Morgunblaðið - 21.01.2009, Qupperneq 22
22 Umræðan
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 21. JANÚAR 2009
Morgunblaðinu hefur borist mikill fjöldi greina og pistla frá lesendum um ástandið í efnahagsmálum landsins.
Margir höfundar lýsa áhyggjum sínum af þróun mála og margir gera tillögur um leiðir út úr efnahagsvanda þjóð-
arinnar. Morgunblaðið leggur áherslu á að gera þessum umræðum góð skil í blaðinu á næstunni.
Skoðanir fólksins
UMRÆÐAN um ráðleysi Íslands og
íslenskra hagsmuna heldur áfram og
engin fyrirsjáanlegur endir á því. Allt
þetta ráðagóða og velmeinandi fólk
virðist algerlega kjaft-stopp þegar
kemur að því að útlista einhverjar hug-
myndir um framhaldið eftir algert hrun
í íslensku hag- og stjórnkerfi. Atvinnu-
leysi stefnir í hæstu hæðir ásamt verð-
bólgunni og nálgast hvort tveggja
stýrivaxtaprósentuna og hrun heimilanna og gjaldþrot al-
mennings fylgir á eftir.
Bankakerfið er ekki lengur til í því formi sem kalla má
banka en íslenska ríkið heldur úti nokkur þúsund manns í
stofnunum sem áður voru bankar. Enginn veit hvað þess-
ar stofnanir gera. Sumar eru í því að afskrifa skuldir
stjórnenda, aðrir stjórnendur afskrifa sínar skuldir og enn
aðrir millifæra hundruð milljarða af íslenskum peningum
til útlanda í þágu útvaldra.
Ekkert af þessu á skylt við bankastarfsemi en ekkert er
hægt að gera þar sem ríkisstjórnin og stjórnkerfið vafrar
um í þoku. Í þeim leiðangri eru Seðlabanki og Fjármála-
eftirlit og engin leið er lengur að sjá hvað Alþingi er að
gera í þágu fólksins og fyrirtækjanna í landinu sem bíða
úrbóta.
Allt er í dimmum dal og engin skíma eða úrlausn á
ástandinu í heild og botninum er ekki náð þar sem búist er
við 100% aukningu á atvinnuleysi á næstu mánuðum. Í
heildina kallast þetta hrun og við liggjum á botninum inn-
an tíðar.
Þorsteinn Pálsson skrifar í leiðara Fréttablaðsins í dag
nokkur orð um ástandið og talar um að reisa traust, mann-
leg gildi, gjaldmiðilinn, bankakerfið, stöðu Íslands í sam-
félagi þjóðanna og ríkisfjármálin og endurspeglar það sem
að ofan segir.
Við sjáum úti í heimi að þegar vandamál koma upp í
samfélögum eru þau stundum einangruð með múr sem er
reistur í kringum vandamálið þannig að venjulegt fólk geti
lifað eðlilegu lífi utan múranna. Ef við skilgreinum núver-
andi stjórn-, banka- og valdakerfi sem „Gamla Ísland“ og
finnum því stað á Austurvelli og í nærliggjandi byggingum
og múrum það allt inni með háum vegg, gerum það að
sjálfstæðu ríki – „Gamla Íslandi“ getum við einangrað allt
gamla vandamálið þar inni. Við bara múrum inni alla sem
vilja viðhalda núverandi vitleysu og látum þá hafa þennan
reit til að leika sér á með sitt bull. Þeir geta þá leikið og
dundað sér við að skemma eigið líf og látið okkar líf í friði.
Þeir geta þá hækkað eftirlaunin sín upp úr öllu valdi og
kostað þann kaleik sjálfir, ráðið vini og kunningja í allar
stöður sem þeir vilja innan múranna og haft á sínum
snærum bankakerfi þar sem peningunum þeirra er stolið.
Ekki okkar peningum. Þetta fólk má sprikla í spillingu
eins og það vill mín vegna og hvers vegna að vera að neita
fólki um það ef það vill þá borga sjálft fyrir spillinguna?
Allt ráðleysi, óheiðarleiki, valdníðsla og hvaða vandamál
sem núverandi stjórnkerfi hefur fundið upp má okkar
vegna vera þarna innan múra í sjálfstæðu „Gamla Íslandi“
og haga sér eins og það vill í geðveiku spillingargúlagi án
þess að draga okkur hin niður í svaðið með sér. Engin
ástæða verður fyrir þá að skipta um stjórnendur og geta
því okkar vegna haft sömu stjórnendur í áratugi, bæði í
Seðlabanka og ríkisstjórn. Er það ekki draumur þessa
fólks að sama fólki ráði endalaust? Þarna er gott heimili
fyrir Icesave-reikningana.
Ég legg til að þessi fámenni hópur sem hefur staðið að
þessu hruni finni sér stað innan þessara múra enda eru
margir þessara einstaklinga „innmúraðir“ hvort sem er í
gömlu stjórnmálaflokkunum. Gömlu stjórnmálaflokkarnir
hafa jú í áratugi starfað sem eins konar múrar fyrir fólk
og sem afgreiðslustofnanir hagsmuna. Nýi múrinn er því
bara staðfesting á því ástandi sem núverandi deyjandi
kerfi hefur valið sér í áratugi og skilur nú eftir sig algert
hrun.
Allir „vírusarnir“ og ranghugmyndirnar, óheiðarleikinn
og hugsanaskekkjurnar verða þá þarna innmúraðar á ein-
um stað og alþjóðasamfélagið þarf ekki lengur að vera
neitt að villast á þessum vandræðagemlingum og öðrum
Íslendingum. Það verður allt á hreinu. Orðspor okkar
venjulegra Íslendinga verður þar með algerlega á hreinu
út um allan heim. Málið er leyst.
Við hin ætlum að koma hérna upp nýju og frjálsu ríki
þar sem „vírusarnir“, spillingin og hagsmunapotið fær
ekki að grassera og þar sem við munum viðhafa algerlega
nýja stjórnunarhætti byggða á gagnkvæmu trausti,
mannlegum gildum, gjaldmiðli Evrópusambandsins og
ríkisfjármálin verða í höndum traustra fagmanna.
Við stofnum nýtt Alþingi sem vinnur með gagnsæjum
hætti og virku lýðræði, sem kýs sér ríkisstjórn fólksins í
landinu og vinnur gagnsætt að hagsmunum okkar allra í
hinu nýja Íslandi. Við þurfum engan Seðlabanka heldur
notum evru sem gjaldmiðil og evrópski Seðlabankinn sér
um það. Spillingin er þar með á enda í íslenska bankakerf-
inu.
Vírushreinsa þarf allt atvinnulífið sem er nú gegnsýrt af
ranghugmyndum fyrirgreiðslupólitíkusa. Fyrirtækin
fengju nú fyrirgreiðslu alvörubanka á lágum vöxtum og án
verðtryggingar og gætu stundað sín viðskipti án fyr-
irgreiðslupólitíkusa. Hið eina sem þarf er traust og mann-
leg gildi.
Nýja Ísland
Sigurður Sigurðsson, cand. phil. bygg-
ingaverkfræðingur.
HVENÆR er nóg komið? Ríkisstjórn okkar sá eng-
an veginn að nóg væri komið. Hún leit undan og naut
glæsileikans, upphafningarinnar og glansins eins og
svo mörg okkar. Ríkisstjórnin varð svo sjálfstæð að
hún sá ekki nauðsyn þess að stjórna landinu. Skynjaði
engan veginn að engin ábyrgð var tekin á að grunn-
þarfir okkar sem þjóðar væru öryggar. Launamisrétti
varð áberandi og bankarnir klúðruðu glæsilega hús-
næðismálunum. Stjórnmálafólk virðist ekki átta sig á
að fólk er búið að fá nóg. Nóg af einkavina- og starfs-
mannavæðingu samfélagsins. Það er ekki nóg að þykja þetta leitt. Auð-
vitað er erfitt að viðurkenna að maður hafi með aðgerðaleysi sett þjóðina
á hausinn. En versta blindan er að þau sjá ekki að sama fólkið getur ekki
haldið áfram eftir hrun fjármálaheimsins. Sama fólkið mun gerir sömu
mistökin.
Núna erum við stödd á stað sem getur verið upphafið að nýju lífi. Byrj-
uð göngu okkar á leið að manneskjulegra samfélagi. En án þess að taka
ábyrgð á fortíðinni og afgreiða hana er ekki hægt að halda áfram af heil-
indum og trúverðugleika. Það er staðreynd að í grunnstoðir samfélagsins
vantar leik- og umgengnisreglur. Þau sem við kusum til þess að vinna að
stöðugleika-, hamingju- og öryggisneti okkar brugðust. Þau sem stóðu
fremst blinduðust af vel sýnilegri og glæsilegri umgjörð. Ríkisstjórnin
brást trausti okkar og stofnanir ríkisins fengu aldrei skýrar reglur til að
fara eftir. En ljóst er að þrátt fyrir þetta brugðust opinberir eftirlits-
aðilar ekki við ástandinu og notuðu ekki þau tæki og tól sem til voru.
Sérfræðingar ríkisins bentu sjaldnast ef nokkurn tíma á hætturnar af
festu og fylgdust ekki með alltof hröðu og stjórnlausu breytingaferli sam-
félagsins. Fréttir um málin komu helst að utan og úr háskólum landsins.
Siðferðisleg ábyrgð er mikil ábyrgð. Ef ég er valinn til þess að bera
hana ásamt því að finna leiðir að stöðugleika fyrir kjósendur mína og
þjóð verður siðferðið að vera sterkt. Alþingi brást trausti okkar með því
að lúta ráðherravaldi. Og ráðherrarnir skynja ekki vitjunartíma sinn.
Vegna þessa valdaafsals Alþingis veður uppi hroki og vanvirðing við al-
menning. Enginn er þó í sjónmáli til að leiða okkur út úr þessum vanda.
Sá aðili birtist örugglega um leið og ný pláss myndast vegna brottfarar
annarra úr pólitíkinni.
Leiðin út úr þessu er kosningar. Leyfið okkur að velja nýtt fólk til
ábyrgðar og sjá hvað gerist. Ljóst er að núverandi flokkar verða að bylta
stefnuyfirlýsingum sínum ef þeir eiga að fá mitt atkvæði. Víst er í lagi að
gera mistök ef við lærum af þeim. Víst er í lagi að til séu vandamál ef
þau eru leyst. Og víst er það í lagi að eiga í útistöðum, en útistöður þarf
að leysa og sætta á aðila. Núna verður að vinna að nýjum grunni til að
byggja á nýjan traustan veruleika. Heiðarlegan og auðmjúkan veruleika í
sátt við fólk og umhverfi. Sáttmáli er góð hugmynd en hann þarfnast
samvinnu allra til að verða að veruleika. Jafnrétti milli manna er mark-
miðið.
Líf á Íslandi í sátt
og samlyndi?
Percy B. Stefánsson, ráðgjafi og sósíaldemókrati.
EINSTÖK fegurð íslenskrar náttúru verður aldrei of
mikið í umræðunni. Fegurð sem oft er hrikaleg og storkar
okkar tilfinningum sem í besta falli framkallar samkennd
á vettvangi og þar með verður tilefni til daðurs. – Í friði úti
í íslenskri náttúru undir söng hamrandi fossa, sem er
hægt að kalla eitt öflugasta ásláttarhljóðfæri íslenskrar
náttúru. Þar sem áskorunum og ástum er hamrað saman.
– Það sem drepur þig ekki, styrkir þig. Ein spurning:
Tvær íslenskar stúlkur – önnur er sólbrún og sælleg á sól-
arströnd en hin er frostbarin og rjóð á göngutúr úti í
fersku íslensku frosti. Hvor þessara stúlkna er þokkafyllri? Ímynd fáklæddr-
ar sólarstúlku er mun þekktari en þeirrar frostbörðu. En ég er viss um að ís-
lensk kvennafegurð í jóla- og áramótafrosti 2008-2009 kæmi sterk inn til að
bæta ímynd íslenskrar gjaldþrota þjóðar. Og íslenski lopinn í sinni útgeislun
mundi krydda fegurð íslenskra kvenna, – betri helming okkar karlaímyndar.
Það er ekki góð landkynning að fara um með ófriði og ofbeldi, þó að reiði og
örvænting sé mikil í kreppunni. Reiði og ofbeldi eru fréttamatur, fjölmiðlar
eru forvitnir um það. Viljum við kynna landið okkar fyrir ferðamönnum með
ófriði og öfgum? Guð gef mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ
ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég fæ breytt, og vit til að greina þar á
milli. Amen. Pólitískir auðmenn og einræðisherrar á Íslandi þurfa helst að
finna það hvað þeir eru óvelkomnir inn í einkalíf okkar með því að við bjóðum
þeim í tertu, sem þeir fá síðan framan í sig. Best er þó að hafa þetta með öllu
öfga og hrekkjalaust: Ég vitna aftur í íslenska fegurð. Sjáið spæjara allra
spæjara á hvíta tjaldinu: Það er endalaust hægt að blinda hann með kven-
legri fegurð. Það þarf að gera þetta á svipaðan hátt í íslenskum ferðamanna-
iðnaði en þó ekki með því að blinda auðmennina, heldur verður að sannfæra
þá með einum „tvöföldum“, „hristum“: Kvenlegri íslenskri fegurð í íslenskri
náttúru. Álengdar standa síðan gjaldþrota atvinnuleysingjar, örorkubóta- og
elllífeyrisþegar og hamra sér til hita við undirleik norðanvinda sem hvína um
hrikaleg hamrabelti við undirleik ferskasta vatns í heimi sem telur tímann í
holandi steinum undir dettifossum daðurssveita, (ferðamannahópar að skoða
íslenskar sveitir). Núverandi og komandi kynslóða með ísingu örvæntingar í
öfgum íslenskrar þjóðar sem ætlar að toppa aðrar þjóðir með útsölutilboðum
og auka þar með enn á forvitni ferðamanna til að kynna sér betur þetta
„herfría land hreinleika og fegurðar“. Til sannfæringar auðmönnum úti í
heimi til eflingar okkar álvera, kvenlegrar, íslenskrar, þokkafullrar þjónustu,
– ferðaþjónustu. Kvenlegrar kindar, lopaímyndar.
Dettifossar daðurssveitanna
Atli Viðar Engilbertsson, fjöllistamaður
Í NÝLEGU viðtali við Íslending
búsettan í Kaupmannahöfn vitnaði
hann í leigubílstjóra sem sagði eitt-
hvað á þá leið að hann skildi ekki
hvers vegna þessi 320 þúsund gætu
ekki lifað góðu lífi hér á þessari eyju
sem er þrisvar sinnum stærri en
Danmörk og ræður yfir verðmætum
auðlindum. Þessi orð eru töluð af
hreinskilni og almennri skynsemi,
eiginleikum sem hafa verið harla lítið í hávegum hafðir
á undanförnum árum. Við vildum nefnilega ekki vera
320 þúsund. Við vildum eiginlega ekki heldur vera á Ís-
landi. Við vildum þykjast vera eins og í útlöndunum,
eins og í sjónvarpinu eða í bíó. Við vildum lifa í sýnd-
arveruleika.
Eða hvað. Vildum við það í raun og veru eða var
okkur bara talin trú um að við vildum það? Vildum við
Manhattan-skýjakljúfa meðfram ströndinni í Reykja-
vík? Vildum við einkaþotur á gamla flugvöllinn? Vild-
um við fleiri hundruð fermetra sveitasetur og þyrlu-
palla í stað blómlegra býla? Var þetta sú þjóð sem við
vildum vera, þrískipt í þá sem áttu allt, þá sem höfðu
nóg og þá sem áttu ekkert?
Ég held að okkur langi núna til að verða ein þjóð í
landinu okkar. Við erum vel menntuð, ung þjóð, hraust
og dugmikil, við eigum verðmætar auðlindir. En
320.000 manna þjóð stendur ekki undir auðmannastétt.
Hún er ekki nógu stór til þess, hún hefur ekki efni á
því. Til að halda uppi þeim örfáu sem mest höfðu um-
leikis og mest bárust á var byggt upp blekkingakerfi
sem helst má líkja við pýramídasvindl. Fjármagn var
sogað úr bankakerfinu, lífeyrissjóðum og sparnaði ein-
staklinga og notað sem grunnur til að byggja á inni-
haldslausar skýjaborgir. Þetta var hægt vegna þess að
ríkjandi hugmyndafræði leyfði ekki aðeins slíkt heldur
lofaði í hástert. Þetta var hástig þeirrar græðgi sem
stjórnvöld litu á sem skapandi afl í samfélaginu. Við
aðstæður sem þessar blómstra einstaklingar með
brenglaða siðferðiskennd. Við höfum ekki efni á að láta
þannig fólk leika lausum hala. Við höfum heldur ekki
efni á stjórnvöldum sem hefja slíkt athæfi upp til
skýjanna, veita fjárglæframönnunum aflausn þegar allt
hrynur og bjóða þeim svo að halda spilinu áfram.
Íslensk þjóð hefur aftur á móti efni á að reka þjóð-
félag þar sem allir hafa nóg og enginn líður skort;
þjóðfélag þar sem velferðarkerfið er sterkt og sam-
ábyrgð ríkir, þar sem allir geta menntað sig á eigin
forsendum og náð að þroska hæfileika sína, sér og öðr-
um til gagns og gleði. Við getum verið þjóð sem nýtir
menntun sína og sköpunarkraft til að halda uppi öflugu
og fjölbreyttu atvinnulífi; þjóð sem umgengst einstaka,
dýrmæta og viðkvæma náttúru af virðingu og um-
hyggju. Ég held að langflest viljum við vera hluti af
slíkri þjóð. En til þess að það geti orðið þurfum við að
reka af höndum okkar þá sem trúðu (og trúa jafnvel
enn) á blekkingarleik nýfrjálshyggjunnar – og ekki síð-
ur hina sem vissu fullvel að um blekkingu var að ræða
en voru tilbúnir til að fórna almannaheill fyrir eigin
gróða.
Við erum 320 þúsund, en höfum alla burði til að lifa
sem frjáls og sjálfstæð þjóð í okkar fallega landi. Við
erum öfundsverð – og kannski erum við líka öfunduð.
Breskur Evrópuþingmaður sendi okkur Íslendingum
orðsendingu um daginn og sagði einmitt það, að dverg-
ríkið sjálfstæða væri litið hornauga af „stóru strákun-
um“ og að hlakkað hefði í ýmsum þegar fór að hrikta í
stoðum þess. Eflaust eru þeir bæði innlendir og er-
lendir, hrægammarnir sem nú voma yfir okkur og bíða
færis að kroppa upp í sig það sem bitastætt er.
Hér er hægt að byggja upp fyrirmyndarþjóðfélag.
En til þess að svo megi verða þurfum við að skilgreina
markmið og leiðir af heilbrigðri skynsemi og sýna ein-
dæma kjark. Við þurfum að hreinsa út spillingu og
setja fagmennsku og almannaheill ofar hagsmuna-
tengslum. Við þurfum að horfast í augu við að við erum
bara 320 þúsund manna þjóð, koma okkur svo í skiln-
ing um að það eru einstök forréttindi – og njóta þess.
Dvergríkið Ísland
Ragnheiður Gestsdóttir, rithöfundur.
Ég held að okkur langi
núna til að verða ein þjóð
í landinu okkar. Við erum
vel menntuð, ung þjóð,
hraust og dugmikil, við eigum verð-
mætar auðlindir. En 320.000
manna þjóð stendur ekki undir
auðmannastétt. Hún er ekki nógu
stór til þess ... ’