Morgunblaðið - 09.01.2009, Síða 37
Rösklega tvítug stofnaði Ólöf sitt
eigið heimili með fyrri manni sínum
Guðjóni í smekklegri risíbúð á Skóla-
vörðustíg 11. Þau hjónin slitu sam-
vistum, en Guðrún dóttir þeirra ólst
svo upp hjá móður sinni og síðari
manni hennar, öðlingnum Páli
Björnssyni frá Ánanaustum, með
yngri systrum sínum Önnu og Ragn-
hildi, hinum mætustu konum. Guð-
rún lést fyrir fáum árum eftir mikil
veikindi.
Á sjötta áratugnum tók Ólöf há-
skólapróf í ensku og dönsku og
kenndi síðan þær greinar í Mennta-
skólanum í Reykjavík mestan hluta
starfsævinnar. Þar byggði hún á
þeirri vitund um íslenska menningu,
sem fylgdi henni úr föðurhúsum og
næmri tilfinningu fyrir íslensku
máli. Svo hafði Ólöf lifandi áhuga á
þjóðmálum. Ung að árum gekk hún
til fylgis við stefnu Sjálfstæðis-
flokksins, „þjóðlega og víðsýna fram-
farastefnu með hagsmuni allra
stétta fyrir augum og jafnrétti allra
þjóðfélagsþegna.“ Þessi viðhorf
hennar ásamt festu, afburðaminni,
skýrri hugsun og skilningi á öðru
fólki gerðu það eftirsóknarvert fyrir
þá, sem að stjórnmálum störfuðu, að
leita hjá henni ráða og fróðleiks.
Naut ég þess í ríkum mæli. Einnig
þess áhuga og þeirrar þekkingar,
sem hún hafði á Reykjavík, íbúum
bæjarins, umhverfinu, húsunum og
sögunni.
Áratugir liðu og það var eins og
aldursmunurinn hefði horfið. Með
árunum varð vinátta okkar æ nánari
og leitaði ég oftar álits hennar eða
gagnrýni. Samtöl okkar Ólafar vildu
stundum dragast á langinn og kom
fyrir að dætur mínar skutu til mín
kaffibolla, ef Ólöf var í símanum. Að
sama skapi sýndu þau Ólöf, Páll og
dæturnar mér einstaka þolinmæði í
alltíðum heimsóknum mínum í
Sporðagrunn. Á þessum árum var
þung undiralda í Sjálfstæðisflokkn-
um og ómetanlegur styrkur að eiga
vináttu eins og þróaðist með okkur
frænkum. Mér er ljóst, að í þessu
vináttusambandi var ég þiggjandi.
Ef ég bar upp áhyggjur var ró og
traust að finna í návist Ólafar. Samt
var hún bæði viðkvæm og skapmikil,
en réttsýn og góðviljuð. Eftir því
sem ég kemst næst held ég að Ólöf
hafi mest allra frændkvennanna
líkst ömmu okkar Ragnhildi í Engey.
Hún var látin fyrir minn dag, en í
fari Ólafar fannst mér ég kannast við
margt úr lýsingu móður minnar á
móður sinni. Ólöf var tryggðatröll
eins og Guðrún systir hennar. Þessi
orð eru skrifuð í þökk fyrir vináttu
við okkur hjónin. Við biðjum guð að
blessa minningu Ólafar og framtíð
afkomenda hennar.
Ragnhildur Helgadóttir.
Móðursystir mín Ólöf Benedikts-
dóttir er til moldar borin í dag. Síð-
ust systkinanna á Skólavörðustíg 11.
Það eru mikil kapítulaskipti og
minnir mig óþægilega á, að aldurinn
er að færast yfir mig. Nú get ég ekki
lengur skotist til frænku minnar eða
hringt til að spyrja þeirra spurninga,
sem berast frá kynslóð til kynslóðar.
Ólöf var ættrækin, mannfróð og póli-
tísk. Foreldrahús voru í brennidepli í
baráttunni fyrir sjálfstæði landsins
og réttindum kvenna á uppvaxtarár-
um Ólafar. Þar gengu ekki aðrir
harðar fram en foreldrar hennar
Benedikt Sveinsson og Guðrún Pét-
ursdóttir. Arfurinn frá Skólavörðu-
stíg 11 fylgdi Ólöfu alla ævi. Hún
hafði sterkar skoðanir á landsmál-
um, mönnum og málefnum og var
brunnur af fróðleik um þau efni, sem
gaman var að ausa af, en sem ég
gerði því miður of sjaldan. Tími stór-
fjölskyldunnar, sem ég ólst upp í, er
liðinn, – sparisjóður og verslunarhús
risin á Skólavörðustíg 11, Laugavegi
18 og 66, en Háteigur á sínum stað.
Guði sé lof!
Sumar af mínum elstu minningum
tengjast Ólöfu og dóttur hennar
Guðrúnu, meðan þær bjuggu á
Skólavörðustíg 11, og þær eru allar
ljúfar. Oftast vorum við Benedikt
frændi minn Sveinsson saman á ferð,
og fyrir kom að amma sendi okkur í
Bernhöftsbakarí eftir góðgæti. Síð-
an giftist Ólöf Páli, sínum góða
manni, og fluttist á Öskjuhlíðina, þar
sem hún reyndi hið ómögulega að
kenna mér dönsku og ensku. Anna
og Ragnhildur sáu dagsins ljós og
þau fluttu inn á Sporðagrunn. Svona
getum við flett lífsins bók, sem að-
eins er til eitt eintak af, og eru þó
jafnmörg og einstaklingarnir, sem
jörðina byggja.
Ég mun sakna Ólafar. Hún var
alltaf nálæg, þótt við töluðum ekki
saman svo vikum skipti, og lét til sín
heyra, þegar þess þurfti við. Af
henni hafði ég traust í mínum störf-
um. Hún var mikilhæf kona og hrein-
skiptin, vinmörg og vinföst, höfðingi
og skemmtileg heim að sækja, en átti
þó viðkvæma lund. Guð blessi minn-
ingu hennar.
Halldór Blöndal.
Við lát Ólafar Benediktsdóttur
kærrar föðursystur minnar koma
upp minningar frá liðinni tíð.
Fyrstu minningarnar eru frá
Skólavörðustíg 11a þar sem heimili
ömmu og afa stóð. Þar hittist öll fjöl-
skyldan á tyllidögum og við ýmis
önnur tækifæri. Þar mætti fjölskyld-
an til að taka upp kartöflur og til að
tína rifsber í stóra garðinum á bak
við húsið þar sem nú eru bílastæði.
Þegar vel viðraði fengu krakkarnir
að njóta veitinga í garðinum í hvann-
grænni grasi gróinni skeifu og í
minningunni er mikill ævintýraljómi
yfir þeim stundum. Yngstar í systk-
inahópnum á Skólavörðustígnum
voru tvíburarnir Ólöf og Guðrún,
sem þóttu ákaflega líkar. Myndin af
þeim kemur ávallt upp í hugann þeg-
ar hugsað er til gömlu og góðu dag-
anna á Skólavörðustígnum.
Á fyrsta ári mínu í menntaskóla
kenndi Ólöf mér ensku. Hún þótti
strangur kennari. Hún gætti þess
vel að taka ekki frænku sína fram yf-
ir aðra nemendur og fannst mér
stöku sinnum hún gæta þess fullvel.
Einhverju sinni bárust þau tíðindi
um bekkinn í lok frímínútna að frí
yrði í ensku sem átti að vera í næsta
tíma. Í sama mund birtist Ólöf í dyr-
unum. Skýringin á þessum misskiln-
ingi var sú að nokkrir nemendur
höfðu mætt Guðrúnu tvíburasystur
hennar sem var kápuklædd á leið frá
skólanum.
Þegar ég var sest á skólabekk í há-
skóla á miðjum aldri og fannst álagið
í prófunum vera orðið of mikið þá
stappaði Ólöf í mig stálinu og fyrir
það er ég þakklát.
Þær systur Ólöf og Guðrún héldu
upp á afmæli sitt fyrir alla stórfjöl-
skylduna ár hvert meðan heilsa
þeirra leyfði. Má segja að hjá þeim
hafi verið árlegt ættarmót og var þá
oft þröng á þingi, en þó alltaf nóg
pláss fyrir alla. Þessi skemmtilegu
boð urðu til þess að viðhalda kynnum
allra kynslóða innan þessarar stóru
fjölskyldu, sem er ómetanlegt.
Þótt heilsa Ólafar væri farin að
gefa sig á síðustu árum lét hún það
ekki aftra sér frá því að mæta þegar
fjölskyldan hittist. Hún hafði sterka
nærveru og alltaf var gaman að hitta
hana.
Tvö síðustu árin bjó Ólöf á hjúkr-
unarheimilinu Skógarbæ. Þar hitti
ég hana stundum og kom ávallt glað-
ari af hennar fundi. Þó var dapurlegt
að sjá hve veik hún var orðin og af
henni dregið um miðjan desember sl.
þegar ég leit inn til hennar. Ólöf varð
fyrir þungum áföllum á síðasta miss-
eri. Elsta dóttir hennar, Guðrún
Guðjónsdóttir, lést eftir erfið veik-
indi og heilsu Ólafar hrakaði stöðugt.
Því hefur hvíldin sjálfsagt verið
henni kærkomin.
Ólöf lifði lengst barna ömmu og
afa á Skólavörðustíg. Með henni er
horfin kynslóð sem mikill söknuður
er að.
Blessuð veri minning Ólafar Bene-
diktsdóttur.
Guðrún Sveinsdóttir.
Ólöf Benediktsdóttir, föðursystir
mín, lifði lengst systkina sinna. Í bók
um föður minn, en hann var 11 árum
eldri en Ólöf, lýsir hún æsku sinni á
Skólavörðustíg 11A meðal annars á
þennan hátt: „Hann [Bjarni] átti líka
góða bekkjarfélaga. Ég man best
eftir Vestmannaeyingunum Eyþóri
Gunnarssyni og Ólafi Halldórssyni,
Júlíusi Sigurjónssyni, Ragnari
frænda okkar Ólafssyni og Finnboga
Rúti Valdimarssyni, sem þá var allt-
af kallaður Rútur. Komu þeir oft og
drukku miðdagskaffi með heimilis-
fólkinu. Þótti okkur yngstu systrun-
um [Guðrún var tvíburasystir Ólaf-
ar] gaman að spjalla við þessa
„lærðu menn“ og hlusta á tal þeirra.
Þeir kenndu okkur fáein orð í latínu
sem við héldum mjög á loft og
skemmtum með í tíma og ótíma. Ef
fara átti nánar út í „kunnáttu“ okkar
sögðum við að bræður okkar væru
því miður ekki búnir að læra meira.
Vorum við þá 4-5 ára. Við vorum oft
óþekkar að fara í rúmið á þessum ár-
um og kenndum um myrkfælni. Var
þá gott að eiga góðan bróður
[Bjarna] sem nennti að sitja hjá okk-
ur og segja okkur sögu.“ Þegar ég
les þetta, sé ég Ólöfu glettna fyrir
mér.
Fyrsta minning mín af Ólöfu og
Páli Björnssyni, móðurbróður mín-
um, er einmitt frá því að ég var á
sama aldri og hún var, þegar faðir
minn sagði þeim systrum sögur fyrir
svefninn – sömu sögur og ég man
eftir frá barnæsku minni. Það var
alla tíð mjög náið með foreldrum
mínum og þeim Ólöfu og Páli og tóku
þau oft að sér að gæta okkar systk-
inanna. Ólöf sagði mér til dæmis, að
til þeirra hefðum við Guðrún, systir
mín, verið flutt vorið 1949, þegar
hætta var talin steðja að heimili okk-
ar í tengslum við aðild Íslands að
Atlantshafsbandalaginu og þann
hita, sem þá hljóp í stjórnmálin. Eft-
ir skyndilegt fráfall foreldra okkar
reyndust þau Ólöf og Páll okkur ein-
staklega vel og verður sú umhyggja
aldrei fullþökkuð. Þegar þess var
minnst í Þjóðmenningarhúsinu 30.
apríl 2008, að 100 ár voru liðin frá
fæðingu föður míns, var Ólöf inni-
lega hyllt með lófataki, þegar hún
kom í salinn. Ólöf hafði ákveðnar
skoðanir á mönnum og málefnum og
lá ekki á þeim, þegar svo bar undir.
Hún lagði Sjálfstæðisflokknum ötult
lið og ég á henni mikið að þakka
vegna stuðnings hennar, þegar ég
ákvað að fara í prófkjör haustið 1990.
Þá og ávallt síðan, þegar ég barðist í
prófkjöri, var Ólöf meðal þeirra, sem
lögðu hvað mesta rækt við barátt-
una, og var hún óþreytandi við að
hafa samband við kjósendur. Hún lét
ekki heldur sitt eftir liggja í kosn-
ingabaráttunni sjálfri og eiga margir
góðar minningar um hvatningu
hennar og áhuga á þeim vettvangi og
í starfi innan Sjálfstæðisflokksins al-
mennt.
Við Rut og börn okkar kveðjum
Ólöfu með virðingu og þökk fyrir
margar góðar stundir á liðnum ár-
um. Við færum dætrum hennar,
Önnu og Ragnhildi, þeirra fjölskyld-
um og afkomendum öllum innilegar
samúðarkveðjur. Blessuð sé minning
Ólafar Benediktsdóttur.
Björn Bjarnason.
Ólöf móðursystir mín var kona
með reisn. Sjálf leit hún á sig sem
fulltrúa gamalla og góðra gilda og
ættingjar hennar og nemendur voru
sama sinnis. Hún og Guðrún móðir
mín voru eineggja tvíburar og góðar
vinkonur. Nánast á hverjum morgni
hringdi önnur í hina. Oft byrjaði
samtalið svona mömmu megin:
„Segirðu nokkuð?“ Stutt þögn.
„Ekki ég heldur.“ Eftir þetta töluðu
þær saman í klukkutíma. Síðar urðu
þessi símtöl fórnarlömb skrefataln-
ingarinnar hjá símanum. Guðrún og
Ólöf voru yngstar systkina sinna en
duglegastar við að tengja ættingjana
saman. Afmælisdagur þeirra, 10.
október, var eins konar ættarmót á
ári hverju. Það var ekki síst vegna
þeirra sem ættingjarnir þekkjast al-
mennt miklu betur en títt er um
skyldfólk nú á tímum. Ólöf fylgdist
vel með skyldmennum sínum yngri
og eldri og vildi veg þeirra sem mest-
an. Þó að þær systur teldu ekki eftir
sér að segja ættingjum sínum til og
ala þá upp vildu þær aldrei heyra
orði á þá hallað af öðrum. Þar gilti
vísuorðið: „Eltu varlega mínar geit-
ur.“ Þær tvíburasystur voru líkar
um margt, en Ólöf var talin
ákveðnari og framagjarnari. Hún
tók meiri þátt í félagsmálum og var
kennari. Áratugum saman kenndi
Ólöf við Menntaskólann í Reykjavík.
Henni þótti vænt um skólann og vildi
að allir sýndu honum virðingu. Hún
hélt lengi þeim sið að þéra nemendur
og mörgum þótti hún strangur
kennari. Á endanum gafst hún upp
við þéringarnar en ég held að hún
hafi almennt haldið góðum aga til
síðustu kennslustundar. Ólöf var tví-
gift. Seinni maður hennar var Páll
Björnsson og þau voru gift í um 40
ár. Páll var afbragðsmaður af
þekktri sjómannaætt í Reykjavík og
var lengst af stýrimaður og skip-
stjóri. Með þeim hjónum var jafn-
ræði og milli þeirra ríkti gagnkvæm
virðing. Bæði voru þau hjálpleg
mörgu fólki sem átti erfitt af ein-
hverjum ástæðum. Páll lést árið
1986, langt um aldur fram. Þau áttu
tvær dætur saman en Páll gekk
einnig í föðurstað dóttur Ólafar af
fyrra hjónabandi. Elstu barnabörn-
in nutu líka uppeldis afa síns og
ömmu og voru langdvölum á heimili
þeirra. Páll var afar barngóður en
Ólöf var strangari. Hún taldi það
bestu leið til þess að koma börnum
til manns. Hún gat þó vel brugðið
fyrir sig kímni og oft kátt á hjalla
þegar hún var með vinum og vanda-
mönnum. Milli Ólafar og Páls og for-
eldra minna var mikil og traust vin-
átta og fjölskyldubönd náin. Ólöf
hafði sterkar skoðanir á mönnum og
málefnum. Þau hjón studdu alltaf
Sjálfstæðisflokkinn og foringja
hans. Sjálfgefið var að þau styddu
Bjarna bróður Ólafar, en þau voru
líka miklir stuðningsmenn Geirs
Hallgrímssonar. Ólöf hélt ágætri
heilsu vel framyfir áttrætt. Samt
óttaðist hún það að verða of gömul.
Hún sagði einu sinni: „Að hugsa sér
að maður sé orðinn áttræður.“ Eftir
smá hik sagði hún svo: „Það er þó
skárra en hitt.“ Síðustu árin voru
erfið og henni var stirt um mál. Hún
skildi sátt við, því að hennar tími var
kominn. Frænkum mínum og af-
komendum þeirra sendi ég samúð-
arkveðjur. Merkileg kona og góð
frænka hefur lokið sínu lífshlaupi.
Benedikt Jóhannesson.
Með djúpum söknuði kveð ég vin-
konu mína, Ólöfu Benediktsdóttur,
eftir áralanga samfylgd. Þær tví-
burasystur Ólöf og Guðrún urðu
bekkjarsystur mínar í barnaskóla og
efri bekkjum menntaskóla, þar sem
þær nutu sín vel, vegna gáfna og
námshæfileika, og gegndu forystu-
hlutverki í öllum meiriháttar málum
innan bekkjarins. Forystuhlutverk-
ið var þeim raunar í blóð borið. For-
eldrar þeirra voru hin mikilhæfu
hjón, Benedikt Sveinsson, forseti
neðri deildar Alþingis, og frú Guð-
rún Pétursdóttir frá Engey, kven-
réttindakona, sem lét sér ekkert
óviðkomandi sem varðaði framfara-
mál kvenna og lagði fram drjúgan
skerf á þeim vettvangi, jafnframt því
að stýra umsvifamiklu heimili.
Ég var nýflutt til höfuðstaðarins
þegar ég kynntist systrunum og var
að fóta mig á nýjum slóðum. Reykja-
vík austan Lækjar var mér að mestu
ókunn. Skólavörðustígurinn, þar
sem systurnar bjuggu, var því nýtt
landnám fyrir mig. Timburhúsið nr.
11A bjó yfir þokka látleysis og hlýju
og húsráðendur voru einstaklega
gestrisið og elskulegt fólk. Það sóp-
aði að frú Guðrúnu þar sem hún
gekk niður Skólavörðustíginn á ís-
lenska búningnum. Stundum var
vitnað í Íslendingasögurnar og engu
líkara en kappar eins og Gunnar og
Skarphéðinn stykkju fullskapaðir
fram á sviðið. Ég vissi ekki fyrr en
síðar að Benedikt Sveinsson hafði
gefið út vel flestar Íslendingasög-
urnar.
Ég fór víða um með systrunum og
leyndardómar bæjarins lukust
smám saman upp fyrir mér. Lands-
bókasafnið bjó yfir dulmögnuðum
töfrum, þegar maður hvarf á vit æv-
intýranna. Baskervillehundurinn, sú
fræga bók, skapaði ógnþrungna
spennu. Í hljómskálagarðinum átt-
um við fótum fjör að launa, á hlaup-
um undan grimmum svönum.
Bekkjarferð austur fyrir fjall í blíð-
skaparveðri, þar sem óvanir fengu
að stíga á hestbak, var ógleyman-
legur stórviðburður sem oft var til
umræðu og aðhláturs. Það var svo
margt sem vakti hlátur á þessum ár-
um sakleysisins, þegar við vorum að
kynnast veröldinni.
Að vori á stúdentaárgangurinn
frá 1939 sjötíu ára afmæli. Fáir eru
enn á lífi, sumir þeirra við bágborna
heilsu.
Ég hugsa um Ólöfu, ljúfa og elsku-
lega, eins og hún ævinlega var í öll-
um samskiptum við okkur skólasyst-
ur sínar og vinkonur. Hún var
kurteis og hafði fágaða og fallega
framkomu, skapstór, en fór vel með
það. Hún var skemmtileg, hafði ríku-
lega frásagnargáfu og var víðlesin.
Málkennd hennar var óbrigðul. Hún
var ærleg og kom til dyranna eins og
hún var klædd, laus við alla tilgerð.
Ólöf hafði ákveðnar skoðanir á
mönnum og málefnum, starfaði á
sviði stjórnmála og félagsmála auk
kennslu og annaðist heimili sitt af
kostgæfni. Móttökur voru ágætar á
heimili þeirra Páls og alltaf síðar
sem við vinkonur hennar þökkum af
alhug. Þungum áföllum, sem hún
varð fyrir, tók hún með jafnaðargeði
og reisn sem hún hélt til æviloka.
Hún var stórbrotin kona.
Þegar ég gekk út um dyrnar á
herbergi hennar í hjúkrunarheim-
ilinu Skógarbæ brosti hún til mín og
veifaði. Við vissum báðar að þetta
gæti verið kveðjustund.
Hildigunnur Hjálmarsdóttir.
Fyrstu minningar mínar eru frá
því að ég þriggja ára hnáta skokka
um á Skólavörðustíg 11. Foreldrar
mínir leigja litla steinbæinn af þeim
sómahjónunum Guðrúnu Péturs-
dóttur frá Engey og Benedikt
Sveinssyni. Það er 1939 sem þau
mamma og pabbi flytja í litla bæinn
hennar Þorbjargar Sveinsdóttur
ljósmóður. Þar var gott að vera. Þar
bjuggum við í átta ár og Skólavörðu-
stígsfólkið, eins og mamma kallaði
það alltaf, reyndist okkur einstak-
lega vel og hélst vinátta milli þeirra
alla tíð. Þar vann mamma af sér
húsaleiguna með því að hjálpa Guð-
rúnu við heimilisstörfin, þrif, þvotta,
kyndingu og annað. Guðrún var kona
stórlynd og kraftmikil en milli móður
minnar og hennar féll aldrei styggð-
aryrði og héldu þær góðri vináttu
alla tíð. Börnin voru á þessum árum
flest farin að heiman, nema þær tví-
burasysturnar Guðrún og Ólöf sem
þá voru tvítugar að aldri, en leiðir
þeirra eldri lágu þó löngum á Skóla-
vörðustíginn. Mamma kynntist þeim
flestum því vel og minntist þeirra
með hlýhug og þakklæti. Hún minnt-
ist oft á þegar Ólöf kom heim, geisl-
andi af hamingju, með Guðrúnu litlu
nýfædda. Bjarni bróðir Ólafar var
foreldrum mínum svo innan handar
þegar þau byggðu sitt framtíðar-
heimili á Hofteigi 4. Þá sem oftar var
gott að eiga hauk í horni og Bjarni
var áhrifamaður í borginni og þjóð-
félaginu. Aðstoð hans réð því að þau
gátu ráðið við þær skuldbindingar
sem húsnæðisbyggingunni fylgdu.
Ólöf var kona mikilla skapsmuna
eins og móðir hennar og gat verið
ströng og stíf en hún var vinur vina
sinna. Hún lagði þeim lið sem á
þurftu að halda án þess að auglýsa
það nánar. Það er óhætt að segja að
hún hafi verið örlagavaldur í mínu
lífi. Mér er það minnisstætt þegar
hún hringdi í móður mína á háskóla-
árum mínum og tilkynnti henni að ég
hefði fengið styrk frá Félagi há-
skólakvenna. Hún hafði sótt um
styrkinn fyrir mína hönd. Á sama
hátt kippti hún í spotta þegar ég leit-
aði mér að vinnu á mínum mennta-
skólaárum og útvegaði mér vinnu í
Landsbankanum þar sem ég síðan
starfaði í þrjú sumur. Og hún gerði
það ekki endasleppt því þegar ég
kom heim eftir háskólanám í Svíþjóð
hringdi hún í mig og sagðist vera bú-
in að útvega mér kennslu í Mennta-
skólanum í Reykjavík! Þar átti ég
síðan mitt ævistarf, þökk sé Ólöfu,
og þar vorum við kollegar um
margra ára skeið. Ég á henni því
ómælda þökk að gjalda. Hún var
kona glæsileg, stórlynd, örlynd, en
föst fyrir og einstakur vinur vina
sinna og fljúgandi vel gefin. Björn
frændi minn Guðfinnsson, sem
kenndi henni á menntaskólaárunum,
sagði að hún hefði verið gáfaðasti
nemandi sem hann hefði haft. Móðir
mín og Ólöf héldu vináttu sinni alla
tíð og nutu þess að rifja upp gamla
daga á Skólavörðustígnum. Ólöf er
sú síðasta að kveðja af Skólavörðu-
stígsfólkinu, þessu stórbrotna,
Minningar 37
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 9. JANÚAR 2009
SJÁ NÆSTU SÍÐU