Morgunblaðið - 01.02.2009, Qupperneq 40

Morgunblaðið - 01.02.2009, Qupperneq 40
40 Minningar MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 1. FEBRÚAR 2009 Nice 1999. Ég er staddur á ársfundi evr- ópskra kviðsjárskurð- lækna. Vörpuleg kona vindur sér að mér, kynnir sig og spyr síð- an hvort ég ætli ekki að fara drattast heim frá Bretlandi og vinna á Íslandi. Allt uppfullt að gera á LSH, langur biðlisti í bakflæðisaðgerðum og ótal tækifæri. Þetta var Magga Odds sem ég hafði aldrei talað við áður. Ári seinna vorum við saman á skurðstof- unni á LSH og af og til glumdi í skurðstofunni „þú þarna strákur“ eða „þú þarna kall“ „settu einn saum til viðbótar í magann og þrengdu þindaropið meira“. Þetta var upphafið á áralöngu samstarfi okkar þar sem við höfðum það til siðs að kalla hvort í annað í tíma og ótíma þegar við vorum að gera flóknar kviðsjáraðgerðir á skurðstofunni og þurftum á andleg- um stuðningi að halda. Möggu verður best lýst með einu orði: kvenskörungur. Hún gekk hreint til verks án nokkurra vafninga og menn þurftu ekki að velkjast í vafa um skoðanir hennar. Heiðarleiki var einn af hennar mörgum kostum. Hún er vafalaust í hópi 30 skurð- lækna í heiminum sem voru braut- ryðjendur í kviðsjárskurðlækning- um. Á sínum alltof skamma starfsferli öðlaðist hún heimsfrægð í hópi skurðlækna og var þekkt bæði vestan og austan hafs. Hún var mjög virk í rannsóknum og ritaði bæði greinar í þekkt erlend læknatímarit og bókarkafla í virtar skurðlækna- bækur. Til marks um þá virðingu sem hún naut erlendis var hún fengin til að skrifa bókarkafla í hina virtu Schwarts Textbook of Surgery sem er „biblía“ margra skurðlækna. Eftir að hún fluttist heim til Íslands 1994 ruddi hún brautina í fjölda kviðsjár- aðgerða, t.d. bakflæðisaðgerðum og aðgerðum á nýrnahettum og milta. Hún var mjög opin fyrir öllum nýj- ungum og ekki eru nema u.þ.b. 18 mánuðir síðan hún varð fyrst skurð- lækna í Evrópu til að framkvæma að- gerð á þind hjá mænusköðuðum sem miðar að því að hjálpa þessum sjúk- lingum úr öndunarvél en hún hafði sjálf þá nýlega lokið krabbameins- lyfjameðferð. Við sameiningu skurð- deildanna á Landspítalanum og Sjúkrahúsi Reykjavíkur var hún skipaður yfirlæknir. Það má heita ótrúlegt hvernig henni tókst að stjórna okkur – köllunum sínum – sem margir hverjir höfðu ofgnótt karlhormóna í blóði sínu og egó sem var langt yfir meðalkúrfunni. Missir Landspítalans og Háskóla Íslands er mikill við fráfall Möggu. Ég á vafalaust eftir að horfa á kvið- sjárskjáinn á skurðstofunni í fram- tíðinni í flókinni aðgerð og hugsa mikið um að nú væri gott að geta beð- ið skurðstofuhjúkrunarfræðingana að kalla í Möggu til að spyrja hana álits. Missir okkar sem með henni hafa starfað er þó hjóm eitt þegar til þess verður hugsað hvað strákarnir hennar, Oddur og Sigurður, hafa misst. Þeir hafa séð á eftir báðum foreldrum sínum á stuttum tíma. Ég er sannfærður um að þeir hafa erft skörungsskap móður sinnar og jafn- aðargeð og stóíska ró föður síns og þessir eðlisþættir eigi eftir að nýtast þeim vel í framtíðinni. Ég votta Oddi og Sigurði, foreldr- um Margrétar og systkinum svo og fósturbörnum hennar mína dýpstu samúð. Sigurður Blöndal. Við kynntumst Margréti og Jóni Ásgeiri fyrst þegar við fluttum til New Haven sumarið 1989. Magga var þá í sérnámi í skurðlækningum við Yale háskólasjúkrahúsið og við Margrét Oddsdóttir ✝ Margrét Odds-dóttir fæddist á Grænagarði á Ísafirði 3. október 1955. Hún lést á heimili sínu 9. janúar síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Grafarvogskirkju 16. janúar. urðum fljótt vör við þá miklu virðingu sem Magga naut þar. Það var talað um hana með aðdáun og ekki laust við að við fengjum kannski svolítið að njóta þess að vera samlandar hennar. Hún var mjög fær skurðlæknir og frammistaða hennar á Yale varð til þess að síðar voru opnaðar dyr fyrir íslenska lækna til að stunda sérnám í skurðlækningum þar. Í New Haven urðum við strax góð- ir vinir, við bjuggum við sömu götu og það var iðulega eldað saman á kvöldin ef menn voru ekki á vakt. Magga kenndi okkur að meta gott kaffi, þá var farið í Willoughby’s og baunir valdar af kostgæfni sem voru síðan malaðar eftir kúnstarinnar reglum. Að sitja við eldhúsborðið, drekka eðalkaffi og ræða málin og hlæja, það var indælt. Magga var mikil útvistarkona og dreif okkur iðulega í gönguferðir upp á East Rock, á skíði og á ströndina. Menn- ingarviðburðir voru líka vel sóttir og m.a. var farið á nær allar leiksýning- ar hjá Yale Rep. Hjá þeim Jóni var iðulega mikill gestagangur og þrátt fyrir að ótrúlegt álag væri á Margréti í vinnu, virtist þrek hennar enda- laust. Magga var engin venjuleg kona. Hún var hrein og bein, hún kom til dyranna eins og hún var klædd og það var ekki til í henni fals eða óheið- arleiki. Hún hló bæði hátt og mikið, og það var alltaf gaman í kringum hana. Hjá henni var kraftur og orka sem maður finnur ekki oft hjá fólki. Það var henni að skapi að hafa mikið af fólki í kringum sig, bæði fjölskyldu og vini. Henni fannst t.d. ekkert mál að elda kvöldmat fyrir heilan her og þó nokkrir óvæntir gestir bættust við matarborðið fannst henni það bara skemmtilegra. Magga og Jón voru að mörgu leyti ólíkir einstaklingar, Magga eins og stormsveipur, Jón Ásgeir rólegri en samt ákveðinn, en samband þeirra var vissulega einstakt. Nú eru þessir góðu vinir, Magga og Jón, bæði látin úr krabbameini, langt um aldur fram. Missir ættingja og vina er mikill, en það er huggun harmi gegn að fjölskyldur þeirra samanstanda af einvalaliði sem mun standa saman í sorginni og hlúa að sonum þeirra. Minningin um þau hjón mun lifa. Friðbjörn og Friðrika Margrét Oddsdóttir var einhver merkilegasti maður sem ég hef kynnst. Hitti hana fyrst þegar hún stundaði framhaldsnám í læknis- fræði við Yale fyrir tveimur áratug- um. Varð fljótlega ljóst að þar fór leiftrandi greindur vísindamaður í fremstu röð – enda stóðu henni allir vegir opnir til mikils frama í sinni grein í Bandaríkjunum, þó hún kysi síðar að koma til starfa við Háskóla Íslands. En Margrét var ekki í hátt eins og dæmigerður læknir eða vís- indamaður í fremstu röð. Það geislaði af henni frumstæður kraftur. Hún talaði hátt og af ákafa og hló og sló sér á lær eins og hressilegir alþýðu- menn á Ísafirði gera. Hún var stolt af uppruna sínum og hirti ekkert um að laga framkomu sína að þeirri tillærðu kurteisi sem einkennir marga menntamenn. Inntak vísinda og menningar var það sem skipti hana máli – ekki umgjörðin. Margrét var mikill fjölskyldumaður og sannur vinur vina sinna. Það var gefandi og gaman að umgangast hana. Það var gott að eiga hana að ef á bjátaði. Þeir sem fremstir fara í námi og starfi hafa ekki alltaf geðslag til þess að vera líka almennilegar og ærlegar manneskjur. Það er heppni þegar slíka rekur á fjörur manns í lífinu. Nokkru eftir að sjúkdómur Mar- grétar tók sig upp fyrir fáeinum misserum sagði hún við mig eftir vel lukkað matarboð: „Nú erum við kom- in á þann aldur að við eigum bara að gera það sem okkur finnst skemmti- legt!“ Ég held reyndar að hún hafi fylgt þeirri reglu lengst af. Hún var skemmtileg. Blessuð sé hennar minning. Ólafur Þ. Harðarson. Það var í desemberbyrjun, árið 1983 eða 1984. Veðrið var það sem ég kalla bálviðri – hvasst, sólríkt og kalt. Magga hringir og vill ganga á Mósk- arðshnúkana ásamt bræðrum sínum tveimur. Ég malda í móinn, finnst of hvasst, of kalt. Magga hlustar ekki á þannig mótbárur, það er ekki til vont veður, bara léleg útiföt! Við förum á staðinn, klöngrumst upp fjallið með nesti, ég gefst upp eftir hálfa leið, systkinin fara alla leið. Þessi gönguferð kemur upp í hug- ann því að hún er dæmigerð fyrir svo margt í fari minnar kæru vinkonu. Hún var náttúrubarn og naut sín aldrei betur en úti undir beru lofti, hvort sem var í fjallgöngum, lautar- ferðum, berjamó, eða úti í garði að sýsla við blóm og annan gróður. Hún hafði yndi af garðrækt, sagði raunar oft að hefði hún ekki valið lækningar að ævistarfi, hefði hún gerst garð- yrkjumaður. Henni lét ekki bara vel að hlúa að gróðri, heldur líka fólki. Hún hafði yndi af því að umgangast börn, bæði sín eigin og annarra. Börnin okkar munu geta minnst þess hvernig hún hafði ætíð þeirra langan- ir og þarfir í fyrirrúmi. Þessi eigin- leiki hennar birtist ekki hvað síst í áhuga hennar að kenna ungu fólki fræðin og þeir eru ófáir, ungu lækn- arnir og nemarnir sem hún hefur „komið til manns“. Hér gefst ekki ráðrúm til að tíunda allt það sem við Magga upplifðum saman á aldarfjórðungi. Nægir að nefna frí í fjarlægum löndum sem og hér á Fróni, tónleikaferðir, leikhús- ferðir, samvera í garðinum í Birki- grundinni, matarveislur, gönguferðir í Elliðaárdalinn, meira að segja ótaldar stundir við störf á spítalan- um. Öllu þessu og miklu meira hefi ég deilt með Möggu. Hún var besti vin- ur sem nokkur getur eignast. Af henni hef ég lært meira en flestum sem ég hefi kynnst á lífsleiðinni. Hún gafst aldrei upp, það sýndi hún best þegar baráttan við veikindin harðn- aði. Hún var líka svo skemmtileg og sagði oft: „Hjödda, þegar maður er komin á okkar aldur á maður bara að gera skemmtilega hluti.“ Henni tókst aukinheldur að gera flesta hluti skemmtilega sem hún fékkst við. Hún var enda afburðamaður í sinni sérgrein, aðrir en ég munu gera af- rekum hennar á sviði fræðanna skil. Ég hefi vitað um hríð að við Magga myndum trauðla eldast saman, að öll okkar áform um heimsreisur á eft- irlaunaaldrinum yrðu aldrei að veru- leika. Vitneskjan um það fyllir mig ósegjanlegri depurð. Drengirnir hennar njóta heldur ekki lengur ástríkis hennar og umönnunar. Hún gaf þeim hins vegar afar dýrmætt veganesti út í lífið, viss- una um að hún unni þeim meir en líf- inu sjálfu og hún innrætti þeim virð- ingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Við Odd og Sigga vil ég segja þetta: ykkar velferð var foreldrum ykkar ævinlega efst í huga. Vissan um það er ríkidæmi sem aldrei verð- ur frá ykkur tekið. Við munum aldrei gleyma þeim, á þann hátt munu þau lifa áfram. Ég votta fjölskyldunni allri mína innilegustu samúð. Hvíl í friði, elsku vinkona. Hjördís Smith. Ekkert er sjálfgefið í lífinu og það fer mishörðum höndum um fólk. Sumir bera þyngri byrðar en aðrir. Í dag fylgja unglingsbræður móður sinni til grafar. Vitað var að hverju stefndi. Magga mætti örlögum sínum með styrk og ró á heimili sínu í nær- veru sinna nánustu. Ekki er langt síðan þau þrjú stóðu saman við dán- arbeð eiginmanns og föður. Magga var kær og skemmtileg vinkona. Hana hittum við fyrst fyrir 12 árum eldhressa á göngu með Siggu, hálfsystur bræðranna, leit- andi að leikfélögum fyrir synina. Sér hefði virst hverfið barnlaust þar til hún kom auga á syni okkar. Þeir reyndust jafnaldrar. Þannig hófst vinátta tveggja grannfjölskyldna sem hefur eflst og styrkst með ár- unum. Leynistígur var útbúinn milli húsanna. Magga var dugnaðarforkur. Góð- um gáfum gædd. Vísindamaður, prófessor, skurðlæknir og í farar- broddi á sínu sérsviði, kviðsjárað- gerðum. Lagði margt af mörkum í kennslumálum læknadeildar og þótti gaman að kenna og leiðbeina. Unni útivist, tónlist og náttúrunni. Hjálparhella og bjargvættur margra, alltaf til taks. Mannvinur, yfirlætislaus og blátt áfram. Hafði gömul og góð lífsgildi að leiðarljósi, fallega lífsýn sem ekki lét undan þrátt fyrir veikindi sín og vægðar- laus áföll síðustu ára. Bjartsýn og hress að eðlisfari með hlátur sem einkenndi hana. Kom auga á hið fal- lega í umhverfinu og naut þess. Þótti vænt um æskustöðvarnar, stórfjöl- skyldu sína og Jóns, notaði hvert tækifæri til að kalla hana og vini saman. Heimilið stóð öllum opið. En það mikilvægasta í lífi hennar voru Jón Ásgeir og synir þeirra Oddur Björn og Sigurður Árni. Son misstu þau ungan en fyrir átti Jón Ásgeir Sigríði og Darra. Magga var til í að gera hluti án mikils fyrirvara og þannig var Flór- ídaferð fjölskyldnanna tveggja ákveðin sl. haust með afslöppun og skemmtun að leiðarljósi. Lent var að kvöldlagi. Tvo bílaleigubíla þurfti fyrir hópinn og fékk Stefán alla krakkana í sinn bíl, við tvær gátum því spjallað ótruflaðar. Magga var jafnan málglöð, í.þ.m. eftir sterkan kaffibolla. Henni leið vel að hafa am- erískt land undir fótum og komst á flug aftur þegar hún rifjaði upp Am- eríkuárin með Jóni. Röddin í GPS tækinu hafði ekki roð við Möggu, hafði þar að auki þreytandi talanda og því þótti okkur betra að skrúfa niður í tækinu. Fyrir vikið var þotið framhjá 2-3 réttum beygjum og end- að í misfínum hverfum. Þetta varð eftirminnilegri bílferð fyrir vikið og á leiðarenda komumst við um síðir. Í velheppnaðri ferð náðu áhyggjur að gleymast um stund. Magga vissi að hún næði ekki að fylgja sonum sínum að dyrum full- orðinsáranna en stóð svo lengi sem stætt var. Missir margra er mikill en bræðranna mestur. Hjá foreldrum sínum fengu þeir ástríka, fjölbreytta og skemmtilega æsku fulla af góðum minningum sem mun reynast þeim traust og góð undirstaða til að byggja framtíðina á með áframhaldandi stuðningi og umhyggju afa og ömmu, hálfsystkina, frændfólks og vina. Hugur okkar er hjá þeim. Möggu þökkum við fyrir ómetanleg kynni. Blessuð sé minning hennar. Ólöf, Stefán. Í dag kveð ég vinkonu mína Mar- gréti Oddsdóttur. Mann setur hljóð- an og fyllist gríðarlegri sorg þegar móðir er hrifin á braut langt fyrir aldur fram frá tveimur ungum son- um, sem einnig misstu föður sinn allt- of fljótt. Ég var svo heppin að fá að kynnast henni er leiðir okkar lágu saman í Atlanta í Bandaríkjunum þegar hún var þar í framhaldsnámi. Hún hafði svo góða nærveru, mikil kjarnorku- kona svo af heni gustaði, talaði hisp- urslaust um hlutina og gekk beint til verks. Ég hafði „hendur í hári henn- ar“ frá okkar fyrstu kynnum í Atl- anta, þar til í haust er hún sagði við mig: „ef ég kem ekki næst, þá er ég búin að missa hárið“. Svona var hún, ekkert að skafa af hlutunum. Magga og fjölskylda fluttu heim til Íslands nokkru á undan mér. Trygg- ari kúnna hef ég ekki átt en hana Möggu og er þá ekki á neinn hallað. Hún frestaði að láta klippa sig á Ís- landi þegar hún vissi að hún þyrfti að heimsækja Atlanta og eftir að ég flutti heim til Keflavíkur kom hún ávallt þangað. Henni var mikið í mun að hárið væri vel klippt. Hún tók veikindum sínum af miklu æðruleysi og aðdáunarvert hversu sterk hún var í gegnum gríðarleg áföll er á henni og fjölskyldu dundu. Megi góður Guð blessa synina Odd og Sigurð, gefa þeim styrk í þeirra miklu sorg og missi. Við Helga systir mín sendum öll- um aðstandendum samúðarkveðjur og biðjum góðan Guð að styrkja þau. Halla Harðardóttir. Við Margrét hittumst síðast skömmu fyrir jól á einum af göngum Landspítalans, drógum okkur út í horn og ræddum um ýmis mál, stór og smá, fagleg og persónuleg, af nógu var að taka. Við ákváðum að hittast í betra tómi strax eftir ára- mót. Það samtal verðum við að eiga í öðrum tíma og í öðru rúmi. Andlát Margrétar langt fyrir aldur fram var ekki alls kostar óvænt, hún hafði átt í höggi við illan sjúkdóm lengi, og gengið á ýmsu í þeirri styrjöld. Af viðhorfum hennar gagnvart sjúk- dómnum getum við hin ýmislegt lært, hún sýndi þar æðruleysið og kraftinn sem einkenndi flest það sem hún tók sér fyrir hendur. Hvernig er félagi og kollegi sem fellur frá á miðju flugi lífsins best kvaddur? Við þeirri spurningu eru engin góð svör, okkur er orðs vant. Ekki er það síst í ljósi þess að Mar- grét missti mann sinn, Jón Ásgeir Sigurðsson, fyrir þremur misserum, einnig úr illvígum sjúkdómi. Ein- hvers staðar segir að silfurkerin sökkvi í sjó, en soðbollarnir fljóti, og það virðist enn sannast hér, prýðis- fólkið verður stundum skammlíft. Nokkuð langt er síðan ýmis okkar áttuðu sig á því hvað má prýða góðan lækni. Hann þarf að hafa faglega þekkingu byggða á vísindalegum grunni, góða þjálfun, og rétt viðbrögð við hvers kyns vanda á hraðbergi. Hann þarf ekki síður að geta sýnt sjúklingum sínum samhygð, ekki endilega samúð, geta talað við fólk án yfirlætis, geta tjáð sig um tilfinning- ar þess og sínar eigin, geta tekið ákvarðanir sem byggjast á siðrænum grunni, og látið sjúklinga sína finna að honum er ekki sama um þá. Mar- grét sameinaði þetta tvennt, þekk- inguna og húmanismann, flestum öðrum betur. Margrét kom heim frá framhalds- námi í skurðlækningum árið 1994, og hún markaði sér fljótt spor. Hún kom eins og stormsveipur inn í íslenska læknisfræði og íslenska heilbrigðis- þjónustu. Kraftur hennar, snerpa og áhugi varð okkur öllum ljós. Hún var frumkvöðull að nýrri aðgerðartækni hér, kviðarholsspeglunum, sem beitt er í sívaxandi mæli við flóknar að- gerðir í kvið. Ég átti þess kost eins og ýmsir aðrir að vinna með henni að erfiðum klínískum vandamálum, þar sem íhygli hennar, skerpa, natni, innsæi og mannskilningur kom glögglega í ljós. Einnig unnum við mikið saman að þróun og skipulagi kennslu, bæði á Landspítalanum og við árlega fræðsluviku lækna. Þar naut ályktunarhæfni, kraftur og greind hennar sín vel. Ég minnist þessa samstarfs með eftirsjá og þakklæti, þetta voru góðar stundir. Ég votta ungum sonum Margrétar og Jóns Ásgeirs, foreldrum hennar og fjölskyldu allri djúpa samúð, okk- ar missir er mikill, þeirra missir mestur. Sigurður Guðmundsson. Við ótímabært fráfall Margrétar Oddsdóttur skurðlæknis stendur eft- ir stórt skarð í fámennri fylkingu ís- lenskra skurðlækna, þeirra sem fást einkum við sjúkdóma kviðarhols. Á síðustu tveim áratugum hafa orðið byltingarkenndar framfarir í skurð- lækningum, ekki síst þegar litið er til kviðarholsmeina. Tengdust þessar framfarir fyrst og fremst þróun og innleiðingu á notkun kviðsjár við hin- ar flóknustu aðgerðir á meltingar- vegi. Margrét var meðal frumkvöðla skurðlækna á þessu sviði. Var það ekki einasta hér á landi, heldur náði Margrét svo mikilli færni við þessar aðgerðir að til hennar var leitað um kennslu og handleiðslu á bestu og framsæknustu sjúkrahúsum vestan- hafs, en einmitt þar í landi hafði hún aflað sér þessarar mikilvægu þekk- ingar. Var til hennar leitað meðan starfsorka hennar leyfði. Sýnir þetta best hver eldhugi Margrét var, óhrædd að feta nýjar brautir, af- burðadugleg til allra starfa og mikl- um hæfileikum búin. Það var ekki léttasta leiðin í fram- haldsnámi sem Margrét valdi sér

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.