
og fagrar endurminningar, sem gott verði að orna sér við og
aldrei fyrnist, þótt fenni í spor. Vinnum að því á báða vegu,
að tengslin milli kandídata og Háskólans rofni ekki, heldur
varðveitist. Ég vona, að þér munið ávallt reynast traustir mál-
svarar háskóla yðar, ekki sizt í því stórfellda uppbyggingar-
starfi, sem nú er framundan. I því starfi öllu — í þeirri vís-
indasókn — þurfa kandídatar Háskólans og allir aðrir háskóla-
menntaðir menn á landi hér að leggjast á eitt og stuðla að því
að stórauka gengi Háskólans. Háskólinn er nú aðeins vísir að
þvi, sem koma skal, og ég fulltreysti því, að þér, kandídatar
vorsins 1966, munið leggja gilt lóð á vogarskálina, til þess að
hinn mikli draumur um stóreflingu Háskólans rætist brátt.