Samtíðin - 01.07.1937, Qupperneq 12
8
SAMTÍÐIN
P
Gunnar Árnason frá Skútustöðum:
Strandafjöll
í Húnaþingi fjölmargt fagurt er.
Þar freyða ár, og silungsvötnin glóa.
í fríðum dölum eitt af öðru ber.
Við Ása breiða keppir Ströndin frjóa.
Og hver er sá, er ekki þekkir Þing?
Eins þykja mikil prýði Vatnsneshöllin.
En eitt er fegurst allan ársins hring
af öllum talið vera: Strandafjöllin.
Þau gnæfa yst við sjónhring, brött og blá,
sem borgarmúr í fögru draumalandi.
En upp úr rísa tindar til og frá,
sem turnar þar á ótal kirkjum standi.
Og út til þeirra virðist veglaust haf,
sem virðist aðeins siglt af djörfum huga.
Þeim stafar einnig hclgi og hátign af,
sem hnýsni allri sýnist frá að buga.
Þau blasa þannig við frá sveit og sjó.
Þau sjá og elska börnin dala og stranda,
og engir vita, hvort að hvít af snjó
þau kallast fegri en þegar auð þau standa.
Því földuð mjöll þau eru helg og hrein
og hugsjón hverja víkka, stækka, skýra.
En sumarklædd þau mana mey og svein
til munardraums í löndum ævintýra.
Þau segja um áttir bæði á legi og lá;
þau lciða fremst og hverfa hinst tilbaka.
Til þeirra er skygnst, ef vita veðurspá
menn vilja eða mið á sjónum taka.
Þau upp úr þoku teygja tinda oft
og trúnni benda upp í sigurhæðir.
Og þá af sólarmegni ljómar loft,
þau leifturkyrtli fögur tíbrá klæðir.
Svo gnæfa þau við sjónhring, brött og blá,
sem borgin helga í sýnum spámannanna.
Þau vekja göfga, helga og þunga þrá
hjá þeim, sem vilja leynda heima kanna.
Þau gleðja hug; þeim streymir friður frá.
Menn festa á þeim augun títt í vanda.
Svo traust þau eru, ef landið sykki í sjá,
þau sýnast þó um eilífð mundu standa.